Lesbók Morgunblaðsins - 14.10.2006, Page 3

Lesbók Morgunblaðsins - 14.10.2006, Page 3
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 14. OKTÓBER 2006 3 STÓRVIRKI! SAGA BISKUPS- STÓLANNA Fátt er jafngróið íslenskri sögu og biskupsstólarnir báðir. Saga þeirra er þjóðarsaga Íslendinga í nærfellt þúsund ár. Þeir voru höfuðstaðir trúarlífs landsmanna framan af öldum en einnig menningar og mennta og voru umsvifamiklir at- vinnurekendur til sjávar og sveita. Má segja að landinu hafi verið stjórnað þaðan um margra alda skeið og þar komu við sögu svip- miklir biskupar og aðrir kirkjuhöfð- ingjar. SAGA BISKUPSSTÓLANNA - bók sem allir Íslendingar verða að lesa! Eftir Jón Ólafsson jonolafs@bifrost.is É g lifi í núinu og skrifa um það eitt sem ég sé,“ segir Anna Politkovs- kaja í upphafi bók- ar sinnar Rússland Pútíns: Þegar valdið spillir sem kom út árið 2004 í Bretlandi, en hefur ekki enn verið gefin út í heimalandi höfundarins. Í bókinni, sem byggist á áralöngum blaða- mennskuferli Politkovskaju, fjallar hún um nokkrar verstu hliðar rússnesks samfélags. Hún fjallar um herinn og ástandið í honum, hryllilegar aðstæður fólks á lands- byggðinni, um spillingu í dóms- kerfinu og innan lögreglunnar, um niðurlægingu, réttleysi og vanmátt venjulegs fólks í landi sem virðist stöðugt sökkva dýpra í hyldýpi glæpa og spillingar. Hún skrifar um Pútín og hún skrifar um stríð- ið í Tétsníu. Í formála annarrar bókar sinn- ar, Seinna stríðið, sem fjallar um stríðsrekstur Rússa í Kákasus segir hún: „Fólk spyr mig: Hvers- vegna ertu að skrifa þetta allt? Hversvegna ertu að hræða okkur? Hvað höfum við með þetta allt að gera? Ég er viss um að það er nauðsynlegt af einni einfaldri ástæðu; við lifum á tímum þessa stríðs, og þessvegna þurfum við að svara fyrir það. Og þá dugir ekki að tala sig út úr því á dæmigerðan sovéskan hátt og segja, tja, ég var þar ekki, kom ekki að því, tók ekki þátt … Svona vitið þið þetta. Og það frelsar ykkur undan kald- hæðninni gagnvart því.“ Anna Politkovskaja einbeitti sér að Tétsníustríðinu undanfarin ár og með greinum sínum í viku- blaðinu Novaja Gazeta neyddi hún lesendur til að horfast í augu við hinar ófögru staðreyndir stríðsins. Hún lagði lítið upp úr því að túlka atburði eða skýra þá, markmið hennar var að segja frá öllu sem hún komst á snoðir um – skrifa um það sem hún sá með eigin aug- um. Síðustu 7 árin hefur hún farið mánaðarlega til Tétsníu í það minnsta og sennilega hefur enginn rússneskur blaðamaður fjallað um stríðið þar af jafnmiklu harðfylgi og hún hefur gert. Alveg frá því að Politkovskaja fór að skrifa um ástandið í hern- um og stríðið í Tétsníu hefur hún búið við líflátshótanir og hún hef- ur orðið fyrir árásum oftar en einu sinni. Morð hennar síðasta laugardag var augljóslega verk leigumorðingja. Hann virðist hafa elt hana að heimili hennar úr inn- kaupaferð og skaut hana til bana í stigaganginum heima hjá henni. Enginn heyrði byssuskot og morð- inginn var á bak og burt þegar ná- grannar gengu fram á líkið nokkr- um mínútum eftir morðið. Viðbrögð Vladimír Pútín sagði morðið hryllilegan atburð og „ólíðandi“ en reitti marga til reiði með þeim ummælum sínum að rússnesk stjórnvöld yrðu fyrir meiri skaða af morðinu á Politkovskaju heldur en þau hefðu orðið fyrir vegna skrifa hennar. Nokkrir aðrir ráða- menn og áberandi stuðningsmenn Pútínstjórnarinnar hafa berg- málað þessi ummæli og gefið í skyn að morðið kunni að vera skipulagt af öflum sem vilji rúss- neskum stjórnvöldum illt. Eins og Politkovskaja hafi viljað stjórn- völdum illt og því