Tíminn - 06.02.1990, Blaðsíða 8

Tíminn - 06.02.1990, Blaðsíða 8
8 Tíminn Þriðjudagur 6. febrúar 1990 Þriðjudagur 6. febrúar 1990 ' Tímirin 9 Björn Th. Björnsson listfræðingur segir að ekki hafi verið hreyft við leiði Jónasar Hallgrímssonar eftir að hann var grafinn í danska mold árið 1845. Flytjum Fjölnismennina heim! t sjónvarpsþætti síöastliöinn sunnudag sýndi Björn Th. Björnsson listfræðingur áhorfendum legstað Jónasar Hallgríms- sonar skálds í Hjástoðarkirkjugarðinum í Danmörku og sagði að sér vitanlega hefði aldrei verið hreyft við gröfinni síðan Jónas var grafinn þar árið 1845. í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum er hins vegar leiði sem er merkt Jónasi. Aldrei hefur fengist úr því skorið hvort það voru raunverulega jarðneskar leifar Jón- asar Hallgrímssonar sem voru jarðsettar á Þingvöllum 16. nóvember 1946. Björn Th. segir að með ítarlegum rannsóknum eigi að vera hægt að fá úr þessu skorið í eitt skipti fyrir öll. Fyrirhugað er að breyta Hjástoðar- kirkjugarði í almenningsgarð. Þá verða allir legsteinar fjarlægðir þar með taldir Iegsteinar íslendinga eins og Brynjólfs Péturssonar og Konráðs Gíslasonar. Það er því ekki seinna vænna að flytja Fjölnismennina heim. „Var ekki um að villast, að það voru jarðneskar leifar hans.“ Sagan af því hvernig jarðneskar leifar Jónasar voru fluttar til landsins og grafn- ar er öll hin sérkennilegasta. Halldór Laxness notaði hana þegar hann skrifaði Atómstöðina sem kom út árið 1947. Þar er látið að því liggja að eitthvað allt annað en jarðneskar leifar skáldsins hafi verið í líkkistunni. Æ síðan hafa margir trúað því að það hafi alls ekki verið Jónas Hallgrímsson sem var grafinn í þjóðargrafreitnum að Þingvöllum. Bein Jónasar voru grafin upp sumarið 1946. Umsjón með verkinu hafði Matth- ías Þórðarson, þáverandi þjóðminja- vörður. Ekki er kunnugt um hvernig hann fór að því að finna leiði Jónasar. I Tímanum 13. september 1946 er Matth- ías spurður hvort ekki hafi verið jarðsett lík í grafreit Jónasar eftir að hann var grafinn. „Jú, eins og menn vita var Jónas jarðsettur í Assistentkirkjugarðinum á Norðurbrú í Kaupmannahöfn árið 1845. Árið 1875 var danskur maður grafinn í ^sama reitnum og um leið var flutt /þangað kista lítils drengs. Árið 1898 var annar danskur maður grafinn í sama reitnum og árið 1907 kona hans. Var hún jörðuð á sama stað og maðurinn, sem grafinn var 1875. Bein Jónasar Hallgrímssonar voru dáiítið neðar og austar en þessar beina- grindur. Var ekki um að villast, að það voru jarðneskar leifar hans.“ Þessi síðasta málsgrein sem höfð er eftir Matthíasi er feitletruð. Jónas settur upp á vörubílspall og sendur norður í Öxnadal Miklar deilur urðu um hvar á íslandi væri við hæfi að jarðsetja Jónas. Sumir vildu grafa hann á fæðingarstað hans að Hrauni í Öxnadal, aðrir töldu að hann ætti að fá að liggja við hlið foreldra sinna að Bakka í Öxnadal. Þá vildu margir að honum yrði búinn hinsta hvíla í þjóðar- grafreitnum á Þingvöllum Bein Jónasar komu til landsins með Brúarfossi 4. október 1946. Meðan skip- ið var á leiðinni til landsins ákvað Þingvallanefnd að beinin skyldu jarðsett í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum, að aflokinni ' athöfn í dómkirkjunni í Reykjavík. Sú athöfn fór aldrei fram því laugardaginn 5. október ók Sigurjón Pétursson iðnrekandi að Álafossi, en hann átti meðal annarra frumkvæði að því að flytja Jónas heim og kostaði flutninginn að hluta til, með kistu Jónas- ar aftan á vörubílspalli norður í land. Um klukkan níu um kvöldið bankaði Sigurjón upp á hjá prestinum á Möðru- völlum í Hörgárdal. Sagðist hann vera kominn með bein Jónasar og vildi jarð- setja þau að Bakka í Öxnadal klukkan eitt daginn eftir. Varð nú uppi fótur og fit meðal ráðamanna þjóðarinnar. Komið var í veg fyrir að jarðsett yrði daginn eftir. Hins vegar deildu menn um hver hefði umráðarétt yfir beinum Jónasar. Bændur í Öxnadal, nákomnustu ættingjar Jónas- ar og fleiri ályktuðu um málið. Að endingu voru beinin flutt suður með fógetavaldi. Þingvallanefnd ákvað síðan að jarðneskar leifar Jónasar