Tíminn - 06.10.1992, Blaðsíða 8

Tíminn - 06.10.1992, Blaðsíða 8
8 Tíminn Þriðjudagur 6. október 1992 70 ára: Alexander Stefánsson fyrrverandi alþingismaður og ráðherra Alexander Stefánsson, fyrrverandi félagsmálaráðherra og alþingismað- ur, er sjötugur í dag. Við það tæki- færi vil ég með örfáum orðum þakka Alexander ágætt samstarf og góð kynni. Ég þakka góð störf í þágu Framsóknarflokksins og íslensku þjóðarinnar. Aðrir munu á þessum tímamótum verða til þess að rekja mikil störf Al- exanders í þágu síns byggðarlags, Ólafsvíkur, þar sem hann var lengi kaupfélagsstjóri og sveitarstjóri og gegndi ýmsum öðrum trúnaðar- störfum. Okkar kynni og samstarf hófst 1972 þegar Alexander kom fyrst á þing sem varaþingmaður fyr- ir Vesturland og kjörinn þingmaður 1975. Nánast varð samstarf okkar í ríkisstjórninni árin 1983 til 1987, þegar Alexander gegndi starfi fé- lagsmálaráðherra. Alexander lét á þingi sveitarstjórn- ar- og félagsmál mjög til sín taka. Á þeim sviðum hefur Alexander reynslu og þekkingu umfram flesta aðra. í þeim málum varð hann fljót- lega málsvari framsóknarmanna og átti stóran þátt í að móta stefnu flokksins. Alexander er ræðumaður góður og málafylgjumaður mikill. Hann flytur mál sitt af festu og með góðum rökum. Sem ráðherra vann Alexander mik- ið starf og kom ýmsu góðu til leiðar. Margra verka hans njótum við, eins og t.d. í málefnum fatlaðra, þar sem varð í raun bylting. Alexander var sem ráðherra það mikið kappsmál að auðvelda ungu fólki að eignast sitt húsnæði og kom í því skyni á mörgum umbótum. Hann lagðist síðar hart gegn ýmsum vafasömum breytingum. Hann varaði meðal annars mjög við áhrifum húsbréfa- kerfisins, einkum gagnvart þeim sem eignast húsnæði í fyrsta sinn. Sannindi þeirra orða hygg ég að margur geti nú staðfest. Alexander var mjög starfsamur ráðherra. Sem kaupfélagsstjóri og sveitar- stjóri í Ólafsvík kynntist Alexander vel lífi og störfum fólksins og á ung- iingsárum sínum kreppunni með atvinnuleysinu og erfiðleikunum, sem henni fylgdu. Rík umhyggja fyrir velferð almennings einkenna störf Alexanders. Alexander Stefáns- son er sannur samvinnu- og félags- hyggjumaður. Við Edda sendum Alexander Stef- ánssyni og hans ágætu eiginkonu, Björgu Hólmfríði Finnbogadóttur, og fjölskyldu þeirra hugheilar árn- aðaróskir. Það geri ég einnig fyrir hönd Framsóknarflokksins. Steingrímur Hermannsson Alexander Stefánsson er orðinn sjö- tugur. Hann fagnar þeim tímamót- um á laugardaginn kemur í Ólafs- vík, á heimaslóðum. Ég kynntist Alexander þegar ég kom inn á Alþingi árið 1985, en þá var hann félagsmálaráðherra. Það vildi svo til að í minn hlut kom bæði þá og síðar að vinna í þeim mála- flokkum, sem undir hann heyrðu. Ég kynntist því fljótt þeim baráttu- anda sem í honum var; fyrir þá sam- vinnu og samstarf vil ég þakka. Alexander Stefánsson er fæddur í Ólafsvík. Foreldrar hans voru Svan- borg Jónsdóttir og Stefán S. Krist- jánsson vegaverkstjóri, en hann var af Hjarðarfellsætt sem er vel þekkt á Snæfellsnesi og víðar. Hann ólst upp í Ólafsvík, stundaði nám við héraðsskólann á Laugarvatni og síð- ar við Samvinnuskólann og útskrif- aðist þaðan árið 1943. Var kaupfé- lagsstjóri í Ólafsvík á árunum 1947- 1961, en varð þá skrifstofustjóri hjá Ólafsvíkurhreppi og síðar sveitar- stjóri. Hann var oddviti frá 1964- 1979, en átti sæti í sveitarstjórn frá 1954-1982. Hann gegndi fjölmörg- um trúnaðarstörfum á sviði sveitar- stjórnarmála á landsvísu. Hann tók sæti í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga