Tíminn - 20.12.1989, Blaðsíða 9

Tíminn - 20.12.1989, Blaðsíða 9
8 Tíminn Miðvikudagur 20. desember 1989 Miðvikudagur 20. desember 1989 Tíminn 9 ipí j ' Eftir Stefán Ásgrímsson „Það eru engar sérstakar hátíðir hjá okkur sem tengjast hestum eða einhverri sérstakri umhyggju eða meðferð á þeim eins og oft gefur að líta erlendis,“ sagði Þorkell Bjarnason hrossaræktarráðu- nautur þegar hann var spurður hvort íslendingar væru búnir að koma sér upp einhvers konar sérvisku í sambandi við jólin hjá hrossum sínum. Þorkell og aðrir hestamenn og fræði- menn um hesta tóku í sama streng og sögðust ekki vita til að einhver sérstakur viðurgerningur væri við hesta í tilefni jóla, svo sem t.d. að járna þá sérstökum jólaskeifum eða eitthvað í slíkum dúr. Það væri þá helst að menn fylltust almennt svo mikilli góðvild og jólaanda að hún næði til hesta jafnt sem til annarrar skepnu sem lífsanda drægi. Þorkell Bjarnason sagði að í desem- ber, einkum nú seinni hluta hans væru menn sem óðast að taka hesta sína á hús eins og venja væri og sagði: „Um þetta leyti er oft byrjað að snjóa og kólna verulega í veðri og því hefur sú venja skapast að þetta sé gert í desem- bermánuði, jafnvel þótt tíðarfar sé ágætt og veðurfarsins vegna í sjálfu sér óþarft að hýsa hross,“ sagði Þorkell. Þorkell sagði að á jörðum t.d. á Suðurlandi þar sem þéttbýlisbúar geyma hesta sína að sumarlagi sæist nú varla hestur lengur þar sem búið væri að taka þá á hús í næsta nágrenni eigendanna. Jólahugur hestamanna „Ég býst við að menn séu búnir að þessu nú, einmitt vegna þess að þeir vilji að hestar þeirra hafi það gott um jólin og séu öruggir fyrir veðrum og hafi nóg að bíta og brenna þótt að veðurfar hafi hingað til verið með þeim hætti að í sjálfu sér geti hestar gengið úti enn. Segja má að einmitt þetta sé hvað órækastur vottur um umhyggju manna fyrir hestum sínum sem kannski tengist jólunum. Fólki er talsvert í mun að hestum þess líði vel einmitt þegar það sjálft ætlar að fara að halda gleðileg jól í ljósi og yl. Ætli þetta sé einmitt ekki mest einkennandi fyrir jól og hesta- mennsku á íslandi," sagði Þorkell. Hann sagði að vanir hestamenn þekktu það að varlega yrði að fara í að gefa hestum sem nýteknir hafa verið á hús og alls ekki mætti troða í þá. Fyrstu vikurnar þyrfti því að velja lakara hey, þar sem hestarnir væru komnir af útibeit þar sem þeir hefðu verið á föllnu grasi og sinu sem væri fremur kraftlítið fóður. Viðbrigðin mættu ekki vera of mikil og snögg til betra fóðurs. Ef gefið væri kjarnmikið fóður strax væri hætta á ýmsum kvillum og meltingarvandræð- um. Ef fóðrið er of gott í byrjun og fóðurbreytingin of snögg og mikil þá slær svita út um hestinn, einkum í náranum. Óvönum hestamönnum skyldi því ráðleggja að hafa gætur á þessum þætti hústökunnar og t.d. endilega ekki gefa hestum fóðurbæti fyrst eftir að hestur hefur verið hýstur. Aðgát skal höfð við fóðrun á húsi - Lítum á hvað um þetta segir f Hestaheilsu, bók Helga Sigurðssonar: „Miklar umhverfisbreytingar eiga sér stað þegar hestar eru teknir á hús. Þær eru einkum fólgnar í þrem meginatrið- um, og til þeirra má rekja nokkra helstu kvillana sem hrjá hestana á fyrstu vikun- um eftir að þeir eru teknir á hús.