Lesbók Morgunblaðsins - 26.08.2006, Side 2
2 LAUGARDAGUR 26. ÁGÚST 2006 MORGUNBLAÐIÐ
lesbók
!
Græðgi er stundum sögð dyggð í
viðskiptum. Fólk vill hagnast í
viðskiptum sínum við aðra og
ekki er óalgengt að því sé hrósað
fyrir að græða. En dyggð er eitt-
hvað sem er lofsvert í fari ein-
staklinga. Hugrekki er vafalaus
dyggð enda útnefndu Forn-
grikkir hana sem höfuðdyggð ásamt hóf-
stillingu, réttlæti og visku. Kristnir bættu
síðar við trú, von og kærleika og tefldu
þessari röð andspænis dauðasyndunum
sjö.
Græðgi er strangt til tekið áköf löngun
en greina má hugrenningartengsl milli
græðgi og því að græða sem merkir að
gróa, hagnast og að vinna. Að græða er að
gera heilbrigðan og að græða er að vera
fésæll í viðskiptum. Önnur hugrenning-
artengsl má sjá á milli græðgi og velgengi
því ásóknin í að græða fé er oft kölluð
græðgi og því má spyrja hvort slík tegund
af græðgi geti verið dyggð?
Ef til vill er svarið háð ætlunarverkinu
og spurningin er hvort græðarinn hugsi
fyrst og fremst um sjálfan sig eða sam-
félagið í heild. Ofurlaun hafa verið í deigl-
unni en stjórnarformaður KB banka hefur
svarað umræðunni með þeim orðum að of-
urlaunin séu fylgifiskur ofurárangurs fyr-
irtækisins sem samfélagið fái að hans mati
einnig að njóta.
Ef till vill er kominn tími til að end-
urskilgreina græðgina og taka hana alvar-
lega sem mannlegt sérkenni. Græðgi get-
ur vissulega birst sem áköf frekja og
sjálfselska. Og í henni býr stundum fjand-
skapur og andúð en stundum birtist hún
án þessara hvimleiðu fylgifiska og í henni
getur mögulega búið ósk eða stefna um að
samfélagið hagnist sömuleiðis.
Að græða er að auðgast, ábatast, hafa
hag af, hafa eitthvað upp úr krafsinu – en
getur gráðugur maður orðið dyggðugur?
Ekki ef hann er einungis sólginn sjálfs sín
vegna og alls ekki ef græðgi hans bitnar á
öðrum því þá er hún löstur. En ef hann vill
alls ekki græða nema samfélagið hagnist á
því um leið – hvað þá?
Dyggð er lærður mannkostur, siðferði-
legur eiginleiki og árangur í þeirri við-
leitni að verða það sem maður vill vera og
láta gott af sér leiða. Græðgin virðist því
ekki eiga greiða leið í þennan flokk. Því ef
gráðugur maður vill verða ríkur og jafn-
framt dyggðugur þarf hann nauðsynlega
að læra að hugsa um hagnað samfélagsins
– og gæta þess að aðrir fái að njóta of-
gnóttanna með honum. Tamin til hálfs
hefur græðgin þá öðlast siðferðilega dýpt.
Ef viljinn felst í því að láta gróa, vaxa
fyrir heildina alla og fá jafnframt góð laun
fyrir – þá má segja að jákvæð skilgreining
á græðgi raði henni í flokk dyggða, en sú
dyggð er háð mörgum skilyrðum.
Í rökræðunni við forstjórana á of-
urlaunum þarf að greina nokkra þætti. Í
fyrsta lagi hvort þeir hugi einungis að eig-
in hagnaði. Í öðru lagi hvort þeir hugsi að-
eins um eigin hagsmuni og fyrirtækisins. Í
þriðja lagi hlutdeild samfélagsins í gróð-
anum. Í fjórða lagi hvort laun þeirra eru
innan velsæmismarka eða í samhengi við
laun annarra hjá fyrirtækinu og í sam-
félaginu. Í fimmta lagi hvers konar gróða
er um að ræða, hvort hann auki verðbólg-
una í heimalandinu, bitni á viðskiptavin-
um, á þriðja heiminum, loftgæðum eða
umhverfinu.