árið 1962, var stjórnar- maður þar um árabil, og átti einnig sæti í stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Hann var einn af stofnendum og hvatamönnum að stofnun Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og var formaður þeirra frá 1969-1976. í bankaráði Útvegsbanka íslands átti hann sæti frá 1976-1984. Alexander varð varaþingmaður ár- ið 1959 og var það til 1978, er hann tók sæti á Alþingi og átti þar sæti þar til árið 1991, er hann gaf ekki kost á sér til áframhaldandi þing- setu. Hann var félagsmálaráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermanns- sonar frá 1983-1987. Sem þingmað- ur starfaði hann meðal annars mik- ið að félagsmálum og rfkisfjármál- um með setu í fjárveitinganefnd, en þar var hann varaformaður á árun- um 1988-1991, og einnig átti hann sæti í félagsmálanefnd þingsins. Alexander tók sæti í stjórn Viðlaga- tryggingar íslands árið 1991 og tók við stjórnarformennsku heilsu- gæslustöðvar Ólafsvíkur á þessu ári. Þetta er ærið ævistarf, en þó er ógetið starfa sem honum voru hjart- fólgin, en það voru störf að kirkju- og söngmálum í Ólafsvík. Undir hans forustu sem sóknarnefndarfor- manns um árabil var hin fagra kirkja byggð á staðnum, og einnig starfaði hann í kirkjukór staðarins af miklum áhuga, enda ágætur söngmaður. Eins og fram kemur hér á undan, eru sveitarstjórnarmál drjúgur þátt- ur í ævistarfi Alexanders, og það kom vel í Ijós í hans ráðherratíð hve mikinn áhuga og þekkingu hann hafði á því sviði, og hann lét sér annt um að samband sveitarfélag- anna og ríkisvaldsins væri sem best. Baráttuþrek hans var óbugandi. Það kom ekki síst í Ijós, þegar heils- an bilaði á síðasta árinu sem hann var á Alþingi. Hann komst yfir það áfall og til vinnu aftur af þvílíkri hörku og dugnaði að það lýsir hon- um betur en mörg orð. Alexander er kvæntur Björgu Hólmfríði Finnbogadóttur og eiga þau sex börn, Finnboga héraðsdóm- ara í Hafnarfirði, Svanhildi flug- freyju, Örn skipstjóra, Láru Öldu kerfisfræðing, Stefán bifvélavirkja og Atla kennara. Við Margrét sendum honum og fjölskyldu hans bestu árnaðaróskir á þessum tímamótum í lífi hans. Jón Kristjánsson í dag, 6. október, er Alexander Stef- ánsson, f.v. félagsmálaráðherra, 70 ára, og í tilefni þessara merku tíma- móta í lífi hans sendi ég honum og hans stóru fjölskyldu innilegar hamingjuóskir. Alexander er Snæfellingur og það mikill Snæfellingur í þess orðs bestu merkingu, í móðurætt ættað- ur frá Ólafsvík, en í föðurætt ættað- ur frá Hjarðarfelli í Miklaholts- hreppi. Alexander ber sterk ein- kenni Hjarðarfellsættar. En sú ætt er þekkt fyrir skapfestu, metnað og fyrst og síðast dugnað og samvisku- semi. Þessi ættarfylgja hefur gert honum kleift að takast á við stór- huga verkefni og sigrast á flestum torfærum. Mér er sagt að Alexander hafi verið frækinn íþróttagarpur á yngri árum og þykir mér það meira en trúlegt, því hann hefur gengið að hverju verkefni með sönnum íþróttaanda, kappsfullur og ákveð- inn að ná settu marki. Alexander nam við héraðsskólann á Laugarvatni og síðan Samvinnu- skólann 1942-1944. En að námi loknu tóku við ýmis störf í Ólafsvík, m.a. sem kaupfélagsstjóri við Kaup- félagið Dagsbrún, en síðar störf hjá Ólafsvíkurhreppi, lengst af sveitar- stjóri og oddviti. Það má segja að varla sé minnst á Ólafsvík án þess að nafn Alexanders beri á góma um leið, því fjölbreytt störf hans blasa allstaðar við og í gamni og alvöru hefur bærinn oft verið kenndur við nafn hans, enda er Alexander stoltur af bænum sín- um og þegar hann segir „heim í Ól- afsvfk“ er sérstakur hreimur vænt- umþykju í röddinni. Ymis trúnaðarstörf á vettvangi sveitarstjórnar hlóðust snemma á herðar hans, bæði hér á Vesturlandi og víðar. Alexander var m.a. í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga í fjölda ára, í stjórn Hafnarsambands sveitarfélaga og á sama tíma gegndi hann mörgum trúnaðarstörfum fyr- ir Framsóknarflokkinn. 