Lesbók Morgunblaðsins - 18.03.2006, Side 6

Lesbók Morgunblaðsins - 18.03.2006, Side 6
6 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 18. mars 2006 Þ órdís Gísladóttir ritar mikla grein um tvítyngi í tilefni greinar minnar í Lesbókinni 4. mars þar sem ég deildi nokkuð á þá kröfu atvinnulífsins og ýmissa menntamanna að koma eigi á tvítyngi hér á landi með aukinni ensku- kennslu allt niður í 1. bekk. Þessir aðilar geta þó verið rólegir því skilji ég skilgreiningu Þórdísar rétt eru Íslendingar ekki aðeins tví- tyngdir, heldur mætti halda því fram að þeir séu það þegar við lok grunnskóla, sumir jafn- vel þrítyngdir og allmargir fjórtyngdir við lok stúdentsprófs. Skilgreining Weinreichs frá 1953, sem Þórdís vísar til, er þó að mín- um dómi ekki full- nægjandi til að skil- greina hugtakið tvítyngi, því það gerir raun alla sem erlend mál kunna að einhverju marki tvítyngda eða fjöltyngda. Þórdís baunar nokkuð á þá staðreynd að ég gagnrýndi „hámenntaða menn á öðrum sviðum en tungumálum“ fyrir að gaspra um tvítyngi eins og það mætti bara ákveða að koma því á uppi í menntamálaráðuneyti, en hvernig hún fær út úr því að það sé mennta- hroki fæ ég ekki skilið. Reyndar gerði ég það af skömmum mínum að nota þessa nálgun besservissersins, en eins og ég sagði nem- endum mínum í orðræðunámskeiði áður en ég birti mína grein, gerði ég það vegna þess að ég vissi að þetta tabúbrot vekti miklu ákveðnari viðbrögð, eins og komið hefur á daginn. Tengi tvítyngi máltöku barna Ég skilgreini tvítyngi nokkuð þröngt í grein minni þótt ekki geri ég það beint, en það var þó dagljóst að ég tengi tvítyngi máltöku barna og þar með mikilli málhæfni, jafnhliða tvítyngi eins og Þórdís nefnir það í sinni þýð- ingu. Ég byggi þessa skoðun ekki aðeins á eigin reynslu sem enskumælandi barn og fað- ir tvítyngdra barna, heldur einnig þeim rann- sóknum sem farið hafa fram á menntun barna við þessar aðstæður, rannsóknum sem ég hef kynnt mér vegna þess að málið er mér í meira lagi skylt. Það var einnig hluti af doktorsnámi mínu í þýðingafræðum og menningarfélagsfræði að kanna tvítyngi og gerði ég m.a. á því tvær litlar rannsóknir á börnum og unglingum hér á landi sem áttu við tungumálavanda að etja og vík ég að þeim stuttlega á eftir. Þórdís ræðir nokkuð um hugtök í grein sinni og sýnist mér hún einkum skilgreina þau út frá afstöðu sem verður dálítið slag- orðakennd á köflum. Einnig bendir hún á til- teknar rannsóknir sem styðja mál hennar en sleppir einfaldlega að nefna aðrar sem gætu bent í aðra átt. Þetta á sérstaklega við um hugtakið hálftyngi þar sem hún segir m.a. að hún sé ekki alveg viss um að hún „skilji hvað átt sé við, þótt auðvitað sé um að ræða hug- tak sem ýtarlega hefur verið rætt, og hana „grunar þó [að ég eigi við] að fólk verði hvorki talandi á íslensku né öðru máli“ og finnst mér það nokkuð djörf túlkun í því ljósi að ég tala sérstaklega um umdæmisvandann og notkunarsvið tungumálanna í tengslum við þetta. Hún segist ekki vita „til þess að virtir tvítyngisfræðingar hafi notað það í alvöru síðustu áratugina“ og einnig að sér „vitanlega hefur enginn hálftyngdur einstaklingur gefið sig fram svo vafasamt er að nota orðið af ein- hverju viti í fræðilegri umræðu“. Það hefur greinilega gleymst að láta Þór- dísi vita af því að hálftyngi (e. semilingual- ism) hefur verið mjög umrætt eftir að virtir tvítyngisfræðingar á borð við Jim Cummins og Tove Skutnabb-Kangas ræddu það á átt- unda og níunda áratug síðustu aldar. 