Lesbók Morgunblaðsins - 26.08.2006, Síða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 26.08.2006, Síða 7
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 26. ÁGÚST 2006 7 Underground. Var rætt um það í alvöru í frönskum fjölmiðlum hvort banna ætti myndina vegna þess að hún bryti í lög um viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna gagnvart Serbíu. Í Aust- urríki og Þýskalandi var Bozonett aðallega gagnrýndur fyrir það að virða ekki skoðana- og tjáningarfrelsi einstaklingsins sem og að stunda ritskoðun. Í Frakklandi voru hinsvegar margir sammála ákvörðun hans. Það brutust út tals- verðar deilur sem Handke tók einnig þátt í. Hann endurtók að hann hefði aldrei réttlætt voðaverk Serbíumanna í stríðinu og lagði áherslu á að fjöldamorð þeirra í Srebrenica, væru stærsti glæpur sem framinn hefði verið gagnvart mannkyninu síðan heimsstyrjöldinni síðari lauk. Jafnframt benti hann á, að það væri ekki aðeins ein hlið á þessu stríði og að það hefðu einnig verið framin fjöldamorð á óbreytt- um serbneskum borgurum og að Serbar hefðu einnig verið beittir órétti í stríðinu, sem hann hefði talið sig knúinn til að fjalla um vegna ein- strengingslegs fréttaflutnings fjölmiðla frá upp- hafi átakanna á Balkanskaganum. Á meðan á þessum deilum stóð kom svo sú frétt frá Düsseldorf að Peter Handke myndi hljóta Heine-verðlaunin. Ákvörðun dómnefnd- arinnar var ekki samhljóða en hlaut þó nauð- synlegan stuðning tveggja þriðju hluta hennar. Verðlaunin eru ekki einungis bókmenntalegs eðlis. Tekið er fram í reglugerð að þau eigi með- al annars að veita rithöfundum sem barist hafa fyrir mannréttindum og félagslegum og póli- tískum framförum. Hins vegar hefur skapast hefð fyrir að skáld fái þau fyrir að halda anda Heinrichs Heines á lofti í verkum sínum. Og einnig fyrir að gagnrýna pólitískar og fé- lagslegar aðstæður á ótrauðan hátt þótt það brjóti gegn almennum viðhorfum heimalanda þeirra og hafi ollið þeim erfiðleikum innan sam- félagsins líkt og var með Heine sem vegna skrifa sinna neyddist til að fara í útlegð til Par- ísar á sínum tíma. Undir þessa skilgreiningu falla ólíkir rithöfundar eins og W. G. Sebald, Elfriede Jelinek, Robert Gernhardt, Hans Magnus Enzensberger og Wolf Biermann sem hlutu Heine-verðlaunin áður en röðin átti að koma að Handke. Það sem greinir hann frá þessum skáldum (að Jelinek undanskilinni hvað Austurríki varðar) er að friður ríkti um þau inn- an menningarumræðu samfélagsins þegar þeim voru veitt verðlaunin. Það var því nokkuð djarfur leikur hjá dómnefndinni að velja rithöf- und sem á vissan hátt getur fallist undir að vera „persona non grata“. Það leið heldur ekki langur tími þar til bera fór á óánægju í fjölmiðlum vegna ákvörðunar- innar. Hubert Spiegel, einn af ritstjórum Frankfurter Allgemeine Zeitung, spurði hvort dómnefndinni gæti verið alvara með því að halda fram að maður sem hefði talað við jarð- arför fjöldamorðingjans Milosevic ætti verð- launin skilin. Taldi hann að nafn Heines og verðlaunin sjálf hefðu skaðast. Í greininni minntist hann jafnframt á það að Handke hefði eitt sinn sagt að Serbar væru meiri fórnarlömb en gyðingar í