Lesbók Morgunblaðsins - 21.01.2006, Page 10

Lesbók Morgunblaðsins - 21.01.2006, Page 10
10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 21. janúar 2006 Þ egar kemur að skáldsögu eins og þessari, sem fjallar í aðra röndina um sjálfa sig, liggur beint við að spyrja: Hvers vegna skrifa menn skáldsögur? Já, hvers vegna í ósköpunum leggja menn á sig ómælt erfiði við að skálda sögur þegar fyrir liggur, eins og Philip Roth sagði í frægri grein árið 1960, að veruleikinn skákar alltaf ímyndunaraflinu. Hvaða þörf rekur menn áfram og hvaða löngun er verið að svala? Þetta eru stórar spurningar sem menn hafa lengi glímt við, en úr því mannskepnan hefur staðið í þessu skáldskaparstússi öldum saman hljóta að vera merkileg svör við þeim. Eitthvað hlýtur að gerast í skáldskapnum sem ekki gerist í öðrum tjáningarformum. Samt er það svo, ekki síst hér í fámenninu, að fólki hættir til að lesa skáldskap sem sjálfsævisögu höfundarins. Það leitar oftar en ekki að fyrirmyndum að persónum og gerir því skóna ef nokkur kostur er að höfundurinn sé að skrifa um sjálfan sig. Árni Bergmann kemur inn á þetta í nýrri bók sinni, Listin að lesa, og segir þá sem aðhyllast slíka lestr- araðferð „hlaupa yfir sjálfan galdur sköp- unarferlisins, láta sér sjást yfir það, með hve róttækum hætti efniviðurinn ummyndast á leið sinni inn í bókmenntirnar“ (111). Það er þessi ummyndun, þessi galdur, sem hlýtur að vera lykillinn að erindi skáldskaparins við okkur öll. Svo hratt sé farið yfir sögu, skapar téð ummyndun listform sem kallast á við veruleikann en er jafnframt eitthvað miklu meira. Það er þess vegna sem skáldskapurinn er oft á tíðum betur í stakk búinn til þess að höndla ákveðinn sannleika en frásögn sem á að heita sannsöguleg. Á annarri löppinni Í Slow Man kryfur J. M. Coetzee eðli skáld- skaparins og sköpunarferlið. Paul Rayment er sextugur ljósmyndari sem býr í Adelaide í Ástralíu (þar sem Coetzee býr nú) en hefur jafnframt nokkur tengsl við Frakkland. Í upphafi bókarinnar verður hann fyrir því óláni að bíll keyrir utan í hann þar sem hann er á ferð á reiðhjólinu sínu einn gæskufullan morgun. Skiptir engum togum að hann flýgur af hjólinu og í stuttum og hnitmiðuðum setn- ingum er því lýst hvernig hann virðist aldrei ætla að lenda og getur svo ekki einu sinni lyft fingri þegar hann loksins lendir. Rayment er fluttur á sjúkrahús og reynist hafa slasast svo illa að taka verður annan fótinn af fyrir ofan hné og í framhaldinu verður hann nánast ósjálfbjarga (sbr. titil bókarinnar) enda neitar hann alfarið að nota gervifót – hefur greini- lega ekki frétt af Össuri. Hann einangrar sig líka frá þeim fáu vinum sem hann á og er óhætt að segja að kyrrstaða yfirtaki líf hans; hann verður afar „hægur maður“. Þangað til hann ræður sér hjálparhellu sem er af króat- ísku bergi brotin, Marijönu Jokic. Það er ekk- ert með það, hann fellur umsvifalaust fyrir þessari giftu konu og gerist smátt og smátt þátttakandi í lífi hennar og fjölskyldu hennar. Byrjun bókarinnar er afar sterk og gríp- andi og minnir að því leyti á aðra þekkta bók eftir Coetzee, Vansæmd. Maður lifir sig inn í vandræði ljósmyndarans Pauls eins og maður