Lesbók Morgunblaðsins - 28.04.2007, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 28.04.2007, Blaðsíða 10
10 LAUGARDAGUR 28. APRÍL 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Gísla Pálsson gpals@hi.is S uðurgatan hefur löngum verið mörgu háskólafólki þyrnir í aug- um. Oft hefur verið haft orð á því að gera þurfi göng undir hana eða brúa hana, enda eiga vegfarendur sem þurfa að fara yfir hana stund- um fótum sínum fjör að launa í hraðri umferð- inni. Um leið er Suðurgatan stundum í samræð- um háskólafólks höfð sem tákn fyrir tvískiptingu háskólasamfélagsins og þá „slysa- hættu“ sem af henni stafar. Vestan megin við götuna hafa menn yfirleitt stundað raunvísindi og náttúrufræði en austan megin félags- og hugvísindi og töluverður aðstöðumunur iðulega verið tengdur þessum landamærum. Fátt bend- ir til að hróflað verði við Suðurgötunni í bráð. Samt er hún nánast söguleg tilviljun, afsprengi löngu liðins tíma, þorps sem varð að bæ og síðan borg. Ég held því fram að hún þjóni ekki þörf- um nútímasamfélags. Aðgreiningin, sem Suð- urgata háskólasamfélagsins undirstrikar, er ekki á fræðilegum rökum reist og hún á í vax- andi mæli í vök að verjast. Auk þess viðheldur hún misrétti og hamlar gegn nauðsynlegri ný- breytni. Umhverfisvandi samtímans er nær- tækt dæmi. Hvorum megin „götunnar“ ættu menn að glíma við hnattræna hlýnun, sem er í senn viðfangsefni náttúruvísinda og afleiðing mannlegra athafna? Spurningin er út í hött. Náttúra og samfélag Sú aldagamla aðgreining fræða, sem „Suð- urgatan“ undirstrikar, leggur höfuðáherslu á skilin milli náttúru og samfélags. Annars vegar hinn gefna heim, óháð tilvist mannsins, og hins vegar þá manngerðu veröld sem við lögum að þörfum okkar. Til marks um þetta er sú stað- reynd að orðið „náttúra“ er náskylt latnesku sögninni nascere sem merkir „að fæðast“; við fæðumst inn í heim náttúrunnar, en sníðum hann síðan að þörfum okkar með tækjum okkar og tólum; tungumáli, lögum, trúarbrögðum og hvers kyns menningarstofnunum. Svipaður skilningur býr að baki hugmyndum um svo- nefnd raunvísindi. Viðfangsefni raunvísinda og aðferðir, samkvæmt orðanna hljóðan, eru á ein- hvern hátt raunverulegri og áþreifanlegri en viðfangsefni og aðferðir annarra fræða. Þessi tvískipting fræðaheimsins var skilgreind í um- deildri bók eftir Charles Percy Snow, Tvenns konar menning (1959), sem öllum að óvörum skráði sig á spjöld sögunnar. Snow hélt því fram að náttúruvísindi og mannvísindi væru aðskildir menningarheimar, í þeim skilningi að gerólíkar hugmyndir og tungutak skildu að þá hópa sem iðkuðu þessi fræði. Handan „Suðurgötunnar“ væri framandi heimur, ef ekki barbarí. Slík aðgreining fræðasviða er ekki einungis samofin sögu nútíma háskóla, oftar en ekki er hún jafnframt njörvuð inn í skipulag og húsa- gerðarlist á háskólasvæðum. Það er kannski freistandi að líta svo á að hún sé jafn náttúruleg og sjálf viðfangsefni náttúrufræða, eins konar lokastig í þekkingarleit mannsins sem sagan hlyti fyrr eða síðar að laða fram í sinni sönnu mynd. Samt er sú Suðurgata, sem hér er fjallað um, byggð á fremur tilviljunarkenndum hug- myndum sem óhjákvæmilega hafa helgast af stað og stund, eins og heimspekingurinn Michel Foucault leiddi rök að í verkum sínum um „fornleifafræði“ fræðasviða (Skipan