Lesbók Morgunblaðsins - 13.01.2007, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 13.01.2007, Blaðsíða 6
6 LAUGARDAGUR 13. JANÚAR 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Trausta Ólafsson to@hi.is Þ að er ekki algeng sjón að sjá karlmenn pissa á leiksviði. Og ekki minnist ég að hafa séð konu kasta af sér vatni í nafni leiklistar. Hitt er ógleymanlegt þegar Bessi Bjarnason tjáði umkomuleysi mannsins sem hann var að leika í einu af þeim sænsku samfélags- verkum sem rötuðu upp á íslensk leiksvið á áttunda áratug síðustu aldar með því að sýna áhorfendum Þjóðleikhússins hvernig hann reyndi að pissa nafnið sitt í snjóinn en bunan nægði ekki nema í fáeina fyrstu stafina. Við þennan gjörning sneri Bessi baki í áhorf- endur og ótrúlegt að athöfnin hafi haft áhrif á þvagblöðru hans. En list leikarans, Bessa Bjarnasonar, var svo fáguð að engum duldist hvað hann var að tjá og margir urðu snortn- ir. Algengara er að karlmenn pissi í bíómynd- um heldur en á leiksviði. Geiri held ég bónd- inn úr Skagafirðinum sem Gísli Halldórsson lék í kvikmyndinni Börnum náttúrunnar hafi verið kallaður. Það er minnisstætt hvernig Sigríður Hagalín, sem lék stúlkuna sem þessi gamli bóndi hafði verið skotinn í ungur mað- ur, tók sér nafnið hans í munn þegar fundum þeirra bar saman á elliheimili í Reykjavík. Þorgeir Kristmundsson, sagði hún minnir mig, og það var eins og allar ástarsögur heimsins væru fólgnar í hljómi raddar henn- ar. Snemma í þessari kvikmynd stóð Gísli við pissuskál á karlaklósettinu á Umferð- armiðstöðinni og sneri bakinu í myndavélina. Leikstjórinn gat vart fundið áhrifameiri and- stæður við víðerni fjallahringsins sem skag- firski bóndinn var að kveðja og jörðina hans þar sem hann hafði mestan sinn manndóms- aldur verið frjáls að því að þjóna þörfum lík- amans til að losa sig við úrgangsefni næstum hvar og hvenær sem var án þess það særði blygðunarkennd nokkurs manns. Stanislavski, hefðin og framúrstefnan Tilefni þessara hugleiðinga um að kasta af sér vatni á listrænan hátt er grein eftir Magnús Þór Þorbergsson sem birtist í Les- bók Morgunblaðsins 16. desember síðastlið- inn og höfundur nefndi Er breiðnefurinn spendýr? Greinin hefst á því að vísað er til þvaglátagjörnings í Leiklistardeild Listahá- skóla Íslands á haustmisseri 2006 en síðan er fjallað um, eins og segir í inngangi, „íslenska leiklist og leiklistarumfjöllun sem virðist sitja föst í einhverjum skilgreiningum á því hvað er leiklist og hvað ekki“. Það er svolítið bágt að ekki skuli koma fram hvaða skil- greiningar þetta eru og höfundur lætur að mestu nægja að segja okkur að hann eigi þarna við „hefðirnar“ sem hann lætur á sér skiljast að haldi öllu föstu í heljargreipum og varni fólki útsýnis til víðari lendna og feg- urri. Hvað leiklistarteóríu áhrærir nefnir hann þó sérstaklega til sögunnar Konstantín Stanislavski og staðhæfir að hann hafi verið þess „fullviss að kerfið sem kennt er við hann (og hefur í einhverri mynd verið ríkjandi hefð í leikaraþjálfun á Vesturlöndum síðustu öld) væri ekki hans tilbúningur heldur bein- línis náttúrulögmál“. Og skömmu síðar bætir greinarhöfundur við þessa staðhæfingu eft- irfarandi klausu: „Framúrstefnumenn í upp- hafi 20. aldar höfnuðu t.d. algerlega hug- myndum Stanislavskis og annarra raunsæismanna og töldu leiklistina eiga sitt eigið sérstaka tungumál.