“ Þessi meginatriði eru þau að á útigangi bítur hesturinn sinu. í stað hennar kemur skipuleg fóðrun. í öðru lagi hefur hann hreyfingu úti við en í hennar stað kemur nú kyrrstaða á húsi. í þriðja lagi hafði hesturinn ferskt loft. Á húsi er tíðum stækjumengað loft og ryk úr heyi. Fyrstu vikurnar á húsi er því hætta á meltingarsleni eða garnakvefi. Þá fær hesturinn oft háan hita en annars lýsir kvillinn sér þannig að hesturinn er lystar- lítill, er lengi að éta og klárar ekki upp. Hrossasótt kemur einnig oft upp fljót- lega eftir að hestar eru teknir á hús. Þá fær hesturinn ákafar kvalir í kviðarholi og sé ekkert að gert getur hrossasótt dregið hestinn til dauða. Þá er algengt að bjúgur myndist á hestum fyrst eftir hústöku. í Hestaheilsu segir: „Bjúgurinn er yfirleitt mestur fremst á skauðhúsinu, en er einnig algengur í fótum. Fæturnir eru þá eins og stokkur og er bjúgurinn kaldur við- komu. Stundum getur myndast hella neðan á kviðnum sem nær fram að afturfótum. Umskiptin frá hreyfingu í kyrrstöðu eru aðal orsökin, sérstaklega ef hestarnir eru settir á bás.“ Ekkert sérstakt jólastúss „Ég veit ekki um neinn sem les Reiðhestar landsmanna hafa flestir verið teknir á hús um jólin. Jólin eru ósköp látlaus meðal hesta og við vitum ekki til þess að nokkur maður skreyti hesta sína eða láti loga kertaljós hjá þeim á jólanótt. jólaguðspjallið fyrir hestana sína á að- fangadagskvöld, syngur fyrir þá jólalög eða -sálma eða setur jólaskeifur á þá eða einhverja aðra slíka múnderingu. Það leggja hins vegar margir áherslu á að vera búnir að taka hestana sína á hús fyrir jólin og hygla þeim gjarnan með „jólagjöf", eða velja í þá gott hey og jafnvel gefa þeim tvisvar. Ég hef reyndar heyrt því fleygt að sumir taki hesta sína á hús fyrir jólin til þess að hafa ástæðu, sem mark er á tekið, til þess að sleppa við jólaboðin," sagði Helgi Sigurðsson dýralæknir og höfundur bókarinnar Hestaheilsa, sem er handbók hesta- manna í hrossasjúkdómum og -kvillum. „Það er venjan að taka hestana á hús rétt fyrir jólin og gera síðan vel við þá á flestan hátt á aðfangadagskvöld. Það er venjulega látin nægja ein jólamáltíð. Síðan er það gert af stakri skynsemi eins og með mannfólkið að hafður er hemill á átinu enda ekki ráðlegt að éta allt árið eins og étið er á jólunum,“ sagði Flosi Ólafsson leikari og hrossabóndi í Reyk- holtsdal. Flosi sagðist ekki reikna með því að vanir hestamenn væru yfirleitt með ein- hverjar sérstakar serimóníur við hesta sína um jól. Þeir tækja hesta sína á hús þegar tíðarfar tæki að versna og jarð- bönn hæfust. Þeir hugsuðu ekki um hesta sína eins og hver önnur gæludýr svo sem hunda eða ketti. „Menn sem aldir eru upp við þetta frá blautu barns- beini eru sjálfsagt jarðbundnari en aðrir hvað þetta varðar,“ sagði Flosi. Róleg jól Reykjavíkurhrossa „Jólin eru ósköp látlaus hjá reykvísk- um hestum. Ansi margir reyna að taka á hús fyrir jól enda halda margir ekki rólegir jól nema að vita af hestum sínum í húsi,“ sagði Þorgeir Ingvason fram- kvæmdastjóri hestamannafélagsins Fáks. Þorgeir sagði að eftir að hestur hefur verið tekinn á hús þyrfti hann um tvær vikur til að jafna sig á breytingunni og að taka fóðri eins og það er kallað. Meðan á þessum aðlögunartíma stæði væru hestarnir ekki notaðir og fóðraðir af varfærni ef menn vildu á annað borð fara vel með þá. Hann sagði að ekkert sérstakt væri að gerast í félagslífi Fáks um jólin sjálf. Þeir sem væru búnir að taka hesta sína á hús um tveim vikum fyrir jól væru gjarnan vanir að ríða út á aðfangadagsmorgun og