hlutanna og Fornleifafræði þekkingar). Áþekkur forn- leifauppgröftur í gjóskulögum og mannvist- arleifum háskólamelanna í Reykjavík myndi óhjákvæmilega leiða í ljós að „Suðurgatan“ ís- lenska, líkt og frænkur hennar erlendis, á rætur að rekja til evrópskra skipulagshugmynda frá því á miðöldum. Allir „sannir“ kampusar eiga sína „Suðurgötu“. Þótt víða hafi þrengsli, sam- keppni um jarðnæði, breytt samgöngutæki og allt umhverfi háskóla skapað ný viðhorf og há- skólastofnanir séu stundum dreifðar um borg og bý, jafnvel tímabundið eftir aðstæðum hverju sinni, er „Suðurgatan“ a.m.k. greypt í huga okkar flestra, eins og þau skil sem hún fel- ur í sér séu partur af heilaberkinum sem við hljótum við fæðingu. Suðurgatan í „stokk“ Staða Suðurgötunnar á háskólasvæðinu hefur vissulega verið að riðlast að undanförnu, bæði í eiginlegum og óeiginlegum skilningi. Höfuðvígi íslenskra náttúru- og heilbrigðisvísinda (m.a. Askja, Landspítali – háskólasjúkrahús og hús Íslenskrar erfðagreiningar) eru t.a.m. staðsett „öfugum“ megin götunnar og þverfræðilegt samstarf deilda og greina hefur aukist á ýmsum sviðum (með umhverfisfræðum, kynjafræðum, sjávarútvegsfræðum, lýðheilsuvísindum og álíka nýbreytni). Í stórum dráttum stendur hins vegar forneskjulegt skipulag háskólasamfé- lagsins óhaggað. Sumar rótgrónar fræðigreinar ganga reynd- ar á skjön við ráðandi skipan náttúru og sam- félags á háskólasvæðinu, eins konar „hálf- brídar“ (half-breeds) í flóru fræðanna, eins og Vestur-Íslendingar komust að orði snemma á síðustu öld um blendingsbörn landa sinna og frumbyggja Norður-Ameríku. Þetta á m.a. við þá grein sem ég þekki best, mannfræðina. Við- fangsefni hennar, Homo sapiens, er í eðli sínu hvort tveggja í senn náttúrulegt fyrirbæri (dýrategund sem er afsprengi þróunar og nátt- úruvals) og (með)höfundur hins tilbúna heims sem svokölluð félags-, hug- og mannvísindi glíma við. Við sem erum fulltrúar fyrir mann- fræði erum þess vegna á sífelldu ferðalagi yfir „Suðurgötuna“, í stöðugri slysahættu. Sumir sem leggja stund á þessi fræði óttast þetta flandur og halda sér öðrum megin ef þess er nokkur kostur. Önnur dæmi um slíka hálfbrída eru málvísindi, fornleifafræði, hjúkrunarfræði, landfræði og sálarfræði. Margar aðgerðir í samgöngumálum eru sem betur fer til bóta. Þannig geta umferðarljós, mislæg gatnamót og brýr komið til móts við vaxandi umferðaþunga og dregið úr slysahættu og umferðargný. En um leið getur skapast nýr vandi. Í síbreytilegum heimi verða óhjákvæmi- lega til ný viðfangsefni og ný fræðasvið og mik- ilvægt er að skipulag háskóla sé nægilega sveigjanlegt til að koma til móts við þau. Ekki verður séð að „Suðurgatan“ taki mið af þeim umfangsmiklu breytingum sem einkennt hafa alla fræðaumræðu síðustu ár, t.a.m. róttæka endurskoðun á fræðasviðum, virðingu fyrir því sem er á jaðrinum og þá gagnrýnu umræðu um stórasannleik sem oft er kennd við póstmódern- isma. Segja má að „Suðurgatan“ hafi verið lögð í stokk. Hún hefur verið færð neðar í landið þar sem hún er ekki lengur jafn sýnileg og veldur ekki teljandi hávaðamengun, en hlutverk henn- ar hefur verið kirfilega fest í sessi með form- legum og óformlegum hefðum, með fjármála- og valdakerfi sem náttúrufræði, heilbrigðisvís- indi og raunvísindi njóta góðs af á kostnað