Lesbók Morgunblaðsins - 18.03.2006, Síða 10
10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 18. mars 2006
Í
skáldsögunni Veginum að brúnni segir af
Snorra nokkrum Péturssyni, bernskuárum
hans og uppvexti í sveit og tilraun hans sem
ungs manns til að fóta sig í Reykjavík. Þetta
kann að hljóma sem kunnuglegt íslenskt sögu-
efni og sögusviðin kannast margir við, ef ekki
af raun þá úr öðrum frásögnum. En við nánari
kynni verður ljóst að þetta er óvenjuleg íslensk
skáldsaga og Snorri verður seint talinn samnefnari þeirra
sveitamanna sem sögur segja okkur að hafi myndað drögin
að íslenskri borg á 20. öld.
„Þegar hann stækkaði, hafði hann enga
hugmynd um, hvar eða hvernig það byrj-
aði.“ Þannig hefst skáldsagan og þótt les-
anda gruni brátt hvað þetta „það“ er, fær
hann aldrei kyrrsett það með öllu. Undir
sögulok, þegar Snorri og unnusta hans Guðlaug vakna um
nótt, og hún virðist vera að safna í sig kjarki til að slíta
sambandinu sökum þess hve óljós áform hans eru, hefst
samtal þeirra svo:
– Þig var eitthvað að dreyma, sagði hún. Ég fór að opna
gluggann og svo stalst ég til að taka mynd af þér.
– Má ég sjá, hvernig ég lít út?
– Nei, sagði hún, myndavél er þannig gerð, að hún þarf
ekki ljós nema allra snöggvast, síðan geymir hún það, sem
hún sá í kolsvörtu myrkri og steinþegir.
– En þegar myndin er framkölluð, lýsir hún fyrst og
fremst höfundi sínum og smekkvísi hans á fyrirmyndir.
Viðtökur
Þann 22. desember sl. voru 100 ár liðin frá fæðingu rithöf-
undarins Stefáns Jónssonar. Hann var á sinni tíð í far-
arbroddi þeirra íslensku höfunda sem skrifuðu bækur fyrir
unga lesendur og hans er minnst fyrir merkilegt frum-
herjastarf á þeim vettvangi, til dæmis fyrir bækurnar um
Hjalta litla, en einnig fyrir að yrkja barnavísur sem urðu
fleygar og eru enn. Til voru þeir samtímamenn hans sem
töldu þessi skrif dragbít á stöðu hans sem „alvöru“ rithöf-
undar. Okkur kann nú að þykja þetta annarlegt viðhorf en
Stefán fann sjálfur glöggt fyrir þessu, eins og sjá má í dag-
bókum hans. Hann vildi vera metinn að verðleikum fyrir
barna- og unglingabækur sínar en jafnframt var honum í
mun að öðlast viðurkenningu sem höfundur bóka fyrir full-
orðna lesendur. Fyrir þá skrifaði hann smásögur og tvær
skáldsögur, Sendibréf frá Sandströnd (1960) og Veginn að
brúnni (1962).
Hér skal ekkert um það fullyrt hvort viðbrögð upp-
haflegra lesenda við þessum síðastnefndu verkum hafi mót-
ast af vitund um að þau voru skrifuð af „barnabókahöf-
undi“. En vera kann að þetta hafi haft sitt að segja í
langtímaviðbrögðum þess fólks sem helst mótar viðhorf
okkar til bókmennta, í sögu jafnt sem samtíð. Stefán hefur
ekki notið sannmælis fyrir þessi verk og sérstaklega á
þetta við um skáldsöguna Veginn að brúnni sem hér er til
umræðu. Skýringarinnar á dræmum viðtökum er ef til vill
einnig að leita í því sérkennilega tómarúmi sem virðist hafa
myndast í íslenskri skáldsagnagerð um 1960 og ekki gefst
færi að ræða nánar hér. Skortur á umræðu um þetta stór-
virki Stefáns þegar það birtist getur svo hafa leitt til
áframhaldandi tómlætis.
Því stórvirki er þessi skáldsaga og ekki einungis í blað-
síðutali, þótt það hafi eitt og sér vakið athygli gagnrýn-
enda. „Það er ekki laust við, að það sé óárennilegt að ráð-
ast í að lesa þriggja bóka skáldsagnaflokk í einu bindi, þar
sem blaðsíðutalan nálgast sex hundruðin“ segir Gunnar
Sveinsson í Skírni 1963 og í Félagsbréfum Almenna bóka-
félagsins í júní 1963 segir Jökull Jakobsson að ýmsum
kunni „að þykja goðgá þegar rithöfundur nú á dögum send-
ir frá sér skáldsögubálk, heila trílógíu, upp á nær 600 síður
eins og ekkert hafi í skorist. Slík verk þóttu góðra gjalda
verð áður en hraðinn tók sér bólfestu í sál mannsins og
svipti hann allri eirð.“
Upphaflega stóð til að verkið kæmi út í þremur hlutum
en ákveðið var að gefa það út á einni bók í takmörkuðu
upplagi í tilefni af 25 ára afmæli Máls og menningar 1962.
