Lesbók Morgunblaðsins - 02.09.2006, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 02.09.2006, Blaðsíða 13
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 2. SEPTEMBER 2006 13 Ífebrúar tilkynntu stjórnendurMetropolitan-óperunnar í New York að þeir hyggðu á náið og skap- andi samstarf við aðrar listastofn- anir og listamenn í listamiðstöðinni Lincoln Center, þar sem óperan er til húsa. Sagt var að með sam- starfinu yrði tón- skáldum og leik- skáldum innan vébanda mið- stöðvarinnar gert kleift að skapa ný verk fyrir óperuna, og yrði að auki séð fyrir nægjanlegu fjármagni og aðstöðu. Nú hefur verið tilkynnt hverjir fá fyrst að spreyta sig, en það verða list- rænn stjórnandi djasstónleikanna í Lincoln Center, trompetleikarinn Wynton Marsalis og leikskáldið John Guare. Marsalis hefur gert garðinn frægan bæði í klassíkinni og djass- inum, og bíður fólk því að vonum spennt eftir því hvers konar músík hann semur fyrir súperstjörnur Metropolitan-óperunnar. Hvorki hef- ur spurst um efni nýju óperunnar, né hvenær hún verður frumsýnd.    Það kom stjórnendum Gatwick Ex-press-hraðlestarinnar í London á óvart að í könnun, sem þeir létu gera meðal far- þega sinna, skyldu óskir um klassíska músík um borð vera jafnmiklar og ósk- ir um popptónlist. Á daginn kom að jafnmargir settu Árstíðir Vivaldis í efsta sæti sem gott vegarnesti í sumarfríið og lag Madonnu: Holiday. Samanlagt hafði þó poppið vinning- inn, þar sem 29% farþega settu popp- tónlist í efsta sæti, 28% völdu klass- íska tónlist og 23% vildu bara rokk og ról. Djassinn var óskamúsík 12% far- þega og dansmúsíkin draumur hjá 3%. Ferðin frá miðborg Lundúna til Gatwick-flugvallar með hraðlestinni tekur um hálftíma. „Þrátt fyrir að við værum með svo augljósa sumarfríss- melli sem Summer Holiday með Cliff Richards og Summer Breeze með Is- ley Brother’s höfðum við ekki hug- mynd um að svo margir farþegar vildu frekar klassík,“ sagði Gareth Jones, einn stjórnenda Gatwick Ex- press.    Það er erfitt að verjast meinfýsn-ustu kenndum við þær fréttir af Bono, að hann sé genginn kapítalism- anum á hönd. Þessi meðvitaði gæðamúsíkant, sem hefur yfir sér áru réttlætis og góðmennsku, jafnaðar og bræðralags, keypti nefnilega nýverið stóran hlut í viðskipta- tímaritinu Forbes, sem sumir segja einn mesta boðbera vestræns kapítal- isma. Það er aðdáendum U2- söngvarans huggun harmi gegn að kannski vissi hann ekkert af gjörn- ingnum, það var víst fjárfesting- arfélag í eigu hans – og annarra – sem gerði þessi kaup. Sumum fannst þó sem heldur hefði fallið á geisla- baug stórsöngvarans við þessi tíðindi. Hann hefur jú sjálfur kosið sér það hlutskipti að vera vond samviska vestursins gagnvart fátækum Afr- íkuþjóðum. Það varð svo ekki til að bæta úr skák er spurðist að hluti útgáfufyr- irtækis hljómsveitarinnar hefði verið fluttur frá Írlandi til Hollands, til að komast hjá háum sköttum heima- fyrir. Heimafyrir var að vonum spurt hvernig heilagur Bono gæti predikað um afnám skulda Afríkubúa, þegar hann væri ekki reiðubúinn að standa skil á eigin skuldum til samfélagsins. TÓNLIST Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is