“ Ekki kemur neitt nánar fram í grein Magnúsar Þórs hverjir þessir framúrstefnumenn voru og er afleitt þegar jafnmikilvægt efni er til umræðu og framtíð leiklistar og leiklistarumræðu á Ís- landi. Ætli hann sé að vísa til ítölsku fútúr- istanna eða gjörninga dadaista? Kannski Bauhaus-leikhússins? Varla getur hann átt við Appia, Craig og Fuchs, því að þeir voru allir farnir að móta kenningar sínar áður en nafn Stanislavskis varð víðkunnugt. Og tæp- ast getur hann meint Antonin Artaud, sem var fjögurra ára í upphafi tuttugustu aldar og hafði lengst af sáralítil áhrif utan mjög þröngs hrings listamanna í París. Við staðhæfingar Magnúsar Þórs um Stan- islavski og andóf „framúrstefnumanna“ við kenningum hans er ýmislegt fleira að at- huga. Það fer vel á því að byrja á „kerfinu“, sem við hann er kennt. Ég veit ekki betur en Stanislavski hafi sjálfur lagst gegn því að orðið kerfi væri notað um ævilangar rann- sóknir sínar á list leikarans og tilraunir til þess að skilja eðli þeirrar listar. Hann myndi trúi ég ekki heldur hafa viljað kannast við að kenningar sínar byggðust á ákveðinni aðferð, eða því sem á enskri tungu er kallað the met- hod. Sú nafngift er hygg ég ættuð vestan um haf frá Lee Strasberg, sem vissulega byggði á hugmyndum Stanislavskis en mótaði þær, eins og margur annar, eftir eigin höfði – enda spurning hvort nokkur önnur leið sé fær þegar kemur að kenningum annarra manna um listir. Eftir því sem ég hef komist næst þá var Stanislavski alla ævi að leitast við að finna nýjar leiðir og aðferðir til þess að göfga og bæta leiklistina. Þetta gerði hann meira að segja eftir að hann var kominn í stofufangelsi ráðstjórnarinnar og fékk ekki að takast á við önnur verkefni en að undirbúa óperusýningu sem aldrei mun hafa ratað á svið. Annað atriði ber einnig að leiðrétta hér. Stanislavski og Nemorovitsj-Dantstjenko stofnuðu ekki Listaleikhúsið í Moskvu fyrr en rétt undir aldamótin 1900 og hugmyndin um að finna „náttúrulegt tungumál leiklist- arinnar“, ef svo má að orði komast um rann- sóknir Stanislavskis, fræði hans og fram- kvæmd, mótaðist ekki til neinnar fullnustu í huga hans fyrr en hann var í sumarfríi í Finnlandi eftir miðjan fyrsta áratug tutt- ugustu aldarinnar. Þá urðu þáttaskil á ferli hans og leitin mikla að vísindalegum aðferð- um til þess að þróa og greina leiklist hafin fyrir alvöru. Rannsóknarstofur Stanislavskis í leiklist urðu ófáar og þar störfuðu meðal annarra menn eins og Vsevolod Meyerhold, sem kaus fljótlega að rísa gegn lærimeisara sínum og fara aðrar leiðir. Meyerhold er þess vegna ef til vill sá eini af „fram- úrstefnumönnum“ í leiklist á fyrstu áratug- um tuttugustu aldar sem í raun og sannleika reis gegn kenningum Stanislavskis, þó að vissulega hafi Piscator, Brecht og margir fleiri fylgt í kjölfarið. En þótt Meyerhold hafi þannig hafnað kenningum meistara síns var það svo að þegar tók verulega að þrengja að listamönnum í Sovétríkjunum og Stan- islavski áttaði sig á því að líf Meyerholds var í hættu, þá bað hann menn að gæta hans vel að sér gengnum, því að hann væri ekki ein- ungis sinn besti nemandi heldur einnig hinn eini verðugi eftirmaður. Það sem hér hefur verið sagt er