Tíminn - 14.03.1991, Blaðsíða 5

Tíminn - 14.03.1991, Blaðsíða 5
Fimmtudagur 14. mars 1991 Tíminn 5 Bæjarþing Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í gær að bráðabirgðalög sem sett voru á samninga BHMR brjóti ekki í bága við stjórnarskrána og sýnt þyki að setning þeirra hafi verið nauðsynleg: Sýnt að bráðabirgða- lögin voru nauðsynleg Ríkisstjórnin var í fullum rétti og braut í engu gegn ákvæðum í stjórnarskránni þegar hún frestaði með bráðabirgðalögum samn- ingsbundnum launahækkunum félaga í BHMR. Þetta eru niðurstöð- ur Bæjarþings Reykjavíkur en dómur í máii félaga í BHMR gegn rík- inu, var birtur í gærmorgun. í niðurstöðum dómsins segir að sýnt hafi verið fram á að setning bráðabirgðalaganna hafi veríð nauðsyn- leg til að ná þeim stjórnmálamarkmiðum sem ríkisstjórnin stefndi að. Líta verði svo á að löggjafanum sé heimilt undir vissum kríng- umstæðum, svo sem við framkvæmd efnahagsstefnu, að skerða samningsbundin laun manna án þess að bætur komi fyrír. Af hálfu stefnanda var því haldið fram að með setningu bráðabirgða- laganna hafi bráðabirgðalöggjafmn brotið gegn fjórum greinum stjórn- arskrárinnar. f fyrsta lagi hafi verið brotið gegn 2. grein stjórnarskrárinnar og bráða- birgðalöggjafinn farið inn á valdsvið dómstóla. I öðru lagi sé það ósannað að og beinlínis rangt að aðrar launa- hækkanir hafi verið að bresta á eins og haldið hafi verið fram og því hafi verið brotið gegn 28. grein stjórnar- skrárinnar þar sem segir að brýn nauðsyn þurfi að vera fyrir útgáfu bráðabirgðalaga. í þriðja Iagi hafi 67. grein verið brotin þar sem segir að eignarétturinn sé friðhelgur og sú launahækkun sem búið var að semja um sé eign BHMR manna, og í íjórða lagi að brotið hafi verið gegn 73. grein stjórnarskrárinnar þar sem kveður á um félagafrelsi, en stefnandi hélt því fram að bráða- birgðalögin Ieiddu til þess að menn glötuðu trúnni á það að starfa í verkalýðsfélögum. Ríkið sýknað af öllum kröfum í dómi bæjarþings er ríkið sýknað af öllum kröfum og talið sýnt og sannað að ekki hafi verið brotið gegn stjórnarskránni. Þar kemur fram að sýnt hafi verið fram á það með nægjanlegum hætti fyrir dómnum að nauðsyn hafi borið til setningu bráðabirgðalaganna og sú nauðsyn þykir hafa verið nægilega rík til þess að telja verði setningu bráðabirgðalaganna innan heimild- armarka 28 gr. stjórnarskrárinnar að því er varðar ákvæði um brýna nauðsyn. „Telja verður að í málinu hafi verið leiddar í ljós yfirgnæfandi líkur á því, að stór hluti launþega í landinu hefði fengið greidda sömu kauphækkun og félagsmenn í BHMR, hefðu bráðabirgðalögin ekki verið sett,“ segir í dómnum. í dómnum segir að lagasetningin brjóti ekki gegn þrígreiningu ríkis- valdsins sem kveðið er á um í 2. gr. stjórnarskrári nnar. Þá segir að líta verði svo á að lög- gjafanum sé heimilt undir vissum kringumstæðum, svo sem við fram- kvæmd efnahagsstefnu, að skerða samningsbundin laun manna án þess að bætur komi fyrir. í þessu til- felli hafi verið um að tefla þá hags- muni stjórnvalda að hafa svigrúm til þessa að framfylgja ákveðinni efna- hagsstefnu, með það að markmiði að koma í veg fyrir víxlhækkanir launa og halda verðlagi í skefjum. Þá hagsmuni verði að telja það ríka að afnám þeirrar almennu launa- hækkunar sem bráðabirgðalögin kváðu á um