Lesbók Morgunblaðsins - 13.01.2007, Blaðsíða 12

Lesbók Morgunblaðsins - 13.01.2007, Blaðsíða 12
12 LAUGARDAGUR 13. JANÚAR 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Birtu Björnsdóttur birta@mblis Leikstjórinn Luc Besson missti ívikunni möguleikann á að vera tilnefndur til Óskarsverðlauna í ár, allavega í flokki bestu teikni- mynda ársins. Mynd hans Artúr og Mínimóarnir var meðal þeirra 16 mynda sem komu til greina í flokknum en dómnefnd úr- skurðaði að mynd Besson ætti ekki heima í flokknum. Regl- urnar eru nefnilega þær að 75% myndar verður að vera teiknuð til að hún geti talist teiknimynd en Artúr og Mínimóarnir uppfyllir ekki þau skilyrði. Myndin er nefni- lega sambland af teiknuðum atrið- um og leiknum. Brottvikning myndarinnar hefur þau áhrif að dómnefnd getur ekki tilnefnt nema 3 myndir sem bestu teiknimyndina, en einungis má til- nefna fimm myndir sé valið úr 16 eða fleiri myndum. Meðal þeirra mynda sem enn koma til greina eru Cars, Happy Feet, Ice Age 2, Flushed Away og Open Season.    Í kjölfar velgengni nýjustu JamesBond myndarinnar, Casino Ro- yale, er nú þegar farið að huga að þeirri næstu. Flestum heim- ildum ber saman um að nýjasta myndin, sem er 22. í röðinni, komi til með að heita Risico. Myndin verður framhald af Cas- ino Royale og byggir á sam- nefndri smásögu Ians Fleming. Þar sendir M Bond af stað til Ítalíu til að uppræta umfangsmikið eitur- lyfjasmygl til Bretlands. Áætlað er að myndin líti dagsins ljós á næsta ári. Og enn af Bond. Á vefsíðunni RottenTomatoes.com, sem rekin er af Fox Interactive Media, getur al- menningur gefið kvikmyndum ein- kunn á bilinu 0–100%. Á síðasta ári var það Casino Royale sem fékk hæstu einkunn notenda eða alls 95%. Kvikmyndin The Queen skor- aði hæst óháðra kvikmynda, eða 98%. Rotna tómatinn á síðasta ári hlaut svo Basic Instinct 2, sem fékk verstu dóma ársins 2006. Vefurinn er mikið skoðaður bæði af leikmönnum og lærðum.    Það er mynd sem byggð er á ævi-sögu frönsku söngkonunnar Edith Piaf sem kemur til með að vera opn- unarmynd kvik- myndahátíð- arinnar í Berlín, sem hefst í næsta mánuði. Myndin nefnist La Vie en Rose og er leikstýrt af Olivier Dahan. Leikkonan Mar- ion Contillard fer með hlutverk Piaf en auk hennar leikur Gerard Depardieu í mynd- inni. Piaf er ein þekktasta söngkona Frakka fyrr og síðar en æviferill hennar gjarnan talinn nokkuð skrautlegur þó ekki hafi hún náð háum aldri. Hún lést árið 1963, 47 ára gömul. Kvikmyndahátíðin í Berlín er gjarnan talin ein af virtari kvik- myndahátíðum heims en í ár verður hún haldin í 57. sinn. Síðustu ár hafa opnunarmyndir hátíðarinnar fengið lélega dóma frá mörgum gagnrýnendum og ráðamenn hátíð- arinnar fengið skömm í hattinn fyr- ir að velja opnunarmyndirnar eftir því hvaða stórstjörnur sé hægt að fá til að vera viðstaddar sýninguna. KVIKMYNDIR Luc Besson Edith Piaf Daniel Craig sem James Bond. Eftir Björn Norðfjörð bn@hi.is Eftir af hafa legið í dvala um tveggja ára-tuga skeið lifnaði aftur yfir rökk-urmyndinni (f./e. film noir) á áttunda ogníunda áratugnum. Í kvikmyndum á borð við The Long Goodbye (1973), Chinatown (1974), Body Heat (1984) og Blue Velvet (1986) birtust á ný harðsvíruðu krimmarnir, hnyttnu spæjararnir og spilltu tálkvendin sem höfðu hreiðrað um sig í svarthvítum skuggaheimi Holly- wood fimmta áratugarins. Heimur þeirra átti þó lítt