aðeins fátt af því sem tína mætti til til þess að færa rök að því að þótt margir „framúrstefnumenn“ í leiklist hafi frá því að Stanislavski varð allur snúist gegn kenningum hans, þá var hann óumdeilanlega meðal brautryðjenda, ef ekki framúrstefnu- manna, í leiklist í upphafi tuttugustu aldar. Þann sess ber ekki að reyna að hafa af hon- um og láta eins og hann hafi verið orðinn gamaldags áður en kenningar hans fóru að berast um heiminn fyrir alvöru, sem varð ekki fyrr en nokkuð var farið að líða á öldina. Stanislavski, hefðin og framúrstefnan Þetta efni er vart hægt að skiljast við án þess að minnast á leikhús- og fræðimann sem óumdeilanlega hlýtur að flokkast með fram- úrstefnumönnum í leiklist á síðari hluta tutt- ugustu aldar, Pólverjann Jerzy Grotowsky. Grotowsky var skólaður í stanislavskiskri hefð rússneskri og hann lá aldrei á þeirri skoðun sinni að Stanislavski væri mesti áhrifavaldurinn á þá list sem hann bæði iðk- aði og rannsakaði af meiri alvöru en flestir aðrir. Eftir að Grotowsky sagði skilið við „hefðbundið“ leikhús í kringum 1970 fékkst hann ásamt leikhópi sínum um nokkurt skeið við rannsóknir á því sem hann kallaði djúp- leikhús, og eftir að leikflokkur hans var lagð- ur niður árið 1984 eftir glæstan alþjóðlegan feril í 25 ár hélt Grotowsky áfram jaðarrann- sóknum á leiklistinni. Undir lok níunda ára- tugar aldarinnar sem leið sneri hann sér að því að þróa það sem hann nefndi objective drama. Í ágætri bók Lisu Wolford um hlut- lægt drama Grotowskys kemur ítrekað fram að Grotowsky og samstarfsmenn hans leit- uðu við iðkun þessa forms leiklistar enn á ný í kenningar Stanislavskis og sum rita hans voru skyldulesning þeirra sem þátt tóku í áralöngum rannsóknum á objective drama við University of California-Irvine. Þetta var á níunda og tíunda áratug tuttugustu aldar og ég hygg að þeir sem að því prógrammi stóðu geti tæpast talist afturhaldsmenn hvað skoðanir á leiklist varðar, þótt þeir hafi gert sér ljóst að það er vænlegra að leggja rækt við ræturnar fremur en að rífa þær upp og vanvirða. Þannig og því aðeins má hinn vold- ugi stofn dafna svo af honum vaxi nýjar og blómlegar greinar. Að Grotowsky leit svo á þegar snemma á ferli sínum er ljóst af eftirfarandi tilvitnun í bók hans Towards a Poor Theatre, sem kom fyrst út árið 1968. Í þeirri bók segir: „Þegar við tökumst á við almenna hefð hinna miklu umbreytinga í leiklistinni, frá Stanislavski til Dullins og frá Meyerhold til Artauds, gerum við okkur grein fyrir því að við byggjum ekki starf okkar á einhverju fikti heldur störfum innan skilgreindra og sértækra aðstæðna og andrúmslofts.“ Ég hygg að Peter Brook, enski leikstjórinn sem Magnús Þór vísar nokkrum sinnum til í grein sinni máli sínu til stuðnings, hafi alla sína tíð verið sér þessa sama meðvitandi. Brook hefur eytt veruleg- um hluta starfsævi sinnar í að rannsaka ræt- ur leiklistarinnar, jafnt hinnar vestrænu list- ar og framandi menningarstrauma sem glætt gætu og göfgað sviðslistir í okkar heims- hluta. Einhvers staðar segir Brook að til þess að leysa þau listrænu álitamál sem upp koma við æfingar á leikverki eigum við ekki annarra kosta völ en að leita endalaust til forvera okkar í listinni og spyrja hvað þeir hefðu gert við svipaðar aðstæður. Með því móti