Tíminn - 22.12.1992, Side 6

Tíminn - 22.12.1992, Side 6
6 Tíminn JÓLABLAÐ 1992 kosið og dýrðlegri haustdegi varla völ á, enda líður manni ekki úr minni tign og töfrar landsins okkar, tilbrigði ljóss og sólar, endurkast þess frá kynja- myndum fjallanna, seiðmagni auðnarinnar með grænum vinj- um, tærum ám, fossum og flúð- um, ýrðum vatnsfleti, með stóru jökulhvelin til beggja handa, sem sindruðu eins og bráðið silfur í geislaflóði haustkyrrðar- innar. Vitaskuld var þetta ströng ferðaáætlun. Það fengu að minnsta kosti Skaftfellingar að reyna, því að sólarhringurinn hjá þeim mun hafa verið full- nýttur. Það er einmitt vandamál í þessum ferðum hvað tíminn líður hratt. Verða því margir skoðunarverðir staðir útundan, sem væru þess virði að stansa hjá stundarkorn. Á Hveravöllum var fyrsti áning- arstaður og mætti okkur þar í logni og glaðasólskini hin sanna öræfakyrrð, fegurð og friður. Stemningin yfir veisluborðinu, sem sett var upp í hlaðvarpan- um, var ógleymanleg og allur sá þjóðlegi og rammíslenski matur, sem ferðalangarnir kýldu vömb sína með af mikilli lyst í þeirri breyskjandi sól og hita að fækka varð klæðum. Þá var nú sannar- lega „glatt á hjalla“ og „um margt að spjalla“. Margir hugs- uðu til Höllu og Eyvindar og þess vesalings fólks þess tíma, sem bjargaði sér á vit öræfanna undan hrammi valds og örlaga í faðm íslenskrar náttúru og undralanda óbyggðanna. „Hratt flýgur stund" og enn er langt í áfangastað. Stuttur stans er gerður á svæði Landsvirkjun- ar í Seyðisárdrögum og síðan við beitartilraunasvæðið milli Sauðafells og Áfangafells og litið yfir það landsvæði sem fór undir vatn með tilkomu Blönduvirkj- unar. Einnig var litið yfir upp- græðslu við Þrístiklu. Flestum var því orðin þörf á miðdegiskaffinu þegar Blöndu- búðum var náð, enda klukkan þá orðin um 19. Þar biðu hlaðin borð sem snögglega voru hroð- in, líkast því þegar hross komast í björg í bjargarleysi. Um tveim- ur tímum síðar var hátíðleg kveðjustund á Blöndubúðahlaði. Starfsfólk og kaffikonur var kall- að út og kvatt með virktum. Um það leyti er við rennum úr hlaði er að bregða birtu. Kossar eru sendir af fingrum fram eins og flugeldar á gamlárskvöldi. Fljótlega fara rausnarlegar veit- ingar Landsvirkjunar að segja til sín, en engin grið eru gefin hjá fararstjóra, ekki skal stansa fyrr en í fjallahóteli Biskupstungna- manna í Svartárbotnum, sem ekki varð fyrr en um kl. 23. Það var mikil lífsnautn að komast út úr bílnum og létta á sér frjáls- lega í húmi haustkyrrðarinnar, sem aðeins var rofin með sælu- tilfinningarróm og fjölradda rennilásarómantík. „Ó sæl er sú stund,“ kvað við úr hópnum. Seint munu gleymast viðbrögð Kjartans og Sveins er þeir öllum að óvörum drógu fram hvern kassann af öðrum af kakómjólk og öðrum vinsælum drykkjum ásamt samlokum og fleira hnossgæti. Þessu voru gerð góð skil, enda menn orðnir vel und- irbúnir að bæta á sig aukaorku. Upp úr þessu fer að verða aðeins vart við að dreginn er upp fagur fleygur með áhrifamikilli glitr- andi dögg. Fjallahótelið var snarlega opn- að og sungið af innlifun og kröftum, allt frá rammíslensk- um aldamótaljóðum og niður í nýjustu poppslagara. Er út var Það er svo gaman ... komið, vafðist eitthvað fýrir sumum að hitta á réttan bíl og réttan maka, sem myrkrinu var vitanlega kennt um. Það var ekki einu sinni að tunglið lýsti, því það gamla hafði endað göngu sína en hið nýja tæpast komið á fót. Niður á Hótel Geysi var síðan ekið þar sem okkar var beðið og öll hús opin. Þar var sannarlega kátt á kveðjustund og var fullyrt að sá söngur hafi ómað fram yfir allar Biskups- tungur. Hér verður að setja punktinn við, þó margt væri hægt að draga fram í dagsljósið frá þess- ari ferð, enda vakti hún athygli. Blöðin sögðu meðal annars frá henni á þann hátt að Auðkúlu- heiði hefði mátt þola átroðning 200 bænda í viðbót við rollurn- ar. Það má geta þess að á miðj- um Kili fyrr um daginn ókum við fram á kunnan Hreppa- bónda. Hann sendi