Lesbók Morgunblaðsins - 28.04.2007, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 28.04.2007, Blaðsíða 6
6 LAUGARDAGUR 28. APRÍL 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Birtu Björnsdóttur birta@mbl.is Kostnaður við kvikmyndir er oft-ar en ekki meiri en fólk gerir sér grein fyrir. Sérstaklega þegar dýrustu atriði myndanna eru á end- anum klippt út. Svo varð raunin í nýjustu mynd Will Smith, I Am Legend, sem kost- ar alls um 150 milljónir Banda- ríkjadala (um 10 milljarða ís- lenskra króna). Um 300 millj- ónir af þessum 10 milljörðum fóru í sex nátta vinnu þar sem tekið var upp atriði á Bro- oklyn-brúnni í New York. Þar höfðu hópast saman eftirlifendur ónefndra hamfara og biðu eftir að verða bjargað. Fyrir upptökur þurftu kvik- myndagerðarmenn að ráðfæra sig við 14 opinberar stofnanir auk þess sem 250 manna tökulið, rúmlega þúsund aukaleikarar og 160 liðs- menn heimavarnarliðsins í fullum klæðnaði hafa kostað sitt.    Daniel Tammet er 28 ára ein-hverfur maður. Hann komst í heimsfréttirnar fyrir skemmstu fyr- ir að geta nefnt 20 þúsund aukastafi pí og eiga einstaklega auðvelt með að læra tungumál, meðal annars ís- lensku. Samkvæmt kvikmyndamiðlinum Variety hefur framleiðandinn War- ner Bros tryggt sér réttinn á gerð myndar um Tammet sem byggð verður á sjálfsævisögu hans Born on a Blue Day.    Nú eru í bígerð metnaðarfullirsjónvarpsþættir unnir af BBC- sjónvarpsstöðinni um sögu jarð- arinnar, hvorki meira né minna. Þættirnir spanna fjögurra billjón ára sögu jarðarinnar og verður í hverj- um þætti fjallað sérstaklega um hvern þátt í þróun hennar, andrúmsloftið, eldfjöllin og hafið meðal annars. „Í þáttaröðinni verður einblínt á hið viðkvæma jafnvægi lífs á jörðinni og hvernig saga plánetunnar hefur sveiflast á milli eyðileggingar og bata,“ segir meðal annars í frétta- tilkynningu frá BBC. Þættirnir verða sýndir á BBC Two síðar á árinu og þáttastjórnandi er Dr. Iain Stewart, sem einnig sá um þáttina Journeys From the Centre of the Earth. Góður rómur hefur verið gerður að þáttaröðum BBC um jörðina og íbúa hennar síðustu ár. Talið er að um 9 milljónir manna hafi til dæmis fylgst með þáttunum Jörðin (Planet Earth) sem sýndir voru hér á landi fyrir skemmstu.    Stikla fyrir nýjustu Harry Potter-myndina, Harry Potter og fön- ixarreglan, er nú komin á Netið. Spennan fer greinilega að magn- ast í baráttu góðs og ills í Hogwarts- skólanum og Harry verður að taka á honum stóra sínum í glímunni við hinn næstum andlitslausa Volde- mort. Myndin verður frumsýnd hinn 13. júlí næstkomandi og nokkru síðar kemur út á prenti síðasta bókin um Harry Potter. Aðdáendur galdrapiltsins eiga því gott sumar framundan. KVIKMYNDIR Will Smith. Pottergengið. Jörðin. Eftir Björn Norðfjörð bn@hi.is Bandaríski kvikmyndafræðingurinn Dav-id Bordwell sendi nýverið frá sér bók-ina The Way Hollywood Tells It:Story and Style in Modern Movies. Eftir að hafa um nokkurt skeið leitað fanga víða um heim, t.d. kvikmyndagerð í Hong Kong, beinir hann nú aftur sjónum að kvikmyndagerð heimalands síns. Þetta nýja verk fjallar um bæði frásagnaruppbyggingu og listræna fram- setningu Hollywood-mynda frá hruni stúd- íókerfisins undir lok sjöunda áratugarins og allt fram til dagsins í dag. Þetta verk á sér þó langa forsögu sem snýr að lykilágreiningi um