lifir sig inn í vandræði prófessorsins Davids Lurie, enda blundar sjálfsagt í okkur öllum ótti við að lenda í hremmingum sem þessum. Þetta er sérlega vel stíluð frásögn, jafnt sam- töl sem lýsingar, og fyllist maður strax áhuga á afdrifum ljósmyndarans ólánsama, þó að hann geti ekki talist litríkur; Paul Rayment er algjör meðaljón sem hefur þar að auki átt fremur viðburðasnauða ævi, er fráskilinn og barnlaus. En sem maður er í sínum innlif- unarham, farinn að trúa á persónuna og lifa með henni eins og manneskju af holdi og blóði, er maður fyrirvaralaust löðrungaður: Kynnt er til sögunnar gömul söguhetja Coetzees, skáldkonan Elizabeth Costello, sem bar uppi samnefnda ritgerðaskáldsögu. Eliza- beth er heimsfrægur rithöfundur og hefur ferðast um heiminn til að halda fyrirlestra um efni sem Coetzee sjálfum eru hugarhaldin. Fjandinn! hugsaði ég, þurfti Coetzee endi- lega að gera þetta, koma í veg fyrir að ég gæti notið þeirrar listrænu blekkingar og nautnar að lesa vel skrifað og trúverðugt verk? Hér gerbreytir hann bókinni í einni svipan og fer fram á allt annan leshátt. Hefur ekki Philip Roth krufið þetta mál til mergjar eins vel og hægt er? John Fowles? Ian McEwan? Hvað um það, um leið og Elizabeth Costello ryðst inn á heimili Rayments, hreiðr- ar þar um sig og fer að ráðskast með fólk, er þessi bók í aðra röndina orðin að sögu um sögu. Reyndar býður Coetzee líka upp á þann valkost að halda áfram að lesa bókina sem raunsæissögu, en það tókst mér ekki nema að litlu leyti því eftir innrás Costello fór heilinn í ákveðinn greiningargír. Gangvirki skáldskaparins Ég hef velt því talsvert fyrir mér hvers vegna Coetzee grípur til þessa ráðs inni í miðri skáldsögu sem var kominn á gott flug. Skyldu þetta vera aukaverkanir Nóbelsverð- launanna? Finnst honum að nú þegar hann hafi hlotið æðstu orðu bókmenntaheimsins fyrir skáldsagnagerð þurfi hann að grand- skoða eðli skáldskaparins og sköpunarferl- isins? Eitthvað hlýtur alltént að brenna á honum um hlutverk skáldsins í veruleikanum. Elizabeth Costello ber að garði þegar les- andinn er kominn í þá hefðbundnu stellingu að búa sig undir óviðurkvæmilegt ástarsam- band Rayments og Marijönu. Hún hringir dyrabjöllunni hjá honum þegar hann er að vonast eftir Marijönu og paufast upp stigana, móð og másandi. „Slæmt hjarta,“ segir hún (80). „Næstum jafn mikill dragbítur og slæm- ur fótur“ (ég bið lesendur að afsaka þessa hráu þýðingu en nú ríður á að halda upp á samræmið í notkun lýsingarorða). Þetta finnst Rayment óviðeigandi athugasemd úr munni ókunnugrar manneskju. Elizabeth seg- ist vera komin til þess að rannsaka hvers konar maður hann sé og fer síðan með upp- hafslínur bókarinnar Slow Man fyrir hann, orðrétt. Eins og það sé ekki nóg til að sann- færa lesandann um að Rayment (sem rímar við vraiment: sannarlega) sé hugarfóstur eða sköpunarverk hennar segist hún hafa spurt sjálfa sig í fyrsta skipti sem hún heyrði þess- ar línur hvað hún hefði við þennan mann að gera. Og þegar Rayment spyr ringlaður hvað hann sé henni svarar hún: „Þú komst til mín,“ og kveðst ekki hafa beðið um það – þarna er innblásturinn kominn. Ég held að við þurfum ekki frekar