ann- arra fræða. Gildandi reiknilíkan sem deilir fjár- magni á milli deilda, skora og greina á vettvangi Háskóla Íslands, veldur því að fjölmennustu deildirnar, Félags- og Hugvísindadeild, búa við skarðan hlut. Sérhverjum nemanda sem innrit- ast í þessar deildir hefur t.d. verið ætluð tölu- vert minni þjónusta (kennsla) en samstúdentum handan „Suðurgötunnar“. Þetta reiknilíkan er vissulega tilraun til að koma til móts við óhjá- kvæmilegan aðstöðumun ólíkra greina, t.d varð- andi tæki og rannsóknir, en það hefur lítið með sanngirni og jöfnuð að gera og er löngu orðið úrelt. Sem betur fer er reiknilíkanið nú í gagn- gerri endurskoðun. Samfara bæði þessari end- urskoðun og breytingum á skipulagi há- skólastigsins ættu menn að hafa í huga þær breyttu forsendur fræðaheimsins, sem hér eru gerðar að umtalsefni. Handan við skilin Á síðustu árum hefur gætt vaxandi áherslu á ný samstarfsform í rannsóknum, ekki einungis þverfræðileg heldur nánast út fyrir eða handan við alla hefðbundna skiptingu í fræðigreinar. Þetta sést greinilega jafnt í íslensku rannsókn- arumhverfi (RANNÍS) sem erlendu (meðal annars á vettvangi Bandaríska vísindasjóðsins (NSF), Evrópska vísindaráðsins (ERC) og Evr- ópsku vísindastofnunarinnar (ESF)). Stundum njóta verkefni sem unnin eru í þessum anda sér- stakrar fyrirgreiðslu, í trausti þess að óvenju- legt samstarf leysi úr læðingi annars óþekkta eða óbeislaða krafta. En verður ekki einhvern veginn, kunna menn að spyrja, að skipa þekk- ingarleitinni niður í viðtekna bása eða skúffur, sambærilegar við flokkunarkerfi bókasafna? Er óskin um afnám fræðilegra landamæra og ný samstarfsform kannski einungis draumkennd og klisjugjörn krafa um að dýrin í skóginum leggi niður þarflaust karp og vinni saman í sátt og samlyndi? Ég held ekki. Enda þótt landslag háskólasvæða hafi í stórum dráttum haldist óbreytt undanfarin ár hljómar hugmynd Snows um tvenns konar menningu ekki jafn sannfærandi og áður, svo vægt sé til orða tekið. Ein helsta ástæða þessa er sú staðreynd að í vitund margra eru sjálf landamærin milli náttúrunnar og hins tilbúna heims að þurrkast út. Ljóst má vera að engin fræðileg rök réttlæta slíka skiptingu. Umfangs- miklar loftslagsbreytingar sem ógna lífríki jarð- ar og áður voru yfirleitt sagðar utan við harkið í mannheimi virðast t.d. að töluverðu leyti mark- ast af margvíslegri starfsemi manna sem eykur losun tiltekinna lofttegunda. Þetta eru óþægileg sannindi bæði fyrir mannkynið og „Suðurgöt- una“. Í glímunni við umhverfisvandann er hefð- bundin sérhæfing eflaust mikilvæg, en líklega eru ný fræðileg samstarfsform betur til þess fallin að takast á við flókin og erfið vandamál af þessu tagi. Hálfbrídarnir kunna að vera bráð- nauðsynlegir, mun heppilegri en „hreinir“ stofnar. En, meðal annarra orða, af hverju hálf- brídar fremur en t.d kvartbrídar eða fjölbrídar? Einnig mætti nefna að með nýjungum í erfða- fræði og líftækni hefur lífið sjálft, eitt af höf- uðviðfangsefnum þeirra fræða sem kenna sig við hið gefna og náttúrulega, breyst í mannlegt sköpunarverk. Erfðaverkfræði, sem hljómað hefði sem hrópandi rökleg mótsögn fyrir hálfri öld, er bláköld staðreynd og raunar blómstrandi iðja nú á tímum. Hugtakið „líffélag“ (biosocia- lity), sem bandaríski mannfræðingurinn Paul Rabinow setti