Réttur - 01.07.1982, Page 23
Jóhannes úr Kötlum:
Níundi nóvember
/
Heill þér sól! í austri eldar rísa,
ákaft bláan morgunhimin lýsa,
öllum oss til lífsins veginn vísa,
— vorsins heiti faðmur opnast senn.
Styrk sé hönd vor: stöðvum bál og ísa!
Stöndum saman, allir verkamenn!
Mikinn hlut af höndum þarf að inna:
Hér má gull úr bergi jarðar vinna,
hér má silki úr hafsins bylgjum spinna,
— hvergi er landið góða numið enn.
Látum bóndann blóðrás vora finna!
Berjumst saman, allir snauðir menn!
II
Hverjir eru þeir, sem þarna standa,
— þöglir menn og sýnilega í vanda?
Svörtu lofti að sér brjóstin anda,
aumir fætur kvika sem á glóð,
dyljast sár í siggi krepptra handa...
Sjá, þar hímir íslands nýja þjóð!
Þetta eru þeir, sem reru á kænum,
þegar vonin brást í dalnum grænum,
niðjar bóndans gamla í gamla bænum,
gestirnir, sem lögðu þessi torg.
Þetta eru þeir, sem hurfu að sænum,
— þreyttir menn, sem skópu heila borg.