Tíminn - 23.12.1988, Blaðsíða 9

Tíminn - 23.12.1988, Blaðsíða 9
Föstudagur 23. desember 1988 Tíminn 9 llllllll! BÓKMENNTIR Bók í hugmynda- fræðilegu hafti Jakob F. Asgeirsson: Þjóð i hafti. Almenna bókafélagið, Reykjavík, 1988. f hörðum kili 390 bls. Bók Jakobs F. Ásgeirssonar, „Þjóð í hafti" fjallar um 30 ára tímabil íslenskrar sögu eða árin frá um 1930 fram til um 1960. Tilgangur höfundar er að sýna fram á að innflutningshömlur og aðrar hömlur sem stjórnvöld innleiddu á þessu tímabili hafi drepið atvinnulífið í dróma, hægt á hagvexti og leitt af sér hvers kyns pólitíska spillingu og óeðlilega fyrirgreiðslu. Strax á bókarkápu er gefið í skyn með eftirfarandi orðum að hér sé ekki um almenna hlutlæga úttekt á þessu áhugaverða viðfangsefni að ræða: „Þjóð í hafti er ítarleg úttekt á þrjátíu ára sögu verslunarfjötra á íslandi, 1931-1960. í bókinni erfjöl- margt dregið fram í dagsljósið sem legið hefur í þagnargildi. Inn í sjálfa haftasöguna er auk þess tvinnuð almenn efnahags- og stjómmálasaga tímabilsins.“ Gildishlaðin hugtök, eins og „verslunarfjötrar" og í raun gildishlaðin lykilhugtök eins „hafta- tímabil“ gefa forsmekkinn af því sem koma skal. Enda fer höfundur í engar felur með það að hann er að rita sögu þessa tímabils út frá sjónar- hóli frjálsrar verslunar og verslunar- stétta á íslandi. í greinargerð fyrir tilurð bókarinnar segir Jakob F. Ásgeirsson m. a.: „Ekki er hér um að ræða „hlutlaust“ rit í þeim skilningi að öllum sjónarmiðum sé gert jafn hátt undir höfði. En þó afstaða höfundar sé afdráttarlaus, þá hefur hann engu að síður reynt að gæta þess að halla hvergi réttu máli við meðferð heimilda.“ (bls.9) Og rétt til áréttingar því hvers konar bók hér er á ferðinni ber að geta þess að upphaflega er hún rituð að frum- kvæði samtakanna „Viðskipti og verslun" sem eru útbreiðslusamtök Bílgreinasambandsins, Félags ís- lenskra stórkaupmanna, Kaup- mannasamtaka Islands, Landssam- bands verslunarmanna, Lífeyris- sjóðs verslunarmanna, Verslunar- banka íslands, Verslunarmannafé- lags Reykjavíkur og sfðast en ekki síst Verslunarráðs fslands. Tilefnið er að minnast þess að 200 ár voru í fyrra liðin frá því að einokunarversl- uninni var hnekkt, en útgáfusamn- ingurinn var síðan framseldur til Almenna bókafélagsins sem nú gef- ur út bókina. Að þessu sögðu er rétt að fara nokkrum orðum um það hvernig Jakobi tekst að sannfæra lesandann um þá kenningu sína (og væntanlega hagsmunaaðila í verslun) að verslun- arhöft þessa umrædda tímabils sýni að slíkar aðgerðir leiði, þegar til lengri tíma er litið, til ófarnaðar og öfugþróunar í efnahagsmálum á ís- landi. Vegna þess að í ritdómi í dagblaði yrði full langt mál að tína til einhver þeirra fjölmörgu dæma sem Jakob fjallar um í bók sinni, verður hér eingöngu rætt um þá grundvallar- röksemdafærslu sem öll bókin bygg- ist á og er hún eitthvað á þessa leið: Allt umrætt tímabil var fylgt fast- gengisstefnu, svo notað sé kunnug- legt orð úr umræðum dagsins. M.ö.o. íslenska krónan varverðlögð allt of hátt miðað við efnahagsað- stæður hérlendis. Þetta er þekkt umræða í dag og Jakob gerir sér far um að útskýra hvernig þetta bitnar á útflutningsatvinnuvegunum og held- ur uppi falskri kaupgetu í landinu. Með því að halda gengi íslensku krónunnar þetta háu fást færri krón- ur fyrir útflutninginn en verðlagi innflutts varnings er haldið niðri og ef ekkert er að gert leiðir þetta vitskuld til óheyrilegs viðskiptahalla og gjaldeyrisþurrðar á tiltölulega skömmum tíma. Hömlur þær sem settar voru á verslunina og gjaldeyr- iseyðslu og Jakob er svo ósáttur við eru til komin sem tilraun til að draga úr innflutningi og gjaldeyriseyðsl- unni án þess að fella gengið og rýra þannig kaupmátt stórlega. í nokkuð löngu máli útskýrir Jakob síðan að þetta hafi ekki tekist og í staðinn fyrir þær vörur sem ekki mátti flytja inn komu aðrar, glingur og ónauð- synjavörur, sem ekki voru á bann- listunum. Eitt leiddi síðan af öðru og til þess að innflutningshöftin gerðu gagn varð stjórnunin og útfærslan á þeim víðtækari og náði til fleiri og fleiri atriða. Það aftur gaf tækifæri til misnotkunar við úthlutun leyfa, svartamarkaðsbrasks og spillingar, sem Jakob segir að hafi átt sér stað með skipulegum hætti - og eins og við er að búast gerir hann mikið úr því hversu skarðan hlut kaupmenn báru frá borði og hversu ríkulegur hlutur kaupfélaganna og SÍS varð. í mjög grófum dráttum er þetta uppistaðan í röksemdafærslu bókar- innar en þessi rökfærsla er sett fram á lipran og lifandi hátt þar sem miklum fjölda tilvitnana í ýmsa spekinga og stjórnmálamenn þessa tímabils er fléttað snyrtilega inn í meginmálið. Áberandi er þó hversu mikið af þessum ívitnunum er í kunna hægrimenn og oftast nær velur Jakob þann kostinn að beita fyrir sig tilvitnunum þegar hann rökstyður veigamestu atriðin í máls- vörn sinni fyrir verslunarfrelsinu eða þegar hann vill draga fram einhver dæmi spillingar „haftaáranna". Hug- myndirnar sem settar eru frant í bókinni eru ekki nýjar og þessi framsetningarmáti glæðir þær heldur ekki nýju lífi. Hins vegar er þetta góð samantekt, læsileg og á köflum skemmtileg. Tvennt rýrir þó gildi bókarinnar sem almenns upplýsingarits um þetta tímabil. Það fyrsta viðkemur því hversu gildishlaðinn og ákveðinn tilgangur bókarinnar er, sbr. yfirlýs- ingar höfundar hér að ofan. Allur málflutningurinn snýst í kringum það að líta á hömlurnar eða höftin út frá sjónarhóli verslunarfrelsisins og aðrar hliðar málsins verða því útundan og myndin sem upp er dregin óhjákvæmilega brotakennd. Á svipaðan hátt væri hægt að skrifa um þessi sömu höft t.d. út frá sjónarhóli íslensks iðnaðar og upp- byggingar hans eða út frá sjónarhóli verkalýðsbaráttu og þróunar kaup- máttar á þessu tímabili og komast að öðruvísi niðurstöðu en Jakob gerir. Einnig ber að hafa í huga að höftin sem slík voru lengst af ekki pólitískt bitbein heldur miklu fremur stóð spurningin um tæknilega útfærslu í einstökum atriðum. Þetta atriði er að vísu nefnt í bókinni en ekki gert mikið úr því og lesandinn fékk það jafnvel á tilfinninguna að viljandi væri gert eins lítið úr hlutdeild Sjálfstæðisflokksins í mörkun hafta- stefnunnar og frekast væri kostur. Hitt atriðið sem rýrir gildi bókar- innar er einfaldlega það að á endand- um eru rök hennar ekki nægjanlega sannfærandi. Miðað við þá stöðu sem höfundurinn lýsir sjálfur, þ.e. að grundvallarmeinsemdin felist í of hátt skráðu gengi íslensku krónunn- ar situr sú spurning enn eftir hvort það hefði í raun verið betra að sleppa alveg höftununi? Sannfær- andi rökstuðning fyrir því að versl- unarfrelsi við þær aðstæður myndi skila betri árangri - í efnahagslegum og pólitískum skilningi -beinlínis vantar. Höfundur spyrðir nefnilega saman það tvennt að gengið var svo hátt skráð annars vegar og svo verslunarfrelsið og höftin hins vegar. Á því tímabili sem hann er að fjalla um var það hins vegar ekki á hinni pólitísku dagskrá að fella gengið, ekki