Að vera nútíma græðari getur í raun
merkt margt: að vilja græða einn, vilja að
fyrirtækið dafni, vilja að samfélagið eflist,
vilja að heimurinn batni (Bill Gates). Þá er
ótalin sú forneskja að vilja einungis að
aðrir græði á viðleitni sinni – en ekki mað-
ur sjálfur.
Nútíma græðgi getur sloppið inn fyrir
dyr dyggðanna ef teygt er á hugtakinu og
fjallað um hana sem eiginleika fremur en
löngun. Græðgi er þá mannlegur eiginleiki
og lofsverð græðgi er meðalvegurinni milli
algjörs taumleysis og altæks.
Lofsverð
græðgi
Eftir Gunnar Hersvein
gunnars@hi.is
Deilurnar sem sprottið hafa uppvegna mótmælanna við stór-iðjustefnuna á Austurlandi sýnaglögglega hversu mjög úr takti ís-
lensk umræðuhefð er við það sem gengur og
gerist í Vestur-Evrópu. Sérkennilegust þykja
mér skrif ýmissa stuðningsmanna virkj-
anaframkvæmdanna sem vilja sýna fram á
óréttmæti mótmælanna með því að herða á
rétti Alcoa Fjarðaáls til að leggja fram kæru á
hendur þeim mótmælendum sem fóru í leyf-
isleysi inn á byggingarsvæði fyrirtækisins á
Reyðarfirði fyrr í þessum mánuði. Einkenni-
legasta augnablikið í umræðunni um rétt fyr-
irtækisins til að kæra var þegar spyrjandi
Kastljóssins, Jóhanna Vilhjálmsdóttir, ræddi
við Andreu Ólafsdóttur sem kom fram fyrir
hönd „Íslandsvina“ og Ernu Indriðadóttur,
upplýsingafulltrúa Alcoa á Íslandi, í Ríkissjón-
varpinu 16. ágúst síðastliðinn.
Jóhanna spurði Andreu fyrst í þaula um af-
stöðu hennar til mótmælanna en sneri sér svo
að Ernu og sagði með undrunartón (vænt-
anlega til að gæta fyllsta hlutleysis): „Alcoa er
búið að kæra þessa mótmælendur og þið hafið
lagt fram skaðabótaábyrgð. Er ekki dáldið
langt gengið af ykkar hálfu? Er skaðinn svo
stór að þið þurfið að ganga svona langt?“ Erna
vék sér undan spurningunni og lýsti yfir von-
brigðum með að andstæðingar álversins á
Reyðarfirði skyldu hafa gripið til ólöglegra að-
gerða og áréttaði að hér væru á ferð erlendir
atvinnumótmælendur. Svo sagði hún:
ERNA: „þeir eru að beita ólöglegum aðferð-
um og ég hlýt bara að fordæma það. Mér
finnst alveg sjálfsagt að fólk lýsi skoðunum
sínum á friðsaman hátt en þeir hafa farið
þarna töluvert langt yfir strikið að mínu mati.“
JÓHANNA: „En eruð þið ekki líka að
ganga samt töluvert langt með því að kæra
þessa mótmælendur. Í sjálfu sér hafa þeir ekki
verið að skaða einn eða neinn þarna og þið far-
ið fram á einhverja skaðabótaábyrgð.“
Margt forvitnilegt er hægt að lesa úr þess-
um skoðanaskiptum sem gefa til kynna hversu
mjög umræðan um aðferðir (erlendu?) mót-
mælendanna er á villigötum. Í fyrsta lagi telur
Jóhanna sig augljóslega tala máli þeirra með
því að spyrja hvort ekki sé of langt gengið með
því að kæra þá þar sem þeir hafi ekki skaðað
neina. Í öðru lagi virðist Erna, rétt eins og svo
margir Íslendingar, leggja lögmæti mótmæla
og friðsemd þeirra að jöfnu. Hvorug virðist
gera ráð fyrir að hægt sé að mótmæla frið-
samlega og brjóta lög í sömu andránni, en
þegnleg óhlýðni snýst m.a. um það að brjóta
lög á friðsaman hátt.
