Tíminn - 19.10.1989, Blaðsíða 11

Tíminn - 19.10.1989, Blaðsíða 11
Fimmtudagur 19. október 1989 Fimmtudagur 19. október 1989 10 Tíminn Tíminn 11 Vart nokkur eölismunur á skjálftanum í Kaliforníu í gær og Suðurlandsskjálfta: Jarðskjálftanefnd kom saman til skyndifundar í gær til að ræða jarð- skjálftana sem urðu í Kaliforníu skömmu eftir miðnætti í gær að íslensk- um tíma, en upptök skjálftanna urðu í 70-80 km fjarlægð suð-suðaustur af San Fransisco á svonefndri San Andreas sprungu. Á íslandi búast menn við því að Suðurlandsskjálfti geti orðið hvenær sem er innan næstu tveggja áratuga. Upptök hans verða í svipaðri fjarlægð frá Reykjavík og eðli hans og orsakir um margt svipaðar og skjálftans við San Fransisco og að líkindum verður hann ámóta harður, eða um eða yfir 7 stig. Jarðskjálftanefndin ákvað því á fund- inum i gær að leggja til að lítil sendinefnd sérfróðra manna á sviði jarðskjálfta, mannvirkjagerðar og almannavarna fari sem fyrst til Kaliforníu til að kanna viðbrögð bandarískra almannavarna, eðli skjálftanna og skemmdir af þeirra völdum. Að sögn Ragnars Stefánssonar forstöðumanns j arðeðlisfræðideildar Veðurstofu íslands er lagt til að farið verði sem fyrst, eða í byrjun næstu viku og þess vænst að nefndinni verði tryggðar bestu aðstæður til verka af hálfu banda- rískra stjórnvalda. Rannsókna- og aðvörunarkerfi gagn- vart jarðskjálftum hafa lengi verið til í Kaliforníu og hafa safnast mikil gögn um þá og aðdraganda þeirra í áranna rás. Nú er unnið að því að setja upp kerfi af þessu tagi varðandi Suðurlandsskjálft- ann og er það verk á góðum rekspöl. Kerfið byggir um margt á reynslu Kali- forníumanna en margar og merkar nýj- ungar byggðar á nýjustu tölvutækni fel- ast í því eins og komið hefur fram hér í Tímanum áður. Kerfið er þegar tekið að starfa að hluta til en verður væntanlega fullbúið á næsta ári. Þess er vænst að það geti sagt fyrir um skjálfta með einhverra mínútna fyrirvara en þótt örfárra mín- útna fyrirvari sé ekki langur þá mun hann draga stórkostlega úr hugsanlegu manntjóni. Óvænt eyðilegging „Mér sýnist að skemmdir í San Fran- sisco séu tiltölulega miklar miðað við hversu upptök skjáiftans eru langt frá borginni. Eg veit á þessari stundu ekki mikið um skemmdir en mér sýnist sem þær hafi einkum orðið í eldri borgar- hlutanum og á óvanalegum byggingum og mannvirkjum," sagði Ragnar Stefáns- son jarðskjálftafræðingur í gær. Með óvanalegum mannvirkjum á Ragnar við brýr og ýmis samgöngumann- virki sem ef til vill hafa nú í fyrsta sinn fengið eldskírn reynslunnar en reynsla af því hvernig hanna og byggja á slík mannvirki til að þau standist jarðskjálfta er ekki löng. Að sögn Ragnars eru jarðskjálftar sem verða við San Fransisco yfirleitt kenndir við San Andreas sprunguna en segja má að hún komi á land í grennd við borgina og Iiggur þaðan til suð-suð- austurs inn í landið. „Það er sterkur láréttur þáttur í hreyf- ingu um sprunguna þannig að barmar hennar færast í sína hvora áttina. Á öllu svæðinu er auk þess lóðrétt hreyfing sem í grundvallaratriðum veldur allri hreyf- ingu á svæðinu. Hér á ég við að botn Kyrrahafsins færist stöðugt undir Amer- íku og þetta á sér stað með allri vestur- strönd álfunnar en áhrifin eru nokkuð misjöfn eftir því hvar drepið er niður,“ sagði Ragnar. Hann sagði að ekki væri skjálftinn í gær „Stóri skjálftinn" sem búist hefur verið við. Það hefði hins vegar skjálftinn verið sem kom árið 1906, en hann var um 8,3 Richterstig sem er verulega meira en skjálftinn í gær sem var um 7 stig. Mestu skjálftar hafa að sögn Ragnars verið metnir á 8,7-8,9 stig en stærsti skjálfti sem sögur fara af varð í Kólum- bíu árið 1906 og var einmitt um 8,9 stig. íslenskir skjálftar - En hvað hafa skjálftar á íslandi Jarðskjálftinn við San Fransisco kom greinilega fram á mæli hjá Veðurstofu íslands. Ragnar Stefánsson bendir á hvernig skjálftinn sýndi sig. orðið sterkir? Ragnar Stefánsson sagði að Suðurlandsskjálftar hefðu verið metnir á 7-7,1 stig og jarðskjálfti