sameiginlegt með þeirri yfirborðsmynd sem Ameríka reyndi að draga upp af sjálfri sér er leið á sjötta áratuginn og varð rökkrið frá að hverfa. Í þessari endurlífgun rökkursins (oft er rætt um ný- rökkurmyndir (e. neo-noir) til aðgreiningar) má þó ekki vanmeta þátt rithöfundarins James Ellroy. Með nokkurri einföldun mætti segja að hann og Jim Thompson væru nýrökkrinu það sem Dashiell Hammett, Raymond Chandler og James M. Cain voru rökkurmyndunum. Þessa helgina er verið að frumsýna hérlendis aðlögun leikstjórans Brians De Palma á skáldsögu Ellroy, The Black Dahlia. Að vísu hafa ekki ýkja margar af skáldsögum Ellroy verið kvikmyndaðar, og þegar það hefur þó verið gert hefur kvikmyndin sjaldnast reynst eft- irminnileg. Stóra undantekningin er mynd Curtis Hanson, L.A. Confidential (1997) – úrvalsmynd sem strax varð miðlæg í allri umræðu um nýrökkr- ið. Miklu fremur en í aðlögunum skáldsagna hans sýnist mér að áhrifa Ellroy gæti í því hvernig hann hefur sjálfur endurunnið í eigin skáldsögum (og gert vinsælan) heim rökkurmyndanna. Bæði L.A. Confidential og The Black Dahlia tilheyra t.a.m. kvartetti skáldsagna sem gerist í rökkurborginni „par excellence“ Los Angeles á fimmta og sjötta áratugnum (og gildir þetta um fleiri bækur hans, líkt og Clandestine, sem Ellroy endurskrifar að einhverju leyti sem The Black Dahlia). Ennfremur eru bæði kvikmyndamiðillinn og -iðnaðurinn mjög miðlægir í þessum verkum. Í L.A. Confidential er Hollywood ekki aðeins hluti af frásagnarfléttunni heldur eru skoðuð áhrif ímyndarinnar/ljósmynd- arinnar í samfélaginu. The Black Dahlia byggir á mjög svo óhugnanlegu morði á Elizabeth Short ár- ið 1947 en í skáldsögunni er persónan í framaleit í Hollywood og tekur þátt í vafasamri kvikmynda- gerð. Gælunafnið „Black Dahlia“ sem Short var gefið eftir morðið var sótt í rökkurmyndina The Blue Dahlia (1946), sem gerð var eftir handriti Chandler, og á frönsku heitir verkið einfaldlega Le Dahlia Noir! Fáir leikstjórar eru jafnmeðvitaðir um kvik- myndamiðilinn og Brian De Palma og því verður spennandi að sjá hvernig honum tekst upp með þennan þátt verksins. Þá hefur hann löngum verið umdeildur vegna grófra ofbeldisatriða þar sem konur eru oftar en ekki í hlutverki fórnarlambsins. Koma þessir tveir þættir saman í hans umdeild- ustu mynd, Body Double (1984), sem mætti vissu- lega kenna við nýrökkur þótt margbrotin úr- vinnsla á höfundarverki Alfreds Hitchcock skyggi kannski á flest annað, og eitthvað svipað mætti segja um Sisters (1973) og Obsession (1976). Kannski er það þessi meðvitund um ímyndina og tilbúning hennar – eftirmyndina – sem hefur leitt De Palma jafnoft og raun ber vitni á vit endurgerð- arinnar, sbr. einnig Phantom of the Paradise (1974), The Fury (1978), Blow Out (1981), Scarface (1983), The Untouchables (1987) og Mission: Imp- ossible (1996). Allir þessir helstu þættir í höfund- arverki De Palma ættu að koma saman í The Black Dahlia. The Black Dahlia var opnunarmynd kvik- myndahátíðarinnar í Feneyjum undir lok ágúst- mánaðar en var tekin til almennra sýninga í Bandaríkjunum um miðjan september. Það er sannarlega kominn tími til að hérlendum áhorf- endum gefist tækifæri til að berja þessa mynd augum. Rökkur á rökkur ofan SJÓNARHORN »Með nokkurri einföldun mætti segja að James Ellroy og Jim Thompson væru nýrökkrinu það sem Dashiell Hammett, Ray- mond