Önnur útgáfa, óbreytt, birtist síðar sama ár. Bókin hefur
ekki verið gefin út síðan.
Vegurinn að brúnni er að mínu viti eitt af stórvirkjum
raunsæislegrar skáldsagnagerðar á Íslandi. Jökull Jak-
obsson segir í athyglisverðum ritdómi sínum að bókin sé
„rituð í hefðbundnu formi, hvergi er gerð tilraun til að end-
urnýja búning skáldsögunnar.“ Þessu er ég ekki sammála.
Bókin er að vísu í hefðbundnu formi en innan þessarar
hefðar eru ýmsar lendur og Stefán fer um sumt óvenju-
legar leiðir í verki sínu og heldur sig ekki við alkunn sögu-
mynstur. Jafnframt held ég að það hafi verið til heilla að
verkið birtist og stendur sem eitt bókarverk, þótt í þremur
„bókum“ sé. Þessi saga er talsverður hlemmur og öldungis
óþarfi að draga úr þeim áhrifum. Jökull hittir naglann á
höfuðið þegar hann nefnir hraðann í þessu sambandi; þetta
er saga sem stillir á hægt tempó, knýr lesandann inn í
hrynjandi sem segja má að beri keim af daglegu, leitandi
lífi fremur en sögufléttu, í því skyni að skyggna atburðarás
og breytingar í íslensku samfélagi sem sannarlega gengu
hratt yfir. Þess vegna lánast betur í þessu verki en flestum
öðrum að kafa í þá líðan, það hugarástand, sem fylgdi um-
byltingu íslensks samfélags fyrir og um miðja síðustu öld
og við kennum gjarnan við flutninginn á „mölina“. Einungis
sögubálkur Ragnheiðar Jónsdóttur um Þóru frá Hvammi
jafnast á við Veginn að brúnni að þessu leyti. Það vill svo
til að bernskubær Snorra Péturssonar heitir líka Hvamm-
ur.
Að faðma þúfu
Fyrsti hluti verksins á sér stað í hefðbundnum íslenskum
söguheimi; bernska í sveit er alþekkt sagnaefni og Stefán
nýtir sér hefðina vel í þessu tilliti: vaknandi vitund barns
fyrir sínum nánustu, foreldrum, yngri bróðurnum Kormáki,
vinnukonunni Jóku gömlu í horninu sem hann leitar til og
sem verður verndari hans og aðdáandi; síðan birtist smám
saman byggðin í kring, presturinn kemur í heimsókn en
einnig stúlkur af nálægum bæ; og lífshrynjandin virðist
koma beint frá náttúrunni. Stefán þarf ekki nema nokkrar
línur til að sanna fyrir lesandanum að hann gæti lokað
þessum heimi snyrtilega með litbrigðum jarðarinnar, ef
hann kærði sig um: „Það hafði kólnað í veðri. Hann var
kominn á norðan með hríðarkóf suður yfir fjöllin og niður í
sveitina. En sólin skein gegnum kófið meðan dagur var.
Snjókristallarnir glitruðu í geislum sólarinnar, iðuðu, kvik-
uðu, tindruðu og gufuðu upp. Þeir komu í fylkingum norðan
yfir fjöllin, hnigu niður í gegnum sólskinið í dalnum og það
var auð jörð í byggð, en hrím á fjöllum“ (bls. 163).
Það er einnig sem Snorri prófi sig í hlutverki ýmissa
söguhetja sem staðið hafa í hans sporum; hann hugsar um
framtíð sína sem bónda í Hvammi og sór þess „dýran eið,
að frá Hvammi skyldi hann aldrei fara. Hann laut að þúfu
austur í leikmó, faðmaði hana, hvíslaði þessu að henni og
kyssti jörðina“ (50). Þessir dramatísku tilburðir, svo vel
þekktir af sagnablöðum átthagaástar og tilfinningasemi, fá
á sig kindarlegan blæ þegar þeir eru skoðaðir í ljósi þess-
arar sögu. Það er ekki aðeins að Snorri yfirgefi jörð sína
heldur sker hann rækilega á þráðinn; Reykjavík tekur hann
alveg til sín og hann skrifar ekki einu sinni heim. Þó finnur
hann vel að hann er „sveitamaður“ í höfuðstaðnum. Lista-
spíran Þórólfur Ísfjörð segir eitt sinn við hann: „Þú ert
óspilltur. Þú ert kominn hingað óskemmdur frá fyrstu tug-
um þessarar aldar, kominn þaðan, sem bjartsýnin ríkti“
(303). Þetta er kaldhæðnislegt þegar haft er í huga að Þór-
ólfur hafði áður sagt Snorra að það væri lítil í honum sálin
(227). Síðar í sögunni sér hann enn ástæðu til að bregða
upp mynd af Snorra og nota hann jafnframt sem spegil:
„Það er helvítis minnimáttarkenndin, sem tröllríður Íslend-
ingum, en hjá engum hef ég rekizt á meira af henni en hjá
þér, Snorri minn“ (435).