kunni það að vera ágætt bragð að láta myrða hana til að rússnesk stjórnvöld litu illa út. Sú kenning þykir samstarfs- mönnum Politkovskaju hinsvegar fremur ólíkleg enda sennilega sett fram í þeim tilgangi að slá ryki í augu fólks, bæði með því að gera lítið úr áhrifum hennar og með því að fjölga mögulegum skýringum á morðinu. Margir hafa viljað tengja núverandi stjórnvöld í Tétsníu við morðið, en Politkovskaja var kom- in vel áleiðis með grein um illa meðferð á föngum, pyntingar og manndráp sem stjórn Ramzans Kadyrovs er talin bera ábyrgð á. Formlega er Tétsnía sjálfstjórn- arlýðveldi innan Rússlands og því lúta opinber stjórnvöld þar rúss- neskum lögum og stjórnarskrá, auk þess sem forseti lýðveldisins er skipaður af Pútín sjálfum. Það er einnig hugsanlegt að rússneskir þjóðernissinnar standi á bak við morðið. Með umfjöllun sinni um ástandið í hernum bæði á átakasvæðum og í venjulegum herbúðum hefur Politkovskaja reitt hópa þeirra mjög til reiði og sætt stöðugum líflátshótunum af þeirra hálfu. Stjórnvöld lýstu því yfir að sak- sóknari ríkisins, Júrí Tsjaika myndi hafa yfirumsjón með rann- sókn málsins, enda yrði allt kapp á að upplýsa það eins fljótt og mögulegt væri. Það gleður hins- vegar fáa að þessi ágæti maður sé settur yfir rannsóknina, og telja flestir að það muni aðeins leiða til þess að málið verði aldrei upplýst. Rússneska saksóknaraembættið er rúið trausti og almennt talið lúta pólitískri stjórn. Útför Önnu Politkovskaju fór fram í Moskvu á þriðjudag og vakti það athygli að enginn fulltrúi stjórnvalda var við útförina, þó að sendiherrar nokk- urra vestrænna ríkja væru við- staddir. Rússnesk fjölmiðlun Á undanförnum 15 árum hafa 42 blaðamenn fallið fyrir morð- ingjahendi í Rússlandi, og það er aðeins í Írak og Alsír sem fleiri blaðamenn hafa verið drepnir á þessu tímabili. Þrír blaðamenn Novaja Gazeta hafa verið drepnir frá árinu 2000. Bent hefur verið á að ólíkt því sem gildir um Alsír og Írak, á svo að heita að friður ríki í Rússlandi, að undanskildum ófriðnum í Tétsníu og því ættu möguleikar lögregluyfirvalda og stjórnvalda til að berjast gegn kerfisbundnum ógnunum og of- beldi gegn fjölmiðlafólki að vera talsverðir. Stjórnvöld hafa þó ekki gripið til neinna ráðstafana til að draga úr ofbeldi gagnvart fjöl- miðlafólki, og flestir sem eitthvað kveður að í fjölmiðlum og sem láta sér ekki nægja að fylgja op- inberri línu þurfa að búa við líf- látshótanir. Önnu Politkovskaju var stund- um lýst sem síðustu von blaða- mannastéttar Rússlands og þó að það sé vissulega fullmikið sagt að hún hafi verið eina manneskjan sem fylgdi sannfæringu sinni og hikaði ekki við að gagnrýna stjórnvöld, þá var yfir skrifum hennar ferskleiki og frelsi sem sjaldgæft er að sjá í Rússlandi. Politkovskaja lét sér annt um það fólk sem hún fjallaði um og hún gerði fleira en að skrifa um það sem hún sá, hún barðist líka fyrir réttindum þess fólks sem hefur orðið fórnarlömb rússnesku hern- aðarmaskínunnar, bæði sem þræl- ar hennar og, ekki síður, sem skotmörk hennar. En hvernig stendur á því að svo illa er komið fyrir fjölmiðlun í Rússlandi að alvarleg gagnrýni á stjórnvöld er hættuleg og jafnvel banvæn þeim sem að henni standa? Skýringin er vafalaust að hluta einræðislegir stjórnarhættir forsetans og stjórnunarstíll hans sem markast af uppeldi hans og þjálfun í sovésku öryggislögrel- unni KGB. Það er vel þekkt stað- reynd að stór hluti þess fólks sem hefur verið ráðið til starfa fyrir forsetaskrifstofuna í Moskvu hef- ur fengið þjálfun sína hjá öryggis- lögreglunni og skyldum