vitnanna við, það er augljóst að hér leyfir Coetzee skáldi og sköpunarverki að takast á eins og um tvær raunverulegar manneskjur sé að ræða. Er þetta snjallt? Eða eyðileggur þetta bókina, eins og sumir gagnrýnendur hafa haldið fram? Kannski er þetta svona eins og „óhljóðin“ sem Björk læðir inn í sum af lög- unum sínum til þess að erta hlustandann og koma í veg fyrir að hann festist í fyr- irsjáanlegu fari. Öðru fremur er þetta þó árétting á því að persónur verða æði raun- verulegar jafnt fyrir höfundi sem lesanda og geta haft heilmikil áhrif á mannlífið. Mér kemur í hug bókin Friðþæging eftir Ian McEwan í þessu samhengi, en þar hefur ung stúlka verið að lesa rómantískar bækur sem leiðir til þess að hún rangtúlkar veruleikann sem aftur leiðir til mikils og margslungins harmleiks. Það má velta ýmsu fyrir sér sem fer á milli Costello og Rayments. Coetzee ýjar t.d. að því þegar hann lætur hana jafna saman slæmu hjarta og slæmum fæti að samband höfundar og sögupersónu sé spurning um yf- irfærslu eða annað sjálf. Eru söguhetjur oftar en ekki eins konar hliðarsjálf höfundarins? virðist hann spyrja, tæki til að koma því á framfæri sem höfundinum sjálfum liggur á hjarta? Sú pæling er margbrotin því Eliza- beth Costello á jú ýmislegt sameiginlegt með Coetzee sjálfum. Hann hefur t.d. flutt fyr- irlestra í nafni hennar og þeir urðu síðar að tveimur bókum, Lives of Animals sem síðan varð uppistaðan í bókinni Elizabeth Costello, og til þessara fyrirlestra er líka vísað í Slow Man. Ef marka má Nóbelsverðlaunaræðu Coetzees, sem hann kallar „He and his man“, virðist þetta samband höfundarins og sköp- unarverksins alltént vera honum hugleikið sem þarf ekki að koma á óvart þegar hugsað er til allrar þeirrar umræðu sem hefur fylgt honum um tengsl skáldverka hans við veru- leika hins hrjáða ættlands hans, Suður- Afríku, en honum var gjarnan borið á brýn að nýta ekki hæfileika sína beint í þágu barátt- unnar gegn aðskilnaðarstefnunni. Í stað þess að skrifa áróðursrit setti hann saman bækur sem fólu í sér almennari umfjöllun um valda- hlutföll og afleiðingar þeirra fyrir mannfólkið. Líta má á þá rannsókn sem fram fer á eðli skáldskaparins í Slow Man sem rökrétt fram- hald af þessari umræðu allri. Sjálf virðist Elizabeth Costello vera afar meðvituð um vandann við að færa veru- leikann yfir á bók. Þegar Rayment spyr hvort hún sé komin til að rannsaka sig svo hún geti notað sig í bók svarar hún: „Ég vildi að þetta væri svo einfalt“ (88). Rayment áttar sig ekki á því hvað sé svona flókið við þetta og biður hana að skýra mál sitt. „Ef ég ætlaði að setja þig á bók, eins og þú orðar það, mundi ég ein- faldlega gera það. Ég mundi bara breyta nafninu þínu og einhverjum aðstæðum í lífi þínu til þess að sneiða hjá meiðyrðalöggjöf- inni. Ég þyrfti sannarlega ekki að setjast að hjá þér. Nei, þú komst til mín, eins og ég sagði þér: maðurinn með slæma fótinn“ (88–9). Þó að samband Costello við persónur sínar minni stundum á heilaleikfimi, já og kannski á brúðuleikhús líka, er þessi bók enn eitt dæmið um það hversu meðvitaður Coetzee er um þá fagurfræðilegu og siðferðilegu erf- iðleika sem fylgja því að breyta þjáningu