Lesbók Morgunblaðsins - 11.08.2007, Side 10

Lesbók Morgunblaðsins - 11.08.2007, Side 10
10 LAUGARDAGUR 11. ÁGÚST 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Þröst Helgason throstur@mbl.is É g hitti Sigfús Daðason einu sinni. Það var heima hjá honum á Skólavörðustígnum. Guðný Ýr eiginkona hans hafði boðið hópi fólks sem sat með henni námskeið við Háskóla Ís- lands. Ég mætti með hvítvínsflösku en þegar ég ætlaði að toga tappann úr þá brotnaði hann um miðjuna. Mér gekk ekkert að ná helmingnum upp. Tappinn þrýstist neðar og neðar. Ég ætlaði að leggja flöskuna frá mér en þá vildi Sigfús fá að líta á hana og tappatogarann. Og síðan leið dágóð stund. Það var spjallað um námskeiðið og tekið vel á móti Bergljótu Kristjáns- dóttur kennara. Síðan rétti Sigfús mér flöskuna. Tappinn var kominn úr og ekki svo mikið sem agnarögn af honum í víninu. Mér þótti þetta til marks um mikla þolinmæði og nákvæmni. Og í ljósi þess að Sigfús gaf aðeins út 6 ljóða- bækur með 126 ljóðum þá virðist hann hafa verið þolinmóður og ná- kvæmur á þeim vígstöðvum einnig. Sú mynd sem Þorsteinn Þor- steinsson dregur af honum í nýrri bók sinni um ljóðlist Sigfúsar, Ljóð- hús, kemur heim og saman við það. „Ég held þetta lýsi Sigfúsi býsna vel,“ segir Þorsteinn þegar ég segi honum söguna. „Að starfa án strits eins og segir í góðri bók. Það átti við um Sigfús. Honum vannst létt það sem hann gerði.“ Þorsteinn hitti Sigfús fyrst í París árið 1958 en þá voru þeir þar við nám. Hann segist strax hafa veitt því athygli hvað Sigfús var skarpur og næmur. „Hann var tilfinningaríkur maður og frekar fátalaður en það sem hann sagði varð manni minnisstætt. Og maður tók aldrei eftir því að Sigfúsi lægi á.“ Fyrsta samtal þeirra fjallaði um Proust sem Þorsteinn var þá að byrja að lesa. „Sigfús nefndi eitthvað fernt sem honum þótti Proust gera sérstaklega vel en ég man því miður bara eitt at- riði: „Passjón,“ hvernig Proust lýsti „passjón.“ Sennilega man ég það vegna þess að það kom mér á óvart.“ Líf og ljóð Upp frá þessu voru Þorsteinn og Sig- fús góðir vinir. Eftir andlát Sigfúsar 1996 annaðist Þorsteinn útgáfu síð- ustu ljóðabókar skáldsins Og hug- leiða steina (1997), og ritgerðasafns- ins Ritgerðir og pistlar (2000). Hann hóf svo að vinna að rannsóknum sín- um á ljóðunum árið 2001. „Ég skoðaði plögg sem hann skildi eftir og talaði við fólk sem þekkti hann. Ég las líka ljóðin betur og þá kom mér ýmislegt á óvart, sér- staklega þegar ég fór að lesa saman ljóð hans og ævi. Og kannski eru tengslin þar á milli helsta uppgötvun mín í bókinni. Sigfús setti sér raunar það stefnu- mið strax í ritgerð sinni Til varnar skáldskapnum að ljóð og skáld- skapur skyldu vera eitt. Og hann virðist hafa verið þessu marki sínu trúr.“ Er hægt að nálgast persónu Sig- fúsar í gegnum ljóðin? „Já, í þeim skilningi að þau gætu ekki verið ort af neinum öðrum. Þau bera mjög skýr höfundareinkenni. En ég legg áherslu á það í bókinni að ljóð Sigfúsar eru fjölbreytileg. Það virðist hafa tekist að koma því inn hjá mörgum að hann hafi verið ein- hæft skáld, bara vitsmunalegur. En það er mikil firra, hann er tilfinn- ingaríkur og víða ástríðufullur í skáldskap sínum, í ljóðum hans frá sjöunda áratugnum er eitthvert Baudelaireskt óþol og ofnæmi fyrir umhverfi og tíðaranda hér á landi. Hann yrkir bæði knöpp ljóð og löng, heilu ljóðabálkana. Hann yrkir í við- ræðutón, fremur margorðum, og í út- línum sem dregnar eru fáum drátt- um. Ljóð hans eru því mjög margvísleg. Helstu áhrifavaldar um skáldskap hans voru líka mjög ólíkir, skáld eins og Eliot, Éluard og Brecht.