Tíminn - 29.01.1984, Blaðsíða 9

Tíminn - 29.01.1984, Blaðsíða 9
SUNNUDAGUR 29. JANÚAR 1983 Frysting kjarnavopna ætti að vera fyrsta skrefið Ráðstefnan í Stokkhólmi ■ Miklar vonir eru bundnar við öryggismálaráðstefnuna í Stokkhólmi sem hófst á þriðjudaginn í fyrri viku. Á ráðstefnunni eru fulltrúar allra ríkja í Evrópu, að Albaníu undanskilinni, og auk þess fulltrúar Bandaríkjanna og Kanada. Verkefni ráðstefnunnar eru að vinna að bættri sambúð þessara ríkja og síðar verður rætt um afvopnunarmál- in, en grundvöllur þess að þar náist einhver árangur er minni tortryggni og meiri sáttahugur. Um þessar mundir er ástandið ískyggilegra í þessum efnum en um langt skeið. Síðustu misserin hafa risið upp öflugri friðarhreyfingar í Vestur- Evrópu en áður eru dæmi um. f>ær hafa fyrst og fremst orðið til vegna þeirra yfirlýsinga Reagans Bandaríkja- forseta, að Bandaríkin myndu stefna að fullkomnum yfirburðum á sviði vígbúnaðarins og hafa framlög til víg- búnaðar verið aukin í samræmi við það. Menn óttast eðlilega að nú eins og fyrr muni vígbúnaðarkapphlaupið enda með styrjöld og það yrði ekki styrjöld í gömlum stíl, eins og heims- styrjaldirnar fyrr á þessari öld, heldur gereyðingarstyrjöld. Því veldur til- koma kjarnavopnanna. Ræða Reagans Vonandi boðar ræða sú, sem Reagan forseti hélt í byrjun síðustu viku, að hann sé búinn að snúa við blaðinu og vilji vinna að afvopnun og jafnvægi milli risaveldanna í stað þess að stefna að algerum yfirburðum. Þó dró það úr áhrifum ræðunnar, að daginn eftir var gengið frá áætlun um rannsóknir á geimvopnum, sem gætu orðið örlaga- ríkari en nokkur önnur vopn, sem enn hafa komið til sögu. Til þess að bæta andrúmsloftið, þurfa leiðtogar risaveldanna að gera meira en að halda áróðursræður um frið. Það gildir ekki síður um Andro- pov en Reagan. Þeir þurfa einnig að gera betur en bjóðast til að setjast að samningaborði og halda áfram þjarki á borð við það, sem átt hefur sér stað í viðræðufundunum í Genf og Vín. Leiðtogarnir verða að gera meira en að vera með áróðursbrögð. Nú þurfa þeir að bjóða fram raunhæfar tillögur, sem gætu orðið fyrsta skrefið í raun- verulegri afvopnun. Þar gæti verið efst á blaði hugmynd, sem margir af ágætustu stjórnmála- mönnum Bandaríkjanna hafa borið fram og beitt sér fyrir og hlotið hafa góðar undirtektir víða um heim, m.a. á þingi Sameinuðu þjóðanna. Þessi tillaga er á þá leið, að þegar verði samið um stöðvun á framleiðslu kjarnavopna og frekari tilrauna með kjarnavopn, ásamt raunhæfu eftirliti með því að slíku banni verði framfylgt. Þessi framleiðslustöðvun þarf ekki að stranda á þjarki um það, hvort risaveldið hafi yfirburði. Hið rétta er, að hvort um sig kann að hafa yfirburði á vissu sviði kjarnavopnavígbúnaðar- ins, en þegar á heildina er litið, ríkir fullt ógnarjafnvægi á milli þeirra. Þau hafa hvort um sig næga getu til að eyðileggja hitt, svo að jafnt Banda- ríkin og Sovétríkin yrðu sviðin jörð, ef þau drægjust viljandi eða óviljandi inn í kjarnavopnastyrjöld. Annað mikilvægt byrjunarspor gæti verið það, að fjarlægja öll meðaldræg kjarnavopn í Evrópu. en það ætti ekki aðeins að ná til risaveldanna. heldur einnig Breta og Frakka. Það er ekkert vit í því, að kjarnavopn þessara þjóða standi í vegi samkomulags um þessi mál. Það þjónar engum öðrum tilgangi en að halda við þeim draumórum Breta og Frakka, að þeir séu enn stórveldi. Kosningarnar í Danmörku Hér í blaðinu hefur verið vakin athygli á þeirri athyglisverðu stað- reynd, að helzta breytingin, sem varð í kosningunum