Tíminn - 13.10.1988, Blaðsíða 9

Tíminn - 13.10.1988, Blaðsíða 9
Fimmtudagur 13. október 1988 Tíminn 9 llllllllllllll BÓKMENNTIR Senn er vor í Breidaf irði í tilefni af áttræðisafmæli Steins Steinn Steinarr skáld var fæddur hinn 13. október 1908, en lést tæplega fimmtugur vorið 1958. í dag hefði hann því orðið áttræður ef honum hefði orðið nægilega margra lífdaga auðið. Það er eiginlega dálítið gaman að því fyrir menn hér á Tímanum að fyrsta kvæðið, sem vitað er til að Steinn hafí birt á prenti, mun hafa komið hér í blaðinu í mars árið 1931. Er um það efni stuðst við bók Sigfúsar Daðasonar um Stein, sem út kom fyrir jólin í fyrra. Steinn Steinarr skáld. Sigvaldi Kaldalóns Þetta fyrsta prentaða ljóð Steins er afmæliskvæði til Sigvalda Kalda- lóns tónskálds sem varð fimmtugur í janúar það ár. Ekki tók Steinn þetta verk í ljóðabækur sínar og veit ég ekki til að það hafi verið prentað aftur fyrr en í bók Sigfúsar. Þetta ljóð heitir Til Kaldalóns, fimmtíu ára. er sjö erindi og hefst þannig: Er skuggarnir jördinni skýla og skammdegið svartast er, við svífum til sólheitra landa á söngvanna vængjum, með þér. Pú syngur um æskunnar elda og ævintýranna þor. Með Ijósi frá listanna hæðum lýsirðu heimkynni vor. Þú gafst okkur sólríka söngva um sagnir frá gamalli tíð, um sumarið, æskunnar ástir og einmana förulýð. Niðurlagserindið er þannig: Ég óska þér lífdaga langra með lifandi, starfandi þrótt úrskammdegismyrkrinu‘ að skapa skínandi Jónsmessunótt. Kvæðið er kirfilega merkt með nafninu Aðalsteinn Kristmunds- son, sem eins og menn vita var manntalsnafn Steins. Þarf því ekki að efast um höfundinn, þó að Steins nafnið hafi ekki verið komið til sögunnar hjá honum þarna. Hefðbundið form Annars er það sannast sagna að þetta ljóð er forvitnilegt til skoðun- ar. Efnislega er það kannski ekki tiltakanlega frumlegt, enda höf- undurinn ungur, aðeins tuttugu og tveggja ára. Og þó er það hlýlega ort, og langt frá því að þetta sé ljóð sem nokkur myndi þurfa að skammast sín fyrir. En þar sem við vitum í dag að þarna var að vaxa upp eitt helsta formbyltingarskáld þjóðarinnar þá er áhugavert að athuga á ljóðinu formið. Og þegar menn skoða þá vekur athygli hvað þarna er alfarið ort innan hinnar gömlu íslensku ljóðhefðar. Stuðlar og höfuðstafir eru hér allir á hárréttum stöðum eftir gömlu reglunum, og endarím- ið er á sínum stað, að vísu aðeins í jöfnu línunum en ekki þeim stöku, en slíkt frjálsræði voru skáldin raunar farin að leyfa sér á þessum tíma. Þótt hrynjandi sé örlítið óregluleg þá er það ekki meira en svo að teljast má innan allra marka hins hefðbundna forms. Eggert Snorri Ef miðað er við prentuð ljóð Steins þá er erfiljóðið Eggert Snorri trúlega annað í aldursröð- inni. Það mun vera frá svipuðum tíma og hitt, en Steinn tók það þó ekki heldur upp í ljóðabækur sínar, og mun það hafa verið frumprent- að í Kvæðasafni og greinum (1964). Það hefst á þessu erindi: Egminnistþín ívorsins bláa veldi, er vonir okkar stefndu að sama marki, þær týndust ei í heimsins glaum og harki, og hugann glöddu á björtu sumarkveldi. Hér vekur hið sama aftur athygli, skáldið yrkir undir hefðbundnu formi, rímar og stuðlar eftir öllum kúnstarinnar reglum og notar raun- ar vel þekktan bragarhátt, sonnett- una. Yfir