Bono Wynton Marsalis Vivaldi Þrátt fyrir ungan aldur var Páll ÓskarHjálmtýsson búinn að vera býsna lengiað þegar hann hann gaf sér loks tíma tilað gera almennilega sólóskífu, Palli, sem kom út 1995. Páll Óskar var reyndar búinn að gefa út plötur áður, Minningar sem kom út 1991 og Stuð sem kom út 1993, en sú plata var samstarfsverkefni þeirra Páls Óskars og HAM- boltanna Sigurjóns Kjartanssonar og Jóhanns Jóhannssonar. Palli var því fyrsta platan sem hann gerði upp á eigin spýtur þótt hann hafi fengið fjölmarga sér til aðstoðar. Páll Óskar lét þau orð falla í viðtali um það leyti sem platan kom út að hann hefði ákveðið að velja á hana sín uppáhaldslög, gefa nasasjón af því hvaða tónlistarmenn og lög hefðu mótað hans tónlistarferil. Það kemur kannski ekki á óvart að á plötunni eru nánast eingöngu ballöður og þær úr ýmsum áttum. Burt Bacharach á þrjú lög á plötunni, The Look of Love, Anyone Who Had a Heart og Making Love. A Rainy Night in Georgia birtist sem lagið Það rignir látlaust á mig, prýðilega þýtt þótt viðlagið sé daufara á íslensku, eiginlega tregalaust. Á plötunni er líka lag eftir Billy Strayhorn, Lush Life, og annar djassslagari, Corcovado, eftir Ant- ônio Carlos Jobim, sex hundruð ára gamall madrígali eftir Orlando di Lasso sem heitir í þýð- ingu Páls Óskars Sjáumst aftur og svo má telja. Mikið var lagt undir við vinnsluna og alls komu um 40 manns að upptökum og útsetningum, en Páll Óskar kallaði á mismunandi aðstoðarmann fyrir hvert lag. Sú vinnuaðferð virðist galin á pappírunum en skilaði sér í óhemju fjölbreyttri og skemmtilegri plötu án þess þó að hún yrði sundurlaus. Plötuþrennan sem Páll Óskar gerði á árunum 1993 til 1996, Stuð, Palli og Seif, sýndi á honum ólíkar hliðar og erfitt að gera upp á milli þeirra enda allar frábærar, hver á sinn hátt – á Stuð er hann diskóbolti, angurvær ballöðusöngvari á Palla og síðan tilraunaglaður á Seif. Þegar þær eru teknar til kosta aftur í dag stendur Palli þó upp úr því á henni er Páll Óskar eðlilegastur, kemur til dyranna eins og hann er klæddur. Öll lögin á plötunni ganga einkar vel upp, falla vel að rödd Páls Óskars og útsetningar smekk- lega unnar. Einna bestur þykir mér madrígalinn Sjáumst aftur, þar sem þau syngja með Páli Ósk- ari Sverrir Guðjónsson og Kristjana Stef- ánsdóttir. Útsetningin á Lush Life er líka vel heppnuð en í því lagi syngur Páll Óskar við undir- leik kontrabassa og gítars. Hljómur á plötunni er einkar góður og hefur sitt að segja að frumeintak hennar var gert ytra. Palli var ekki bara fyrsta eiginlega sólóskífa Páls Óskars, heldur líka fyrsta platan sem hann gaf út sjálfur á merki sínu „Paul Oscar Produc- tions“, skammstafað POP. Hún kom út föstudag- inn 3. nóvember og seldist mjög vel, var með helstu íslensku plötum sem komu út fyrir jólin 1995. Til að kynna plötuna bryddaði Páll Óskar upp á ýmsu nýmæli í íslenskri plötuútgáfu, lét gera risaveggspjöld, margar tegundir póstkorta, barmmerki, lyklakippur, t-boli og tveggja metra háa standa með mynd af honum til að hafa í búð- um. Fyrir stuttu var ég á ferð erlendis og rakst