“ Skáldskapurinn er hafinn yfir kenningar Á nokkrum stöðum í bók Þorsteins má finna fyrirvara sem hann setur við þekktar og áhrifamiklar fræði- kenningar um bókmenntir svo sem nýrýni og afbyggingu. Hann kveðst ekki vera á móti kenningum en varar við oftrú á þær, það sé ekki hægt að setja einfaldar og almennar reglur um ljóð og lestur þeirra því að ljóð sé „afurð mannlegrar vitundar“ og vitni þess vegna um umhverfið og tímann sem það verður til á og höfundinn auðvitað. „Það er ekki nýtt að varað sé við oftrú á kenningar. Það gerði Voltaire í Birtingi svo að ekki verður betur gert. Og nú kemur út hver bókin eft- ir aðra með orðin After Theory í titli eða undirtitli. Að sjálfsögðu þarf gagnrýnandi að hugsa fræðilega: um verkið, um samband verks og höf- undar, verks og heims. Hann þarf að hugsa fræðilega um tungumálið, um merkingu, um túlkun. Ég hef einkum fyrirvara um svo- kallaðan „teoretískan“ lestur. Maður verður stundum var við hann í skrif- um ungra fræðimanna sem hafa til- einkað sér einhverja kenningu og heimfæra hana síðan á skáldskapinn. Gallinn er sá að niðurstaðan vill verða fyrirsjáanleg, lesturinn geng- ur ævinlega upp því kenningin er al- tæk og það getur ekkert farið úr- skeiðis í túlkuninni. Í þessu er sú hætta fólgin að það leiði athyglina frá skáldskapnum og sérkennum hans. Ég ætla ekki að draga hér upp ein- hverja forskrift að gagnrýni en sjálf- um finnst mér mikils virði þegar tekst að lýsa skáldskap af nákvæmni og næmleika, draga fram sérkenni hans, sjá hann í samhengi við annan skáldskap og svo framvegis. Láta skáldskapinn sitja í fyrirrúmi. Ég held að skáldskapurinn sé haf- inn yfir kenningar. En ef maður lítur á þær sem hverjar aðrar hugmyndir eru þær gagnlegar, þær geta rótað við manni ef maður sefur of vært.“ Bjartsýnisafglapanir Þú endurtekur spurningu Ólafs Jónssonar um Bjartsýnisljóðin: Hvað hefur gerst? Þessi ljóð virðast svartari en svo margt annað í ljóðum Sigfúsar á sama tíma. Var Sigfús ekki einmitt þessi hugmyndalegi og tilfinningalegi rótleysismaður sem skáld og aðrir hafa verið að lýsa síð- ustu áratugi, fólk sem veit ekki hvað það á að halda um lífið, hvernig því á að líða, hvað því á að finnast? Þarf að spyrja þessarar spurningar: Hvað gerðist? Hvers vegna að leita að samhengi í manninum? Og höfund- inum? „Ég held að spurning Ólafs sé ekki óeðlileg. Má ekki búast við því að það eigi sér einhverjar orsakir ef skáld fer að yrkja á annan hátt eftir langt hlé? Og Bjartsýnisljóðin eru ekki ort af rótleysingja heldur af mjög næm- um og hugsandi manni sem fylgist vel með því sem er að gerast í kring- um hann. Á þessum tíma fylgdist Sigfús til dæmis vel með atburðum í Sovétríkjunum og var í návígi við bjartsýnisafglapana sem hann kall- aði svo. Og ekki er að efa að Bjart- sýnisljóðin eru uppgjör á breiðum grundvelli við ýmislegt sem Sigfús hafði sjálfur gert sér vonir um en sér að er að bregðast og við haldleysi þeirrar bjartsýni sem hann verður vitni að. Kvæðin eiga sér rætur bæði í alþjóðlegum straumum og í lífi Sig- fúsar. Ég held að þau séu ekki tilvist- arlegs eðlis.