heimsstyrjöldinni síðari. Þetta er nokkuð dæmigert um þá niðurlægjandi umfjöll- un sem Handke hefur fengið á síðum FAZ hin síðustu ár. Árið 1999 var tekið sjónvarpsviðtal við hann í Belgrad á frönsku þar sem hann að vísu segir þetta. En þegar viðtalið barst til eyrna Handkes sendi hann samstundis út af- sökun á ummælum sínum sem birtist orðrétt í FAZ strax á eftir. Í henni kemur fram að hann hafi mismælt sig illilega því honum hefði aldrei dottið í hug að segja viðlíka vitleysu og bar hann meðal annars fyrir sig ófullnægjandi frönskukunnáttu. Framhjá þessu lítur einn af ritstjórum FAZ sem fylgst hefur grannt með Handke á síðustu árum. Margir fleiri urðu til að gagnrýna dómnefndina og Handke harðlega, en honum barst þó stuðningur frá mikils- metnum rithöfundum og listamönnum og einn- ig frá fáeinum fjölmiðlum sem töldu að nóg væri komið af því einelti sem hann yrði fyrir vegna þess að hann réðist gegn ríkjandi áliti mennta- manna sem um ríkti þögult samkomulag. En áður en þessar umræður náðu að þróast eitt- hvað að ráði var komið að næsta þrepi deiln- anna um Handke og Heine-verðlaunin. 30. maí tilkynnti borgarstjórn Düsseldorf, sem samanstendur af sósíaldemókrötum (SPD), frjálslyndum (FDP) og græningjum (Die Grünen), að hún hefði ákveðið að ógilda ákvörðun dómnefndarinnar og að það yrði formlega staðfest á fundi 22. júní. Nú fyrst varð fjandinn laus og viðbrögðin sem komu í kjölfar þessarar tilkynningar gætu fyllt myndarlega bók. Hér verður því aðeins greint frá nokkrum þeirra. Rökstuðningur stjórnmálamannanna hljóð- aði á þann veg að ekki væri hægt að veita rithöf- undi verðlaunin sem meðal annars gerði lítið úr morðum, nauðgunum og fjöldapyntingum. Fritz Kuhn, formaður Græningja á þinginu í Berlín, sakaði Handke um að verja Milosevic og Jürgen Rüttgers, forsætisráðherra Nordrhein- Westfalen sem Düsseldorf er höfuðborg í, varði ákvörðun borgarstjórnarinnar því enginn ætti Heine-verðlaunin skilin sem gerði lítið úr hel- förinni. Ummæli líkt og þessi sýna skýrt að þessir stjórnmálamenn hafa ekki lesið texta Handkes sem tengjast Balkanskaganum og það var heldur ekkert feimnismál fyrir suma að við- urkenna það sem er ekkert einsdæmi hjá þeim sem gagnrýnt hafa Handke í gegnum tíðina. Það að Græningjar skyldu láta slík ummæli falla kom nokkrum spánskt fyrir sjónir því flokkurinn var í ríkisstjórn þegar Þjóðverjar studdu þá umdeildu ákvörðun NATO að gera sprengjuárásir á Serbíu árið 1999. Það var ekki í fyrsta skipti á síðustu öld sem Þýskaland tók þátt í eða stóð fyrir árásum á Serbíu en Þjóð- verjar börðust með Króötum gegn þeim í síðari heimsstyrjöldinni og studdu dyggilega við bak- ið á fasistahreyfingunni Ustascha sem meðal annars er þekkt fyrir grimmilegt þjóðarmorð á Serbum. Það er því skiljanlegt að mörgum Serbum þótti það ekki sæmandi að Þjóðverjar með Dietrich Genscher í broddi fylkingar skyldu verða fyrstir til að viðurkenna sjálfstæði Króatíu árið 1991. Það má segja að mótmælaalda hafi brotist út þegar fréttist að stjórnmálamenn hefðu ákveðið að ógilda úrskurð hlutlausrar dómnefndar á pólitískum forsendum og það jafnvel án þess að hafa kynnt sér þá texta Handkes