Þegnleg óhlýðni er mikilvægt tæki borg-
aranna til að sýna óánægju sína í verki telji
þeir löggjöf, stjórnvaldsákvarðanir eða fram-
kvæmdir á vegum fyrirtækja rangar, skaðleg-
ar eða óréttlátar. Með óhlýðni sinni ögra mót-
mælendur valdhöfum meðal annars með því að
brjóta lögin en afskaplega mikilvægur þáttur í
þegnlegri óhlýðni er að leyna ekki brotinu og
reyna ekki að víkja sér undan dómi eða refs-
ingu eftir að afbrot hefur verið framið. Ein-
staklinga má alls ekki skaða með mótmælaað-
gerðum af þessu tagi og því er ekki hægt að
tengja þegnlega óhlýðni ofbeldi. Ef grunur
leikur á að mótmælendur á Austurlandi hafi
brotið lög með aðgerðum sínum er Alcoa
Fjarðaál því í fullum rétti að kæra alla þá ein-
staklinga sem hugsanlega hafa valdið fyr-
irtækinu skaða og þá verður úrskurðað í mál-
um þeirra frammi fyrir dómstólum. Ef um
„atvinnumótmælendur“ er að ræða eins og svo
oft hefur verið haldið fram í íslenskri umræðu
hljóta þeir að gera sér grein fyrir þessum
möguleika og vera reiðubúnir að greiða sektir
vegna aðgerða sinna eða fara í fangelsi ella.
Fangelsanir myndu án efa beina athygli sam-
félagsins að málstað þeirra og hugsanlega hafa
áhrif á almenningsálitið. Kannski eru sumir
þeirra reiðubúnir að færa slíka fórn.
Andmælendur álversins á Reyðarfirði draga
í efa að smíði þess sé lögleg. Þegar Norsk
Hydro ætlaði að reisa álver á Reyðarfirði fór
sú ákvörðun í umhverfismat. En þegar norska
fyrirtækið dró sig út úr samningaviðræðunum
og Alcoa kom inn í staðinn, úrskurðaði Skipu-
lagsstofnun að nota mætti gamla umhverf-
ismatið fyrir álver Alcoa og umhverf-
isráðherra staðfesti þá ákvörðun. Þó eru
álverin tvö ólík og mun fyrirhugað álver Alcoa
menga meira en álver Norsk Hydro hefði gert,
m.a. vegna þess að Alcoa notar þurr-
hreinsibúnað í verksmiðjum sínum á meðan
Norsk Hydro notar vothreinsibúnað. Hæsti-
réttur komst svo að þeirri niðurstöðu að ekki
mætti nota gamla umhverfismatið og felldi úr-
skurð umhverfisráðherra úr gildi. Er það ekki
ákveðinn áfellisdómur á framkvæmdirnar á
Austurlandi? Gefur þetta ekki málstað and-
mælenda framkvæmdanna siðferðilega vikt?
Lögum samkvæmt er ekki hægt að reisa ál-
ver á Íslandi án þess að áður fari fram um-
hverfismat. Hæstiréttur hefur komist að
þeirri niðurstöðu að ekki sé til umhverfismat
fyrir álver Alcoa á Reyðarfirði. Þó heldur
smíði álversins áfram eins og ekkert hafi í
skorist. Menn bíða eftir umhverfismati og
þangað til er framkvæmdum haldið áfram. Það
er annar áfellisdómur um lýðræðislega
ákvarðanatöku á Íslandi. Umhverfismatið
verður svo auðvitað marklaust plagg þegar
það loksins er lagt fram því að enginn heilvita
maður stöðvar 100 milljarða framkvæmdir
þegar þeim er næstum lokið. En þetta vita ís-
lenskir ráðamenn og stjórnendur Alcoa. Svona
staðreyndir eru meira áhyggjuefni en ung-
menni sem í mótmælaskyni klifra upp í krana.
Mótmælendurnir á Reyðarfirði bera ábyrgð
á athöfnum sínum. Ef dómstólar komast að
þeirri niðurstöðu að þeir hafi valdið Alcoa tjóni
með aðgerðum sínum eiga þeir að axla ábyrgð.
En hvað um íslenska valdhafa? Þurfa þeir ekki
að svara fyrir það hvers vegna lögformlegt
mat á umhverfisáhrifum virðist engu skipta
þegar hagsmunir Alcoa eru annars vegar?
Enn er ekki búið að afla tilskilinna leyfa fyrir
stærstu framkvæmdir Íslandssögunnar.