á að á dvalarstað mínum var til ein plata með Páli Óskari, Palli, og þegar hún var sett undir geisl- ann rifjaðist upp fyrir mér hve frábærlega vel heppnuð sú plata var, sannkölluð poppklassík. Sannkölluð poppklassík POPPKLASSÍK Eftir Árna Matthíasson arnim.blog.is G reinarhöfundur hitti þá Steingrím Karl Teague, hljómborðsleikara og söngvara, og Inga Einar Jó- hannesson gítarleikara og ræddi við þá um feril Ókindar, viðtök- urnar og sveitarslitin. Verst lyktandi hljómsveit Íslands „Við vorum allir saman í Valhúsaskóla á Seltjarn- arnesi,“ segir Steingrímur um upphaf sveit- arinnar, „og fyrsti vísir að sveitinni var eitthvað árshátíðarflipp árið 1998. Við urðum samt svo frægir að hita upp fyrir Pál Óskar og Casino. Þá hétum við Einstein, síðan breyttum við nafninu í ß, en fólk átti í svo miklum erfiðleikum með að bera það fram að við ákváðum að breyta nafninu í Ókind þegar við fórum að spila eitthvað að ráði.“ „Á þessum fyrstu árum hljómsveitarinnar æfð- um við í bílskúrnum hjá Óla trommara, en það var ekki endalaust hægt að bjóða nágrönnunum upp á hávaðann í okkur. Steina fannst mjög svalt að bera hljóðnemann upp að magnaranum sem við vorum að nota með tilheyrandi „feedbacki“ og há- vaða,“ segir Ingi. „Þá fluttum við okkur í hesthús sem stóð við Heimsenda 18. Eftir það vorum við pottþétt verst lyktandi hljómsveit á landinu, og sumar græjurnar okkar lykta ennþá illa síðan þá.“ „Við vorum nett glötuð hljómsveit,“ bætir Steini við. Búdrýgindi voru betri „Það var eiginlega ekki fyrr en við fluttum okkur í æfingahúsnæði sem Danni Pollock hélt úti í Brautarholti sem boltinn fór að rúlla. Þá æfðum við okkur í minnst tíu tíma á viku, sömdum lög á fullu og lögðum mikinn metnað í það sem við vor- um að gera. Það leið samt dálítill tími þar til okkur fannst við vera orðnir nógu góðir til þess að spila opinberlega, en það kom loks að því á Kakóbarn- um Geysi árið 2002. Sama ár tókum við þátt í Músíktilraunum,“ segir Ingi. Ókind hafnaði í öðru sæti tilraunanna, og bassa- leikarinn Birgir Örn Árnason var útnefndur besti bassaleikarinn. „Við vorum mjög ánægðir með okkur og alveg vissir um að við værum langbestir í keppninni. Eftir á að hyggja voru Búdrýgindi [sigurvegarar Músíktilrauna 2002] sennilega betri. Ég held að það hefði ekki orðið okkur til gæfu að vinna því fyrsta platan okkar hefði aldrei getað staðið undir þeim væntingum sem eru gerðar til sigursveitar Músíktilrauna,“ segir Steini. Heimsendi 18 Frumburðurinn hlaut nafnið Heimsendi 18 og var sú plata tekin upp fyrir stúdíótímana sem voru í verðlaun. Strákarnir kynntust Frakkanum Nicol- as Liebing gegnum hljómsveit sem þeir deildu æf- ingahúsnæði með og svo fór að hann annaðist upp- tökur. „Nicolas hafði mikil áhrif á mig, sérstaklega hvað varðar allskyns hljóðpælingar,“ segir Ingi. „Hann fékk mig kannski til að spila á gítar gegn- um bassamagnara, eða spila gegnum þrjá magn- ara og stilla einum upp inni í eldhúsi, eða eitthvað álíka. Hann gerði heilmikið fyrir plötuna. Ég er ennþá mjög ánægður með hana, sérstaklega hvað varðar lagaval, en hún er fjarri því að vera full- komin.