sem málið snerist um. Leiddi þetta til að tveir meðlimir dómnefndarinnar sögðu sig úr henni. Vissulega fögnuðu ýmsir niðurstöðunni en þeir voru þó í nokkrum minnihluta. Jafnvel fjölmiðlar sem hve mest hafa gagnrýnt afstöðu og skrif Hand- kes um Serbíu og Balkandeiluna fóru hörðum orðum um málið. Aðalritstjóri FAZ, Frank Schirrmacher, skrifaði að mikil hætta væri á því að bókmenntaverðlaun í Þýskalandi myndu verða fórnarlömb pólitískra skoðana í grein sem hann nefndi Handkemálið: mannorðsmorð í stað gagnrýni. Thomas Steinfeld hjá Süd- deutsche Zeitung sakaði stjórnmálamennina um þekkingarleysi og skort á virðingu og dóm- greind sem og að reka hentistefnu. Forleggjari Handkes hjá Suhrkamp, Ulla Unseld- Berkéwics, sagði að ef ekki yrði gripið í taum- ana nú þegar yfirburðaskáld væri ofsótt á þenn- an hátt, væri það merki um yfirvofandi gjald- þrot þýskrar menningar. Viðbrögð rithöfunda og listamanna létu heldur ekki á sér standa. Elfriede Jelinek ráðlagði fólki að lesa fyrst og tala svo því ekkert í skrifum Handkes afsakaði þá meðferð sem hann hefði fengið. Günter Grass, sem eitt sinn var neitað um verðlaun sem hann átti að fá fyrir skáldsöguna Die Blechtrommel (Blikktromman) vegna þess að hún þótti of klámfengin, sagði í viðtali við Die Zeit að Handke væri ekki svo illa kominn að verðlaununum þrátt fyrir að hann væri alger- lega ósammála hinum „vitlausa og einhliða stuðningi hans við Serbíu“, en það hefur aldrei verið neitt sérstaklega hlýtt á milli þessara rit- höfunda. Grass benti líka á að Heine – líkt og Goethe – var alla tíð mikill aðdáandi Napóleons og þær hörmungar sem af honum hlutust hefðu þar litlu máli skipt. Því væri einnig hægt að dæma Heine með sömu rökum og ráðist hefði verið með gegn Handke. Hann var hinsvegar ósammála kollega sínum Botho Strauß sem krafðist þess í grein í FAZ að það yrði að sýna því meiri skilning þegar snillingar misstigju sig því það gæti verið kennimerki stærðar þeirra. Hann benti í því samhengi á það sem Ezra Po- und, Martin Heidegger og Bertolt Brecht hefðu skilið eftir sig. Og verður manni hér ósjálfrátt hugsað til Knuts Hamsuns eða vissra kafla úr lífi Halldórs Laxness og Gunnars Gunn- arssonar. Tal Strauß um snillingabónus vakti litla lukku meðal gagnrýnanda. Fórnarlamb stjórnmálamanna 8. júní 2006 varð kunnugt að Peter Handke myndi ekki veita Heine-verðlaununum viðtöku, en úrskurður dómnefndar þeirra var enn í gildi því formleg ákvörðun borgarstjórnarinnar átti fyrst að taka gildi 22. júní. Vegna þeirrar vægð- arlausu gagnrýni sem komið hafði fram á stjórnina hugleiddu sumir hvort hún myndi draga ákvörðun sína til baka. Dagsins var því beðið með eftirvæntingu. Á þennan hnút hjó Handke enda varla í aðstöðu til neins annars og var litið á það sem rökrétt framhald á fram- vindu deilnanna sem brátt var lokið. Handke rökstuddi höfnun sína með því að hann vildi spara sér það að persóna sín og bækur yrðu áfram fórnarlömb vitleysisgangs stjórnmála- manna. Stuttu áður birtist einlæg grein eftir hann í Süddeutsche Zeitung þar sem hann benti aftur á rangindi í málflutningi andstæð- inga sinna og hvatti þá til að lesa vel þá sex texta eftir