okkur kveðju og við árnuðum honum farar- heilla. Hann var að halda upp á merk tímamót í sínu lífshlaupi með því að ríða í kringum Lang- jökul. Hann tróð hér „einn með hundi og hesti“ landið, eins og Jónas forðum Þingvallahraun. Starfssaga Búnaðarsambands Suðurlands hefur sannarlega skipt sköpum í lífi okkar Sunn- lendinga. Maður á minningar frá 30 ára afmæli sambandsins og ekki síst um allan vélakostinn, sem raðað var í hlaðvarpann á Þjórsártúni í umsjón Guðjóns heitins í Ási bjartan og hlýjan júlídag árið 1938. Þá voru þessar vélar ekki knúð- ar af nema einu til tveimur raunverulegum hestöflum, en þó var það stór draumur í lífi ungra sveina og aldinna bænda að eignast slík tæki. Ég hugsa að hesta-Herkúles- sláttuvél eða Derring-rakstrarvél hafi ekki vakið minni gleði, vonir og væntingar þá en þessir um 100 hestafla járndrekar, sem eru í boði núna. Þá er sannarlega margs að minnast frá þeim sýningum sem sambandið hefur haldið síðan, hvort heldur það eru búfjársýn- ingar, véla- eða sögusýningar. Hjá Búnaðarsambandinu hefur verið fylgst með framþróuninni og alltaf reynt að gera betur, hvort heldur sem er í ræktun jarðar eða búfjár. Hin náttúrulega umgjörð Bún- aðarsambands Suðurlands er í senn margbreytileg, stórskorin, hrein og tær, umvafin birtu og listrænu litskrúði náttúrunnar. Allt frá því er við lítum Vest- mannaeyjar í suðri, sem bíða eins og „vinir í varpa" og bjóða hvern, sem af hafi eða um lofts- ins vegu kemur, velkominn að fósturjarðarströndum. Það er sannarlega dýrðlegt hjá okkur, sem horfum á það í janúarlok þegar sólin fetar sig upp Selja- landsmúlann, vetur og þorri eru hálfnaðir, vonin vaknar um vor, birtu og mildari tíð, eða þegar hún við hæstu mörk lita og ljóss sveipar herðar Heklu marglitu geislaflóði og áfram Hreppa- og Laugardalsfjöll, síðan Reykja- neshálendið allt til Krísuvíkur- bergs. Niður hlíðar, hjalla og heiðar streyma stórfljótin syngjandi margraddaðan þungan nið. Til hliðar mynni Þverár og bæjar- lækir. Allt er þetta á fleygiferð að fagna nýju lífi, eins og ungdóm- ur á blíðviðrisdegi hoppandi og hjalandi í óðaönn að flytja fyll- ingarefni í þá gróðurtorfu sem er undirstaða þeirrar lífkeðju sem við lifum í og hrærumst með og sem skapar okkur auð- inn og aflið til fjárhags- og fé- lagslegrar afkomu. Já, að vinna innan um allt þetta náttúruvö- lundarsmíði er mikil lífsfylling og uppspretta að líkamlegu og andlegu starfi. Baksvið Skaftafellssýslu er ekki síður stórbrotið. Allt frá Reynis- fjalli að Lómagnúp, sem umlyk- ur frjósamar sveitir og fagra fjallasýn, þar hafa eyðingaröfl farið um, eyðingaröfl vatns, elds og íss verið stórvirk við að eyða fögru landi, eyða blómlegri byggð, færa til land og búsetu. Samt hefur þetta hérað skilað til þjóðfélagsins meisturum og mikilhæfum mönnum. Á engan tel ég hallað, þó ofarlega sé í huga nafn Bjarna Runólfssonar sem ólst upp í Hólmi fyrir og um aldamótin. Hann ólst upp í stór- um systkinahópi við fátækt og fábreytni þess tíma, en átti bjarta bernskudrauma, hugsjón- ir og haga hönd. Hann var einn af þessum sjálf- menntuðu skaftfellsku raffræð- ingum, sem beisluðu bæjarlæk- inn og veittu orku hinna „hvítu kola“ inn á heimilin, lýstu þau upp og hlýjuðu, ekki einungis á heimaslóðum heldur einnig í fjarlægum héruðum. Hinum megin Skaftár, að Hunkubökkum, fæðist þar fjór- um árum fyrr Guðjón Samúels- son, einn fremsti byggingarlist- arfrömuður á fyrri hluta þessar- ar aldar, sem mótaði á lifandi og listrænan hátt flestar af höfuð- byggingum þjóðarinnar á því tímabili. Um líkt leyti leit Jó- hannes S. Kjarval fyrst dagsins ljós í lágum og fátæklegum bæ suður í Meðallandi. í Rangár- vallasýslu, að Þjórsártúni, má segja að staðið hafi vagga sunn- lenskra félagssamtaka. Þar risu á legg Búnaðarsamband Suður- lands, Héraðssambandið Skarp- héðinn, Framsóknarflokkurinn og fleiri félög, og starfshópar voru stofnuð þar, en áttu eins og gengur og gerist misjafnlega langa ævi. í Kirkjubæ, þekktum