“ „Nicolas er mikill hljóðgervlagúrú, og allar slík- ar pælingar á Heimsenda 18 eru frá honum komn- ar,“ segir hljómborðsleikarinn Steini. Ókind gaf frumraunina út sjálf – kom aldrei til greina að fá útgefanda? „Við fórum með eintök á nokkra staði, en við erum bara ekki hljómsveit sem nennir að eyða tíma í að sníkja út útgáfu- samninga og standa í pappírsvinnu og veseni,“ segir Ingi. „Við vorum mjög sköpunarglaðir á þessum tíma og fannst gömlu lögin halda aftur af okkur. Þess vegna var okkur mikið í mun að koma plötunni út,“ bætir Steini við. Skilnaður í Hvergilandi „Heimsendi 18 fékk ágætis dóma og rataði meira að segja inn á einhverja árslista. Við spiluðum á fjölda tónleika í kjölfar plötunnar, enda var nóg af stöðum til þess að spila á – annað en núna,“ segir Ingi. „Útvarpsstöðvarnar sögðu okkur að þessi tónlist ætti ekki erindi í útvarp. Vissulega hefði al- mennileg spilun gert okkur auðveldara fyrir, en okkur var nokkuð sama. Eins og við sögðum áðan þá finnst okkur allt svona stúss í kringum það að vera í hljómsveit – að koma sér á framfæri við fjöl- miðla, kljást við útgáfufyrirtæki, grátbiðja út- varpsplötusnúða o.s.frv. – frekar leiðinlegt. Við vorum fyrst og fremst að gera tónlist fyrir okkur sjálfa. Við gáfum rosalega af okkur á tónleikum og lögðum mikinn metnað í það sem við sendum frá okkur. Það er mikilvægara en að vera daglega í blöðunum,“ segir Steini. Þess vegna kom ekki annað til greina annað en að standa sjálfir að útgáfu Hvar í Hvergilandi, sem kom út í mars síðastliðnum. „Við byrjuðum á því að byggja okkar eigið hljóðver til að taka plötuna upp í,“ segir Ingi. „Það er ódýrara að byggja sitt eigið stúdíó en að kaupa stúdíótíma, ótrúlegt en satt,“ bætir Steini við. Vinnsla plötunnar tók á annað ár, en vinnan hefur skilað sér: Gagnrýnendur eru hið minnsta sammála um að afraksturinn sé með því besta sem hefur komið út á árinu. Hvers vegna þá að hætta núna? „Mér finnst við vera búnir að áorka því sem við vildum gera, fullvinna „konseptið“,“ segir Ingi. „Þessi plata er sennilega besta plata sem við hefð- um getað gert,“ bætir Steini við og heldur áfram: „Tónlistarsmekkur okkar hefur þróast í mjög ólíkar áttir síðustu ár, og Hvar í Hvergilandi er svæðið þar sem allar línurnar skerast. Platan varð í raun til vegna listræns ágreinings innan sveit- arinnar, en við höfum sjaldan verið á svona góðum nótum persónulega.“ „Þetta er í rauninni eins og hjónaskilnaður þar sem báðir aðilar vita að hjóna- bandið nær ekki lengra. Við vorum að gera upp peningamálin í gærkvöldi og það var eiginlega bara eins og að skipta upp búinu!“ bætir Ingi við að lokum. Í vikunni bárust þær fregnir að íslenska reggí- hljómsveitin Hjálmar væri hætt störfum, mörg- um til sárra vonbrigða. Það eru hins vegar færri sem vita að rokkhljómsveitin Ókind lék á sínum síðustu tónleikum á Kaffi Amsterdam á laug- ardagskvöldið fyrir viku. Eftir Atla Bollason bollason@gmail.com Morgunblaðið/Þorkell Ókind „Þetta er eins og hjónaskilnaður þar sem báðir aðilar vita að hjónabandið nær ekki lengra.“ Ekki lengur Ókind

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.