Morgunblaðið - 24.11.2005, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 24.11.2005, Blaðsíða 10
10 BÓK KRISTÍN EIRÍKSDÓTTIR „Ég hef samið ljóð frá því ég var mjög ung. Að skrifa og teikna lá mjög vel fyrir mér en kannski ekki svo margt annað,“ segir Kristín Ei- ríksdóttir ljóðskáld. Þrátt fyrir að vera ung að árum hefur hún vak- ið verðskuldaða athygli fyrir lif- andi ljóð sem gárungar hafa lýst sem „rokkuðum“. Auk þess að skrifa ljóð útskrifaðist Kristín úr Listaháskólanum síðastliðið vor af myndlistarbraut þannig að henni er margt til lista lagt í orðsins fyllstu merkingu. Þar að auki er hún að vinna í sinni fyrstu skáld- sögu. Viðamesta verkefni Nýhil Kristín er hluti af hópi sem kallar sig Nýhil. Hópurinn samanstendur af ungu fólki sem á það sameig- inlegt að leggja stund á skriftir og hafa brennandi áhuga á því sviði. „Við höfum unnið saman í um fjögur ár. Þetta byrjaði á því að hópur fólks gaf út bækur undir formerkjum Nýhil. Þetta var samt sjálfsútgáfa, höfundurinn sá sjálf- ur um að fjármagna útgáfuna.“ Núna er þó breyting í vændum þar sem viðamesta verkefni Nýhil er í uppsiglingu. „Við erum að fara að gefa út seríu núna sem inniheldur níu bækur. Fjórar komu út núna í vikunni og fimm koma út í maí á næsta ári. Hægt verður að panta áskrift að serí- unni. Þetta verður því í fyrsta sinn sem Nýhil getur fjármagnað prentunina sjálft,“ segir Kristín létt á brún. Tilvalið er að panta slíka áskrift og gefa listunnendum í jólagjöf – þeir verða án efa him- inlifandi með ábótina í maí! Hægt er að nálgast áskriftina á Nýhil á www.nyhil.org. Gjörningasýning í desember Jafnframt því að vinna í skáldsög- unni og skrifa ljóð sinnir Kristín myndlistinni af kostgæfni og nóg er að gera í þeim efnum þessa dagana. „Ég var að sýna á Grasrót í Ný- listasafninu og í Norræna húsinu á sýningu sem hét Föðurmorð og Nornatími. Núna er ég að vinna í samstarfi við listakonu sem heitir Ingibjörg Magnadóttir. Við gerum saman gjörninga. 30. nóvember ætlum við að hafa gjörningasýn- ingu í Tjarnarbíói þar sem þrír gjörningar verða sýndir.“ Skriftir veita frelsi Kristín segist eiga erfitt með að skilja þessi tvö listform að, ljóð- listina og myndlistina, og vill því ekkert segja til um það að hvorri brautinni hún muni hneigjast þegar fram líða stundir. „Eftir Listaháskólann ætlaði ég aldrei aftur að gera myndlistarverk, var komin með nett ógeð. Ég hlakk- aði mikið til að fara að skrifa. Maður er svo frjáls þegar maður skrifar. Það eina sem þarf er pappír og blýantur eða tölva og síðan bara maður sjálfur en mað- ur er mjög háður peningum í myndlistinni,“ segir Kristín en bætir við að þegar upp er staðið séu þessar tvær listgreinar aðeins ólíkt birtingarform á því sama. Aðspurð hvort erfitt sé að vera ungur listamaður á Íslandi segir Kristín það ekki alltaf vera stað- reynd, allt fari það eftir hug- sjónum hvers og eins. „Ef maður er gráðugur og með einhverja drauma um flottan lífs- stíl og les lífsstílsmagasín þá líður manni illa. Sem betur fer reyni ég að hugsa sem minnst um peninga. Svo lengi sem ég hef það sem ég þarf líður mér vel. Hugarfarið til blankheita skiptir svo miklu máli. Ef maður er blankur en stoltur og glaður þá er ekkert að.