stað á söguslóðum Njálu, fædd- ist laust fyrir aldamótin Egill Thorarensen, einn svipmesti fé- lagsmála- og hugsjónamaður, brautryðjandi og baráttumaður í hagsmunamálum sunnlenskra sveita. Þjóðhátíðarárið 1874, einmitt um það leyti sem Kristján IX Danakonungur er að undirbúa ferð sína til íslands með stjórn- arskrána undir hendinni, fædd- ist í lágum torfbæ undir svip- miklum brúnum Galtafells Ein- Söngglaöir sveitamenn í Tunguseli. ar Jónsson myndhöggvari, brautryðjandi nýrra lista á ís- landi, sem hafði trú, von og kærleika að leiðarljósi. Einar fágaði, greypti og meitl- aði ódauðleg listaverk um kenn- ingu Krists og eilíft líf, auk ann- arra þjóðlegra og hugmynda- ríkra verka. Svo mætti lengi halda áfram. Undir lokin get ég varla látið hjá líða að þakka Búnaðarsam- bandi Suðurlands fyrir það menningarlega framtak sem út- gáfa bókaflokksins „Sunnlensk- ar byggðir" er. Já, þar er sannar- lega miklum verðmætum menn- ingararfi bjargað frá glötun. Þar fer saman fróðleikur, ritsnilld og vandaður frágangur. Hvað við eigum marga menn innan okkar samtaka sem beitt geta stílvopni á snilldarlegan hátt. Það sanna best þessar list- rænu sveitalýsingar, ásamt sögulegum og þjóðlegum fróð- leik. Það er ekki nema eðlilegt í jafnmiklu verki að staðreyndir geti stangast á við veruleikann. Óneitanlega hefði verið gaman að vita meir um ábúendur býl- anna, svo sem hvaðan þeir komu og hvert þeir fóru. Víða eru þessar bækur oft opnaðar og mikið flett. Fréttir maður oft af því þegar fólk bregður sér á leik út í náttúruna, að þessar bækur sjáist í farteskinu og séu notaðar sem landabréf og leiðarlýsing. Enda er þetta sambland annála, þjóðsagna og lífssaga genginna kynslóða. Þó margt væri hægt að skrifa um okkar búskapar- hætti, verður það ekki gert hér. Við vitum að víða er að landbún- aði vegið, bæði beint og úr laun- sátri. Við skulum treysta því að bændasamtökin megi eiga það vígfima menn að beita orðsins brandi með rökum og réttsýni, að þeir grípi á lofti þau skeyti sem að þeim er beint og sendi til baka, þannig að þeir sem að vega megi falla með smán á sjálfs síns bragði. Við eigum að hlúa að öllu sem skapar vinnu og verðmæti í landinu. Við eigum ekki að flytja inn landbúnaðarvörur. Það er smán og virðingarleysi við land- ið og okkur sjálf. Við eigum ekki að láta hagsmuni og sleggju- dóma einstakra fjárplógsmanna ráða ferðinni. Við getum framleitt hér mat handa milljónaþjóð. Skoðum vel alla þá möguleika, sem landið okkar hefur upp á að bjóða. Höldum fast í það sem við höf- um eignast. Látum ekki slagorð og stundarsýn glepja okkur. Hvert verður förinni heitið næst? er spurning sem brennur á okkur á kveðjustund. Sumir munu telja að allir staðir séu upptíndir í okkar heimahögum. En seint held ég að það verði og að ekki leynist skoðunarverðir staðir og það nær en margur hyggur, því að land vort býr yfir miklum auði örnefna og sögu- legra minja við hvert fótmál. Þó ekki sé nema tóftar- eða tún- garðsbrot, getur það sagt mikla sögu. Einnig hvammur og hamraborg eða bunandi berg- vatnskvísl og svona mætti lengi telja. En tíminn líður hratt. Sjálfsagt teljast það skýjaborgir en þó tæknilega framkvæmanlegar, að fá flugvél að morgni og skreppa á annað landshorn og litast um eina dagsstund með stéttar- systkinum okkar. Þetta gerði ungmennafélagið í minni sveit fyrir fjörutíu og tveimur árum. Að lokum þakka ég ykkur fyrir allar góðu minningarnar frá liðnum árum og öllum sem und- irbúið hafa og skipulagt þessar ferðir. Stjórn Búnaðarsam- bandsins, fararstjórum, bílstjór- um, fyrirtækjum sem sýnt hafa okkur og kynnt starfsemi sína ásamt góðgjörðum í mat og drykk, starfsfólki á hótelum og greiðasölustöðum, sem á allan hátt hefur komið fram við okkur með hlýhug og gestrisni. Þá óska ég Búnaðarsamband- inu þess í lokin að það megi verða leiðandi afl í hagsmuna- málum héraðsins og alþjóðar. Á þríhelgum 1992.

x

Tíminn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.