túlkun bandarískrar kvikmyndasögu sem rétt er að rifja aðeins upp. Þessi ágreiningur varðar þær breytingar sem áttu sér stað í bandarískum kvikmyndum með tilkomu hinnar nýju Hollywood (e. New Holly- wood) samfara endalokum stúdíókerfisins. Hefð er fyrir því kalla myndir stúdíótímabilsins klass- ískar (e. classical) en þær sem fylgja í kjölfarið síð- eða póstklassískar (e. postclassical). Kvik- myndafræðingar eins og Thomas Elsaesser, Thomas Schatz og Justin Wyatt eru þeirrar skoðunar að við þessi umskipti hafi orðið grund- vallarbreytingar á Hollywood-myndinni þar sem einsleitni og samfella í efni og stíl klassísku myndarinnar hafi vikið fyrir miklu opnari texta þar sem efni og stíll hafi aðskilist. Í þessum skilningi víkur hin heildstæða frásögn Holly- wood-mynda fyrir lauslega tengdum senum sem oftar en ekki vísa út fyrir textann – ekki síst í margvíslegar markaðsvörur – og stíllinn tekur æ meira mið af auglýsingum og tónlistar- myndböndum. Má hér augljóslega greina ákveð- inn skyldleika við póstmódernisma og jafnvel póststrúktúralisma. Ásamt Kristin Thompson og Janet Staiger hefur Bordwell farið fyrir fylk- ingu sem hefur talið breytingarnar vera minni- háttar og að Hollywood-myndin nútímans sé í grundvallaratriðum sú sama og á gullaldarárum stúdíóanna. Árið 1985 kom út eftir þremenn- ingana bókin The Classical Hollywood Cinema: Film Style and Mode of Production to 1960 – eitthvert áhrifaríkasta verk sem skrifað hefur verið um klassíska skeiðið – en í niðurlagi bók- arinnar halda höfundarnir því einmitt fram að klassíska normið sé allsráðandi í hinni nýju Hollywood. Líkt og Bordwell segir í inngangi The Way Hollywood Tells It er hún síðbúinn rökstuðningur á þeirri umdeildu fullyrðingu, og kannski gott betur, því tveir áratugir hafa liðið og að mati höfundar ræður klassíska normið ríkjum enn í dag. Reyndar hefur mér sjálfum stundum fundist þessi deila vera stormur í vatnsglasi. Þótt þær geri misjafnlega mikið úr þeim eru báðar fylk- ingarnar sammála um að ákveðnar breytingar hafi átt sér stað. Kannski er ásteytingarsteinn- inn ekki svo mikið breytingarnar sjálfar heldur hvernig beri að mæla eða skilgreina vægi þeirra – lítilvægar eða stórvægilegar. Enda er bók Bordwells, þrátt fyrir yfirlýstan tilgang um ann- að, afar fróðleg og vönduð úttekt á þeim breyt- ingum sem orðið hafa á Hollywood-myndum undanfarna áratugi. Eru þær þessar helstar: Klippingar eru miklu örari (meðallengd mynd- skeiða hefur styst úr 8-11 sekúndum í 3-6 sek- úndur), senur hafa styst um allt að helming sömuleiðis, nærmyndir eru allsráðandi og sam- hliða hafa úthugsaðar sviðsetningar fjölda per- sóna nær horfið með öllu (og leika leikarar nú nær eingöngu með andlitinu í stað alls lík- amans), kvikmyndavélin er á endalausri en alla- jafna tilviljanakenndri hreyfingu, ýktar brenni- víddir (gleiðhorna- og aðdráttarlinsur) yfirskyggja nú þær hefðbundnu, margvíslegar tilvísanir í kvikmyndasöguna eru áberandi, og áhrifa gætir frá evrópsku listamyndinni, sjón- varpi, teiknimyndasögum og tölvuleikjum. Eru þetta stór- eða lítilvægilegar breytingar? Dæmi nú hver fyrir sig. Sagan að hætti Hollywood SJÓNARHORN »Klippingar eru miklu örari (meðallengd myndskeiða hefur styst úr 8-11 sekúndum í 3-6 sekúndur), senur hafa styst um allt að helming sömuleiðis, nærmyndir