1978 var Alexander kjörinn á þing, en áður hafði hann verið varaþing- maður. Alexander vann mikið starf á Alþingi, var svipmikill þingmaður og barðist fyrir mörgum framfara- málum. í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1983 varð hann svo félagsmálaráðherra. Það má segja með sanni að fáir hafi verið jafn gjörkunnugir þeim málefnum sem það ráðuneyti hefur innanborðs og Alexander. Naut hann sín vel sem ráðherra og kom í framkvæmd m.a. breytingum á húsnæðismálalög- gjöfinni og breytingum á sveitar- stjórnarlögum, sem mörkuðu viss tímamót í sögu sveitarfélaganna. Fátt eitt hefur verið talið upp af verkum Alexanders hér sem vert væri að þakka. Ekkert hefur þó verið mikilvægara í hans lífi en sú mikla gæfa sem hann hefur notið í einkalífi. Því hann hefur ekki verið einn og „bjargarlaus" á gifturíkri vegferð. I hálfa öld hefur kona hans, Björg Finnbogadóttir, staðið við hlið hans og stutt í blíðu og stríðu. Stjórnað stóru og einstaklega myndarlegu heimili og ekki látið sig muna um að eiga sex börn, sem öll eru löngu orðin fulltíða fólk, en þau eru: Finn- bogi héraðsdómari í Hafnarfirði, kvæntur Sigríði Halldórsdóttur, og eiga þau 3 börn; Svanhildur flug- freyja, gift Marinó Sveinssyni, þau eiga 2 börn; þá kemur Stefán bif- vélavirki, kvæntur Lailu Michaels- dóttur, þeirra börn eru 4; Lára Alda starfsmaður á Landspítalanum, gift Þórði Ólafssyni, þau eiga 3 börn; Örn Alexander er skipstjóri, kvænt- ur Aðalheiði Eiríksdóttur, þau eiga 4 börn; yngstur er Atli kennari og forseti bæjarstjórnar í Ólafsvík, kvæntur Elfu Ármannsdóttur, þeirra börn eru 3. Barnabarnabörn- in eru orðin 5, svo af þessari upp- talningu má sjá að fjölskyldan er orðin stór og dæmigerð fyrir Alex- ander, því hann er stór í hugsun á öllum sviðum. Þrátt fyrir að sjötíu ár séu nokkur aldur og mörg þung störf að baki, er kempan Alexander léttur og glæsi- legur á velli enn sem fyrr og gamla keppnisskapið bregst honum ekki. Ég óska Alexander, Björgu og af- komendum öllum allra heilla og blessunar á þessum tímamótum, um leið og ég þakka fyrir vináttu og tryggð í minn garð. Ingibjörg Pálmadóttir Alexander Stefánsson, fyrrverandi félagsmálaráðherra, er sjötugur í dag. Hann á að baki afar litríkan og farsælan feril sem stjórnmálamað- ur, sveitarstjórnarmaður og félags- málafrömuður. Ungur stundaði hann nám í Samvinnuskólanum og hreifst af hugsjónum samvinnu og félagshyggju. Þeim hugsjónum hef- ur hann verið trúr alla ævi og unnið þeim af alúð og fórnfýsi hins bar- áttuglaða og dugmikla hugsjóna- manns. Um langt árabil var Alexander kaupfélagsstjóri í heimabyggð sinni Ólafsvík, en kunnastur er hann fyrir störf sín fyrir Framsóknarflokkinn og á vettvangi sveitarstjórnarmála. Alexander var oddviti Ólafsvíkur- hrepps um langt árabil og sveitar- stjóri frá 1964-79. Vart hefur nokk- ur unnið betur eða meira að fram- faramálum Ólafsvíkur en einmitt hann. Jafnframt hefur hann látið vel og rösklega til sín taka á sviði sveit- arstjórnarmála á víðari vettvangi, sat meðal annars lengi í stjórn Sam- bands íslenskra sveitarfélaga