Morgunblaðið - 24.07.2006, Blaðsíða 11
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 24. JÚLÍ 2006 11
MINNSTAÐUR
Akranes | „Ég veit ekki hvað ferðamennirnir
sem voru staddir við Ægisgarð hafa hugsað
þegar þeir sáu hóp íslenskra ungmenna stinga
sér til sunds í Reykjavíkurhöfn. Þeir voru
mjög undrandi og tóku myndir af okkur í gríð
og erg. Sjórinn var ekki nema 12 gráður og
það var því ansi kalt fyrir krakkana að stinga
sér en upphafið á Faxaflóasundinu í ár var
mjög sérstakt enda heppnaðist ferðin afar
vel,“ sagði Trausti Gylfason, talsmaður Sund-
félags Akraness, en 14 manna hópur sund-
manna synti boðsund frá Reykjavíkurhöfn og
upp á Akranes á laugardaginn.
Markmið Faxaflóasundsins er að safna fé
fyrir æfingaferð félagsins sem farin verður
sumarið 2008, en yngsta sundfólkið í ferðinni
fermdist í vor og er því á 14. aldursári.
„Það eru aldurstakmörkin í þetta sund og
þeir sem synda í fyrsta skiptið eru ekki nema
2–4 mínútur ofaní í sjónum í einu,“ segir
Trausti en sundfólkið er vel varið fyrir kuld-
anum.
„Þau eru í þurrbúningi, með sundhettu og
hanska. Að auki eru þau með sundfit á fót-
unum til þess að geta synt hraðar. Þetta er
boðsund, þar sem einn syndir í einu og þeir
sem eldri eru geta verið allt að hálftíma í sjón-
um á meðan aðrir synda styttri vegalengdir.
Þurrbúningurinn er nauðsynlegur og þá sér-
staklega hanskarnir því án þeirra væri þeim
gríðarlega kalt á höndunum.“
Koppalogn og eggsléttur sjór
Veðrið var mjög gott á laugardaginn þegar
lagt var af stað í ferðina rétt fyrir kl. 9:30 frá
Reykjavík.
„Það var koppalogn og sjórinn eggsléttur.
Þrátt fyrir það voru nokkrir sjóveikir um borð
í bátnum og á sundinu. Það var drjúg undir-
alda sem gerði okkur aðeins erfiðara um vik.“
Tveir bátar voru með sundfólkinu í för,
hafnsögubátur frá Faxaflóahöfnum, og að auki
var hraðskreiður björgunarbátur við hlið
sundmanna alla leiðina – enda er öryggið mik-
ilvægt í aðgerð sem þessari. Sundfólkið og for-
svarsmenn sundsins voru með aðstöðu í hafn-
sögubátnum og þar gátu krakkarnir hvílt sig
og fengið sér eitthvað að borða.
Smáhvalirnir létu ekki sjá sig
Sundfólkið hefur oftar en ekki rekist á smá-
hvali og sel á leið sinni yfir Faxaflóann á und-
anförnum árum en í ár varð hópurinn ekki var
við neina „fylgifiska“.
„Ég man eftir því að fyrir tveimur árum
sáum við fjölda smáhvala á leiðinni og selurinn
er mjög forvitinn þegar hann sér einhvern á
sundi. Krakkarnir gefa alltaf í þegar þau sjá að
selurinn er að synda við hlið þeirra. Þau eru
ekkert smeyk við að eitthvað óþekkt fyr-
irbrigði komi aftan að þeim og bíti þau í tærn-
ar. Jú, kannski þau sem eru að synda í fyrsta
sinn, en þau sem eldri eru kippa sér ekki upp
við neitt.“
Eins og áður segir er Faxaflóasundið stór
þáttur í fjáröflunarstarfi Sundfélagsins og
hafa krakkarnir séð að mestu um að safna fé
fyrir þær ferðir sem þau fara í.
„Sundfélagið er afar vel rekið og ég man
ekki eftir að það hafi verið halli á rekstrinum.
Enda eru konur í meirihluta í stjórninni og
þær eru vel skipulagðar og halda vel utan um
reksturinn.“
Ferðin upp á Akranes tók ekki nema rétt
rúma sex tíma en hópurinn fór allur í land á
sama tíma við Langasand þar sem fjölmenni
tók á móti þeim. Vegalengdin sem sundfólkið
synti er um 11 sjómílur eða um 17 kílómetrar.
Til samanburðar fór farþegaferjan Akraborg
þessa leið á 60 mínútum.
„Það er kraftur í þessum krökkum. Það var
boðið í flatbökuveislu eftir sundið og þegar þau
höfðu lokið við matinn fór megnið af þeim sam-
an í fótbolta langt fram á kvöld. Það var því
ekki mikil þreyta í hópnum,“ sagði Trausti.
Synt í ísköldum sjónum frá
Reykjavík og upp á Akranes
Á sundi Einn sundgarpanna frá Akranesi á góðri siglingu í sjónum, sem var 12 gráðu heitur.
Morgunblaðið/Guðgeir Guðmundssson
Stokkið Krakkarnir í Sundfélagi Akraness stökkva til sunds frá gömlu Akraborgarbryggjunni
í Reykjavík. Síðan synti einn í einu yfir Faxaflóann þar til að komið var á land á Langasandi.
Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson
seth@mbl.is