Lundin
Raunin er sú að veröld Snorra einkennist frá upphafi af
misræmi fremur en samræmi. Hann bítur í sig að hann sitji
í skugga yngra bróður síns, Kormáks, og hann leitar stöð-
ugt athvarfs í horninu hjá Jóku sem elur á vanmetakennd
hans og biturleika. Þannig festist hann í rás sem ekki reyn-
ist auðvelt að rífa sig upp úr. Eins og síðar segir: „Hann
var sá maður, sem orðið hafði fyrir vonbrigðum allt sitt líf“
(215).
Eitt sinn er þeir Snorri og Jón Jónsson vetrarmaður
ræða saman berst talið að stirðri lund. Jón hefur ákveðna
skoðun á þessu: „Menn skella alltaf skuldinni á lundina.
Menn afsaka allan fjandann með einhverri lund. Ég veit
ekki betur en skynsemin sé lundinni æðri. Skynsemin segir
manni að vera kátur og léttur á hverju sem gengur. Færi
ég að hafa einhverja lund, myndi ég strax hengja mig,
blessaður vertu. Það tekur því ekki að vera að kúldrast
með fýlu í þessari tilveru“ (101-102). Skáldsagan leiðir þó í
ljós að lundin verður ekki svo auðveldlega umflúin, og þetta
„það“ sem nefnt er í fyrstu málsgrein sögunnar vísar ekki
síst til lundarfars Snorra, hugarvíls hans, öryggisleysis og
þess þykkjuþunga sem virðist einkenna viðmót hans. Þung-
lyndi Snorra er nefnt nokkrum sinnum í sögunni og þessi
þunga lund nær í ýmsum skilningi einnig til samfélagsins
sem tekur umskiptum og fer inn í nútímann með tiltölulega
skjótum hætti. Sagan gerist þó ekki á hinu öra breyt-
ingaskeiði í og uppúr síðari heimsstyrjöld, því Stefáni er í
mun að sýna hvernig mörlandinn er tekinn að fikra sig inn
nútímann nokkru fyrr. Reykjavíkurþættir skáldsögunnar
eiga sér stað á fyrri hluta fjórða áratugarins, þegar at-
hafnasemi þýskra nasista virtist sumum eðlilegasta fyr-
irmynd nútímavæðingar. Verðandi tengdafaðir Snorra velt-
ir fyrir sér hvort ekki sé rétt að leita strax „verndar hjá
því stórveldi Evrópu, sem nú er sýnilega í mestum upp-
gangi“ (520). Í sögunni er raunar krökkt eftirtektarverðra
tenginga milli einkalífs og stjórnmála, og heldur skuggsýnt
á báðum vígstöðvum.
Þess má geta að hin þunga lund setur líka svip sinn á
áðurnefndan sagnabálk Ragnheiðar Jónsdóttur, en Dagný
Kristjánsdóttir fjallar m.a. um þunglyndiseinkenni í því
verki í doktorsritgerð sinni Kona verður til. Þótt úrvinnsl-
an sé með ólíkum hætti hjá Stefáni má segja að sagan af
Snorra sýni að það getur verið ýmsum annmörkum háð
fyrir karlmann að verða til. Þetta kemur fram í draumi
sem Snorra dreymir og sögutitillinn er sóttur til. Þar sér
hann hóp fólks hinumegin við á og brú yfir ána; hann
stefnir þangað en tröllskessa gengur í veg fyrir hann og
hefur sú andlit Jóku; hún hverfur síðan og við tekur vin-
samleg álfkona sem reynist vera Svava á Gljá, fyrsta kær-
asta Snorra, en svo kemur önnur stúlka ókunnug, og loks
„engin stúlka og þá var engin brú, ekkert fljót, enginn
mannfjöldi. Þá var ekkert“ (156). Seinfarin leið Snorra til
fólksins, eða samfélagsins, sem hann vill taka þátt í, er
þannig mörkuð konum, sem að einhverju leyti eiga að
koma í stað móðurinnar sem hann „týnir“ eða telur bróður
sinn ræna frá sér. Óöryggi hans og varnarstaða verða
áberandi í nærveru kvenna og honum bregður alveg sér-
staklega við hlátur kvenna.