frekar en það hefur verið á dagskrá ríkisstjórna nú allra síðustu árin og fylgt hafa hinni svokölluðu fastgengisstefnu. Hugsanlega má með ótölulegum fyrirvörum þó, bera saman þetta tvennt því haftastefna hefur ekki verið við líði samhliða núverandi fastgengisstefnu, þvert á móti hefur frelsið blómstrað, en viðskiptahallinn mælist líka í stjarn- fræðilegum tölum og offjárfesting og þenslan virðist ætla að skilja eftir sig timburmenn sem fjötra og hefta landsmenn með öðrum hætti en gert var á „haftaáratugunum". í stuttu máli er bókin „Þjóð í hafti“ því hugmyndafræðilegt inn- legg í þjóðfélagsumræðuna og er þokkaleg sem slík. Eflaust munu ungir menn sem kenna sig við frjáls- hyggju nú fara að beita fyrir sig í kappræðum sögulegum dæmum um fánýti ríkisafskipta og byggja visku sína á þessari nýju bók. Bókin sjálf er vissulega fallega inn bundin og vönduð í öllum frágangi, en andinn er allur bundinn í haft pólitískrar hugmyndafræði. - BG Ævi og starfi kristins manns Sigurbjörn biskup, eftir Sigurð A. Magnússon: Bókin um Sigurbjörn er ein sú merkilegasta sem ég hef lesið af ævisögulegum bókmenntum. Lík- lega skipar hún þennan sess fyrir það að svo er um mig, eins og flesta íslendinga, að ég þykist þekkja þennan merka samtímamann mæta vel. Þegar lesturinn hefst er þó ekki laust við að mynd mín af biskupnum dýpki strax á þriðju blaðsíðu. Um- fjöilunin um harmleik fjölskyldunn- ar í fyrsta kafla var mér nægur skammtur þann daginn og hafði ég þó heyrt sögu þessa áður eins og hún gekk meðal ættmenna úr Meðalland- inu. Þar sannast og sú staðhæfing, er ég heyrði frá mætum kennimanni, að í Meðallandinu varðveittist ísland best. Frásögn Sigurðar A. Magnús- sonar skilar alla jafna vel þessum sanna keim íslenskunnar er stöðugt hefur andað frá Sigurbirni í lífi hans og starfi. Því var ég hissa (og þó ekki) er Sigurbjörn sagði mér um daginn að hann hafi lengi þráast við að leyfa ritun æviminninga sinna, en eftir því hefur verið falast af útgef- endum í fjölmörg ár. Stíllinn er venju fremur þægilegur aflestrar en þó er það svo að ekki er með öllu ljóst hvers vegna talsvert grúir af einkennilegum samsetning- um í frásagnarstíl Sigurðar. Látum það vera að skeyta saman einstaka orðum eins og einhversstaðar, þar sem um slíkt eru ekki til afgerandi reglur að mig minnir. Hitt er ein- kennilegra að finna samsetningar á borð við niðrað, hvorteðvar, vestr- undir, þarafleiðandi, alltíeinu, héð- anífrá, eftilvill, afturámóti, meirað- segja, undirniðri seinnameir, nokk- urntíma, meiren, enganveginn og eiaðsíður. Fyrst í stað stungu þessar samsetningar mjög í augun við lestur, en ef ég á að segja eins og er þá vöndust þær fábrotnustu ágætlega og eru eflaust hugsaðar til að venju- legt fólk geti lesið textann hraðar. Efnið er skilmerkilega sett fram og ekki er dvalið við nema það sem merkast hefur verið talið á æviferli biskupsins. Hann hefur því komist vel frá því að geta um alla hluti án tillits til þýðingar þeirra, eins og hent hefur allt of marga. Því er það að sumt tel ég vanta og máttu aðstandendur bókarinnar vita það manna best. Hitt finnst mér ofaukið að greina svo mjög frá einstökum málum eins og dvalið er við prest- kosningar við Hallgrímssókn til dæmis. Hins vegar er ekki nema gaman og fróðlegt að lesa um ein- stakar glímur við kerfiskarla og ráðamenn, en slíkt lendir auðvitað í ríkum mæli á herðum embættis- manns er stendur jafnan óstuddur í basli sínu við eftirlitsmenn bústaða og annarra