2) Vissulega hefur verið hart um það deilt og margir hafna því af þeim ástæðum sem Þór- dís tilgreinir, að þótt það hafi upphaflega ver- ið notað sem skilgreining til að styðja við bak málminnihlutahópa þá megi túlka það sem einhvern veginn niðrandi. En það lýsir samt raunverulegu vandamáli að því er margir telja, svo raunverulegu að nú nota bæði fjöl- margir þýskumælandi fræðimenn (af ýmsum þjóðernum) og ýmsir minnihlutahópar, t.d. Tyrkir í Þýskalandi, þetta hugtak (þ. dopp- elte Halbsprachigkeit) til að gera þá kröfu að móðurmálskennsla minnihlutahópa verði studd betur. Það hefur sýnt sig að hærra hlutfall nemenda í þeim hópum á við náms- örðugleika að etja, ekki vegna þess að þeir séu eitthvað minna greindir, heldur vegna þess að fyrirbæri sem kallað hefur verið „frá- dráttartvítyngi“ (e. subtractive-bilingualism) virðist eiga sér stað þegar minnihlutahópur lendir í því að skólakerfið tekur á móti börn- um hans eins og þau séu bara nákvæmlega eins og börn meirihlutans. Það sem þá gerist er að meirihlutamálið tekur yfir ný svið tungumálsins en minnihlutamálið er aðeins notað heima við eftir það. Það eru nákvæm- lega þessi mál sem ofangreindir fræðimenn hafa verið að ræða og ekki af því að þeim er í mun að troða á minnihlutahópum, heldur þvert á móti. Móðurmálskennsla fyrir minni- hlutahópa er eitt mikilvægasta aðlögunar- verkefni samtímans og mikið hagsmunamál fyrir alla aðila. Þetta snerti nákvæmlega einn þátt í grein minni sem ég hefði vissulega átt að orða ná- kvæmar og hann er sá að máltaka til tvítyng- is fer að mínum dómi fram í fjölskyldunni ef hún vinnur markvisst að því og hún hefur að- stæður eða þekkingu til að fylgja því eftir þegar skólaaldri er náð. Þetta á einnig við ef útlendir foreldrar ala börn sín upp þannig í nýja landinu. Stanislaw Bartoszek, sem einn- ig svaraði grein minni, þótti að sér vegið, en hann lýsti síðan nákvæmlega þeirri leið til tvítyngis sem ég tel að sé best fyrir innflytj- endur til að börn þeirra verði tvítyngd, það er að styðja við móðurmál barnanna heima við og styðja þau einnig og fylgja eftir í námi hins erlenda meirihlutamáls. Þetta snýst ekki um „yfirráð“ meirihluta- málsins því hin „innfæddu“ börn þurfa einnig að beygja sig undir viðmið hins staðlaða máls sem talað og ritað er í ríkinu sem um ræðir. Það er nefnilega staðreynd að í öllum ríkjum, sem nota tiltekið tungumál til grunnkennslu í lestri, skrift og síðar öðrum námsgreinum, eru til viðmið um beitingu málsins og þau börn sem tala meirihlutamálið þurfa einnig að standast þau og sum eiga erfiðara með það en önnur. Rannsóknir mínar bentu í þessa átt, en ég kannaði tvo hópa barna fyrir um tíu árum, hópa barna sem skólakerfið var kannski ekki alveg tilbúið að taka við á þeim tíma. Sá fyrri samanstóð af börnum á fyrsta ári grunnskóla sem höfðu alist upp hjá heimavinnandi móður sem hvorki talaði íslensku né ensku og úti- vinnandi föður sem talaði ekki mál móð- urinnar og virtist ekki hafa tekið nægan þátt í máluppeldi barnsins. Börnin höfðu heldur ekki notið máláhrifa leikskólans á sterkasta máltökualdri og fyrsta viðfangsefni kenn- aranna var að kenna þeim íslensku til að geta kennt þeim að lesa. Hvort þetta ástand er greint sem „hálftyngi“ eða eitthvað annað er í raun aðeins spurning um orðaval, vandinn fyrir nemendur og kennara var raunveruleg- ur. Sárara var að kynnast hinum hópnum sem safnað hafði verið á einn stað í skólakerfinu. Þetta voru börn sem flust höfðu til Íslands eftir að þau urðu stálpuð og mörg þeirra áttu eitt íslenskt foreldri eða stjúpforeldri. Þau höfðu lært að lesa og skrifa eins og önnur börn í gamla heimalandinu og hafði að eigin sögn oftast gengið ágætlega. Þau voru fús að svara spurningalistum mínum og var átak- anlegt að skynja þá einangrun sem þeim fannst þau þurfa að þola á viðkvæmum aldri vegna þess að þau kunnu ekki tungumálið sem hinir krakkarnir notuðu og þarna dugði þeim ekki einu sinni enska. Ég veit að þessi mál hafa verið tekin fastari tökum síðan en ég er einnig viss um að betur má ef duga skal. Tvítyngd lönd og pidginmál Þórdís nefnir í grein sinni að „[m]örg lönd séu tvítyngd eða fleirtyngd, raunar á það við þau flestöll“ og er það eðlilegt í ljósi hinnar mjög svo opnu skilgreiningar hennar á tví- tyngi. Þetta þýðir t.d. að lönd eins og Kan- ada, Svíþjóð, Finnland