djúpin Samkvæmt bók Sigfúsar Daða- sonar munu svo næst í röðinni af prentuðum ljóðum Steins vera fimm ljóð sem hann birti undir Steins nafninu í Lögréttu árið eftir, 1932. Tvö þeirra tók hann svo upp í fyrstu Ijóðabók sína, Rauður loginn brann (1934), en hin þrjú voru endurprentuð í Kvæðasafni og greinum. Þessi ljóð eru Yfir djúpin dagur skín, Gamalt lag, Sýnir, Ljóð og Söngvarinn. Þar gegnir enn sama máli að því er formið varðar. Við getum til dæmis litið á fyrsta ljóðið af þessum fimm, það er þrjú erindi og hið fyrsta hljóðar þannig: Yfir djúpin dagur skín dreifist myrkrið kalda. Breiðist Ijóssins bjarta lín um bláa öldufalda. Viðskulum útá unnarslóðirhalda. Hér gegnir enn sama máli og í ljóðunum um þá Sigvalda Kalda- lóns og Eggert Snorra. Steinn notar hér hefðbundið form, og í þessu ljóði leikur hann sér raunar einnig með viðlag í þjóðkvæðastíl, líkt og mörg skáld höfðu gert á undan honum á liðnum öldum. Og þannig mætti halda áfram og lesa hin ljóðin fjögur, því að í þeim öllum á það enn við að formið er hefð- bundið. Og það sem auk þess skiptir hér ekki minnstu máli er að öll þessi fyrstu verk, sem skáldið birti, bera þess skýran vott að hann hefur haft mjög gott vald á hefð- bundnu ljóðformi. Eyðilagt rím í frægu viðtali, sem Matthías Johannessen ritstjóri og skáld tók á sínum tíma við Stein, svarar hann m.a. með þessum orðum beiðni Matthíasar um viðtal: „Viðtal. Það er ómögulegt. Nei, nei. Það á ekki að tala við mig. Það borgar sig ekki. Það hefur enga þýðingu! Ég er ekki neitt, ég er ekki einu sinni meðlimur í stjórn- málaflokki - og þar að auki hef ég alltaf verið talinn hættulegur maður. - Veistu hvað ég hef forfært margar einfaldar sálir á lífsleið- inni? Hef ég ekki eyðilagt rímið? Hef ég ekki demóralíserað ung- dóminn í landinu?... “ Hætt er við að margir hafi þá hugmynd helsta um Stein að hans sé nú fyrst og fremst minnst fyrir það að hafa einmitt „eyðilagt rírnið". Með öðrum orðum að þýðing hans í bókmenntasögunni sé sú að hann hafi greitt rími og ljóðstafasetningu það banahögg sem síðan hafi dugað til að útrýma hvorutveggju. Nú er það vissulega satt og rétt að mikið af órímuðum ljóðum liggur eftir Stein. Og hitt er jafnrétt að frægasta verk hans, Tíminn og vatnið, er ort undir ákaflega frjálsu og óbundnu formi. Það er verk sem flestum, sem lesa, ber saman um að sé ákaflega mikill og skemmtilegur skáldskapur, en aft- ur á móti vefst það töluvert meira fyrir mönnum að skilja hvað skáld- ið sé þar að fara. Dugar þar langtífrá til fulls þó að ýmsir menn hafi skrifað um það skýringargrein- ar af miklum lærdómi. En hitt er annað mál að dæmið um fyrstu Ijóð hans, sem hér var rakið, sýnir það svart á hvítu að Steinn hefur byrjað sem ákaflega hefðbundið skáld. Hann hefur með öðrum orðum stokkið fram á vígvöll ljóðagerðar- innar í fullum herklæðum hins hefðbundna forms, svo að gripið sé til líkingamáls. Hann hefur byrjað á því að ná fullum tökum á gamla forminu og birt verk sín undir því fyrsta kastið. Ekki fyrstur Það er líka algengur og furðu útbreiddur misskilningur að Steinn hafi verið fyrstur til þess að yrkja órímað á íslensku. Reyndar eru ótal dæmi þess úr íslenskri ljóða- gerð allt frá elstu tímum að Ijóð hafi verið ort undir tiltölulega frjálsu