“ Ljóðabækur Nýhil er hægt að panta á www.nyhil.org „ERFITT AÐ SKILJA LISTFORMIN AГ Myndasöguhöfundurinn, leikskáldið og mynd- listarmaðurinn Hugleikur Dagsson var að senda frá sér nýja myndasögubók sem nefnist Bjargið okkur. Hún fylgir í kjölfarið á Elskið okkur, Ríðið okkur og Drepið okkur sem hafa nú verið end- urútgefnar í einni bók undir nafninu Forðist okkur. „Fyrst JPV-útgáfa var að endurútgefa gömlu bækurnar þá fannst mér eins og ég þyrfti að koma með eitthvað nýtt um leið“, segir Hug- leikur, en Bjargið okkur er líka gefin út af JPV. „Ég átti ekki von á því að eitthvert forlag myndi hafa áhuga á þessu því það er mikil áhætta að gefa út myndasögubók á Íslandi. Það hefur ekki verið neitt sérstaklega mikil gróska, þó þessi jól virðist reyndar ætla að verða ágæt mynda- sögujól. Á hinum Norðurlöndunum er mjög mik- ið að gerast í myndasögugerð, sérstaklega í Finnlandi, og ég skil ekki af hverju Íslendingar geta ekki bara hunskast til að gera myndasögur. Ég meina, við höfum alla þessa frábæru rithöf- unda, allan þennan sagnaarf, og svo höfum við líka frábæra myndlistarmenn.“ Hvað heldurðu að fái fólk til að hlæja í mynda- sögunum þínum? „Ég veit það ekki... þegar ég byrjaði á þessu þá var það alveg hugsunarlaust, ég setti bara niður það fyrsta sem mér datt í hug og fannst ég voðalega fyndinn og sniðugur. Í dag þykir rosalega fyndið að fara yfir strikið, en ég held samt að maður þurfi að gera meira en það. Það þarf eitthvað annað að búa að baki... einhverskonar einlægni.“ Blaðamaður spyr Hugleik hvort samfélags- ádeilan hárbeitta í bókum hans sé meðvituð og hvort hún geti skilað einhverju. „Að vissu leyti já. Ég sest ekki niður og hugsa með mér: „Nú ætla ég að gera ádeilu“, en margir brandaranna eru samt skot á það sem mér finnst asnalegt í þjóðfélaginu, þó aðrir séu það ekki. Mér finnst mikilvægt að það sé talað um hlutina og þannig held ég að brandararnir mínir komi einhverju til leiðar. Margt af því sem ég fjalla um er í umræðunni núna, t.d. í nýút- komnum bókum þar sem verið er að fjalla um ljótu hliðar samfélagsins og það sem gerist inn- an veggja heimilisins.“ Hugleikur vann nýverið leiksýninguna Forðist okkur í samstarfi við nem- endaleikhús LHÍ. Hvernig var að sjá sögurnar lifna við á sviði? „Það er náttúrulega ekki hægt að segja þessa brandara á nákvæmlega sama hátt nema í myndasögu, en mér fannst þetta samt komast vel til skila í sýningunni. Ég var með krökkunum í sýningunni meira og minna allan tímann og fannst þau í rauninni gera þetta betur en ég bjóst við að hægt væri að gera þetta.“ Blaðamaður bendir Hugleik á að umfjöllunar- efni Forðist okkur hafi átt margt sameiginlegt með Þú veist hvernig þetta er sem Stúdentaleik- húsið sýndi í fyrra. „Já, er það? Ég er bara nýbyrjaður að fara í leik- hús. Þegar ég sá Forðist okkur þá hugsaði ég með mér að leikritið mitt væri líklegast ekki eina góða leikritið sem verið er að sýna!“ Með þeim orðum kvaddi blaðamaður þennan nýsmitaða en viðkunnanlega leikhúsbakt- eríusjúkling og listamann, og hélt heim á leið til þess að hlæja kvikindislega að kolsvörtum og hárbeittum húmornum í Bjargið okkur. BJARGIÐ MÉR! HUGLEIKUR UM NÝJU BÓKINA OG GAMLA LEIKRITIÐ Texti Atli Bollason Mynd Ómar Óskarsson Skot á það sem mér finnst asnalegt í þjóðfélaginu Texti Katrín Bessadóttir Mynd Þorkell Þorkelsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.