hafi verið réttlætanleg. ,Allra helst kosið að þurfa ekki að gera þetta“ Steingrímur Hermannsson forsæt- isráðherra sagði að hann væri að sjálfsögðu ánægður með þennan dóm og hann hefði aldrei efast um að niðurstaðan yrði þessi því það hafi verið mjög nauðsynlegt að setja þessi bráðabirgðalög. „Ég hefði að sjálfsögðu allra helst kosið að þurfa ekki að gera þetta og tel mig hafa lagt mig fram eins og ég gat til að ná samkomulagi. Ég tel að það sem ég bauð BHMR upp á til samkomulags hafi verið vel viðunandi kostur og langbesti kosturinn fyrir þá í stöð- unni. Fyrst að það var ekki þegið þá fagna ég því að sjálfsögðu að dómur- inn kemst að sömu niðurstöðu og ég,“ sagði Steingrímur. Aðspurður sagði Steingrímur að það væri á valdi BHMR hvort þeir áfrýjuðu þessum dómi, hann sagðist ekki telja það skynsamlegt en það væri þeirra mál. „Ég vona enn að það tak- ist sættir við BHMR og menn geti farið að vinna að kjaramálunum á skynsamlegum og þjóðhagslegum grundvelli," sagði Steingrímur. Kjarklausir dómstólar Stjórn BHMR sendir frá sér álykt- un vegna dómsins um hádegisbilið í gær: „Stjórn BHMR lýsir furðu sinni á dómi undirréttar í máli sem höfð- að var gegn fjármálaráðherra og menntamálaráðherra vegna afnáms ríkisstjórnarinnar á 4,5% samnings- bundinni launahækkun. Undirrétt- ur kemst að þeirri niðurstöðu: „að löggjafanum sé heimilt undir viss- um kringumstæðum, svo sem við framkvæmd efnahagsstefnu, að skerða samningsbundin laun manna án þess að bætur komi fýrir." Þetta þýðir að stjórnvöld á hverjum tíma geta tekið aftur af launamönn- um löglega gerða kjarasamninga ef þeir henta ekki stundarmarkmiðum stjórnmálamanna. Þar með er samningsréttur stéttarfélaga að engu orðinn. Við það verður ekki unað.“ Páll Halldórsson, formaður BHMR, sagði að viðbrögð sín við þessum dómi væru mjög í anda þessarar ályktunar. „Ég tel að með þessum dómi og þó sérstaklega með rök- stuðningi hans sé samningsréttur- inn í landinu að engu gerður en með því er sagt að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma sé í öllu ráðandi og kjarasamningar verði að aðlaga sig að henni. Ég veit ekki hvort það verður næsta skref hjá okkur að þurfa að semja um efnahagsstefnuna líka,“ sagði Páll. Hann sagði að ekki væri búið að taka ákvörðun um framhald þessa máls. Aðspurður sagði Páll að niður- staða dómsins hefði ekki komið mönnum óskaplega á óvart. „Maður veit það að dómstólar hér á landi hafa ekki haft mikinn kjark þegar framkvæmdavaldið er annars vegar. Hins vegar kemur þessi rökstuðn- ingur mér verulega á óvart því að með þessum rökstuðningi er í raun og veru verið að svipta stéttarfélög samningsréttinum," sagði Páll. BHMR sendi einnig kæru til AI- þjóða vinnumálastofnunarinnar og er hún nú þar til meðferðar. Að- spurður sagðist Páll ekkert vita hvort sú niðurstaða yrði í samræmi við þá sem nú er fallin. „Sá mál- flutningur byggir á allt öðrum for- sendum. Við verðum að athuga það að það var ekki hægt að fara í mál út af bráðabirgðalögunum sem heild, heldur einungis þeim þætti þeirra sem sneri að þessum 4,5%. Það gerði allan málflutning frekar þröngan," sagði Páll. Stjórn Hins íslenska kennarafélags sendi einnig frá sér ályktun í gær og telur stjórnin að dómsniðurstaðan sé mikið áfall fyrir alla launamenn í landinu. „Ríkisvaldið