Tíminn - 09.02.1988, Blaðsíða 9

Tíminn - 09.02.1988, Blaðsíða 9
Þriðjudagur 9. febrúar 1988 Tíminn 9 fyrirbyggjandi aðgerðir Ávarp heilbrigðisráðherra á heilbrigðisþingi 5. febrúar 1988 Þegar fyrir lá tillaga að heilbrigðisáætlun á sl. vori, taldi ég eðlilegt að halda heilbrigðisþing á þessu ári, sem hefði það verkefni að ræða íslenska heUbrigðisáætlun og leggja þar til grundvallar þá tillögu, sem fyrir lá. Ástæðan fyrir því að þingið er haldið svo snemma á árinu er sú, að ég ætlast til að eftir umfjöllun hér á þinginu verði heilbrigðis- áætlun endurskoðuð með tilliti til ábendinga og athuga- semda og hún síðan lögð fyrir Alþingi til ályktunar. Þegar heilbrigðisáætlunin var lögð fyrir Alþingi á sl. vori, var hún lögð fram sem skýrsla frá þáverandi heil- brigðisráðherra en ekki tekin til umræðu á því þingi. Alþingi hefur því aldrei ályktað í málinu. Undirbúningur þessa heilbrigðis- þings hefur verið í höndum starfs- manna heilbrigðisráðuneytisins og fulltrúa frá landlækni, undir forystu ráðuneytisstjóra. Sjö vinnuhópar hafa starfað að málefnalegum undirbúningi þessa þings. Allir aðilar voru valdir utan ráðuneytis og embættis landlæknis, þannig að algerlega ný sjónarmið kæmust að málinu. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka öllum, sem hafa starfað í vinnuhópum, þá sérstaklega for- mönnum þeirra sem og öllum öðrum, sem að málunum hafa komið. Allir þessir aðilar hafa sýnt málinu áhuga og skilning og hafa átt mikinn þátt í að gera þetta þing að veruleika. Hafið öll mínar bestu þakkir fyrir þessa mikilvægu aðstoð. Heilbrigði fyrir alla Sl. 10 ár hefur verið vaxandi umræða um breytt viðhorf í heil- brigðismálum á alþjóðavettvangi og í framhaldi af því er áætlun Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar um „Heilbrigði allra árið 2000 (Health for All by the year 2000 (HFA 2000))“ til komin. Þessar hugmyndir voru lengi ræddar ;á þingum Alþjóða heilbrigð - ismálastofnunarinnar og þingum hinna ýmsu svæða. Niðurstaðan varð sú, að þjóðir heims urðu sammála um, að leita nýrra leiða til þess að reyna að vinna bug á vandamálum heimsins á heilbrigðissviði. Það er alveg ljóst að vandamál hinna ýmsu þjóða og heimshluta eru mismunandi en þegar á heildina er litið, þá er ávallt hægt að gera betur og þau nýju sjónarmið, sem fram hafa komið eru sett fram til þess að menn líti á vandamálin frá nýjum sjónarhóli og reyni að leita nýrra leiða til lausnar á þeim. Frá því 1984, að svæðisþing Al- þjóða heilbrigðismálastofnunarinn- ar samþykkti markmið Evrópu vegna „Heilbrigði allra árið 2000“, hefur verið ljóst að þjóðir Evrópu ættu að setja sér ný heilbrigðis- markmið. Evrópuþjóðir hafa að sjálfsögðu verið misfljótar að taka við sér í þessu efni. Ég tel, að íslendingar hafi verið tiltölulega fljótir að bregðast við og það þakka ég ekki síst heimsókn dr. Jo Asvalls í ársbyrjun 1986. Heim- sókn hans gerði það að verkum að ríkisstjórnin ályktaði í málinu og það varð upphaf að vinnu við þá heilbrigðisáætlun, sem hér er til umræðu í dag. Heilbrigðisáætlun Nú á tímum finnst okkur öllum áætlanagerð sjálfsagður og nauðsyn- legur hlutur. Við gerum okkur oft ekki grein fyrir því, að áætlanagerð er tiltölulega nýtt form í vinnuað- ferðum og kannski eru menn búnir að gleyma því hve Vestur-Evrópu- búar gerðu lítið úr fyrstu fimm ára áætlunum Rússa fyrstu áratugina eftir rússnesku byltinguna. f