sem varð fyrir mynni Skagafjarðar árið 1963 var 7 stig og átti upptök sín um 30-40 km frá landi. Skemmdir í þeim skjálfta urðu verulegar og t.d. húsveggir sprungu víða. Þá hefði skjálftinn fundist vel á Akureyri sem var milli 80 og 90 km frá upptökunum. Ragnar sagði að ekki væri eðlismunur á skjálftum sem verða á San Andreas sprungunni og Suðurlandsskjálftum, en báðir yrðu við lárétta hliðrun um sprungur. Hér væri þó meiri deyfing í jarðskorpunni. Þá væri Reykjavík í ámóta fjarlægð frá upptökum Suður- landsskjálftans og San Fransisco frá upptökum skjálftans í gær en vegna deyfingar jarðskorpunnar mætti gera ráð fyrir heldur minni áhrifum í Reykja- vík en varð þar. „Við vitum ekki enn hvers konar mannvirki skemmdust helst í San Fransisco en svo virðist sem það hafi einkum verið óvenjuleg mannvirki sem minni reynsla er fyrir hvernig eigi að hanna og byggja til að þau standist jarðskjálfta af þessu tagi,“ sagði Ragnar. - En hvað gera menn hér heima sem eru að undirbúa viðbrögð og aðvörunar- kerfi gagnvart Suðurlandsskjálfta sem komið getur á hverri stundu innan næstu 20 ára? Væri ekki ráðlegt að menn færu héðan vestur og könnuðu aðstæður og reyndu að draga lærdóm af aðstæðum? „Ég held að ástæða væri að menn með reynslu á þessu sviði færu héðan til þess að meta áhrifin og reyna að læra af þessu. Það fór smá hópur héðan þegar skjálftinn varð í Mexíkó 1985 og það var gífurlega lærdómsríkt og hafði mjög jákvæð áhrif á alla umfjöllun um þessi mál hér á landi og á vinnubrögð okkar sem stundum rannsóknir og eftirlit hér- lendis,“ sagði Ragnar. Hvernig var? „Ég varð ekki fyrir umtalsverðum óþægindum af skjálftanum. Ég var á ferðinni í bíl og fann að bíllinn kastaðist til,“ sagði dr. Guðmundur Böðvarsson prófessor við Berkeleyháskóla í Kali- forníu. Guðmundur býr í um 40 km fjarlægð frá upptökum skjálftans og sagði hann að talsvert hefði gengið á þar en engar skemmdir hefðu orðið á hans húsi né í næsta nágrenni. Þó hefði kviknað í húsi í Berkeley, en það væru einu raunverulegu skemmdirnar sem hann hefði sjálfur séð þar um slóðir. Guðmundur sagði að lýst hefði verið yfir neyðarástandi og þegar hefði verið heitið af hálfu Kaliforníuríkis milljarðs dollara neyðarhjálp til fólks sem orðið hefði illa út. Samgöngur væru í algerum lamasessi og sagðist hann búast við að byrjað yrði á að koma þeim í sæmilegt horf en sem stæði væri einasta færa samgönguleiðin frá Berkeley og þéttbýl- inu austan flóans yfir til San Fransisco eftir að hraðbrautarbrúin eyðilagðist, með járnbraut sem lægi neðansjávar og hrysi mörgum hugur við að fara með henni nú. Guðmundur, sem bæði er bygginga- verkfræðingur og jarðeðlisfræðingur sagði að skjálftinn í gær væri ekki sá „stóri“ og væntu menn hans enn og væri búist við að hann yrði miklu harðari en skjálftinn í gær. Hann sagði að þær skemmdir sem urðu á nýlegum mannvirkjum svo langt frá upptökum skjálftans sem raunin væri hefðu komið verulega á óvart. „Það urðu sérstaklega miklar skemmdir í San Fransisco og sérstaklega miklar skemmdir á vegakerfinu miðað við hversu langt er til upptaka skjálftans sem heldur ekki var svo stór; eða 7 stig. „Það hlýtur því að vera að tala um hönnunar- galla, það er útilokað annað vegna þess að skjálftinn var ekki meiri en þetta og jafn langt í burtu og raunin er,“ sagði Guðmundur Böðvarsson í Berkeley. Svipað gæti gerst hér „Það er vissulega hægt fyrir okkur að draga lærdóm af þessum skjálfta. Hann varð í svipaðri fjarlægð frá San Fransisco og svokallaðir Suðurlandsskjálftar verða frá Reykjavík,“ sagði Guðjón Petersen forstjóri Almannavarna ríkisins. - Hvað telja menn líklegt að gerist hér í Reykjavík ef svipaður skjálfti ætti sér stað. Eru mannvirki hönnuð og byggð með það fyrir augum að standast jarð- skjálfta af þessu tagi? „Eftir því sem mér skilst var Kaliforn- íustaðallinn notaður til viðmiðunar í Reykjavík við hönnun mannvirkja allar götur að því ég held fram til um 1979. Þá var tekinn upp nýr staðall; svokallaður ÍST 13 sem er