Íslenskt álræði
FJÖLMIÐLAR
Eftir Guðna Elísson
gudnieli@hi.is
Morgunblaðið/ÞÖK
Þegnleg óhlýðni Greinarhöfundi þykir þegnleg óhlýðni vera mikilvægt tæki borgaranna til að sýna óánægju sína í verki telji þeir löggjöf,
stjórnvaldsákvarðanir eða framkvæmdir á vegum fyrirtækja rangar, skaðlegar eða óréttlátar. Myndin var tekin í maí sl. á skrifstofu Alcoa á
Suðurlandsbraut þar sem lögreglumenn vísuðu með valdi burt háværum mótmælendum úr hópi Ungliða gegn stóriðju.
’Hæstiréttur hefur komist aðþeirri niðurstöðu að ekki sé til
umhverfismat fyrir álver Alcoa
á Reyðarfirði. Þó heldur smíði
álversins áfram eins og ekkert
hafi í skorist.‘
I Árbæjarsafn er furðulegt fyrirbæri í ís-lenskri menningu. Þangað getur fólk farið
til þess að upplifa Ísland fyrri tíma. Safnið er
einn af fáum stöðum í Reykjavík þar sem
hægt er að komast í snertingu við fortíðina
en borgin er mjög ung, í örum vexti og fá-
tæk af gömlum húsum, hvað þá byggingum
frá fyrstu árum bæjarmyndunar. En auðvit-
að er upplifunin í Árbæn-
um ekki ekta því að sam-
hengið er tilbúið eins og í öllum eða að
minnsta kosti flestum söfnum. Í þeim skiln-
ingi er safnið í raun ekki til þess að minna
okkur á fortíð okkar eða varðveita hana
heldur til þess að minna okkur á að hún sé
horfin, að gamla Ísland sé ekki lengur til
staðar. Spyrja má hvort öll söfn sem fjalla
sérstaklega um fortíðina, svo sem þjóðminja-
söfn víða um heim, hafi ekki sömu merkingu
eða áhrif, en munurinn er sá að í Reykjavík
er hið „raunverulega“ eða „upprunalega“
samhengi löngu horfið, jafnvel þó að borgin
sé jafn ung og raun ber vitni.
II Víkingaþorpið sem risið hefur í Hafn-arfirði síðustu ár er líka undarleg áminn-
ing um að sá veruleiki sem það reynir að
minnast eða jafnvel endurvekja er okkur
gjörsamlega framandi. Þorpið fyllist lífi einu
sinni á ári þegar alþjóðleg víkingahátíð er
haldin þar með tilheyrandi þykjustubardög-
um og öðrum víkingalegum uppákomum.
Kannski er Víkingaþorpið okkar Disneyland:
tálmynd sem byrgir okkur sýn á þann fjar-
stæðukennda veruleika sem Ísland er nú um
stundir. Fyrst og fremst er þetta þorp þó
gott dæmi um kitsið sem þrífst svo vel í
þjóðfélagi eins og okkar, ungu þjóðfélagi sem
hefur verið riggað upp á ofurskömmum tíma
í anda einhverra fyrirmynda og hugmynda
sem þó verða aldrei annað en skugginn af
sjálfum sér, meira og minna rúnar innihaldi
sínu, fortíð sinni, sögulegu samhengi og þess
vegna einhvern veginn úr takti við umhverf-
ið.
III Einmitt, íslenskur veruleiki getur virstfjarstæðukenndur og kitsaður vegna
þess að samhengið skortir, satt að segja er
engu líkara en það hafi orðið hér sögulegt
rof, að stökkið inn í nútímann hafi orðið fyr-
irvaralaust eða svo skyndilegt að nánast allt
annað gleymdist. Því er reyndar haldið fram
í nýjasta hefti Ritsins að handritaöldinni hafi
í raun ekki lokið á Íslandi fyrr en á tutt-
ugustu öld og þannig mætti segja að mið-
aldir hafi teygt sig alveg fram á nýliðna öld
en ekki lokið í kringum fimmtán hundruð
eins og annars staðar á Vesturlöndum. Þetta
kann að vera skýringin á hinu sögulega rofi.
Neðanmáls
Lesbók Morgunblaðsins Hádegismóum 2, 110 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Ritstjórnarfulltrúi Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýs-
ingar sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins