Morgunblaðið - 09.10.2006, Page 19
gæludýr
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 9. OKTÓBER 2006 19
Sheer Driving Pleasure
BMW X5
www.bmw.is
Hún heitir Sól úr Geysi og er eðalbor-in læða af Sómali-kyni, fagurrauðað lit með millisíðan feld og ein-staklega ljúft geðslag. Sómali-
kettir eru blíðir heimiliskettir, trygglyndir og
ákaflega hændir að eigendum sínum. Þeir eru
forvitnir, áhugasamir og óhræddir. Sómali-
köttum semur mjög vel við önnur heimilisdýr
enda eru þeir yfirvegaðir friðarsinnar frá nátt-
úrunnar hendi.
Sól, læðan sem hér er til umfjöllunar, er til
heimilis á Seltjarnarnesi og deilir eigendum
sínum með aldraðri boxertík og ungri tík af
snögghærðu griffonkyni, sem kallast petit
brabançon. Þeim semur vel tíkum og læðu og
þær kúra gjarnan saman í tveggja manna sófa,
nema þegar Sól heldur til veiða.
Veiðir maðka og flugur
Sól hefur, eins og algengt er um ketti, mikla
ánægju af veiðum. Hún veiðir hins vegar
hvorki fugla né mýs, eigendum sínum til mikils
léttis, heldur ánamaðka og flugur. Um leið og
dropar falla úr lofti fer Sól út í garð og leitar
uppi stóra og pattaralega orma sem hún færir
fjölskyldu sinni, stolt á svip. Síðastliðið sumar
var ákaflega gjöfult hvað þetta snertir, þótt
líkast til séu landsmenn almennt ekki ánægðir
með sumarveðrið þetta árið.
Í upphafi lagði Sól maðkana fyrir framan
fætur mannfólksins, sem hrósaði kisu fyrir
framtakið, enda áhugafólk um stangaveiði.
Möðkunum var safnað saman og þeir síðan
notaðir til silungsveiða með prýðisgóðum ár-
angri enda virtist Sól leggja metnað í að færa
eigendum sínum stóra og pattaralega maðka
sem silungarnir ágirntust.
Smáhundurinn sá tækifæri
Þegar fram liðu stundir fór smáhundatíkin á
heimilinu að sýna ánamöðkunum áhuga. Þegar
rakt var í veðri fór hún að vakta Sól og sýndi
henni einstaka vinsemd þegar hún kom inn
með „aflann“. Tíkin litla, sem eigendurnir telja
einkar greinda, tók upp þann sið að taka við
möðkum kattarins og færa eigendum sínum
þá.
Sól er æðrulaus köttur sem lætur það ekki
trufla sig þótt hundurinn taki að sér að færa
eigendunum veiðifenginn. Henni nægir ánægj-
an af veiðunum og hrósið frá litlu tíkinni sem
tekur við fengnum og færir eigendum sínum
hann.
Saman á fluguveiðum
Litla tíkin, sem heitir Bon Bon, hefur mikið
dálæti á Sól og virðist bera mikla virðingu fyr-
ir læðunni. Hún hefur meðal annars tekið þann
sið upp eftir kettinum að veiða flugur og hefur
náð býsna góðri færni í fluguveiðum, sem ekki
er algengt meðal hunda. Stundum fara þær
saman á fluguveiðar í garðinum sínum á Sel-
tjarnarnesi og ná ágætum árangri, þótt Sól sé
vissulega færari á því sviði.
Ennfremur hefur litla tíkin lært af kettinum
að fara upp á eldhúsborð og stela mat þegar
eigendurnir sjá ekki til. Hún hefur því lært
bæði góða siði og vonda á mælikvarða okkar
mannfólksins, en þegar öllu er á botninn hvolft
er lærdómurinn sem draga má af þessum sam-
skiptum sá að svo lengi lærir sem lifir og að
hundar og kettir geta sannarlega lifað góðu og
farsælu lífi saman.
Köttur kennir hundi að veiða
Morgunblaðið/Kristinn
Vinátta Litla tíkin hefur til dæmis lært af kettinum að fara upp á eldhúsborð og stela mat þegar eigendurnir sjá ekki til.
Oft er ósamlyndi fólks líkt við
samskipti hunds og kattar, sagt
er að menn séu eins og hundur
og köttur ef þeim lyndir ekki.
Brynja Tomer á bæði hund og
kött og hefur komist að því að
hundar og kettir geta lifað sam-
an í sátt og samlyndi og jafnvel
lært hver af öðrum.