sig sem tengdust Júgóslavíu. Hann sleppti að vísu að nefna langa grein sem hann skrifaði um réttarhöldin á hendur Milosevic og birtist árið 2002. Hún þótti ekki vera honum til framdráttar á sínum tíma og það er varla til- viljun að hann hafi ekki minnst á hana. Jafn- framt bauð Handke gagnrýnendum sínum viss- ar sættir en hann sjálfur hefur ekki sparað stóru orðin á þá síðan deilurnar hófust fyrir al- vöru 1996. Sérstaklega hafa skoðanaskipti hans og blaðanna Der Spiegel og FAZ oft verið skít- kasti líkastar. Þarna mátti lesa svolítið nýjan tón hjá Handke sem að nokkru leyti virðist hafa leitt til einhverra sátta þó svo að hann sé enn gagnrýndur fyrir afstöðu sína gagnvart Serbíu í eftirmála deilnanna. Þannig tók þekktur bók- menntafræðingur og gagnrýnandi FAZ hann löngu tali í Madrid og birtist velviljandi frásögn af því á síðum blaðsins en það hefði verið óhugs- andi fyrir ekki svo löngu. Í lokin er rétt að minnast á það að serbneskir rithöfundar og framfarasinnar blönduðu sér svolítið í deilurnar. Afstaða þeirra til Handkes hefur breyst mikið frá því að hann sýndi fyrst samstöðu með Serbíu og naut þjóðarhylli. Þeir sjá litla hjálp í afskiptum hans af landinu nú og telja margir hann hafa lítinn skilning á þeirri aðstöðu sem Serbía er í og á þeim stjórn- málalegu umbótum sem nauðsynlegar eru. Þannig bendir Andrej Ivanji á að það sé langt því frá að Handke tali fyrir alla Serba og Bora Cosic tekur í svipaða strengi og segir að verja þurfi Serbíu fyrir fölskum málflytjendum eins og Handke. Það sem einna helst er athyglisvert við deil- urnar um Peter Handke á síðasta áratug er hve hart hefur verið ráðist gegn skrifum og um- mælum virts skálds og rithöfundar af ráðandi fjölmiðlum og stjórnmálamönnum. Handke lít- ur á texta sína sem friðarumleitanir en áhrif hans á álit almennings á átökunum á Balk- anskaganum geta þó aldrei orðið nærri eins mikil og áhrif fjölmiðla og hvað þá stjórnmála- manna í Vestur-Evrópu sem höfðu bein áhrif á framgang vissra mála sem í dag eru umdeild. Og er þá nóg að nefna að friðarsveitir NATO voru í aðstöðu til að hindra fjöldamorð og að margir saklausir borgarar létu lífið í sprengju- árásum þeirra. En fjölmiðlar og stjórn- málamenn hafa þó aldrei þurft að svara til nokkurra saka að ráði eins og þeir krefjast af óbreyttum rithöfundi. Innlegg Handkes í um- ræðuna hefur hins vegar verið frjótt og á það er alltaf oftar bent þó svo að afstaða hans til mál- efna Serbíu geti stundum hljómað ankanna- lega. undur? Peter Handke Rökstuðningur stjórnmálamannanna, sem höfðu Heine-verðlaunin af Handke í sumar, hljóðaði á þann veg að ekki væri hægt að veita rithöfundi verðlaunin sem meðal annars gerði lítið úr morðum, nauðgunum og fjöldapyntingum. Höfundur er íslenskulektor við Vínarborgarháskóla. ’Það sem Handke varaðallega sakaður um var óréttmæt gagnrýni gagnvart heimspress- unni og vanvirðing á starfi stríðsfrétta- manna, afneitun þjóð- armorðs á Bosníumönn- um og að hafa heimsótt vitlaust land því að í Serbíu væri hvergi hægt að koma auga á þau ódæðisverk sem framin hefðu verið í þessu stríði.‘

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.