kann okkur að auðnast að skapa eitt- hvað ferskt. Meðal forvera sinna sem Brook nefnir, gott ef ekki sem fremstan meðal jafn- ingja, er gamli góði Stanislavski. Á öðrum stað fullyrðir Brook að hann gæti kennt hverjum sem væri allt sem hann veit um leik- list á fáeinum klukkustundum og bætir við „afgangurinn er iðkun“. Ég leyfi mér að draga í efa að það sem Brook segir um að miðla þekkingu sinni sé rétt jafnvel þótt kennslan væri með afbrigðum góð. Peter Brook kann án efa betri skil á leiklist en svo að margt eitt misserið mætti ekki dvelja við fótskör hans og nema ef hann gæfi á því kost. Um hin síðari ummæli Brooks efast ég ekki. Þrotlaus iðkun er forsenda framfara og ár- angurs í listum og það á ekkert síður við um leiklistina en aðrar greinar lista. En það er hreint ekki sama hvernig að þeirri iðkun er staðið og má færa að því rök að fyrstu kynni leikarans af leiklistinni séu afgerandi fyrir alla frekari þróun hans sem listamanns. Þeirrar skoðunar er að minnsta kosti ítalski leikstjórinn og fræðimaðurinn Eugenio Barba, sem segir að „fyrsti starfs- dagurinn ákvarði hvert okkur ber og merk- ingu ferðalagsins“. Ef við eigum að taka eitt- hvert mark á Barba, og um leið sjálfum okkur, þá er augljóst hversu mikilsvert það er að vandað sé til menntunar leikara, jafnt tæknilega, fræðilega og hvað siðgæði varðar. Og er þá aftur komið að upphafi og tilefni þessara skrifa, þeim gjörningi að pissa á leiksviði. Vandinn að verða betri Gjörningur sem fram fór í leiklistardeild Listaháskóla Íslands einhvern tímann á haustmisseri ársins sem leið er, eins og áður var drepið á, rifjaður upp í grein Magnúsar Þórs frá 16. desember, en hefði betur legið í þagnargildi. Magnús Þór lýsir gjörningi þessum svo að hann „fól meðal annars í sér þá athöfn að einn nemandi pissaði á fætur annars“. Óttalega er þetta lítilfjörlegt tilefni til að fara að fjalla um mikilvægi dýpri og vit- rænni umræðu um leiklist á Íslandi en tíðkuð er nú um stundir. Magnús Þór á eigi að síður tímabært erindi með grein sinni þar sem hann vekur athygli á því hversu brýn þörf er á því að taka til hendinni og fjalla á íslensku um leiklist af meiri þekkingu og innsæi en nú viðgengst. Ummæli leiklistarrýnis Kastljóss Sjónvarpsins um sýningu Sokkabandsins á Mind©amp í Hafnarfjarðarleikhúsinu í fyrravetur, þegar rýnirinn kvað upp úr með það að sýning þessi væri „ekki leiklist“ og er annað tilefni skrifa Magnúsar Þórs, er mun skárra atvik til útleggingar en piss leiklist- arnemanna. En gallinn er sá að það er svo Að pissa (á aðra) með „Það er dálítið ódýrt hjá Magnúsi Þór að rétt- læta umrædd þvaglát leiklistarnema með því að láta að því liggja að vegna þess ramma sem pissað var innan hafi þar verið á ferð list- ræn tilraun, ef ekki listrænn gjörningur,“ segir greinarhöfundur sem svarar grein Magnúsar Þórs Þorbergssonar í Lesbók fyrir stuttu um íslenska leiklistarumræðu sem hann telur þurfa að efla. Konstantín Stanislavski Stanislavski var óumdeilanlega meðal brautryðjenda, ef ekki framúrstefnumanna, í leiklist í upphafi tutt- ugustu aldar, að mati greinarhöfundar. Eða – hvernig bætum við íslenska leiklistarumræðu? Börn náttúrunnar Sigríður Hagalín og Gísli Halldórsson í hlutverkum sínum.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.