jarðskjálftastaðall og er mikið .til byggður á Kaliforníustaðli sem þá var nýr. Ég held því að byggingar á Islandi séu í svipuðum gæðaflokki hvað varðar jarðskjálftaáraun og þar og í Mexíkó þar sem hús eru ágætlega hönn- uð einnig. Hins vegar er rétt að geta þess að verkfræðileg hönnun nútímabygginga hefur byggt á kenningum - verið teóret- ísk - og það er ekki fyrr en nú á síðustu árum að við erum að fá reynslu í heiminum á þessar byggingar í jarð- skjálftum, svo sem í Mexíkó, Armeníu og nú San Fransisco og Los Angeles 1971. Svo virðist sem kenningarnar standist ekki fyllilega sjálfa reynsluna.“ - Hafa þá forsendur byggingastaðl- anna ekki staðist og verið rangar? „Ég held að draga megi þá ályktun að forsendurnar hafi ekki alltaf staðist en ég endurtek að reynsla á þessar byggingar er fyrst að koma nú og hún virðist vera önnur en ætlað var. Þó heyrist mér á fréttum að eldri hlutar San Fransisco hafi farið illa þannig að hafa verður það í huga. Brýr og háspennulínur - Hvað með umferðarmannvirki og háspennulínur á Suðurlandi. Eru þau líklegtil að standast7stiga jarðskjálfta? „Brýrnar á þjóðvegi eitt um Suðurland hafa verið teknar út og Ölfusárbrú kom reikningslega afar vel út að öðru leyti en þvf að mjög líklega mun hún brjóta frá sér við báða brúarsporða en fljótlega má að líkindum gera við það. Þjórsárbrúin kom líka ágætlega út. Það fundust að vísu skemmdir í henni sem voru lagfærð- ar en hún er ágætlega traust. Hins vegar kom Rangárbrúin illa út og hún virðist vera hættuleg. Hún er steypt bitabrú og á slíkum brúm og stálgrind- arbrúm og hengibrúm hinsvegar virðist vera einhver munur. Hvað varðar Óseyr- arbrú og nýju brúna yfir Sog við Þrastar- lund þá eru þær báðar hannaðar með tilliti til jarðskjálftaáraimar. Það var líka þetta brúarmannvirki við Oakland. Það átti meira að segja líka að hafa verið styrkt sérstaklega eftir skjálftann í Los Angeles og reynsluna sem þar fékkst. Niðurstaðan er þó þessi. Hvað varðar orkukerfin þá verð ég, þrátt fyrir að ég vilji endilega hæla Landsvirkjun fyrir það hversu gífurlega mikið hún hefur gert til að styrkja sitt kerfi gagnvart jarðskjálftum - Þeir hafa haldið því vel við og reynt að festa öllu og líta yfir allt, - þá held ég að það sé staðreynd að orkuveitukerfið muni allt slá út. Það fer svo eftir því hve skemmdir á því verða miklar hversu lengi verður rafmagnslaust. Kópasker og Suðurland Við höfum þó, þegar þessi mál eru hugleidd, allgóða viðmiðun hér heima. Ef við lítum til baka til 1976 þegar jarðskjálftinn varð við Kópasker þá var sá skjálfti 6,3 stig og varð í tíu km fjarlægð frá þorpinu. Skjálftinn gerði þorpið algerlega óbyggilegt og hvert einasta mannsbarn varð að yfirgefa svæðið. Það varð reynd- ar hægt að flytja inn í þorpið aftur, en við getum reynt að yfirfæra reynsluna af þessu áfalli yfir á Suðurlandið og bæina þar, en á svæðinu búa um þrettán þúsund manns. Ef skjálfti hefði orðið þar í gær hefðu þrettán þúsund manns að mestu leyti þurft að taka sig upp og flytja í einhvern tíma og það eitt þýddi gífurlegt efnahags- legt tjón fyrir þjóðfélagið fyrir utan manntjón og slys sem eflaust hefðu fylgt í kjölfar skjálfta," sagði Guðjón Peter- sen forstjóri Almannavarna ríkisins. Guðjón sagðist ennfremur telja að það gæti orðið góður skóli gagnvart hugsanlegum hamförum hér ef sér- fræðingar héðan færu á jarðskjálftasvæð- ið í Kaliforníu. „Við fórum til Mexíkó eftir jarðskjálftana þar og það gjör- breytti skoðunum okkar og opnaði ný svið fyrir okkur,“ sagði hann að lokum. Jaroskjalftanefnd kom saman til skyndifundar til að ræða afleiðingar jarðskjálftanna í Kaliforníu í gær með hliðsjón af hugsanlegum Suðurlandsskjálfta. Frá vinstri; Sveinbjöm Bjömsson eðlisfræðingur, Júlíus Sólnes verkfræðingur og ráðherra, Ragnar Stefánsson jarðskjálfta fræðingur, Guðjón Petersen forstjóri Almannavarna og Páll Halldórsson jarðeðlisfræðingur. Tímamynd: Árni Rjarna hérna Eftir Stefán Ásgrímsson

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.