og hef- ur gegnt fjölþættum trúnaðarstörf- um í þágu sveitarfélaganna í þessu landi. Alexander var fyrsti formaður Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi árið 1969 og gegndi því starfi í sjö ár. Vann hann þar gott og merkilegt brautryðjandastarf, sem sveitar- stjórnarmenn á Vesturlandi minn- ast og þakka að verðleikum á þess- um tímamótum. Þegar framsóknarmenn á Vestur- landi stilltu upp á lista sinn eftir kjördæmabreytinguna 1959, skipaði Alexander fimmta sæti listans og upp frá þvf skipaði hann eitt af efstu sætunum í 30 ár, var í þriðja sæti við kosningarnar 1971 og 1974, en hlaut annað sæti listans 1978 og var þá kjörinn á þing. Var hann síðan al- þingismaður Vesturlands óslitið þar til á síðastliðnu ári. Eins og við var að búast reyndist Alexander góður og dugandi þing- maður. í honum átti Vesturland öfl- ugan málsvara og baráttumann, sem í hvívetna stóð vörð um hags- muni kjördæmisins og lagði sig fram um að hrinda hag þess og hamingju lengra fram á leið. Þegar Steingrímur Hermannsson myndaði ríkisstjórn að loknum kosningum vorið 1983 og í Ijós kom að félagsmálaráðuneytið kæmi í hlut Framsóknarflokksins, þótti flestum réttmætt og einsýnt að Al- exander yrði félagsmálaráðherra. Kom þar til yfirgripsmikil þekking hans og áratuga reynsla af sveitar- stjórnarmálum og öðru félagsmála- starfi. Þau fjögur ár, sem hann var ráðherra, beitti hann sér fyrir marg- háttuðum framförum og umbótum, þar á meðal í húsnæðismálum og í málefnum sveitarfélaga, lét setja ný lög um þessa málaflokka og fleiri, sem öll miðuðu að endurbótum og framförum. Hann hafði ekki síst vakandi auga fyrir velferð og hag- sæld hinna dreifðu byggða, sem svo oft eiga undir högg að sækja. Alexander Stefánsson hefur verið farsæll og afkastamikill bæði sem stjórnmálamaður og í öllu sínu mikla félagsmálastarfi. Hann hefur átt skyldunnar þor og hugsjóna- mannsins djörfu og fórnandi hönd til að takast á við verkefni lífsins og fylgja því fram til sigurs, sem hann hefur haft áhuga á og honum hefur verið trúað fyrir. Hann er maður mjög viljasterkur, einarður, skap- fastur, reglusamur, fylginn sér og sókndjarfur. Sumum hefur fundist hann vera nokkuð harður í horn að taka, ráðríkur og fastur fyrir, svo sem títt er um stjórnmálamenn sem einhver veigur og kraftur er í. Víst er um það, að hann er baráttuglaður og djarfur í sókn og vörn, hugrakk- ur og ódeigur við að hafa storminn í fangið. Alexander er ekki maður lognmollu og deyfðar, heldur kjarks og karlmennsku, vilja og visku, dirfsku og drenglyndis. Hann er prýðilega vel máli farinn, mælskur og rökfastur, setur mál sitt fram á rökrænan og skipulegan hátt og tal- ar jafnan af miklum sannfæringar- krafti og áhersluþunga. Einn er sá þáttur í ævistarfi Alex- anders, sem ég vil ekki láta hjá líða að minnast á og það er hið mikla og fórnfúsa starf hans í þágu kirkjunn- ar. Hann var um langt skeið formað- ur sóknarnefndar í Olafsvík og beitti sér þá fyrir byggingu hinnar fögru og glæsilegu Ólafsvíkurkirkju, sem setur sinn fagra svip á bæinn. Alex- ander er góður söngmaður og þeirra hæfileika hans fékk kirkjan hans vel og lengi að njóta. Eiginkona hans, frú Björg Finnbogadóttir, var um langt skeið organisti kirkjunnar. Bæði hafa þau hjónin verið traustir og fórnfúsir hollvinir kirkju sinnar. Það er gæfa kirkjunnar og gæfa hverrar byggðar að eiga svo góða og trausta hollvini og svo fórnfúst og velviljað félagsmálafólk eins og þau

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.