Sjálfsmynd og sögumiðlun
Sjálfsmynd Snorra er semsé í molum. „Ég er bara mjög
venjulegur maður og ekkert sérstakur“ segir hann þegar
hann er að kynnast Guðlaugu (325) en stuttu seinna segir:
„Einn var sá, sem ekkert athvarf átti. Hann“ (345). „Hann
speglaði sig í nokkrum búðargluggum og sá í þeim öllum
hið sama: Skolhærðan, háan, en grannvaxinn mann í ljós-
gráum fötum. Áreiðanlega laglegur maður, en á engan hátt
sérstæður, hlaut þó hvar sem hann fór að þekkjast af
myndum í blöðum“ (476). Hann sveiflast á milli vanmátt-
arkenndar og stórmennskuæðis, hann er viðkvæmur en þó
sjálfur tillitslaus, hann er sjálfselskur en einnig sjálfum sér
verstur, svo að jaðrar við sjálfseyðingarhvöt. Jökull Jak-
obsson segir í áðurnefndum ritdómi (sem er ítarlegasta rit-
smíð um bókina sem ég veit til að hafi ratað á prent) að
þótt líf sé í frásögninni þá sé Snorri „leiðinlegur“. Stefán
Jónsson svaraði Jökli með athyglisverðu bréfi í næsta hefti
Félagsbréfa (sept. 1963). Þar viðurkennir hann þá áhættu
sem hann hafi tekið með því að skapa aðalpersónu sem er
aldrei frumkvöðull, en segist hafa viljað láta Snorra vera
„leiksopp“ sem spegli ýmis einkenni aldarfars og samfélags
en megni ekki að rísa gegn umhverfi sínu.
Snorri Pétursson er vissulega persóna sem maður getur
ímyndað sér að ýmsum þætti leiðinleg manneskja í „lifanda
lífi“. Hann fer í taugar lesandans og getur jafnvel gert
manni gramt í geði. En þar með verður hann ekki leiðinleg
persóna í skáldsögu, þótt það sé býsna djarft hjá Stefáni
að hnita svo langa og mikla frásögn í kringum persónu sem
er „neikvæð“ í ýmsum skilningi og stundum verulega óvið-
kunnanleg. En í þessu felst líka áskorun. Stefán skrifar
hér á móti sterkri og hefðbundinni tilhneigingu til að draga
lesandann inn í „samsæri“ með söguhetjunni og veita henni
aflausn, á hennar eigin vegum eða annarra. Sigurborg
Hilmarsdóttir er sá fræðimaður sem gerst hefur kannað
þessa skáldsögu og skrifaði um hana óprentaða meist-
araprófsritgerð við Háskóla Íslands árið 1983. Hún rann-
sakaði bæði dagbækur Stefáns og uppköst hans að sög-
unni. Samkvæmt greiningu hennar á þeim breytingum sem
Stefán gerði á handritinu, dró hann úr þeim atriðum, til
dæmis í tilhugalífi Snorra og Guðlaugar, sem bent gætu til
þess að Snorri væri að sigla í heila höfn.
Stefán leitaðist greinilega við að sporna gegn tilfinn-
ingalegri sátt lesandans. Þetta kemur einnig fram í því
hvernig hann vinnur með sögumanninn í verkinu. Þótt les-
andi hafi oftast á tilfinningunni að frásögnin berist gegnum
vitund Snorra, stígur sögumaður stundum frá honum og
lætur falla athugasemdir, sem eru jafnvel nokkuð gagn-
rýnar: „Þannig hugsaði hann um þetta fram og aftur og
hafði ekki minnstu hugmynd um, að hugsanir hans allar
rákust hver á aðra og höfðu enga ákveðna stefnu“ (157).
Stundum heldur sögumaður sig hinsvegar til hlés og þegir
yfir einhverju sem er að gerast, einkum þegar Snorri tjáir
sig. Stundum virðist allar gáttir hans opnast: „Löng stund
leið við heit orð hans“ (424) — en við vitum ekki hvað hann
segir og það er jafnframt ljóst að sumir bregðast mjög já-
kvætt við Snorra, einkum stúlkurnar tvær sem tengjast
honum tilfinningaböndum. Þetta er býsna lunkið sögu-
bragð, því lesandi fer að efast um að hann skynji Snorra á
réttmætan hátt. Hvernig er hann eiginlega, þessi ráðvillti
ungi maður? Hvernig má raða saman þeim myndum sem
myndavélar sögunnar taka af honum við hin ýmsu tæki-
færi?
Myndir af Snorra
Eftir Ástráð
Eysteinsson
astra@hi.is
Höfundur er prófessor í bókmenntafræði
við Háskóla Íslands.
Stórvirki: Vegurinn að brúnni eftir Stefán Jónsson hefur ekki
verið metinn að verðleikum.