Tíminn - 29.01.1988, Side 5

Tíminn - 29.01.1988, Side 5
Föstudagur 29. janúar 1988 Tíminn 5 Slysavarnafélag (slands 60 ára í dag: TEKIÐ í SPOTTANN, STRENGT Á KLÓNNI Það eru liðin 60 ár frá því að borgarar í Reykjavík komu saman á almennum fundi í Bárubúðinni til að stofna björgunarfélag í þeim tilgangi að sporna við sjóslysum. Um aldamótin missti íslenska þjóðin marga menn í sjóslysum og ekki var óalgengt, vegna skorts á björgunartækjum, að heimamenn máttu horfa á báta brotna í spón skammt undan landi og gátu drukknandi mönnum enga björg veitt. Sú var raunin þegar Ingvarsslysið varð við Viðey árið 1906 og 20 menn fórust. Á sunnudegi 29. janúar 1928 var Slysavarnafélag fslands stofnað í Bárubúðinni. „Við erum öfundaðir af Tilkynningaskyldunni,“ segir Hannes Hafstein, forstjóri Slysavarnafélags íslands, á 60 ára afmæli félagsins. (Timinn: pjetur) Mikið vatn hefur runnið til sjáv- ar síðan og fékkst Hannes Haf- stein, forstjóri SVFÍ, til að taka á móti blaðamönnum á heimili sínu og rekja sögu félagsins í stuttu máli á þessum tímamótum. „Þessi mál um sjóslysavarnir og björgunarmál höfðu verið lengi á döfinni og oft til umræðu og þá vanalega í kjölfar hinna hörmulegu sjóslysa sem voru í lok síðustu aldar og í byrjun þessarar," sagði Hannes um upphafið. „Skipulögð starfsemi á þessum vettvangi hófst ekki fyrr en með stofnun Björgun- arfélags Vestmannaeyja árið 1918. Það var þeirra markmið að safna fé til kaupa á skipi til landsins, til eftirlits og gæslu á miðum Eyja- manna. Þeir reru þá á litlum bátum og urðu fyrir hrikalegu manntjóni á þessum árum. Það var verkefni þessa nýja skips að aðstoða báta- flotann og stugga við hinum óboðnu gestum, sem erlendir togarar voru, en þeir voru ansi aðgangsharðir á fiskislóðir við Vestmannaeyjar. Þetta gæslu- og björgunarskip var nefnt Þór. Með stofnun Landhelgisgæslu 1926 varð Þór okkar fyrsta varðskip." Á rökstólum í Halaveðri Árið 1925 urðu þáttaskil í þess- um efnum. Fiskifélag íslands sat þá á rökstólum í Reykjavík þegar hið skelfilega Halaveður gekk yfir. Björgunarmál höfðu oft áður verið til umræðu en í þetta sinn var tekið fast á þeim. Fiskifélagið skipaði nefnd til að gera tillögur um slysa- varnir og þá var Jón heitinn Berg- sveinsson ráðinn, til að kynna sér málin erlendis. Hann lagði tillögur nefndarinnar síðar fyrir Fiskifélag- ið og í framhaldi af því var boðað til borgarafundarins í Bárubúð- inni. Jón E. Bergsveinsson var ráðinn fyrsti starfsmaður hins ný- stofnaða félags. „Upphaflega átti að stofna björgunarfélag, en þegar rætt var nánar um tilgang félagsins, var ákveðið að kalla það Slysavarna- félag íslands. Það er vegna þess að tilgangur félagsins varð þegar tví- þættur. í fyrsta lagi á félagið að sporna við slysum eða útbreiðsla fræðsluefnis um slysavarnir al- mennt og í öðru lagi björgun og hjálparstörf alls konar. Jóni E. Bergsveinssyni verður aldrei nógsamlega þakkað það óeigingjarna og fórnfúsa braut- ryðjandastarf sem hann innti af hendi.“ „Jón forseti" ferst Björgunarmiðstöð var þegar sett á fót á vegum SVFÍ, sem svaraði kalli í neyðartilvikum á sjó og landi. Þegar árið 1928 var félaginu beitt til að stofna slysavarnadeildir um allt land. Fyrstu slysavarna- deildinni var komið á laggirnar í júnímánuði þetta sama ár í Sand- gerði. Þetta var fyrsta deildin sem stofnuð var innan SVFÍ og var nefnd Sigurvon. „Fjórum vikum eftir að SVFÍ var stofnað varð hörmulegt sjóslys við Stafnnes, þegar togarinn Jón forseti fórst. Félagið fékk því strax rismikið verkefni í hendur og menn réðu ráðum sínum um til hvaða ráða bæri að taka þegar slys yrði á þessum slóðum. Upp úr þessu var 5 ákveðið að koma fyrir línubyssu eða fluglínutæki á Stafnnesi og koma þannig á björgunarstöð í Sandgerði. Árið 1929 fékk félagið sína fyrstu miklu gjöf, sem var breskur björgunarbátur, sem heitir Þor- steinn.