og Belgía séu tví- tyngd, þótt aðeins mikill minnihluti íbúanna geti notað fleiri en eitt mál sem talað er í landinu að einhverju gagni. Það er þó ekki þess konar tvítyngi sem verið er að kalla eft- ir hér á landi, enda ekkert hefðbundið minni- hlutamál til hér og reyndar snýst þetta um ensku sem flestir kunna að einhverju marki á unglingsárum. Má til sanns vegar færa að í raun sé verið að kalla á að íslenska verði að- eins annað opinbert mál hér og að hana megi nota á þeim sviðum sem hentast þyki svo spara megi kostnað við að íslenska ýmislegt, t.d. námsefni, reglur, samninga, löggjöf um viðskipti t.d. eða skattalög, í stuttu máli að gera ensku að opinberu máli atvinnulífs, menntunar og stjórnunar og nota íslensku í heimilislífinu og annars staðar þar sem hún truflar ekki. Þetta er leið sem hægt er að fara ef menn vilja og þá eru máláhrif ensk- unnar áreiðanlega komin út fyrir slangurmál unglinga sem Þórdís telur að sé einungis áhyggjuefni fólks sem komið er á miðjan ald- ur. Það er hins vegar einnig alveg víst að stór hluti þjóðarinnar er ekki enn það vel að sér í ensku að geta tekist á við þetta allt og það er þess vegna sem ég notaði hugtakið pidgin, sem sumir telja eigi rót sína að rekja til enska orðsins business (aldrei má hrekkja neitt), af því það mætti í raun bera slíka breytingu á viðhorfi og framkvæmd málstefn- unnar við það að íslenska væri sett í nýlendu- samband við enskuna og þá yrði fyrst til mál- blendingur sem væri auðvitað undanfari kreóliseringar en ekki tvítyngis. Það væri málbreyting á öðru stigi en við höfum átt að venjast og rekja mætti til þeirrar umdæma- sviptingar sem mislukkuð tilraun til opinbers tvítyngis hefði í för með sér. Það kann að vera að ég hafi ekki rétt fyrir mér, að það hafi bara minni háttar og eðlileg áhrif á ís- lenskuna að hætta að nota hana alls staðar þar sem það kostar eitthvað. En ég er alls ekki viss um að tilraunin sé þess virði.  Helstu heimildir: Baker, Colin. Key Issues in Bilingualism and Bilingual Education, Clevedon: Multilingual Matters, 1988. Cummins, Jim. An introductory Reader to the Writings of Jim Cummins, ritstj. Colin Baker og Nancy Hornberger. Clevedon: Multilingual Matters, 2001. Dixon, R.W. The rise and fall of languages. Cambridge: Cambridge University Press, 1997. Eubank, Lynn o.fl. ritstj. The Current State of Interlang- uage. Amsterdam: John Benjamins, 1997. Freeman, Rebecca D., Bilingual Education. Clevedon: Multilingual Matters, 1998. Lindholm-Leary, Kathryn J., Dual Language Education. Clevedon: Multilingual Matters, 2001. Soziolinguistik : ein internationales Handbuch zur Wis- senschaft von Sprache und Gesellschaft, ritstj. Ulrich Am- mon o.fl. Berlin: De Gruyter, 1988. http://www.ids-mannheim.de/prag/sprachvariation/ fgvaria/Schulkarriere2002.txt.PDF http://www.elise.uni-essen.de/elise/elise_01_01/ elise_01_04_01.pdf http://www.pabw.at/~furch/RdeCillia.pdf http://www.ncela.gwu.edu/pubs/pigs/pig22.htm http://www.ss.ucalgary.ca/JArchibald/BlairCh2.pdf Gauti Kristmannsson, Dr. phil. og lektor í þýðingafræði Weinreich hafði einnig ýmislegt að segja um blöndun tungumála, sjá The Rise and Fall of Languages eftir R.W. Dixon, Cambridge: Cambridge University Press, 1997. S. 23. 1 Sjá t.d. „Linguistic Interdependence and the Educational Development of Bilingual Children“ í An Introductory Rea- der to the Writings of Jim Cummins, ritstj. Colin Baker og Nancy Hornberger. Clevedon: Multilingual Matters, 2001. S. 63-95. Tvítyngið málum blandið Hér er svarað grein Þórdísar Gísladóttur frá síðustu Lesbók um tvítyngi. Morgunblaðið/Sverrir Tvítyngi: Móðurmálskennsla fyrir minnihlutahópa er eitt mikilvægasta aðlögunarverkefni samtímans og mikið hagsmunamál fyrir alla aðila. Höfundur er lektor í þýðingafræðum við Háskóla Íslands. Eftir Gauta Kristmannsson gautikri@hi.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.