íslensku heilbrigðislöggjöfinni er gert ráð fyrir að gerðar séu áætlanir, bæði um fjárfestingar í heilbrigðisþjónustunni og rekstrar- áætlanir fyrir sjúkrastofnanir, en því miður hafa efndir orðið minni en efni stóðu til á þessum sviðum. Ég tel að það væri eðlilegt og verðugt næsta skref, í kjölfar samþykktar á íslenskri heilbrigðisáætlun, að fram- fylgja þessum ákvæðum heilbrigðis- löggjafarinnar. Það kemur mjög oft upp í umræð- unni um heilbrigðisáætlunina, hvað það er, sem fólk væntir af heilbrigð- isþjónustunni og þá vill oft verða svo, að sjónarmiðin eru mismunandi eftir því af hvaða sjónarhóli er horft. Sjúklingar vilja að sjálfsögðu sem besta heilbrigðisþjónustu þ.e. að hún sé veitt eins fljótt og auðið er og að hún kosti ekkert. Heilbrigðisstarfsmenn óska allir eftir góðri heilbrigðisþjónustu en þeir óska einnig eftir því að vinnu- staður þeirra sé uppörvandi, vinnu- tími þægilegur og að launin séu góð. Skattborgararnir óska eftir að heilbrigðisþjónustan kosti sem allra minnst, þannig að skattlagning á íbúana verði ekki of mikil. Við stjórnmálamenn viljum verða við öllum óskum um heilbrigðismál, að minnsta kosti þegar við erum í stjórnarandstöðu og getum með auðveldari hætti tekið undir hinar ýmsu óskir án þess að bera ábyrgð á eða þurfa að taka tillit til ýmissa annarra þátta s.s. tekjuöflunarinn- ar, sem ávallt verður að fylgja aukn- um útgjöldum. Það er mín skoðun, að hvernig sem á mál sé litið, sé heilbrigðisþjón- usta á íslandi í dag mjög góð. Tímabundin vandamál Mjög margir og miklu fleiri en nokkurn tíma áður fá lækningu meina sinna, enn fleiri fá líkn í þrautum sínum, sem kannski er mest um vert. Við vitum það öll, að þjónusta er fyrir hendi ef eitthvað ber snögglega út af, bráður sjúkdóm- ur eða slys. Við vitum líka, að þessi þjónusta fer ekki í manngreinarálit og við vitum það, að við þurfum nánast ekkert að greiða fyrir þjón- ustu þegar við þurfum á henni að halda. Allt eru þetta kostir, sem íslenska velferðarríkið býður upp á. Fáar þjóðir heimsins hafa byggt upp betra heilbrigðiskerfi fyrir þegna sína en við höfum gert. Við heyrum oft í fjölmiðlum upp- hrópanir um, að í heilbrigðisþjón- ustunni ríki öngþveiti. Ég fells ekki á þá túlkun. Vissulega koma upp vandamál í þessari þjónustu eins og annarri. Við vitum að það eru bið- listar á sjúkrahúsum. Við vitum að það er starfsfólksskortur, en við lítum á þetta sem tímabundin vandamál. Það er m.a. hlutverk nýrrar heilbrigðisáætlunar að leita leiða til að leysa úr vandamálum af þessu tagi þannig að allir, sem þjón- ustunnar eiga að njóta, geti vel við unað. Það er alltaf hægt að gera betur og því erum við hingað komin í dag til að ræða ný markmið í heilbrigðis- þjónustunni. Markmið, sem við vilj- um uppfylla á næstu 10-12 árum, sum fyrr önnur seinna. Breytt viðhorf Hinu skulum við ekki gleyma, að áætlun til langs tíma verður aldrei annað en rammi um þær hugmyndir, sem menn hafa um framtíðina. Við verðum að hafa svigrúm í heilbrigð- isáætlun fyrir nýja hugsun, nýja þekkingu og nýjar aðgerðir og við verðum að geta tileinkað okkur þær svo til samstundis. Ég hef áður sagt að heilbrigðis- þjónustan er mismunandi eftir því frá hvaða sjónarhóli horft er. Ég hef heyrt þær raddir að íslendingar hafi ekki notfært sér læknisfræðilega há- tækni eins og vert væri. Jafnframt heyrast þær raddir að við höfum látið einföld heilbrigðissjónarmið