í Danmörku varð sú, að tveir íhaldssömustu flokkar landsins, sem sérstaklega höfðu ham- azt gegn velferðarþjóðfélaginu, biðu mikinn ósigur. Vinningurinn féll hóf- sömum íhaldsflokki í skaut. Jafnframt var vakin athygli á því, að þótt núverandi ríkisstjórn Danmerkur hafi verið knúin til þess að grípa til allróttækra aðhaldsaðgerða, hefði hún leitazt við að varðveita öll grundvallar- atriði velferðarþjóðfélagsins. Hins vegar hefði hún reynt að sníða af þar ýmsa vankanta, sem reynslan hafði leitt í ljós. Þá hefði áfram verið reynt eftir megni að tryggja hlut þeirra, sem lakast væru settir. Úrslit kosninganna gáfu til kynna, að þessi stefna hefði fallið dönskum kjósendum vel í geð. Auk þess, sem íhaldsflokkurinn vann fylgi frá íhalds- sömustu flokkunum, styrktu miðflokk- arnir, vinstri flokkurinn og Radikali flokkurinn, stöðu sína. Sá fyrri hefur tekið þátt í ríkisstjórninni, en sá síðari veitt henni óbeinan stuðning, nema í utanríkismálum. Norrænu miðflokkarnir Ríkisstjórnin í Noregi, sem byggist á samvinnu íhaldsflokksins og mið- flokkanna, Miðflokksins og Kristilega flokksins, hefur fylgt mjög líkri stefnu og stjórnin í Danmörku. Hún hefur þurft að grípa til aðhaldsaðgerða, en gætt þess að skerða hlut velferðarþjóð- félagsins sem minnst. Sömu stefnu fylgdi ríkisstjórn mið- flokkanna í Svíþjóð, Miðflokksins og Frjálslynda flokksins, sem fór með völd næst á undan núverandi ríkis- stjórn þar. Ríkisstjórn miðflokkanna í Svíþjóð naut stuðnings íhaldsflokks- ins, en áður höfðu þessir þrír flokkar unnið saman. Niðurstaðan er því sú,.að það hefur ekki breytt neitt að ráði afstöðunni til velferðarþjóðfélagsins, þótt ríkis- stjórnir íhaldsflokka og miðflokka hafi leyst ríkisstjórnir sósíaldemókrata af hólmi. Ástæðan fyrir þessu er augljós. Mið- flokkarnir hafa átt verulegan þátt í því að velferðarþjóðfélag hefur myndazt á Norðurlöndum. íhaldsflokkarnir hafa stundum tekið þátt í því starfi, þótt oftar hafi þeir reynt að tefja fyrir hinni eðlilegu þróun, og verið þá talsmenn þess, að horfið yrði aftur til „hina góðu gömlu daga“ fyrir tíð velferðarþjóðfélagsins. í seinni tíð hafa íhaldskenningar Friedmans einnig fengið nokkurn hljómgrunn innan þeirra, en það ekki haft áhrif á samvinnu þeirra og mið- flokkanna. Dregið úr öfgum til beggja handa Hin félagslega sinnaða afstaða mið- flokkanna hefur haft áhrif á margan hátt á Norðurlöndum. Hún hefur dreg- ið úr öfgum til beggja handa. ■ Pershing 2-eldflaugin. Ef sósíaldemókratar hafa hneigzt til fylgis við róttækar sósíalískar kenning- ar, hafa þeir átt á hættu að missa fylgi til miðflokkanna. Sama hefut gilt um íhaldsflokkana, ef þeir hafa hneigzt að hægri öfgum og Friedmanisma. Það hefur verið hlutverk miðflokk- anna á Norðurlöndum að tryggja og treysta í sessi hina hófsömu félagslegu þróun, sem hefur orðið þar á undan- gengnum áratugum og gert hefur nor- rænu ríkin að mestu fyrirmyndarríkj- um heims á sviði félagsmála og mann- réttinda. Þótt margt standi enn til bóta og sumt hafi tekizt misjafnlega, mun reyn- ast auðvelt að bæta úr því, ef áfram verður unnið á grundvelli þeirrar þró- unar, sem hefur verið að miklu leyti verk miðflokkanna. Fyrsti áfanginn tókstvel Segja má, að með afgreiðslu fjárlag- anna fyrir árið 1984, sem var síðasta verk Alþingis fyrir jólaleyfið, hafi lokið fyrsta áfanganum í viðnáminu gegn verðbólgunni, sem hófst með valdatöku núverandi ríkisstjórnar síð- astliðið vor. Það verður ekki annað sagt en sæmilega hafi tekizt að ná því tak- marki, sem sett var með