stofn- unum. En þetta segir ekki alla söguna. Þrátt fyrir allt er starfs- umhverfi blaðamanna allt annað en var á Sovéttímanum. Skýringin kann því líka að vera viss andúð á pólitík og áhugaleysi um félagsleg mál sem er áberandi hjá þeirri kynslóð sem var að vaxa úr grasi um það leyti sem breytingarnar urðu í Sovétríkjunum og man lítið eftir ástandi fyrri tíma. Það sló marga þeirra sem fjölluðu um út- för Politkovskaju, að meðal þeirra rúmlega eitt þúsund Moskvubúa sem voru viðstaddir hana voru sá- ráfáir undir fertugu. Hvar er unga fólkið – háskólanemarnir? spurði einn þeirra sem tóku til máls við útförina, stjórn- málamaður á sextugsaldri. Hvers- vegna sér yngra fólk ekki ástæðu til að sýna andúð á valdstjórn og einræðistilburðum með því að koma að útför konu sem bauð kerfinu byrginn? Pútín og aftur Pútín „Hversvegna hef ég svona mikið á móti Vladimir Pútín“ spyr Anna Politkovskaja í bókinni Rússland Pútíns, sem áður var nefnd. „Hversvegna hef ég fengið slíka andúð á þessum manni, að hún hefur knúið mig til að skrifa bók um hann?“ Hún svarar spurning- unni svona: „Ætli skýringin sé ekki einfaldlega sú að ég er 45 ára og frá Moskvu og fékk því að reyna Sovétríkin þegar samfélagið var sem ósanngjarnast á áttunda og níunda áratugnum. Og ég hef sannarlega enga löngun til að upplifa það aftur.“ Maður staldrar óneitanlega við eitt orð hér: Ósanngirni. Rússland undir Pútín hefur vissulega náð ákveðnum styrk og Rússar hafa endurheimt að einhverju leyti sjálfsmyndina sem hrundi um leið og Sovétríkin. En rússneskum stjórnvöldum hefur ekki tekist að draga úr félagslegu ranglæti sem ríkti á tímum Sovétríkjanna og það má færa ýmis rök fyrir því að spillingin í landinu hafi aldrei ver- ið verri en hún er nú. Anna Polit- kovskaja fjallaði um það fólk sem kerfið og stjórnvöld hafa svikið og misnotað. En í Moskvu, þar sem gullið flýtur, skýjakljúfar rísa og auðmenn skála á næturklúbbum er áhuginn fyrir þeim sem orðið hafa undir takmarkaður. Anna Politkovskaja var einn af fáum merkisberum andófs í Rúss- landi sem enn voru uppistandandi. Margir láta nú í ljós von um að morð hennar veki fólk til vitundar um hvert ástandið er. En það hef- ur líka verið viðkvæðið oft áður þegar morðingjar hafa rutt gagn- rýnum blaðamönnum úr vegi. Það er hætt við að morðið sé aðeins eitt skrefið enn í átt burt frá frjálsri og gagnrýninni samfélags- umræðu í Rússlandi Dauði blaðakonu Anna Politkovskaja var einn af fáum merkisberum andófs í Rúss- landi sem enn voru uppistandandi. Hún var myrt í Moskvu síðastliðinn laugardag. Politkovskaja var blaðamaður og hafði einkum fjallað um Tétsníustríðið undanfarin ár en hún var mjög gagnrýnin á stjórn Pútíns. Anna Politkovskaja Hún lét sér annt um það fólk sem hún fjallaði um og hún gerði fleira en að skrifa um það sem hún sá, hún barðist líka fyrir réttindum þess fólks sem hefur orðið fórnarlömb rússnesku hernaðarmaskínunnar. Höfundur er prófessor í heimspeki við Háskólann á Bifröst. Í HNOTSKURN » Anna Politkovskaja varblaðakona á Novaja Gazeta þar sem hún hafði einbeitt sér að Tétsníustríðinu undanfarin ár. »Politkovskaja var myrt íMoskvu sl. laugardag. Morðinginn hefur ekki náðst. »Pútín forseti sagði að rúss-nesk stjórnvöld yrðu fyrir meiri skaða af morðinu á Polit- kovskaju heldur en þau hefðu orðið fyrir vegna skrifa henn- ar. »Margir láta nú í ljós von umað morð hennar veki fólk til vitundar um hvert ástandið er í raun og veru í Rússlandi nú um stundir þar sem spilling þrífst kannski betur en nokkru sinni.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.