hefur brotið allan trúnað við starfsmenn sína og erfitt er að sjá hvernig þar geti gróið um heilt," segir í ályktuninni. Skýrar og afdráttar- lausar niðurstöður Ólafur Ragnar Grímsson fjármála- ráðherra sagði að það væri mikil- vægt að niðurstöður dómsins væru mjög skýrar og afdráttarlausar í öll- um þeim atriðum sem um var deilt. Dómurinn staðfesti að bráðabirgða- lögin voru sett í fullu samræmi við stjórnarskrá lýðveldisins og þær réttarreglur og grundvallarviðhorf um félagafrelsi sem við viljum hafa í heiðri í okkar landi. „Á þessari stundu er mér hins vegar efst í huga að BHMR málið hefur verið mjög erfitt og viðkvæmt mál og við þurf- um öll að draga okkar Iærdóm af því máli. Dómurinn setur punkt aftan við ákveðinn kafla. í þeim kafla er sjóður reynslu sem kannski var nokkuð dýrkeypt en má hins vegar nýta ef menn skoða hana með opn- um huga og heiðarleika. Ég tel hins vegar mikilvægast að haldið sé áfram þeim viðræðum sem ég hef átt á undanförnum mánuðum við forystumenn einstakra félaga BHMR til þess að leita nýrra leiða til að bæta kjör háskólamenntaðra manna hjá ríkinu," sagði Ólafur. Hann sagði að þær leiðir sem færar væru til að bæta kjör háskólamanna hjá ríkinu væru auk sérhæfðari kjarasamninga, aukið sjálfstæði rík- isstofnana sem hefðu meiri mögu- leika til þess að efla kjör og kjara- tengd atriði hjá sínum starfsmönn- um og skapa þannig meira svigrúm og sveigjanleika. „Ég hef lagt áherslu á það að við lykjum þeirri kjarakönnun sem við ákváðum að gera. Við höfum ekki fengið enn ná- kvæma lýsingu á kjarasamanburð- inum og það hefur verið erfitt að vinna að honum vegna þessarar deilu, m.a. þessa máls fyrir dómstól- um. Nú er þeirri málsmeðferð lokið og við ættum því að geta tekið til hendinni varðandi kjarasamanburð- inn og byggt þá lausnir á þeim nið- urstöðum sem hann skilar," sagði Ólafur. Léttúðugur umgangur um stjómarskrána Minnstu munaði að þing yrði rofið fyrr í vetur og efnt yrði til kosninga, þar sem þingflokkur Sjálfstæðis- flokksins samþykkti að greiða at- kvæði gegn bráðabirgðalögunum þegar þau komu til afgreiðslu í þing- inu. Nokkrir af þingmönnum flokksins voru með efasemdir um hvort lögin væru í samræmi við stjórnarskránna og töldu einnig að lögleysa væri að setja lög eftir að dómur féll um málið í félagsdómi. Ólafur G. Einarsson, formaður þing- flokks Sjálfstæðisflokksins, sagði að þessi niðurstaða kæmi honum frek- ar á óvart. Hann væri hins vegar ekki búinn að kynna sér dóminn og forsendur hans og gæti því lítið tjáð sig um hann. Aðspurður sagði Óíaf- ur að þeir hefðu byggt mótmæli sín við bráðabirgðalögunum þegar þau komu til afgreiðslu í þinginu á því að það væri ekki siðlegt að rjúfa svona gerða samninga, hvorki með þessum hætti né öðrum. „Við höfð- um ákveðnar efasemdir en vorum aldrei með fullyrðingar um stjórn- arskrárbrot, heldur töldum að þetta væri fremur léttúðugur umgangur umi stjórnarskránna,“ sagði Ólafur. „Ég neita því ekki að þessi dómur kemur mér á óvart þar sem mér skilst að hann sé byggður á því að þetta hafi verið til að ná fram efna- hagsstefnu ríkisstjórnar, og meðan ég hef ekki lesið frekar forsendur dómsins, þá kemur slík röksemda- færsla mér á óvart," sagði Ólafur G. Einarsson. —SE

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.