Tíminn - 24.01.1988, Blaðsíða 13
Sunnudagur 24. janúar 1988
Tíminn 13
„Þegar endurbyggingu er lokið eru flestir ánægðir,“ segir Hörður Ágústsson. (Tíminn: pjetur
Hörður hefur unnið feiknamikið starf við
gerð uppdrátta af gömlum íslenskum ■
byggingum.
„Eigi ég að segja frá því verður úr
því hálfgerð ævisaga,“ segir Hörður.
„En frá því er man eftir mér var ég
ákveðinn í að helga mig tveimur
listgreinum - byggingarlist og mál-
aralist. Ég hugsaði mér ég skyldi
helga fyrri hluta dagsins málaralist-
inni, en þann síðari byggingarlist-
inni. En það fór eiginlega svo að
fyrri hluta ævi minnar sinnti ég
listmálun, en seinni hlutann bygg-
ingarlistinni.
Eftir að ég lauk stúdentsprófi árið
1941, ætlaði ég að sigla utan og læra
arkitektúr. En þar sem Evrópa var
lokuð og ég hafði ekki hug á Amer-
íku, varð ég að leita annarra leiða.
Ég fór því í Myndlista og handíða-
skólann og settist jafnframt í verk-
fræðideild háskólans einn vetur.
Jafnframt vann ég á arkitektastofu
og naut þar handleiðslu kunnáttu-
manna. Ég var eiginlega að skapa
mér minn eigin skóla með þessu og
þetta kom mér vel seinna.
Kynni mín við Handíðaskólann
urðu þó til þess að ég helgaði mig
myndlist alfarið. Ég sigidi til náms í
Kaupmannahöfn árið 1945 og eftir
einn vetur þar fór ég til Parísar, þar
sem ég lærði í þrjú ár, 1947 - 1949
og í París var ég búsettur til 1952. Á
þessum árum veitti ég að sjálfsögðu
byggingarlistinni verðuga athygli,
einkum á námsferðalagi til Ítalíu
1948, þar sem ég dvaldi í sex mánuði.
Árið 1955 stofnuðum við nokkrir
tímaritið Birting, þar sem ætlunin
var að segja frá öllu því markverð-
asta sem væri að gerast í listum og
menningarmálum innan lands sem
utan. í minn hlut kom að kynna
byggingarlist. Ég ritaði greinaflokka
um innlenda og erlenda húsagerð.
Upp úr því fór ég að spyrja sjálfan
ntig hver okkar hlutur væri, var
einhver hefð hér í þeim efnum? Ég
rak augun í auglýsingu frá Vísinda-
sjóði, þar sem auglýst var eftir
umsóknum úr sjóðnum. Ég hugsaði
sem svo að ekki sakaði að reyna að
sækja um stuðning til rannsókna á
íslenskri byggingarlist og gerði það.
Einn góðan veðurdag bíður mín
bréf heima, þar sem tilkynnt er að
mér sé veittur styrkur til verkefnis-
ins. Þar með var ég orðinn skyldugur
til að hefjast handa. Petta var árið
1962.
Næstu árin fór ég um allt land,
skoðaði, ljósmyndaði og mældi upp
hús og mannvirki og birti bráða-
birgðaniðurstöður í Birtingi. Jafn-
framt fór ég svo að athuga hvað
skrifað kynni að hafa verið um þessi
efni og leita annarra heimilda. Með-
al annars sat ég löngum á Þjóðskjala-
safni og las allt sem þar var að hafa
um íslenska húsagerð.
Árið 1968 gerðist ég skólastjóri
Myndlista og handíðaskólans. Ég
helgaði mig alveg skólanum, svo
rannsóknirnar sátu á hakanum. En
þegar frá leið sá ég að við svo búið
mátti ekki standa, sagði af mér og
tók upp þráðinn á ný. Þar með hvarf
myndlistin í skuggann.
HVAÐ KOM í UÓS?
Nú er eðlilegt að spurt sé: hvað
kom í ljós?
Mér fannst fljótt að á íslandi hafi
verið og séu þau hús í bland sem
ýmist eru einstök eða þá alveg nógu
góð til þess að þeim sé veitt eftirtekt.
Ég veitti því einnig athygli hve
hart hefur verið gengið að mörgu
góðu húsinu. Hef ég haft nóg tæki-
færi til að sannfærast um það. Vík ég
þá að þeim þætti sem tekið hefur
verulegan hluta tíma míns seinni
árin, þar sem ég hef unnið lengi að
því að koma gömlum húsum til
upprunalegs horfs. Sú nána viðkynn-
ing sem fæst við að skoða gömul hús
eins og læknir sjúkling leiðir til þess
að maður fær á þeim gagngeran
skilning, sér að sumt í þeim og þau
sem heild er svo merkilegt að það er
hrein goðgá að eyðiieggja þau. Mik-
ið af þessum húsum, einkum kirkj-
urnar, er góð byggingarlist. Hún er
hinsvegar það látlaus líkja má við
íslenska gróðurinn: Hann er svo
lágvaxinn að auðvelt er að stíga ofan
á hann, gagnstætt hinum háu eikum
meginlandsins. Lögmálið er því það
sama í báðum.