bráðabirgða- lögunum um efnahagsmál, en setning þeirra var fyrsta verk ríkisstjórnarinn- ar. Með þessum lögum var stefnt að því að ná verðbólgunni niður í 30% fyrir 1. febrúar 1984 og tryggja jafn- framt vinnufrið í landinu. Þetta hvort tveggja hefur náðst, ef miðað er við heilt ár. Ólíklegt er, að þetta hvort tveggja hefði tekizt, ef ekki hefði verið fylgt fordæmi verkalýðsríkisstjórnanna í Danmörku og Noregi að grípa undir sérstökum kringumstæðum til tíma- bundinnar kaupbindingar. Sennilega hefði annars komið til einhverra átaka á vinnumarkaðinum strax í sumar. Þegar kom fram á árið, átti svarta skýrslan sinn þátt í því, að augljóst var, að vinnufriður myndi haldast fyrst um sinn, þótt lögbinding launa væri feild úr gildi. Því var horfið að því ráði í samvinnu við stéttasamtökin. Næsti áfanginn Það er rétt. að sá árangur, sem hér hefur náðst, hefur ekki náðst sársauka- laust. Kjör margra, og ekki sízt þeirra, sem sízt skyldi, eru lakari en áður. Því má hins vegar ekki gleyma, að kjaraskerðing hefði orðið mun meiri, ef ekkert hefði verið gert til að draga úr verðbólgunni. Þá væri meiriháttar atvinnuleysi komið til sögu, ásamt miklum samdrætti á mörgum sviðum. Tvímælalaust ber að fagna því, að tekizt hefur að koma í veg fyrir stórfellt atvinnuleysi og þoka verð- bólgunni stórlega niður á leið. Því má heldur ekki gleyma, að árangurinn, sem hefur náðst, getur glatazt, ef ekki verður áfram stefnt í rétta átt. Hér þarf margs að gæta. Áfram þarf að haldast sæmilegt sam- starf milli stjórnarflokkanna. Það verður að varast áróður þeirra, sem vilja efna til óróa á vinnumarkaðnum og kalla á alþingi götunnar um að koma sér til hjálpar. Verndun þorskstofnsins með til- heyrandi samdrætti veiðanna veldur einhverjum mestu erfiðleikum, sem þjóðin hefur þurft að glíma við. Meðan verið er að komast yfir þá erfiðleika mega ekki ríkja harðar pólitískar deil- ur, sem gætu haft sundurlyndi og upplausn í för með sér. Hér hvílir ekki minni ábyrgð á stjórnarandstöðu en ríkisstjórn. Lægstu launin í áramótagrein Steingríms Her- mannssonar forsætisráðherra, sem birtist í blaðinu, fórust honum svo orð um launamálin: „Með tilliti til þess mikla árangurs, sem þegar hefur náðst, telja stjórnar- flokkarnir hins vegar rétt að létta af ýmsum þeim hömlum, sem settar voru með bráðabirgðalögum ríkisstjórnar- innar. Jafnframt eru ekki lögboðnar frekari hækkanir launa, eins og var 1. júní og 1. október sl. Samningar um kaup og kjör verða á ábyrgð launþega og vinnuveitenda. Ríkisstjórnin mun ekki hafa af þeim bein afskipti, nema þar sem hún er aðili að samningum. Með minnkandi þjóðartekjum er svigrúm á næsta ári til launahækkana ákaflega lítið, og reyndar ekkert til almennra kjarabóta. Miðað við það, að gengi breytist ekki um meira en 5 af hundraði, telur ríkisstjórnin þó unnt að gera ráð fyrir, að laun hækki að meðaltali um 4 af hundraði. Þannig yrðu verðhækkanir, sem af gengissigi stafa, að mestu bættar. Ég hef jafnframt lýst þeirri skoðun minni, og vil ítreka hana nú, að þetta svigrúm verði notað til þess að bæta kjör þeirra, sem lægstu launin hafa. Það veldur vonbrigðum, að svo virðist sem forystumenn bæði launþega og atvinnurekenda hafi gefizt upp við að leita leiða til þess að bæta lægstu launin án þess að almenn launahækkun fylgi. Mér er Ijóst, að þetta er allerfitt r dæmi. Hins vegar eru fá dæmi svo erfið. að þau verði ekki leyst, ef vilji er fyrir hendi." Þórarinn Þórarinsson, ritstjóri skrifar

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.