eru allsráðandi og samhliða hafa út- hugsaðar sviðsetningar fjölda persóna nær horfið með öllu ... Eftir Björn Þór Vilhjálmsson vilhjalmsson@wisc.edu Þ að er sveifla í alþjóðlega kvik- myndaheiminum þessa stundina. Kvikmyndahátíð Roberts De Niro í New York, Tribeca, hefst í næstu viku og um miðjan maí hefst sjónarspilið mikla í Cannes. Það er einkum síðarnefnda hátíðin sem gegnir hlutverki hálfgerðs vita í kvikmyndalandslag- inu, ljósgeisli hátíðarinnar stýrir stefnu fjöl- margra kvikmyndagerðarmanna um allan heim og eru margir að vinna fram á síðustu stundu við að gera myndir sínar reiðubúnar. Tilkynnt var um valið á hátíðina fyrir nokkru og kennir þar ýmissa grasa eins og venjulega en nú þeg- ar þeim áfanga að búa til dagskrá fyrir Cannes er lokið í bili er kannski ekki úr vegi að líta handan hátíðarinnar og virða fyrir sér úr fjar- lægð aðrar myndir sem munu líta dagsins ljós á árinu. Heimshornin Einn athyglisverðasti leikstjóri Austur-Evrópu, Bela Tarr, stundum kallaður Kafka nútíma kvikmyndagerðar, sendir frá sér nýja mynd, A Londoni ferfi (Maðurinn frá London) en mynd- in er að hluta byggð á sakamálasögu eftir hinn afkastamikla franska rithöfund Georges Sime- non sem vinsæll var um miðja síðustu öld. Miklar sögur hafa reyndar gengið um fram- leiðsluferli myndarinnar sem þykir gefa reyf- urum Simenons lítið eftir. Oftar en einu sinni lá við að hætta þyrfti við gerð myndarinnar sökum fjárhagserfiðleika en vandamálin náðu hámarki þegar framleiðandinn, Humbert Bals- an, svipti sig lífi. Myndin fjallar um hafnarnæt- urvörð sem verður vitni að morði og fær skyndilega í hendurnar tösku fulla af reiðufé, en söguþráðurinn gefur vissulega til kynna að hér sé mynd á ferðinni sem sé um margt ólík fyrri verkum leikstjórans, myndum á borð við Werckmeister harmoniak (Werckmeister- tónverkið, 2000) og Satantango (1994), en hvor- ug þessara mynda einkennist af æsilegum söguþræði enda þótt dularfullur sirkus gegni mikilvægu hlutverki í þeirri fyrrnefndu. Ný mynd frá Hou Hsiao-Hsien er væntanleg á næstu mánuðum, Le Ballon Rouge (Rauða blaðran), en hér munu víst margir búast við og vona að sigurför leikstjórans haldi áfram eftir tvíeykið Café Lumiere og Zui hao de shi guang (Þrisvar sinnum), en þótt ég hafi hvoruga þess- ara mynda séð finnst mér sjálfsagt að minnast á Hsiao-Hsien þar sem fáir leikstjórar njóta viðlíka virðingar meðal kvikmyndaunnenda þessa stundina. Í ljósi þess að myndir hans hafa reyndar fengið mjög takmarkaða dreif- ingu á Vesturlöndum, og á það bæði við í kvik- myndahúsum og á DVD, er stundum talað um þennan leikstjóra sem þann besta sem maður hefur aldrei séð. En meðan myndir Hsiao- Hsien eru að mínu mati eftirsóknarverðar til áhorfs, þó ekki sé nema bara til að sjá um hvað sé verið að tala, þá eru aðrar myndir sem bjóða af sér slæman þokka samstundis og án þess að nokkuð sé við því að gera. Belle Toujo- urs (Ávallt falleg) tilheyrir þeim hópi en mynd þessi er sjálfstætt og síðbúið framhald af hinni klassísku S&M hugleiðingu Bunuels frá sjö- unda áratugnum, Belle de jour (Fegurð dags- ins, 1967). Michel Piccolini snýr aftur og er enn, skilst mér, við sama heygarðshornið, en Catherine Deneuve ákvað að láta verkefnið fram hjá sér fara. Hinn nær aldargamli Manoel de Oliveira leikstýrir. Eins og áður