“ Honum var valinn staður í Sand- gerði og byggt yfir hann bátshús, sem enn stendur. Báturinn er enn þá til og verið er að útbúa minja- safn um gripinn. Björgunarstöðin með bát og línubyssu var vígð í júnímánuði 1929. Á næstu árum var ein deild stofnuð eftir annarri um allt land þar til hafði myndast samfelld keðja. Merk þáttaskil urðu í apríl 1930 þegar Bandalag íslenskra kvenna gekk til liðs við SVFÍ með styrkjum og fjáröflun. „Án þess að á nokkurn sé hallað þá hafði Slysavarnafélagið eignast þann bakhjarl sem mest og best hefur dugað. Þær hafa verið það duglegar við að afla félaginu fj ár. “ Konurnar hófu dreifingu á ullar- fatnaði, sem þær höfðu sett í vatnsþéttar umbúðir, og fylgdi björgunarbátum um borð í skipum. Þær hafa alla tíð síðan séð svo um, að ullarfatnaður sé til taks, þegar mest á ríður. Línubyssa bjargar 38 Frökkum - Uppgangur félagsins var mjög ör en hvenær sannaði það fyrst ágæti sitt? ' „Línubyssum var komið fyrir þar sem því var við komið, til að skjóta streng út til skipa og geta dregið menn til lands í björgunar- stól eftir honum,“ svaraði Hannes. „Það var 31. mars 1931 að bjargað var með fluglínutæki hér við land fyrsta sinni. Það var þegar slysa- varnadeildinni Þorbirni auðnaðist að bjarga allri áhöfninni, 38 mönnum, af franska togaranum Cap Fagnet, sem strandað hafði í foráttubrimi á Hraunsfjörum aust- an Grindavíkur." Það einkennilega við þetta var að viku áður hafði Jón E. Berg- sveinsson kennt meðferð línubyss- unnar í Grindavík. Á glæstum ferli hefur slysavarnadeildin í Grinda- vík bjargað 201 manni, íslenskum og erlendum, úr sjávarháska. Alls telur Hannes Hafstein að á þessum 60 árum hafi félög innan vébanda SVFl bjargað hátt á þriðja þúsund manns. „Margir telja að strand skipa heyri fortíðinni til og að leysa megi slíkt með tækninni. Ég er nú ekki beint þeirrar skoðunar. Skips- strönd eiga sér nú ekki alltaf stað í blíðviðri og t.d. 1983 drógu sveitir okkar í land 37 menn. Við þurfum alltaf að vera undir það búnir að mæta þessum vanda.“ SVFÍ á heiðum uppi Það er einnig leitað til SVFÍ þegar t.d fólk týnist á heiðum uppi og hálendi. SVFÍ bindur sig ekki einvörðungu við sjóslys, þótt sá hafi verið upphaflegur tilgangur félagsins. Á vegum SVFI hafa verið stofnaðar umferðaröryggis- nefndir um allt land. „Við tengjumst ef til vill frekar sjávarsíðunni, en 1937 varð breyt- ing á starfsvettvangi og ákveðið var að taka upp slysavarnir á landi. Það var ráðinn til þess sérstakur maður og það væri aðallega í sambandi við umferðarfræðslu barna og unglinga auk skyndihjálp- arkennslu." sagði Hannes. „Það hefur hins vegar verið snar þáttur í starfsemi félagsins frá upphafi að fylgjast með bátum á miðunum og leita um leið og þeirra er saknað. Strax og útvarpið hóf útsendingar var það notað til að koma tilkynn- ingum til sjófarenda, líkt og gert er með Tilkynningaskyldunni í dag.“ I ofsaveðri í febrúar 1941 urðu íbúar í Reykjavík aftur vitni að sjóslysi líkt og 1906. En þá voru þeir ekki lengur vanmáttugir sjón- arvottar. Tvö millilandaskip rak þá á land og tókst að draga í land og bjarga 43 mönnum á línu, sem skotið var til skipverja. „Þá voru tækin til reiðu og vanir og þjálfaðir menn, sem kunnu með þau að fara. Þetta sýnir glögglega mismuninn frá því sem var.