lönd og leið fyrir dýr tæki og rann- sóknarmeðferð, sem aðeins nýtist fáum. Það er alveg ljóst að í þessu þarf að fara bil beggja. Ég tel að okkur hafi tekist furðu vel að nýta okkur það besta úr flókinni og dýrri há- tækni í þeim mæli, sem við höfum haft fjármuni til. Þar sem getu okkar sjálfra sleppir höfum við verið óspar- ir á að senda sjúklinga okkar til annarra þjóða og greiða af almennu fé fyrir læknismeðferð þar. Á hinn bóginn tel ég, að ýmislegt, sem bæði er sjálfsagt og tiltölulega ódýrt í heilbrigðisþjónustunni, höfum við hingað til látið ógert og það er ekki síst þess vegna, sem ný heilbrigðis- markmið eru viðruð og væntanlega verða ákveðin. Þegar menn settust niður og fóru að endurskoða heilbrigðisstefnu Vesturlanda fyrir u.þ.b. 10 árum var það vegna þess að menn töldu sig ekki ná meiri heilbrigði þjóðanna með hátækni og dýrri læknisþjón- ustu. Ný heilbrigðismarkmið fyrir Evr- ópusvæðið byggja ekki síst á því, að bæta megi heilbrigði þjóðanna með því að menn leiti aftur til hinna einföldu og tiltölulega ódýru að- ferða, sem byggjast á breyttum við- horfum til lífsins og lífsgæðanna, breyttum lifnaðarháttum og nýjum lífsstíl. Vissulega getum við bætt nokkr- um árum við líf einstaklinga t.d. með kransæðaaðgerðum eins og við hófum fyrir tæplega tveimur árum hér á landi, en þessir einstaklingar sitja áfram uppi með sjúkdóm sinn og næsta kynslóð og þarnæsta kyn- slóð munu fara sömu leið, nema hægt sé að finna orsakirnar fyrir sjúkdómnum. Því er það, að við leitum fyrir- byggjandi leiða, leitum fyrirbyggj- andi aðferða til þess að hjartasjúk- dómarnir, sem voru fátíðir í byrjun þessarar aldar en hafa orðið eins og faraldur um og eftir miðbik hennar, geti aftur fjarað út í lok aldarinnar og byrjun þeirrar næstu. Við megum ekki gleyma því, að hjartasjúkdómarnir taka gífurlega stóran toll og valda mestu um ótíma- bær dauðsföll hjá tiltölulega ungum karlmönnum. Svipuðu máli gegnir um hina aðal- dánarorsök okkar, krabbameinið, þar er leitað leiða fyrst og fremst til þess að greina sjúkdóminn á frum- stigi vegna þess að við vitum ekki nægilega mikið um orsakir, til þess að forvarnastarfið geti orðið jafn markvisst og við teljum að það geti verið í sambandi við hjartasjúk- dóma. 10 millj. kr. vegna alnæmis Tæplega er hægt að ræða um heilbrigðisáætlun næstu áratuga án þess að minnast á alnæmi eða eyðni, enda þótt við vitum ekki enn hve alvarlegur sá sjúkdómur á eftir að reynast, þó allar spár bendi til að hann fari stöðugt vaxandi. Síðustu 4-5 ár hefur verið ljóst að þessi sjúkdómur hefur haldið innreið sína hér á landi eins og í flestum löndum Evrópu og eftir þeim upplýs- ingum, sem við höfum nú, er tíðni hans hér svipuð og gerist að meðal- tali í Evrópulöndum. Lagaákvæði hafa verið sett hér til þess að auðvelda skráningu og eftir- lit og er sjúkdómurinn talinn til kyn- sjúkdóma, enda þó öll skráning sé án þess að nafna sé getið. Þeir sem sýkjast af alnæmi verða því að hlíta reglum um smitnæma sjúkdóma eins og þær eru á hverjum tíma hér á landi. Langstærsti hópur þeirra, sem fundist hafa með mótefni, eru hommar og eiturlyfjaneytendur. Lætur nærri að áhættuhóparnir tveir séu 90% allra sem sýkst hafa. Um sl. áramót höfðu 35 fundist með mót- efni í blóði á íslandi og þeirsvartsýn- ustu telja, að það sé aðeins 10% þeirra þjóðfélagsþegna, sem nú þeg- ar hafa mótefni í blóðinu. Undanfarin