segir hefur maður á tilfinningunni að svona fikt við einn af hornsteinum kvikmyndasögunnar kunni ekki góðri lukku að stýra en það er samt eitthvað svo klikkað við sjálfa hugmyndina, þessa fram- kvæmd, að hún vekur forvitni. Þá er hinn mikli meistari þrúgandi andrúms- lofts, Michael Haneke, á leiðinni vestur um haf og tók þá að sumu leyti ófrumlegu ákvörðun að frumraunin á enskri tungu skyldi vera end- urgerð á eldri mynd eftir sjálfan sig, Funny Games (1997), en sú mynd lýsir – eins og þeir sem hafa séð hana eflaust muna – hvernig tveir ungir geðsjúklingar ráðast inn á sum- arheimili vel stæðrar fjölskyldu og halda henni í kvalafullri gíslingu meðan verkið sjálft rann- sakar samband áhorfanda við ofbeldið sem fram fer á tjaldinu. Forvitnilegt verður að sjá hvernig Haneke tekst til en það kæmi mér á óvart ef miskunnarleysið og sú ríka sjálfsvit- und sem einkenndi frumverkið skilar sér í end- urgerðina. Skrítnir íbúar Bandaríkjanna Af Ameríku er ýmislegt að frétta. Þeir sem fylgt hafa eftir sérkennilegum og sérvisku- legum kvikmyndum Wes Anderson, en óhætt er að telja hann björtustu von bandarískrar kvikmyndagerðar nú um mundir, geta byrjað að hlakka til því ný mynd kemur frá honum á árinu, The Darjeeling Limited, en hún skartar þeim Owen Wilson og Jason Schwartzman, en báðir eru þaulvön Anderson-peð. Söguþráður myndarinnar virðist við fyrstu sýn afar and- ersónískur en hún fjallar um þrjá bræður á ferðalagi um Indland þar sem þeir leita uppi hvítan hlébarða. Bræðurnir eru víst á þeirri skoðun að faðir þeirra hafi endurholdgast í áð- urnefndu dýri. Maður bíður með öndina í háls- inum eftir tónlistarvalinu. Þá er von á nýrri mynd frá Francis Ford Coppola sem nýtur nokkurrar sérstöðu sem lykilleikstjóri í kvikmyndasögunni þar sem honum hefur mistekist í hartnær aldarfjórðung að gera mynd sem horfandi er á. Nýja myndin heitir Youth Without Youth og gerist víst í að- draganda síðari heimsstyrjaldar. Í þessu tilviki er sennilega best að stilla vonum og vænt- ingum í afar lágan gír. Hinn kanadíski David Cronenberg verður líka með nýja mynd á árinu, Eastern Promises, en sögusviðið er London og myndin fjallar um rússnesku maf- íuna og kynlífsiðnaðinn þar í borg. Viggo Mor- tensen gengur aftur til liðs við Cronenberg og vonandi verður afraksturinn annar og betri en fyrri mynd þeirra félaga, hin óviljandi bráð- fyndna en sérlega klunnalega History of Vio- lence. Fleiri myndir væri vafalaust hægt að tína til en spurningin sem er kannski mest aðkallandi er hvort nokkur ofannefndra mynda rati í bíó hér á landi. Ég myndi segja að Anderson ætti sæmilegan séns, Cronenberg og Coppola að- eins minni en samt nokkurn og hinir alls eng- an. En það er alltaf Amazon og DVD. Horft fram á veginn Fjöldi forvitnilegra mynda er væntanlegur frá nokkrum af áhugaverðustu leikstjórum sam- tímans svo sem Bela Tarr, stundum kallaður Kafka nútíma kvikmyndagerðar, Michael Ha- neke, David Cronenberg og Hou Hsiao-Hsien sem stundum er sagður besti leikstjóri sem enginn hefur séð. Belle de jour Belle Toujours (Ávallt falleg) er síðbúið framhald af hinni klassísku S&M hugleið- ingu Bunuels frá sjöunda áratugnum, Belle de jo- ur (Fegurð dagsins). Catherine Deneuve ákvað að láta verkefnið fram hjá sér fara.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.