MÓTSÖGN í
SJÁLFSTÆÐIS-
BARÁTTUNNI
Það hefur gætt undarlegra mót-
sagna í sjálfstæðisbaráttunni. Um
leið og við höfum sótt fram og aukið
tæknina og gert mannlífið þar með
þægilegra, höfum við skammast okk-
ar fyrir fátækt fortíðarinnar - og það
þótt menn séu að grobba sig af
henni.
Því hefur öll áhersla verið lögð á
að draga fram bókmenntaarfinn,
sem hefur varðveist betur og þykir
hægt að fjalla um skammlaust, með-
an hitt er feimnismál. íslendingar
voru fljótir að útrýma torfbænum og
á fullu að útrýma timburhúsunum,
þegar loks var farið að spyrna við
fótum. Þess vegna er áríðandi að
þjóðin átti sig á þessari mótsögn og
því fyrr því betra. Mitt markmið
hefur verið það að afla þekkingar á
íslenskum húsagerðararfi, svo að
við getum tekið rökréttar ákvarðan-
ir. En þar sem svo lítið hafði verið
unnið á þessum vettvangi áður, þá
hefur verkið tekið mikið lengri tíma,
en ég í upphafi ætlaði.
ÞRÍR ÞÆTTIR
Listin tekur á sig ákveðnar myndir
við viss skilyrði og hér á landi hafa
skilyrðin frá öndverðu verið talsvert
önnur en annars staðar. Fyrir bragð-
ið er útkoman oft mjög sérkennileg.
Byggingarlistin er ofin úr þrem
þáttum: list, notagildi og tækni. í
Víðimýrarkirkju birtist gamalgróin
listhefð. í fjósbaðstofunni frábær
notagildislausn og ef við lítum á
tækniþættina í torfbænum þá vil ég
nefna klömbruhnaus og streng og þá
tækni sem notuð var við hleðslu
þessa. Hún var einstök og þekktist
hvergi annars staðar en hérlendis.
Þessa þekkingu ber íslendingum að
varðveita ekkert síður en bókmennt-
irnar. Árangur íslenskrar hugvits-
menningar er nefnilega svo miklu
breiðari en margir ætla. Þótt gott sé
að standa vörð um bókmenntirnar,
þá má ekki gleymast að við eigum
líka arf á sviði listiðnaðar, myndlist-
ar, byggingarlistar. Að vísu er vel
sótt fram í sumum þessara greina, en
samsömunin við fortíðina er í lakara
lagi. Ég tel að vitundin um að við
eigum sérstakan sjónlistararf sé
mikilvæg, ekki síst til að vekja áhuga
á varðveislu og veita viðnám gegn
alþjóðlegri lágmenningu.
Þegar útlendingur kemur hingað
til lands, þá er það fyrst og fremst
umhverfismótunin sem við blasir og
hún er ekki par fín alls staðar. Og
hann spyr: „Er þetta menningar-
þjóð?“
Menningaráhrif byggingarlistar
eru hér of lítil, umfjöllun stopul eða
engin. Mér hefur stundum fundist
eins og hún sé í blinda bletti þjóðar-
sjónarinnar. Hún á framar öllu að
móta umhverfi okkar. Eitt af því
sem stuðlað gæti að bættri stöðu
hennar væri m.a. það að stofna
arkitektaskóla þar sem íslensk
reynsla og íslenskar hefðir sætu í
öndvegi.
HÓMER, DANTE
OG UMHVERFIÐ
Grikkir hinir fornu létu meira
eftir sig en kviður Hómers, heim-
speki Platons eða leikverk Sófókles-
ar. Þeir skópu jafn merkar sjónlistir.
Dante ritaði hinn Guðdómlega
gleðileik umlukinn glæsilegum bygg-
ingarlistarafrekum.
Hafi fslendingar skrifað glæsilegar
bókmenntir á miðöldum, þær merk-
ustu á þeim tíma í Evrópu, þá hljóta
þeir - já, ég segi hljóta - að hafa
skapað sambærilega hluti á öðrum
sviðum lista. En þeir notuðu of
veikbyggð byggingarefni, landið
harðbýlt og hörmungar gengu yfir
sem eyddu húsum og mönnum. Þess
vegna hefur varðveist hér minna af
byggingarlist en nokkurs staðar ann-
ars staðar. Elstu byggingar okkar
eru frá miðri 18. öld. Þetta með öðru
hefur valdið því að við erum ekki
nægilega vakandi fyrir þessari arf-
leifð okkar, sem þó er stórkostleg.
