Tíminn - 03.12.1988, Page 10

Tíminn - 03.12.1988, Page 10
10 HELGIN Laugardagur 3. desember 1988 Drýgði hún blóðskömm með föður sínum - Alexander páfa? Löngum hefur Lucrezia Borgia verið talin meðal gjörspilltra kvenna. En var hún jafn slæm og sagt er? Líklega er Lucrezia Borgia ein alræmdasta kona sögunnar, hvort sem er með réttu eða röngu, enda var hún af þeirri ætt sem spilltust hefur verið talin í augum samtíma síns og seinni alda manna. Henni hafa verið ætlaðir hinir ótrúlegustu glæpir, þar á meðal blóð- skömm og ekki aðeins með Cesare bróður sínum - heldur líka með föður sínum, páfanum Alexander 6. Lucrezia Borgia. Eiginmennirnir urðu fæstir langlífir. Borgiaættin var vissulega skelfi- legur óaldarlýður, en verðskuldar Lucrezia þann dóm sem hún hefur hlotið? Þeir sem um hana hafa ritað hafa komist að þeirri niðurstöðu að hún hafi verið peð í valdatafli hinna fjölgáfuðu en samviskulausu karla, sem til Borgiaættarinnar töldust. Peir fórnuðu henni á altari taum- lausrar metorðagirndar sinnar. Vegna áhrifa þeirra og athafna varð hún „fyrirlitlegasta kvenpersóna sinnar aldar“. Hún var uppi á tíma þegar hug- myndir manna um siðferði og rétt- læti voru allt aðrar en nú er. Aðeins sú staðreynd að faðir hennar, lífs- nautnamaðurinn Rodrigo Borgia, gat orðið höfuð kaþólsku kirkjunn- ar, sannar það. En sagnfræðingurinn Gregorovíus, sá maður er mest er vitnað til er Lucreziu ber á góma hefur sagt: „Hún var hvorki betri né verri en aðrar konur um hennar daga. Hún var skeytingarlaus og vildi njóta lífsins." Hefði hún ekki verið dóttir Alex- anders páfa og systir Cesare Borgia, mundu sagnfræðingar ekki hafa gef- ið henni neinn verulegan gaum og hennar hefði í mesta lagi verið getið sem einnar þeirra heillandi kvenna, sem settu -svip á hið glaða líf í Rómaborg. En í höndum bróður síns og föður varð hún að verkfæri og um leið fórnarlamb pólitískra vélabragða, sem hún hafði ekkert bolmagn til að andæfa. Þeir er skrásettu samtíma hennar, byggðu mjög á hneykslissögum, dylgjum og orðrómi alls konar og þeir áttu sameiginlegt hatrið til Borgianna. Þanniggerðu þeirLucre- ziu að fádæma skrímsli og sú mynd af henni hefur reynst lífseig. Fjölskylda hennar var uppruna- lega spænsk og hafði ekki átt sér eins eða neins konar frægðarferil. En hún hófst til ódæma metorða á örskömmum tíma eftir að hún flutt- ist til Ítalíu. Innan fjölskyldunnar höfðu líka vaxið úr grasi margir afburða greindir menn, orðlagðir fyrir fríðleika, hæfileika og metnað. Einn af þeim var Rodrigo Borgia, kardináli, sem gat mörg börn með hjákonu sinni, fríðleiksdísinni Van- nozzu. Tvö þeirra barna voru Lucre- zia og hinn illa þokkaði bróðir hennar, Cesare. Þrettán ára brúður Lucrezia fæddist þann 18. apríl 1480. Hún var alin upp í húsi móður sinnar við Piazza Pizzo di Merlo, sem var rétt hjá höll kardinálans, föður hennar. Rodrigo viðurkenndi ekki börnin sem sín eigin, fyrr en eftir að hann var orðinn páfi og fullkomlega viss um vald sitt. Ekki var hún orðin ellefu ára, þegar fyrsti biðillinn gaf sig fram. Tveimur mánuðum síðar kom enn einn fram á sjónarsviðið, en