formi. Til dæmis má minna á Eddukvæðin sem eru rímlaus, að ekki sé talað um dansana sem ortir eru undir ákaflega laust bundnum bragarháttum. Sannleikurinn er líka sá að fast- bundið form var kannski fyrst og fremst bundið við dróttkvæðin að fornu, og eftir það við arftaka þeirra, rímurnar. Síðan má segja að það hafi verið kröfuharka Guðbrandar Þorlákssonar biskups sem réði mestu um að það varð hér viðtekin regla að lúterskir sálmar skyldu ortir eftir hefðbundnum reglum um hrynjandi, rím og ljóð- stafasetningu. Sú hefð hélst hér furðu lengi, eða allt fram á þessa öld, og hún hafði í rauninni ótrú- lega mikil áhrif á veraldlega Ijóða- gerð einnig mestallan þann tíma. Aftur á móti fer því víðs fjarri að Steinn hafi orðið fyrstur hér til að gera tilraunir með óbundin eða formlaus Ijóð. Ekki þarf að blaða lengi í ljóðabókum frá fyrstu ára- tugum þessarar aldar til að sjá að þar eru formkröfurnar víða á miklu undanhaldi. Skáldin gera þar hvert af öðru tilraunir með meiri eða minni formleysur, og til dæmis er þar talsvert um að slakað sé á að því er varðar kröfurnar um rím í hverju vísuorði, svipað því sem við sáum reyndar hér að ofan í kvæði Steins til Sigvalda Kaldalóns' Eða man kannski einhver hvernig Svarfar fjaðrir Davíðs Stefánsson- ar frá 1919 byrja: Sestu hérna hjá mér, svstir mín góð. I kvöld skulum við vera kyrrlát og hljóð. Tilraunir með prósaljóð og önn- ur ljóð undir frjálsu formi voru menn líka farnir að gera hér tals- vert fyrir daga Steins. Elsta tilraun- in, sem ég þekki, er eftir Jón Ólafsson og frá seinni hluta aldar- innar sem leið. Og ýmis vel þekkt formfrjáls Ijóð má einnig nefna eftir skáld sem voru talsvert eldri en Steinn, svo sem Sorg Jóhanns Sigurjónssonar og Söknuð eftir Jóhann Jónsson. Því fer þess vegna fjarri að Steinn hafi sem formbylt- ingarskáld komið fram líkt og Aþena sem stökk víst alsköpuð út úr höfði Seifs. Hann skákaði einnig þar í skjóli nokkurrar hefðar. Menntað skLld Ef til vill má taka hér svo til orða að í Ijósi þessa hafi höfuðstyrkur Steins legið í því hvað hann var í rauninni vel menntaður sem skáld. Það er Ijóst að hann hefur verið ákaflega vel heima í öllum grund- vallarreglum þeirrar ljóðagerðar sem á undan honum fór og hann tók vitaskuld í arf. Þegar Ijóð hans eru skoðuð með þetta í huga kemur svo enn betur í ljós að hann hefur tekið flesta sína útgangs- punkta sem skáld hér innanlands. Og eins er hitt ljóst að hann hefur alla tíð vitað ákaflega vel hvað hann var að gera, jafnt að því er form og efni varðaði. Þetta fer svo saman við hitt að af gjörvallri Ijóðagerð Steins er ljóst að hann hefur verið gæddur óvana- lega næmri og fíngerðri skáldgáfu. Hjá honum hafa farið saman mikil hugmyndaauðgi og örugg tilfinning fyrir því hvað ætti heima og hvað ekki í ljóði. Af þeim sökum eru til dæmis efnislegar smekkleysur ákaflega fáséðar hjá honum. Og hann hefur líka haft ákaflega trausta og örugga formgáfu. Það innifelur meðal annars að hann hefur haft verulega gott vald yfir móðurmálinu og kunnað einstak- lega vel að fella það í fastar skorður. Og það tekur einnig og ekki síður til þess að hann hefur haft fágætlega næma tilfinningu fyrir sjálfu Ijóðforminu, sem og þvf hvað mætti bjóða slíku formi. Upp úr þessu öllu eru meistaraverk