“ En það má sjá mjög svipuð við- brögð við tíðarandanum í skrifum til dæmis franskra höfunda sem spretta upp úr sama umhverfi og Sigfús á sjötta og sjöunda áratugnum. Þessir menn snúa öllu á hvolf og eru sót- svartir í boðskap sínum og kald- hæðnislegir. Við sjáum þetta í skrif- um franskra heimspekinga á þessum tíma. „Jú, en Sigfús var samt á öðrum stað í tilverunni. Uppgjör hans var annars eðlis. Hann las að vísu Roland Barthes af athygli meðan hann var í Frakklandi og seinna las hann Orðin og hlutina eftir Foucault og krotaði hjá sér um þá bók að Foucault skrif- aði eins og rithöfundur en ekki fræði- maður. En ég efast um að hann hafi orðið fyrir miklum áhrifum af Frökk- unum.“ Hvaða þættir í persónulegu lífi Sigfúsar höfðu áhrif á Bjartsýnis- ljóðin? „Fyrst og fremst eru Bjartsýnis- ljóðin heimssögulegur bálkur, ortur á tilteknum stað og tíma. En þau endurspegla líka vissa óánægju Sig- fúsar með líf sitt á þessum árum.“ Ætlaði skáldskapnum stóran hlut Þó að glettni og kaldhæðni séu stór þáttur í skáldskap Sigfúsar þá var hann alvörugefið skáld. „Hann er að minnsta kosti skáld sem yrkir í alvöru. Þótt hann leiki sér þá er skáldskapurinn aldrei neitt föndur. Hann ætlaði skáldskapnum stóran hlut.“ Þú skoðar tvö þemu í ljóðum Sig- fúsar, „von“ og „vor“ og kemst að því að hann skiptir um skoðun. Og þú spyrð hvort skáld sem skiptir um skoðun sé að rækja hlutverk sitt. „Má ekki ætlast til þess af því að það flytji okkur ögn varanlegri sannindi um lífið og tilveruna?“ Þú spyrð nú kannski meira í gamni en alvöru en þetta er kannski spurning sem sækir á okkur nú þegar frekar virðist litið á skáldskap sem markaðsvöru en boð- bera sannleika. „Ég skoða þessi tvo þemu af því að þau sýna mjög greinilega hvernig heimssýn Sigfúsar breytist á skömmum tíma. Sú breyting er for- vitnileg og ekki í samræmi við eldri skoðanir um að skáldin eigi að flytja okkur einhvern varanlegan sannleik um lífið og tilveruna.“ Sjálfsagt erfitt að vera skáld nú á tímum Sérðu einhver áhrif frá Sigfúsi í skáldskap yngri skálda? „Kannski ekki mikil bein áhrif en mörg íslensk skáld urðu samt fyrir áhrifum frá Sigfúsi, þó ekki væri á annan hátt en þann að þau dáðu skáldskap hans. Nefna mætti Sigurð Pálsson, Stein- unni Sigurðardóttur og Einar Má Guðmundsson í því sambandi. Ekk- ert þeirra yrkir þó líkt Sigfúsi. Bald- ur Óskarsson var hrifinn af Sigfúsi og Sigfús af honum.“ En af yngstu kynslóðinni? „Ég fylgist kannski ekki nægilega vel með því sem þau eru að gera. Sumt í þessum yngsta skáldskap minnir mig dálítið á expressjón- ismann í Þýskalandi. Þörfin til að tjá sig er áberandi, þörf fyrir að yf- irgnæfa gnýinn sem fylgir samtím- anum. Þetta minnir á ópið sem fylgdi expressjónismanum þýska. Það er sjálfsagt erfitt að vera skáld nú á tímum.“ Skáldskap- urinn var aldrei neitt föndur Morgunblaðið/ÞÖK Þorsteinn Þorsteinsson „Sigfús er að minnsta kosti skáld sem yrkir í alvöru. Þótt hann leiki sér þá er skáldskap- urinn aldrei neitt föndur. Hann ætlaði skáldskapnum stóran hlut,“ segir Þorsteinn Þorsteinsson. Í sumar kom út ritið Ljóðhús eftir Þorstein Þorsteinsson en þar er fjallað um skáldskap Sigfúsar Daða- sonar á rúmum fjögur hundruð síð- um. Hér er rætt við Þorstein um samningu bókarinnar og Sigfús sem ætlaði skáldskapnum stóran hlut. » „Fyrst og fremst eru Bjartsýnisljóðin heimssögulegur bálkur, ortur á tilteknum stað og tíma. En þau end- urspegla líka vissa óánægju Sigfúsar með líf sitt á þessum árum.“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.