báðum var hafnað sem of lítilsigldum, eftir að Rodrigo hafði sett upp hina þreföldu kórónu páfadómsins. Hann fól hana nú umsjá tveggja kvenna, sem hann treysti vel. Önnur var frænka hans og trúnaðarmaður, Adriana di Mila, sem gift var inn í Orsini ættina. Hin var tengdadóttir hennar, Giulina Farnese, glæsileg tignarkona sem lýst var svo að hún væri „ljóð úr gulli og fílabeini" og hún varð kunnasta hjákona páfans. Þessar mektarfrúr dekruðu við Lu- creziu, eins og hún væri viðkvæm skrautjurt í gróðurhúsi. Þær önnuð- ust hana og varðveittu í höllinni Palazzo di Santa Maria, uns hún var undir fyrsta brúðkaup sitt búin. Þrettán ára var Lucrezia Ijóshærð og tíguleg með langan, hvítan háls og tennur svo fagrar sem perlur. Hún þótti því aldeilis boðleg hinum myndarlega pilti, Giovanni Sforza, lávarði af Pesaro. Þau voru gift með stórkostlegri viðhöfn og helmingi íbúa Rómar boðið til fagnaðarins. En brúðkaupið entist ekki lengi. Borgiafeðgar sáu til þess. Þeim varð skjótt Ijóst að þeir höfðu spilað trompi úr höndum sér með því að gifta Lucreziu Sforza lávarði, þegar þeir hefðu getað notað hana sem gjaldmiðil til að ná ítökum í hinni voldugu Aragon ætt. Þeir ákváðu því að losa sig við þennan aumkunar- verða eiginmann. Aðferðin hefði ekki getað verið meir auðmýkjandi. Þeir tilkynntu opinberlega að Sforza hefði reynst getulaus og að kona hans væri því enn hrein mey. Lávarðurinn af Pesa- ro varð afskaplega móðgaður og kallaði alla dýrlinga dagatalsins til vitnis um að hann væri til alls fær sem karlmaður og hefði „notið konu sinnar holdlega ótal sinnum“. Er hann nú var rifinn úr örmum þessar- ar barnungu konu sinnar, sór hann að koma fram hefndum á þeim Borgium. En völd þeirra voru of mikil. Þeir neyddu hann til þess að undirrita skjal, þar sem hann viður- kenndi getuleysið og hann flúði frá Róm, áður en eitthvað enn verra mundi henda hann. Hneykslunum fjölgar Þótt Lucrezia hefði ekki verið mótfallin þessum fyrsta ráðahag, beygði hún sig orðalaust undir ákvörðun fjölskyldunnar og settist um kyrrt um hríð í klaustrinu San Sisto við Via Appia, til þess að auka á meyjarímynd sína, áður en hún giftist aftur. Þegar hún fór úr klaustr- inu er sagt að nunnurnar hafi varpað öndinni léttara, þar sem hún hafi umbreytt klaustrinu í miðstöð skemmtana og lausungarlifnaðar. f febrúar 1498 flaug sú fregn um Róm að Lucrezia væri ólétt. Elsk- huginn var sagður spánskur herra- maður við hirð páfa, Pedro Calde- ron, kallaður Perotto. Hann var annálaður kvennamaður og hefði því verið vís til að girnast hana og reyna að koma vilja sínum fram við hana. Cesare lét varpa Perotto í fangelsi og skömmu síðar fannst lík hans á floti í Tíber. Það var þetta atvik sem kom af stað flestum sögunum um að sifja- spell ættu sér stað innan Borgia fjölskyldunnar. Cesare, sem var stórglæsilegur maður, harður og miskunnarlaus, elskaði systur sína án nokkurs vafa og það svo ákaft að það virtist ekki með öllu eðlilegt. Vel má vera að hann hafi því gimst hana holdlega, þótt engar órækar sannanir séu fyrir því. En almanna- rómur sagði að barn sem Lucrezia bar