skyldu grafnar að Þingvöllum 16. nóvember á fæðingardegi skáldsins. Athöfnin hófst klukkan 12 þennan dag. Séra Bjarni Jónsson vígslubiskup og Sigurgeir Sigurðsson biskup fluttu ræður, Lúðrasveit Reykjavíkur lék, en dómkirkjukórinn söng. Átta alþingis- menn báru kistuna úr kirkju, en fjórir rithöfundar og fjórir náttúrufræðingar tóku þá við. Séra Hálfdán J. Helgason sóknarprestur kastaði rekunum. Athöfn- inni var útvarpað. A Þingvöllum liggur góður fulltrúi fátækra Islendinga sem jarðsettir voru í Danmörku Þjóðargrafreitur var gerður bak við Þingvallakirkju árið 1939. Einar Bene- diktsson skáld var jarðsettur þar 27. janúar 1940. í framhaldi af bréfi Þing- vallanefndar, dagsettu 24. september 1946, ákvað forsætisráðuneytið að jarð- neskar leifar Jónasar Hallgrímssonar skyldu hvíla á Þingvöllum. Bréf ráðu- neytis er dagsett 1. október sama ár. Séra Heimir Steinsson þjóðgarðsvörð- ur á Þingvöllum var spurður hvort hann teldi að Jónas Hallgrímsson lægi í þjóð- argrafreitnum á Þingvöllum. „Þessi spurning er ekki eins brennandi í mínum huga eins og kannski sumra annarra. Jónas Hallgrímsson varfátækur maður og var jarðsettur í Hjástoðar- kirkjugarði. Fátækt vina hans var slík að þeir gátu ekki sett honum stein. Ég veit ekki nema að sá sem hvílir undir steini á Þingvöllum, merktum nafni Jónasar, sé fyrirmyndar fulltrúi þeirra fátæku íslend- inga sem jarðsettir voru í Hjástoðar- kirkjugarði án legsteins og eru kannski að einhverju leyti týndir. Jónas var þeirra á rneðal." Hverju svarar þú þegar fólk spyr þig út í þjóðargrafreitinn á Þingvöllum? „Ég kalla stundum þennan grafreit vitni um andann frá 1944. Ég hef leyft mér að leggja reitinn fynr gesti sem slíkan. Þetta var það sem forystumönn- um þessa lands þótti við hæfi þá. Ég held að við eigum að líta hann öðrum þræði sem minningarmark um lýðveldisstofn- unina. Mér finnst því að þessi tvö nöfn þessara höfuðskálda 19. og 20. aldar eigi mjög vel heima þarna.“ ;**mm t * _ ..í Þingvallakirkja, þar sem þjóðargrafreiturinn Séra Heimir sagði að ekkert nýtt hefði komið fram í þætti Bjöms Th. um þetta mál. Hann sagði að enginn vissi með fullri vissu hvort fullyrðing Björns um að bein Jónasar Iægju enn í danskri mold væri rétt. Séra Heimir sagðist hafa löngun til að kanna þetta mál og reyna fá úr því skorið í eitt skipti fyrir öll hvar bein Jónasar liggja. Er grafreitur S-198 í reit Þrenningarkirkjunnar nú grafreitur N-1095-96? Björn Th. Björnsson var spurður hvort hann væri sannfærður um að Jónas Hallgrímsson lægi enn í danskri mold? „Þetta er ákaflega flókið mál. Það er búið að margbreyta öllum bókstöfum og öllum númerum í kirkjugarðinum. í Fjölni segir að Jónas sé grafinn í S-198 í reit Þrenningarkirkjunnar. Það sem ég gerði var að rekja þetta númer til baka með aðstoð danskra fræðimanna sem þekkja garðinn mjög vel og að N-1095- 96. Sá grafreitur hefur aldrei verið hreyfður svo ég viti. Þetta er ákaflega flókin vinna því þarna hafa orðið mjög miklar breytingar, sérstaklega eftir að Iíkbrennslan byrjaði og eftir að kaþólskir menn fengu sinn garð. Enn sem komið er hefur enginn íslendingur lagt út í að kanna þetta til neinnar hlítar. Það þyrfti að gera og það er vel hægt. Állar dagbækur og bækur um stafabreytingar eru til. Hins vegar er hætta á að innan fárra ára verði ekkert til af þessum leiðum Fjölnismanna því til stendur að breyta kirkjugarðinum í almenningsgarð. Mjög lítið hefur verið hugsað um garðinn á seinni árum og hann er allur að eyðiieggj- ast. Margir legsteinar eru brotnir og liggja út af. Ætlunin er að færa einungis frægustu legsteinana eins og H.C. Andersen og Oehlenschlager og aðra slíka í minningarreit og eyðileggja allt hitt. Þá hverfa menn eins og Brynjólfur Pétursson, Finnur Magnússon, Konráð Gíslason og fleiri. Það væri ekki óeðlilegt að Sögufélagið, Rithöfundasambandið eða einhver álíka félagsskapur reyndi að koma í veg fyrir að þessar menningar- leifðir íslenskrar sögur verði eyðilagðar. Því þarna hvíla helstu forvígismenn íslenskrar endurreisnar,“ sagði Björn.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.