“ Reiðubúnir þegar kallið kemur SVFÍ gekkst fyrir byggingu skip- brotsmannaskýla, en saga þeirra er vitanlega eldri en félagsins sjálfs. Nú eru skýlin 46 í öllum fjórðung- um landsins, þar sem er skjólfatn- aður og upphitunartæki auk fjar- skiptabúnaðar. Hin síðari ár hafa verið reist skýli við fjallvegi einnig. Slysavarnafélagið hefur stækkað og rekstur þess orðið umfangsmeiri en var. Það skiptist í raun í þrjá hluta; skrifstofa SVFÍ og deildir hennar um allt land, Tilkynninga- skyldan og Slysavarnaskóli sjó- manna, sem nokkuð hefur verið sagt frá í fréttum, en það rekur skólann um borð í skipinu Sæ- björgu. Þar er t.d. fullkomnasta aðstaða á landinu til að æfa reyk- köfun og hefur slökkviliðið getað notfært sér hana. Sæbjörg heitir í höfuðið á skipi, sem kom til lands- ins á vegum SVFÍ 1938, og var síðar eitt af skipum Landhelgis- gæslunnar eftir endurbætur 1946. Hún var lengst af við bátagæslur á Faxaflóa. Hannes sagði að íslendingar væru öfundaðir erlendis af Til- kynningaskyldunni og hinu góða samstarfi sem íslenskir sjómenn og fjölskyldur þeirra hafa átt gegnum hana við strandstöðvar Landsfm- ans. Nú er verið að tölvuvæða Tilkynningaskylduna, en til hennar berast hundruð tilkynninga dag hvern. Þegar mest var bárust 1800 tilkynningar á einum sólarhring. Og betur má ef duga skal. „Það sem er einkennandi fyrir Slysavarnafélagsmenn er sjálf- boðastarf þeirra. Þeir eru fúsir að fara á nóttu sem degi og virkum og helgum dögum þegar kallið kemur.“ Hannes sagði það nauðsynlegt að leitast við á öllum tímum að búa björgunarmenn þeim tækjum sem best þykja hverju sinni. Hann benti á að stöðugt væri verið að betrum- bæta björgunarbátakost SVFÍ og einnig að vilji væri fyrir því að festa kaup á þyrlu. Það væri þó ekki á dagskrá enn sem komið væri, en SVFl stóð einmitt að kaupum á fyrstu þyrlunni til landsins. „Þær hafa löngu sannað ágæti sitt við björgunarstörf," sagði Hannes. Unglingadeildir SVFÍ Það verða encin hátíðahöld á afmælisdegi SVFl. „Strákarnirætla að lyfta sér upp á Hótel Sögu um hclgina,“ sagði Hannes. Hátíðin vcrður á landsþinginu í maí í vor. En í tilefni 60 ára afmælisins verður ritgcrða- og teikningasam- keppni í samráði við barnabiaðið ABC, scm tengist starfsemi SVFÍ, og eru vegleg verðlaun í boði. Reynt verður að höfða til unglinga og fá þá frekar til starfs við félagið. „Þeir hafa gaman af að taka í spottann og strengja á klónni,“ sagði Hannes. Hann kynntist sjálfur Slysa- varnafélaginu þegar hann var lítill strákur, eins og hann segir, en faðir hans, Júlíus Hafstein, sýslu- maður á Húsavík, var eldheitur slysavarnamaður og sat um tfma í stjórn SVFÍ fyrir Norðurland og lét mikið til sín taka á því sviði auk þess sem hann er m.a. þekktur fyrir að hafa barist fyrir eflingu og stækkun Landhelgisgæslu. „Maður fékk þetta þannig í sig nokkuð snemma. Ég hóf störf hjá SVFÍ um mánaðamót október og nóvember 1964 og var fyrst í slysa- vörnum á Iandi. Á haustmánuðum 1965 var ég beðinn að taka yfir erindrekastarf í sjóslysavörnum og leit og björgunarstörfum. Við það var ég allar götur til ársins 1973 að ég tók við þvf starfi sem ég gegni í dag. Fyrst hét það framkvæmda- stjóri en nú forstjóri." Nú þegar eru tólf unglingadeildir reknar á vegum SVFÍ. Hinn 7. febrúar nk. verður svo skemmti- dagskrá í Háskólabíói. Margar slysavarnadeildir hafa opið hús nú um helgina til að kynna tæki sfn og búnað og gera grein fyrir starfsem- inni. Raunar er þetta ár allsherjar- afmælisár, ef svo má að orði komast. SVFf verður 60 ára, Sjó- mannadagurinn 50 ára, Tilkynn- ingaskyldan 20 ára, Björgunarfélag Vestmannaeyja 70 ára og hægri umferð á götum 20 ára. Allt snertir þetta Slysavarnafélagið að öllu eða miklu leyti. Hannes Hafstein hefur rætt um brautryðjendur Slysavarnafélags- ins, upphaf starfseminnar og til- gang hennar. Hann segir að verk- efni hennar séu óþrjótandi og að menn verði ávallt að hafa augun opin fyrir nýjum möguleikum til að sporna við slysum. Raunar er ósk hans til allra landsmanna á þessum tfmamótum SVFÍ að þetta ár 1988 megi verða slysalaust ár. Er þar tilgangur starfs hans meitlaður í örfá orð. þj

x

Tíminn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.