undir belti væri ávöxtur blóð- skammar. Sforza henti orðróminn á lofti og bar það á Lucreziu að hún sængaði ekki aðeins hjá bróður sínum, heldur og páfanum, föður sínum. En hver svo sem sannleikurinn var, þá fæddi hún barn í mars 1498, sem seinna varð hertogi af Nepi. Líklega mun Perotto hafa verið faðir þess. Hann ólst upp hjá Lucre- ziu, en hún kallaði hann ávallt „litla bróður". Aðrir kölluðu hann því tvíræða nafni „Rómarbarnið". Hann var löngum umvafinn þokum hins dularfulla. Nýr eiginmaður Til næsta hjónabands Lucreziu varlíka stofnað af pólitískum ástæð- um. Brúðguminn var Alfonso, frændi konungsins af Napolí, sem gerði hann að hertoga af Bisceglie, í tilefni af ráðahagnum. Hann var stómm feitari bráð en vesalings Sforza. Fyrir hans tilstilli vonaðist Cesare til að komast inn á gafl hjá Aragon fjölskyldunni. Allt leit vel út í byrjun. Þegar Lucrezia sá þennan myndarlega her- toga í fyrsta skipti, varð hún sam- stundis ásthrifin af honum. Þótt til hjónabandsins væri stofnað af svo kaldrifjuðum hvötum, var greinilegt að hjónabandið mundi verða girnd- arráð. Cesare Borgia tók honum ákaflega vinsamlega og þegar brúð- kaupið fór fram sex dögum eftir komu hans til Rómar, var ekki horft í neinn kostnað, svo það mætti vera sem veglegast. Alfonso hét að dvelja í Róm f eitt ár, áður en hann færi með hana til heimahaga sinna. Sýndist allt með felldu, þar til hinn blóðþyrsti Cesare hóf að spá í pólitísku hliðarnar á ný. Leið ekki á löngu þar til hann og eiginmaður systurinnar voru orðnir verstu óvinir. Margir gátu sér til um hvað Cesare ætlaðist fyrir og báðu guð fyrir hertoganum af Bisceglie. Kvöld nokkurt kom Alfonso í heimsókn í Vatikanið. Þegar hann hafði kvatt og var á leið heim í Santa Maria höllina og gekk yfir St. Péturs torgið, varð hann fyrir grimmúðlegri árás. Vinir hans báru hann heim nær dauða en lífi, með höfuðkúpubrot og hræðileg sár á baki og fótum. Lucrezia var næstum fallin í yfirlið þegar hún sá hann. Hún hjúkraði honum af mikilli umhyggju og kom honum til heilsu, en Cesare var ráðinn í að ljúka því verki sem ekki hafði heppnast í fyrstu atrennu. Einn daginn, þegar Alfonso lá fyrir heima hjá sér, braust flokkur illræðismanna inn í híbýli hans og einn þeirra, víðkunnur kyrkinga- meistari, hafði drepið hann áður en hann gat svo mikið sem hrópað á hjálp. Með þessu máli hafði Cesare komist að nýjum áfanga í glæpaverk- um sínum og enginn lagði trúnað á þau orð hans að hertoginn af Bisceg- lie hefði ógnað honum. Skuggalegar skemmtanir Lucrezia var nú send í burtu frá Róm til kastalans í Nepi, þar sem hún syrgði bónda sinn ákaft um hríð. En hún var samt sem áður af Borgia ættinn og þrátt fyrir ást sína á Alfonso, þerraði hún bráðlega tárin og beið þess nú er bræður hennar og faðir ætluðu henni. Faðir hennar bauð henni nú að koma til Vatikansins bg hún reyndi að skemmta sér sem best hún gat, þrátt fyrir að nýlega væri hún orðin ekkja. Uggvænlegur orðrómur komst á kreik um nætursvall hennar. í einu samkvæmi átti Cesare að hafa stráð sjóðheitum hnetum yfir gólfið á stofum páfa, þar sem fyrir hafði verið