fram í tilefni af kortlagningu erfðamengis mannsins, minnir einmitt á að von- laust er að aðgreina hið félagslega og líf- fræðilega. Við þessar aðstæður virðist blöndun og nýsköpun fræðasviða óhjákvæmileg. Ef að líkum lætur verður háskóli og fræðaheimur framtíðarinnar sannkallað fjölmenningarsam- félag, ekki ein menning eða tvær. Háskólapólitík Að undanförnu hafa farið fram líflegar umræð- ur um skipan háskóla og rannsókna í landinu, verkaskiptingu einstakra stofnana og skiptingu í skóla. Háskóli Íslands stendur nú á tímamót- um. Stuðningur Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands og nýr samningur ríkisstjórnarinnar og Háskólans boða nýtt og myndarlegt átak í rann- sóknum og eflingu framhaldsnáms, sem mjög ber að fagna. Ekki er nauðsynlegt að setja alla háskóla í landinu undir einn hatt, en í fámennu samfélagi sem í vaxandi mæli þarf að reiða sig á alhliða þekkingarsköpun er sameining skóla óhjákvæmileg. Öflugur háskóli er stórt skref fram á við, forsenda þess að Íslendingar geti skipað sér í hóp þeirra þjóða sem eiga háskóla í fremstu röð. Í öllu því ágæta umbótastarfi, sem nú fer fram á vettvangi íslenskra háskóla, skyldi þó ekki gleymast að huga vel að heildarmynd- inni og framtíðarlandinu, því skipulagi sem næstu kynslóðir háskólamanna munu búa við. Sú tvískipting Háskólans og rannsókn- arumhverfis, bæði á Íslandi og erlendis, sem Suðurgatan undirstrikar með táknrænum hætti, samræmist illa nýjum viðhorfum í vís- indum auk þess sem hún stendur vörð um að- skilnaðarstefnu sem tímabært er að leggja til hliðar. Suðurgatan felur því í sér slysahættu í tvennum skilningi. Fyrir það fyrsta hamlar hún mikilvægu skapandi starfi þvert á hefðbundnar markalínur fræðasamfélagsins. Í annan stað spornar sú mismunun, sem hún óhjákvæmilega leiðir af sér, gegn þeirri marksækni sem sam- tíminn gerir kröfu til. Fjármagni er úthlutað með handafli, ekki í hlutfalli við afköst, þá starf- semi sem um er að ræða eða hvernig fólk stend- ur sig. Það er skaðleg háskólapólitík sem sam- ræmist ekki frómri ósk okkar um að skipa íslenskum háskóla á bekk með bestu skólum heims. Nú er tækifæri til að rífa „Suðurgötuna“ upp úr stokknum, aðlaga reiknilíkönin kröfum tímans um jöfnuð og skilvirkni og víkja til hliðar skipulagshömlum sem koma í veg fyrir frjósam- ar nýjungar. Slysagildra við Suðurgötuna? Suðurgatan Staða Suðurgötunnar á háskólasvæðinu hefur vissulega verið að riðlast að undanförnu, bæði í eiginlegum og óeiginlegum skiln- ingi. Í stórum dráttum stendur hins vegar forneskjulegt skipulag háskólasamfélagsins óhaggað, segir Gísli Pálsson í grein sinni. Suðurgatan skiptir háskólalóðinni í tvennt landfræðilega. Hún markar einnig annars konar skil, vestan megin hennar eru stunduð raunvísindi en austan megin hugvísindi. Gat- an er þannig táknmynd ákveðins múrs sem virðist vera á milli þessara vísinda í skól- anum. Er ástæða til þess að rífa þá niður? Höfundur er prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands. »Er óskin um afnám fræði- legra landamæra og ný samstarfsform kannski ein- ungis draumkennd og klisju- gjörn krafa um að dýrin í skóg- inum leggi niður þarflaust karp og vinni saman í sátt og samlyndi? Ég held ekki. Háskóli á tímamótum

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.