ríkiseigna. Lýsingin á fyrsta bústaðnum er t.d. þörf áminn- ing nútímafólki. Ekki verður glíman síður athyglisverð þegar kemur að því í æviágripinu að Sigurbjörn sest á stól biskups yfir fslandi. Hver kaflinn er öðrum meir spennandi og fræðandi. Til að þjóna kirkjusögulegum sjónarmiðum er þess einnig gætt að geta vel þeirra sem Sigurbjörn skipti við. Dæmi um það er aðdragandi þess að hann er kosinn biskup. Kirkjan stóð þá frammi fyrir nokkuð áþreifanlegum klofningi samkvæmt því sem fram kemur í bókinni og er einkennilegt fyrir menn sem ekki þekkja annað en þjóðkirkjuna í dag að fræðast um þessa fyrri stöðu mála. Væri lengi hægt að rekja einstök dæmi um gullmola þessarar bókar, en það er því miður ekki mögulegt í Séra Sigurbjörn Einarsson. stuttri greinargerð. Þó er rétt að geta þess að fagmannlega er gengið frá útgáfunni. Erm.a. unninellefublað- síðna nafnaskrá og þriggja blaðsíðna smáletruð heimildaskrá. Mikill fjöldi mynda er í bókinni og eru greinagóðir myndatextar mikils virði. Með þessum hætti kemst til skila ótrúlega litríkur starfsferill biskupsins, án þess að meginmál sé undirlagt linnulausum ferðasögum. Þannig sleppa höfundur og biskup við upptalningu en fá í staðinn út ferska og létta frásögn í máli og myndum. Samanlögð útkoman er, eins og ég hef ítrekað sagt í þessari stuttu og fábreytilegu reynslusögn af ævisögu, einstaklega lífleg og létt í aðra röndina, en djúp, viturleg og fræðandi í hina. Fagna ég því að biskupinn okkar allra lét undan þrábeiðni útgefenda. Kristján Björnsson TÓNLIST Tvö klarinettuverk Á háskólatónleikum 14. desember fluttu Einar Jóhannesson og David Knowles tvö fremur sjaldheyrð verk fyrir klarinettu og píanó, Sónötu í Es-dúr eftir Felix Mendelssohn og Four Characteristic Pieces eftir Wil- liam Hurlestone. Mendelssohn samdi þessa sónötu aðeins 15 ára að aldri, árið 1824, og verður því ekki neitað að fagmannlega er að verki staðið hjá svo ungum manni - eða voru menn meira bráðþroska í þá daga, enda yfirleitt skammlífari? Hins vegar hefur Mendelssohn ekki elst sérlega vel, flest hans yerk þykja mönnum fremur léttvæg nú á dögum, og á það að sjálfsögðu ekki síður við þetta æskuverk en önnur sem þroskameiri ættu að teljast. Þá var meiri veigur í fjórum smástykkjum Hurlestones (1876- 1906), sem tónleikaskrá segir að hafi orðið mörgum harmdauði þegar hann lést í London árið 1906, aðeins rúmlega þrítugur að aldri, því miklar vonir hafi verið við hann bundnar strax á skólaárunum í Konunglega tónlistarháskólanum. Eftir að hafa heyrt þessi fjögur smáverk kemur þetta ekki á óvart, því þau eru mjög eftirtektarverð hvert á sinn hátt, og voru auðvitað snilldarlega flutt af þeim Einari og David, ekki síður en sónasta Mendelssohns. Eins og kunnugt er lá bresk tónlist lengi utan garðs hjá íslendingum, því við þágum okkar Evróputónlist frá Þýskalandi gegnum Danmörku, og ekki ómerkari maður en Jóhann- es Brahms hafði kallað Breta „þjóð án tónlistar“. Þetta var sem sagt viðtekin skoðun austan Ermarsunds, og þeim megin við sundið vorum við lengstum, menningarlega séð. En Bretar höfðu auðvitað heilmikið tónlistarlíf, þótt engan eignuðust þeir Beethoven, og sem betur fer eru verk breskra öndvegistónskálda farin að heyrast hér ögn - t.d. eftir Elgar og Vaughan Williams, fyrir nú utan Benjamin Britten annars vegar og gömlu jöfrana eins og Purcell hins vegar. Og svo þessi ágætu fjögur stykki eftir Hurlestone. Sig. St.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.