af mannavöldum í list. Hliðrun Hliðrun er eitt af eftirlætisviðfangsefnum Coetzees, þ.e.a.s. fólk sem af einhverjum ástæðum er kippt út úr umhverfi sínu og sett niður þar sem það þekkir sig ekki, ýmist sem innflytjendur eða úrköst. Hans frægustu bækur eru þessu marki brenndar, s.s. Life & Times of Michael K, sem fjallar um litaðan mann með skarð í vör á tímum aðskiln- aðarstefnunnar, og Vansæmd (Disgrace) sem fjallar um hvítan bókmenntaprófessor sem hrekst úr starfi vegna ósæmilegrar kynhegð- unar skömmu eftir fall aðskilnaðarstefn- unnar. Í Slow Man eru mörg tilbrigði við þetta viðfangsefni. Rayment hefur verið stjakað út úr eigin lífi sökum slyssins og að einhverju leyti sökum aldurs, Marijana er innflytjandi, eins konar forvörður (!) að mennt en hefur þurft að sætta sig við önnur viðfangsefni í Ástralíu. Sjálf er skáldkonan á ókunnum slóðum í hinni nýju bók sinni, bók- inni sem við erum að lesa, því rithöfundurinn er jú stöðugt eins og innflytjandi í sínum sagnaheimi og verður smátt og smátt að læra að rata um hann. Þar að auki streitist að- alsöguhetjan gegn skapara sínum sem minnir á klisjuna um að sögupersónur hafi tilhneig- ingu til að lifa sínu eigin lífi þó að þær geti það auðvitað ekki nema að vissu marki enda háðar margslungnu höfundarvaldi. Ef til vill er rétt að minna á það að Coetzee er sjálfur innflytjandi í Ástralíu þó að hann þurfi ekki að læra nýtt tungumál. Söguhetjan Rayment á í býsna flóknu sambandi við ástr- alskt samfélag og sjálfur hefur hann upplifað hliðrun í heimsóknum til skyldmenna í Frakklandi á yngri árum. Hér þarf hann hins vegar að laga sig að innflytjendum nú þegar hann er orðinn hreyfihamlaður og þarfnast umönnunar. Einum þræði fjallar þessi bók því líka um þá aðlögun sem heimamenn þurfa að leggja á sig vegna innflytjenda sem er e.t.v. eitt form hliðrunar. Smátt og smátt verða heimamenn þátttakendur í lífi innflytj- enda, oftar en ekki vegna kynferðislegs að- dráttarafls eins og hér er. Rayment býðst í framhaldinu til þess að kosta skólagöngu son- ar Marijönu, sem er kannski eins konar hórfé af hans hálfu (Rayment rímar við payment), og er þar með orðinn áhrifavaldur í lífi þeirra. Þessa bók má því að vissu leyti lesa sem ádeilu á vestræn samfélög sem eru sumpart orðin svo fötluð að þau geta ekki séð um sig sjálf og flytja inn fólk (þræla nútímans?) til að vinna erfiðustu og leiðinlegustu störfin, ráðskast með það og líf þess eins og menn- ingarlandslagið býður, rétt eins og rithöf- undur ráðskast með frásögn. En ádeilan er ekki einhlít, ekki einföld og ekki borðleggj- andi. Leiksoppar sagnamanns Suður-afríski rithöfundurinn J. M. Coetzee hefur sent frá sér sína fyrstu skáldsögu eftir að hann hreppti Nóbelsverðlaunin í bók- menntum árið 2003. Hún ber heitið Slow Man og þar heldur hann áfram ævilangri rann- sókn sinni á eðliseiginleikum skáldskaparins og tengslum hans við veruleikann. Eftir Rúnar Helga Vignisson rhv@hi.is J.M. Coetzee „Í Slow Man kryfur J.M. Coetzee eðli skáldskaparins og sköpunarferlið.“ Höfundur er rithöfundur og þýðandi og hefur m.a. þýtt tvær bækur eftir J.M. Coetzee.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.