komið ógrynni af logandi kertum. Voru naktar gleðikonur látnar skríða um á gólfinu og tína upp hneturnar á milli kertanna. Þá átti að hafa verið efnt til samræðis- keppni og verðlaun veitt fyrir besta frammistöðu og klámfengnar leik- sýningar voru haldnar. Þetta þótti minna á ólifnaðarsukk hinna fornu Rómarkeisara. Ekki eru þó til neinar sögur um að Lucrezia hafi gerst þarna virkur þátttakandi. Raunar tók nú að fara orð af henni fyrir manngæsku og guðshræðslu. Þriðji eiginmaðurinn Brátt var hún kynnt fyrir enn einu mannsefninu. Borgiarnir höfðu afráðið að mægjast við hina gömlu og virtu d’Este fjölskyldu, en samn- ingar höfðu ekki gengið jafn vel og menn vonuðu. Sá er þeir höfðu augastað á var Alfonso d’Este, sonur hertogans af Ferrara. Honum hraus hugur við að ganga í eina sæng með svo alræmdum kvenmanni. Hann hafði líka áhyggjur af að örlög sín kynnu að verða þau sömu og forvera hans. En faðir hans var óðfús að láta samninga takast og kvaðst hann mundi ganga að eiga Lucreziu sjálfur, gæfi sonurinn sig ekki. Fjölskyldurnar ræddu málin aftur og fram og loks innti páfinn af hendi ótrúlega upphæð sem heimanmund með dóttur sinni. Var það þó aðeins helmingur þess sem krafist var. Þannig var Lucrezia gefin í þriðja sinn og gift með mikilli viðhöfn. í brúðkaupsveislunni sást hún dansa af feikna kæti við bróður sinn, þann er verið hafði svo iðinn við að koma henni í ekkjustandið. Hún kvaddi nú föður sinn í hinsta sinn og flutti frá Róm með manni sínum. Farangurinn var mikill, ósköpin öll af dýrindis fatnaði, ómetanleg listaverk og skartgripir og glæstustu húsgögn. Hún bjó sig þannig undir að eyða ævidögunum við hlið prinsins mikla af Ferrara. Þau settust að í hinum eldforna kastala ættarinnar í Vecchio, þar sem henni tókst að gera hann dauð- ástfanginn af sér, með persónutöfr- um sínum og glaðværð. Um skeið var hún áfram á milli tannanna á mönnum. Nafn hennar var tengt við skáldið Pietro Bembo. Var hún ástkona hans? Enginn veit. Ljóð hans voru sögð samin við eld minninga um brímastundir þeirra saman. Hættulegri voru þó kynni hennar við Ercole Strozzi, ofsafeng- ið, ungt skáld, sem reyndi ekki að dylja ást sína á henni. Það varð mikið uppnám þegar Strozzi fannst dauður á götum úti, vafinn innan í hempu, allur þakinn sárum eftir hnífsstungur. Þeir er mest hötuðu Borgiana sögðu að hún hefði skipulagt morðið í afbrýði vegn þess að skáldið hugðist kvænast. Aðrir álitu að Strozzi hefði vitað of mikið og að ýmsir hefðu óttast að hann léti uppiskátt um gjafir þær er hann hefði þegið af konu prinsins af Ferrara. Tíminn leið. Hún varð hertogafrú af Ferrara og skáld og lærdómsmenn tóku að gefa aðra mynd af hertoga- frúnni - að hún væri dyggðum prýdd, engill miskunnseminnar og fullkom- lega vammlaus á allan hátt. Þessi nýja mynd var víst ekki síður ýkt en sú gamla. En þegar hún lést af barnsförum í júní árið 1519 naut hún aðdáunar og álits þeirra sem þekktu hana. Her- toginn af Ferrara syrgði hana einlæg- lega og ræddi jafnan um hana sem „mína elskulegu eiginkonu".

x

Tíminn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.