Chandler og James M. Cain voru rökkurmyndunum. Eftir Heiðu Jóhannsdóttur heida@mbl.is M exíkóska leikstjóranum Alej- andro González Iñárritu skaut hratt upp á stjörnuhimin al- þjóðlega kvikmyndaheimsins eftir að frumraun hans Amor- es Perros sló í gegn í kjölfar þess að hljóta tilnefningu til Óskarsverðlauna sem besta erlenda kvikmyndin árið 2000. Amores Per- ros vakti m.a. heimsathygli á leikaranum Gael Garcia Bernal en þar er sögð saga hóps fólks sem glímir við ástina og lífshamingjuna í hinni mann- mörgu Mexíkóborg þar sem misskipting milli ríkra og fátækra er gríðarlega mikil. Frumraun- inni fylgdi Iñárritu síðan eftir með hinni drama- tísku kvikmynd 21 gramm en þar með færði leik- stjórinn athafnasvið sitt yfir til Hollywood sem bauð honum opinn faðminn í kjölfar velgengni Amores Perros. Myndin, sem fjallar um sam- tvinnuð örlög nokkurra íbúa í ofurvenjulegri borg í Bandaríkjunum, skartar leikurum á borð við Sean Penn, Naomi Watts og Guillermo del Toro en tveir síðastnefndu leikararnir hlutu óskarstiln- efningar fyrir hlutverk sín í myndinni. Nýjasta kvikmynd Iñárritus, Babel, hefur ekki síður vakið athygli en um gríðarlega metn- aðarfullt kvikmyndaverkefni er að ræða. Í mynd- inni er flakkað á milli ólíkra heimshluta, en um- fjöllunarefni hennar er í senn það sem sameinar mannfólkið og það sem skilur það að. Þannig vísar titillinn til biblíunnar og Babelturnsins sem tákns um splundrun mannkynsins í ólíka menning- arhópa sem tala ekki lengur sama tungumál og eiga í stöðugum átökum. Sögurnar sem sagðar eru í Babel eiga sér stað í fjórum ólíkum heimshlutum, í Marokkó, Japan, Mexíkó og Bandaríkjunum. Þótt stutt sé á milli tveggja síðastnefndu staðanna landfræðilega séð, eru himinn og haf milli Banda- ríkjanna og Mexíkó hvað almenn lífskjör íbúanna varðar og varpar myndin ljósi á þann aðstöðumun sem ríkir milli vel stæðra bandarískra hjóna af millistétt og heimilishjálpar þeirra til margra ára, miðaldra konu frá Mexíkó, sem heitir Amelia. Hún er einn af mörgum ólöglegum innflytjendum frá Mexíkó sem vinna láglaunastörfin sem Banda- ríkjamenn láta ekki bjóða sér. Amelia hefur hugs- að um börn hjónanna eins og þau væru hennar eigin en stendur frammi fyrir vanda þegar hún fær ekki frí til þess að fara í brúðkaup sonar síns í Mexíkó, og ákveður að taka börnin með sér. Þriðja sögusvið myndarinnar er Marokkó þar sem hjónin Richard og Susan eru á ferðalagi en líf þeirra og tveggja fátækra drengja í þorpi skammt hjá tekur óvæntum breytingum þegar skot ríður óviljandi af riffli hjá drengjunum. Susan slasast er hún verður fyrir skotinu og verður fyrr en varir miðpunktur fjölmiðlafárs, þar sem hryðjuverkaótti og araba- fordómar hafa áhrif á gang mála. Fjórða sögusvið- ið er síðan í stórborginni Tókýó þar sem neyslu- menning og tíska er allsráðandi, og heyrnarlausa unglingsstúlkan Chieko sem glímir við tilfinn- ingasveiflur og óöryggi unglingsáranna. Leikarahópur myndarinnar er fjölbreyttur en þar vinnur Iñárritu jafnt með reyndum leikurum sem óreyndum. Stærstu stjörnurnar í myndinni eru Brad Pitt, Cate Blanchett og Gael Garcia Ber- nal, en í hlutverk marokkósku drengjanna tveggja völdust óreyndir piltar úr þorpi í nálægð við töku- staðinn. Kvikmyndahöfundurinn Iñárritu? Að margra mati hefur Alejandro González Iñ- árritu náð að skapa sér ímynd sem „kvikmynda- höfundur“ en þeirri nafnbót fylgir ákveðin við- urkenning í listræna kvikmyndageiranum og jafnframt það sem gárungar hafa kallað nokkurs konar „áskrift“ að heiðursflokkum stóru al- þjóðlegu kvikmyndahátíðanna á borð við Cannes. Þannig var Babel t.d. tilnefnd til Gullpálmans í Cannes á síðasta ári, og þar vann Iñárritu verð- laun sem besti leikstjóri. Þá hlaut myndin og leik- arar hennar sjö tilnefningar til Golden Globe- verðlaunanna, m.a. sem besta dramatíska kvik- mynd. Golden Globe-tilnefningarnar eru jafnan lesnar sem ákveðinn fyrirboði um hvað muni bera hæst í óskarsverðlaunaslagnum og er óhætt að spá því að Babel verði áberandi í þeirri keppni. En Iñárritu hefur þó ekki síður áunnið sér nafn- bótina „kvikmyndahöfundur“ fyrir þau sterku höfundareinkenni sem myndir hans bera. Þannig hafa Amores Perros, 21 gramm og Babel afger- andi samkenni hvað þemu, sögusmíð og stíl varð- ar. Iñárritu hafði unnið fyrir sér í auglýsinga- og tónlistamyndbandageiranum áður en hann náði að brjótast inn í kvikmyndaheiminn. Þessi bak- grunnur setur mark sitt á myndir hans sem hafa ákveðinn sprengikraft hvað hrynjandi og útlit varðar. Leikstjórinn beitir miðlinum til fulls líkt og sjá má skýr dæmi um í Amores Perros og Ba- bel en þar tekst honum á eftirminnilegan hátt að fanga sjónrænt- og skynrænt áreiti stórborg- arinnar, í fyrra tilfellinu Mexíkóborgar en í síð- arnefndu myndinni Tókýó. Þá má jafnframt greina sterk tengsl á milli leik- stjórnarverkefna Iñárritus hvað frásagnaraðferð varðar, og hér má ekki vanmeta þátt handritshöf- undarins Guillermo Arriaga sem hefur skrifað handritið að öllum þremur kvikmyndaverkefn- unum Iñárritus. Þeir Iñárritu og Arriaga eru und- ir sterkum áhrifum kvikmyndahöfunda á borð við Robert Altman og Quentin Tarantino, m.a. hvað frásagnarmáta varðar. Í öllum þremur mynd- unum er sögð saga nokkurra hópa persóna sem í fyrstu virðast lifa ótengdu lífi, en reynast hafa áhrif á örlög hver annarrar á óvæntan máta, stundum viljandi en oftast óviljandi og jafnvel óaf- vitandi. Sögum persónanna er síðan tvinnað sam- an í brotakenndri frásögn sem fylgir ekki línulegri tímaröð, heldur stekkur fram og aftur í tíma og á milli ólíkra persónahópa og mismunandi staða. Ef marka má fjölmiðla er samstarfi þeirra Iñárritu og Arriaga stefnt í hættu sökum deilna um höf- undarstöðu verkanna. Þannig mun Arriaga hafa verið ósáttur við hversu eindregið Iñárritu hefur verið eignuð staða kvikmyndahöfundar, þrátt fyr- ir að hafa ekki skrifað handritin. Iñárritu mun hafa lagt mikla áherslu á sinn þátt við mótun hug- myndarinnar að handriti Babel og segir sagan að samstarfi þeirra Iñárritu og Arriaga sé lokið. Í því ljósi verður forvitnilegt að fylgjast með því hvaða stefnu Iñárritu tekur í kvikmyndagerð sinni og hvort e.t.v. megi búast við ákveðinni endurnýjun ef hann fer að vinna með nýjum handritshöfundi. Hið sammannlega og hið ósamræmanlega Nýjasta kvikmynd Alejandro González Iñárritu þykir líkleg til óskarstilnefningar en vegur leik- stjórans mexíkóska hefur farið vaxandi frá fyrstu mynd hans, Amores Perros, til þeirrar nýjustu, Babel. Babel Stærstu stjörnurnar í myndinni eru Brad Pitt, Cate Blanchett (lengst til vinstri) og Gael Garcia Bernal (lengst til hægri), en einnig notast Iñárritu (annar frá vinstri) við óreynda leikara.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.