væru síðan að sinna hestum sínum fram yfir hádegið. Þá væri hestunum gefið en síðan væri hesthúsum og hesthúsasvæði Fáks lokað kl. 14 á aðfangadag. Húsin væru síðan lokuð á jóladag enda þyrftu starfsmennirnir á smá jólafríi að halda ekki síður en aðrir. „Menn ríða síðan mikið út milli jóla og nýárs, einkum á morgni gamlársdags sem er mikill útreiðardagur,“ sagði Þorgeir. „Sjálft vetrarstarf félagsins byrj- ar síðan af fullum krafti eftir áramótin með þrettándahátíðinni og -brennunni sem haldin er á félagssvæðinu í Víðidal,“ sagði hann. „Þá er hér mikið um að vera;- flugeldar, álfabrenna og alls kyns óvættir á ferðinni eins og þau hjón Grýla og Leppalúði." Fákur er félag um 1100 reykvískra hestamanna. Talið er að um 3500 hestar séu í eigu Reykvíkinga en langt frá allir hestamenn í Reykjavík eru félagsmenn í Fáki. Þorgeir sagði að Fákur vildi gjarnan að sem allra flestir hestamanna í höfuð- borginni gerðust félagar sjálfum sér til hagsbóta og félaginu til eflingar. Fjölbreytt félagsstarf Hann sagði að starfsemi Fáks væri tvíþætt: Annars vegar væri félagsstarf- semi sem lyti að keppni og að því að byggja upp aðstöðu fyrir almenna félags- menn, svo sem reiðvelli, reiðgötur og þvílíkt og að halda opnum reiðleiðum í- nágrenni borgarinnar. Hins vegar væri innt af höndum mikil- væg þjónusta við félagsmenn: Félagið ætti fjölmörg hesthús og væru þau eða aðstaða í þeim leigð einstökum félags- mönnum. Þá væru hestar teknir í hirð- ingu sem væri bókstaflega fæði, húsnæði og þjónusta fyrir hestana. Þá ætti Fákur land í nágrenni borgar- innar þar sem félagsmenn gætu beitt hestum sínum á. „Því miður er nú útlit fyrir að fari senn að þrengja að okkur. Stærsta beitarhólfið hefur verið Geld- inganesið. Nú er búið að skipuleggja þar byggð þannig að ég býst við að við missum það innan næstu tveggja ára,“ sagði Þorgeir. Auk þess hefði Fákur haft aðstöðu til sumarbeitar á gamla Korpúlfsstaðatún- inu. Þar hefðu menn haft aðgang að hestum sínum um helgar en að auki hefði verið smalað í rétt tvisvar í viku svo að fólk gæti í þann tíma gengið að hestum sínum fyrirhafnarlítið. Þá ætti félagið jörðina Ragnheiðarstaði í Gaul- verjabæjarhreppi. Þar væru í vetur um 120 hross á fóðrum, einkum ungviði sem gæti gengið úti eins lengi og veður leyfðu. Þar væri ráðsmaður sem sæi um að hirða hrossin, gefa þeim úti og hýsa þau þegar þörf krefði. Öll aðstaða fyrir hestamenn í gegn um Fák væri því mjög góð. Fákur skipuleggur hópferðir á sumrin Tímamynd: Ámi Bjama. og hafa þær verið með nokkuð föstu sniði undanfarin ár. Farin er árleg Jóns- messuferð á Þingvöll og síðast tóku þátt í þeirri ferð um 100 manns og var dvalið á Þingvöllum yfir helgina. Þá gengst Fákur fyrir langri ferð um verslunarmannahelgina en auk þessara föstu ferða gengst félagið fyrir styttri ferðum í nágrenni borgarinnar seinni hluta vetrar og þegar kemur fram á vorið. Fákur heldur fræðslufundi um ýmis efni viðkomandi hestamennsku þrisvar til fjórum sinnum á vetri. Unglingastarf félagsins er mjög öflugt að sögn Þorgeirs. Bæði eru námskeið af ýmsum toga haldin svo og sérstök árshátíð er haldin fyrir unga fólkið. Þá fara ungliðarnir venjulega einu sinni á vetri í kynnisferð út úr borginni og í fyrra var farið norður í Skagafjörð til að kynnast starfsemi skagfirskra hestamanna. -sá fp $4 ö .. * : _ ■

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.