hans á sviði ljóðagerðar svo sprottin. Líka hagmæltur Kannski kemur það einhverjum á óvart ef því er haldið fram um stórskáld á borð við Stein að slíkur maður hafi verið hagmæltur. Má meir en vera að einhverjum kunni jafnvel að finnast að í slíkri eink- unnargjöf sé á ferðinni tilraun til þess að lítillækka skáldið. En þegar betur er eftir gáð hygg ég þó að því megi halda fram um Stein, án nokkurs konar tilraunar til lítillækkunar, að hann hafi bæði verið stórskáld og ofan í kaupið prýðisvel hagmæltur einnig. Um þetta trúi ég varla að þurfi að vera deildar meiningar. Sannleikurinn er vitaskuld sá að Steinn orti mörg og stórbrotin Ijóð undir frjálsu formi, sem ekki þarf að taka fram að skipa honum í fremstu röð á skáldabekk. En það eru líka til ágætar og jafnvel frá- bærar vísur eftir hann. I því sam- bandi er til dæmis fróðlegt að skoða Hlíðar-Jóns rímur hans. Þar er meðal margs annars þessi oddhenda: Lífs um angurs víðan vang víst ég ganginn herði, eikin spanga, í þitt fang oft mig langa gerði. Og þessi braghenda sem margir þekkja: Sama er mér hvað sagt er hér á Suðurnesjum. Svört þótt gleymskan söng minn hirði, senn er vor í Breiðafirði. Og undir nýhenduhætti Sigurðar Breiðfjörð yrkir hann þarna m.a. hringhendur á borð við þessa: Hækkar öngu hagur minn, heims á göngu þynnist vangi, hringaspöngin hýr á kinn, hlýtt er löngum þér í fangi. Svona yrkir enginn rímskussi. Það þarf prýðisgóðan hagyrðing til. Og það hefur Steinn verið, jafnframt því sem hann var mikið skáld líka. Þetta frægasta formbyltingarskáld þjóðarinnar réði með öðrum orð- um aldeilis prýðilega við vísna- og rímnaformið gamla þegar hann vildi það vera láta. Orsök eða ekki Nú skal engum getum að því leitt hér hvort þessi formgáfa Steins hafi verið orsök þess eða ekki hve vel honum tókst til í glímunni við formlausu Ijóðin líka. Vitaskuld geta menn verið bullandi hag- mælskir án þess að ráða við að setja saman órímuð ljóð. Og jafn- satt kann hitt að vera að menn geti ort vel órímað án þess að ráða við að koma saman einföldustu fer- skeytlu. En hitt er annað mál að á áttræðisafmæli Steins má vera full þörf á cð minna sérstaklega á það að hann var miklu meira heldur en maðurinn sem á að hafa „eyðilagt rímið“, svo að notað sé hans eigið orðalag. Hann var líka bæði snill- ingur og stórskáld. Rætur hans voru í innlendu rímhefðinni, og hann kunni vel að fara með hana þegar svo bar undir. Hins vegar var svo komið um hans daga að form- festan gamla var farin að ganga sér til húðar. í stað þess að skapa veglegar umgjarðir utan um hugs- anir skáldanna var hún farin að verða þeim fjötur um fót. Þetta hefur Steinn skilið og brugðist við því á viðeigandi hátt með byltingarkenndum skáldskap sínum. Þess vegna eru ljóð hans mörg hver undir frjálsu formi. En þau eru snilldarverk vegna þess að höfundur þeirra var snillingur í meðferð móðurmálsins, hvort heldur var í viðjum ríms og stuðla eða án þeirra. Ekki vegna þess eins saman endilega að formið væri frjálst. Hins vegar hefur slíkt form mjög trúlega auðveldað ljóðunum leiðina að samtíð sinni. Þetta var form samtímans. Og þess vegna voru þau lesin, eru enn lesin og verða vafalaust enn um langa framtfð. -esig

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.