ár hefur mikil upplýs- ing um sjúkdóminn farið fram á vegum ráðuneytisins en ráðuneytið hefur falið landlæknisembættinu framkvæmd þessa starfs. Allir blóð- gjafar hafa verið skimaðir síðan í nóvember 1985. Lögð er áhersla á að skima þá, sem koma inn á stofnanir vegna áfengissýki og eitur- lyfjanotkunar og skimunin er nú boð- in vanfærum konum. Á þessu ári eru um 10 millj. kr. á fjárlögum vegna alnæmis og verður mestur hluti þeirrar fjárhæðar not- aður í upplýsinga- kynninga- og áróðursskyni, en nokkur hluti verð- ur notaður til að við getum tekið þátt í norrænu og alþjóðlegu samstarfi, þannig að starfslið í heilbrigðisþjón- ustu geti fylgst með því, sem gerist á þessum vettvangi hvað snertir ieit, eftirlit'meðferð og umönnun. Heilbrigðir lífshættir En víkjum nú að Heilbrigðisáætl- uninni, eins og hún var lögð fyrir Alþingi á sl. vori. I upphafsköflum Heilbrigðisáætl- unarinnar er fyrst og fremst rætt um heilbrigðismál út frá almennum sjónarmiðum. Næsti kafli fjallar um heilbrigða lífshætti og þar er rætt um þau atriði, sem ég hef tæpt á hér að framan. Um manneldismarkmið, um skaðleg áhrif áfengis og tóbaks, um geð- heilsu og um líkamsrækt og þjálfun. í kaflanum um heilbrigðiseftirlit er fyrst og fremst rætt um það hvernig minnka megi líffræðilega, eðlisfræðilega og efnafræðilega áhættuþætti, en einnig er þar rætt um vinnuvernd og slysavarnir. f sjötta kafla áætlunarinnar er rætt um þróun heilbrigðiskerfisins. Þar er rætt um sérstaka þætti, svo sem heilsugæsluna, tannheilsuna, sér- fræðiþjónustu sjúkrahús, öldrunar- lækningar, sjúkratryggingar og ör- orkumat, lyfjamál og skaðabætur til sjúklinga. í sjöunda kaflanum er rætt um framlög til heilbrigðismála og mann- afla þ.e.a.s. fjármuni og fólk. í áttunda kaflanum er rætt um rann- sóknir vegna heilbrigðisþjónustunn- ar og í níunda kaflanum um alþjóða- samstarf. Nefndir þær, sem ég hef rætt um hér að framan, hafa fjallað um þessa kafla hver fyrir sig. Nefndirnar hafa verið að störfum frá því á haustmán- uðum og þær skiluðu áliti nægilega snemma til þess að þið gátuð fengið sérálit þeirra til yfirlesturs fyrir þetta þing. Þar að auki hefur ráðuneytið sent Heilbrigðisáætlunina til umsagnar fjölmargra heilbrigðisstétta og feng- ið viðbrogð margra og ég þakka öllum þeim, sem hafa lagt vinnu í þessar umsagnir. Ég fagna því, að á fyrsta ári mínu sem heilbrigðisráðherra hef ég feng- ið tækifæri til þess að koma á fót heilbrigðisþingi, sem fær það mikil- væga verkefni að fjalla um íslenska heilbrigðisáætlun. Eftir þetta þing mun verða unnið úr öllum þeim gögnum, sem nefndir hafa samið, þeim umsögnum sem aðilar hafa sent til ráðuneytisins og síðast en ekki síst, því sem fram kemur á þessu heilbrigðisþingi. Þegar búið er að samræma það þeim upphaflegu drögum heilbrigð- isáætlunarinnar, sem fyrir liggja, ætla ég að leggja nýja Heilbrigðis- áætlun fram til ályktunar fyrir Al- þingi. Vinnist málin vel verður það hægt á þessu þingi, sem nú situr, og það er von mín að svo verði. Ég vil að lokum endurtaka þakkir mínar til allra þeirra, sem lagt hafa hönd á plóginn við undirbúning þessa heilbrigðisþings svo og til ykk- ar allra, sem sýnið málefninu áhuga með þátttöku í þinginu. Ég vænti þess, að það megi verða sem allra árangursríkast og til heilla í íslensk- um heilbrigðismálum um langa framtíð.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.