Ég minni á kirkjurnar á Hólum og í
Skálholti, stærstu timburkirkjur á
Norðurlöndum á sínum tíma, ég
bendi á klausturkirkjurnar, sem
voru sambærilegar við stafkirkjurnar
norsku. Eða öll höfuðbólin.
Það sé fjarri mér að kasta rýrð á
sjálfstæðisbaráttuna, en þegar fs-
lendingar voru að sækja fram til
sjálfstæðis og seinna jafnréttis var
stöðugt rýnt í eymdina. Fyrir hið
mikla framlag fyrri færustu manna
var dregið járntjald. Hinir bestu
menn með Halldór Laxness í broddi
fylkingar eru stöðugt að tönnlast á
torfkofum.
En Njáluhöfundur hefur ekki set-
ið í neinum torfkofa með skinnbleðil
undir botninum og annan á
hnjánum. Höfundur Njálu hefur
unnið sitt starf í veglegum húsakynn-
um. Það var hér sem annars staðar
rík yfirstétt sem skóp menninguna.
Þorvaldur Þórarinsson var hirðstjóri
og vellauðugur maður og það var
Snorri líka. Og við það ber að
kannast. Ekki datt rússnesku bylt-
ingarmönnunum í hug að rífa
Vetrarhöllina. En hin óraunsæja
sögusýn okkar f slendinga hefur vald-
ið því að við viljum láta sem ekkert
hafi verið hér til í húsagerð nema
kofar.
SAGA LAUFÁSS OG
SKÁLHOLTSSTAÐAR
Já, þú spyrð hvenær vænta megi
niðurstaða minna í bókarformi.
Ég var lengi að velta því fyrir mér
með hvaða hætti ég ætti að setja
þetta efni fram. Ég hafði hugsað mér
að skrifa sérstaka sögu torfbæjarins,
kirknanna, timburhúsanna og stein-
húsanna, en þegar að var gáð reynd-
ist efnið svo viðamikið að ég ákvað
að taka fyrir vissa þætti fyrst.
Mér varð t.d. starsýnt á Laufás í
Eyjafirði, þar sem stóð gamall torf-
bær og kirkja með löngum slóða
ritaðra heimilda. Því ákvað ég að
taka slíkan stað til sérstakrar rann-
sóknar. Að ritinu um Laufás hef ég
nú unnið í mörg ár og það kemur
vonandi út áður en mörg ár líða. Þá
hef ég unnið að athugunum á fleiri
kirkjustöðum sem fylgja eiga í kjöl-
farið. Einn slíkur er sjálfur höfuð-
staður íslands, Skálholt, sem ganga
mun fyrir. Ástæðan er í stuttu máli
þessi: Grafnir voru uppkirkjugrunn-
ar þar á árunum 1954 - 1958.
Margt varð til þess að það dróst að
niðurstöður yrðu birtar úr þessum
rannsóknum. Kristján varð forseti
og varð að sinna öðru og það var
ekki fyrr en hann lét af því embætti
að útlit var fyrir að skriður kæmist á
málið að nýju. Hann hafði gengið
frá sínu verki að fullu er hið sviplega
fráfall hans bar að höndum. Þar sem
Kristján hafði beðið mig að rita um
kirkjurnar í Skálholti í væntanlegt
verk, var ég þegar bundinn því. Eins
var hitt að ég erfði formannssæti
hans í Hinun íslenska fornleifafélagi
og þótti því sem mér bæri skylda til
að koma því höfn.
Að þessu hef ég starfað í tvö ár og
nú hinn 24. febrúar nk. kemur út
fyrra bindið af tveimur á 125 ára
afmæli Þjóðminjasafns. í því verða
niðurstöður rannsókna, en í öðru
bindinu mun ég skrifa um Skálholt á
sama hátt og Laufás - ekki aðeins
um bæjarhús og kirkjur, heldur
einnig um búnað þeirra, staðarhald-
ara og staðarhag.
Ég gat þess hér áður að í mörg ár
ferðaðist ég um landið og safnaði
efni til þessara rannsókna. Enn er
rík þörf á að landsbyggðinni sé sýnd
ræktarsemi á þessu sviði, því það er
víða að verða svo lítið eftir. Kirkj-
urnar, sem erlendur kunningi Hall-
dórs Laxness kallaði „toy churches“
eða leikfangakirkjur eru í hættu.
Þær svara ekki þeim kröfum sem
prestarnir og söfnuðirnir gera og því
hafa verið unnin á þeim alls konar
spjöll. Það er mikið verk óunnið að
færa þær aftur til upprunalegs horfs.
Þótt þetta kosti talsvert fé og fyrir-
höfn, þá hefur raunin orðið sú að
allir eru ánægðir þegar upp er staðið.
Ég vildi að endingu mega brýna
menn að halda vöku sinni. Ræða við
kunnáttumenn áður en ráðist er í að
rífa niður gömul hús eða breyta
þeim. íslendingar eru alveg nógu
ríkir til þess að varðveita það litla
sem eftir stendur af arfi þeirra í
byggingarlist."