Lesbók Morgunblaðsins - 06.10.2007, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 06.10.2007, Blaðsíða 9
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 6. OKTÓBER 2007 9 til þess tekið hversu mikil samheldni er í flokkn- um, erlendir danshöfundar sem vinna með okk- ur taka eftir því hvað hann er sterk heild.“ Katr- ín segir meðlimi hópsins virka í hugmyndavinnu og skoðanaskiptum, ef eðli verksins og vinnulag höfundarins kalla á slíkt, enda mikilvægt að dansarar séu skapandi, hafi áhuga á öðrum list- greinum og samfélaginu í heild. „Við höfum allt- af litið til þessa þáttar, við ráðningar, hvað hver og einn hefur að gefa. Það er ekki nóg að hafa tæknina.“ Dans er ekki ósnertanlegur Í ljósi metnaðar ykkar og vinnu; vantar ekki mikið upp á faglega gagnrýni og umfjöllun um danslistina í samfélaginu og fjölmiðlum? „Jú,“ svarar Katrín að bragði, „mér finnst töluvert skorta á það, því miður. Það er of lítil þekking á danslistinni hér, ég verð að játa það þótt mér þyki það leiðinlegt.“ Nema dansinn sé bara þannig listform að hann eigi að vera ótúlkaður og handan grein- ingar? „Að hann eigi að vera ósnertanlegur? Nei, alls ekki, mér finnst gaman þegar rætt er faglega og af þekkingu um listir, það er alltaf til bóta. Ef það er hins vegar gert af fordómum og fákunn- áttu, leiðist mér.“ Hún nefnir að í fyrra hafi í Borgarleikhúsinu verið haldið mjög áhugavert málþing um listgagnrýni, í pallborði hafi verið erlendir gestir og íslenskir fræðimenn og gagn- rýnendur á sviði leikhúss og bókmennta o.fl. „En mætingin var mjög léleg. Það olli mér von- brigðum, því við þurfum á faglegum umræðum að halda,“ segir Katrín. „Það skortir til dæmis á að danslistin sé metin í stóru samhengi. Ein- stakir dansarar, til dæmis, hvar eru þeir staddir á sínum ferli, hvað hafa þeir gert áður, hver er þroskinn? Og danshöfundurinn, er hann í þróun, hvaða tilraunir er hann að gera með sinn per- sónulega stíl?“ Hvað er hægt að gera til að koma hér upp meiri og faglegri gagnrýni? „Veistu, þetta mun gerast smám saman, ég hef engar áhyggjur af öðru. Danslistin hefur verið í örri þróun og nú er farið að kenna dans hér á háskólastigi. Umfjöllunin mun elta. En allt þetta segi ég vitanlega með fullri virðingu fyrir þeim sem hafa í gegnum tíðina fjallað um efnið út frá sinni bestu kunnáttu og vitund.“ Katrín tekur fram að aðstandendur Íd séu duglegir við að mata fjölmiðla á efni og mögu- legum nálgunarleiðum. „Það skortir ekki áhug- ann af okkar hálfu. Og við vitum að áhuginn er þarna úti. Sjáðu til dæmis sjónvarpsþáttinn So You Think You Can Dance, hann er mjög vin- sæll og þegar við auglýstum Íslenska dansflokk- inn inni í þeim þætti þá rigndi hér inn hring- ingum: Hvar er hægt að kaupa miða á næstu sýningu? Fjölmiðlar hafa sannarlega áhrif.“ Þarf að sækja fólk Þið hafið náð miklum árangri í að byggja upp ímynd og orðspor flokksins, ég held að flestir viti hver þið eruð og hvað þið gerið. En það er kannski ennþá stór hópur fólks sem hefur ekki treyst sér til að mæta sjálft? Katrín tekur undir. „Já, það þarf svolítið að sækja fólk. En um leið og það kemur einu sinni, þá kemur það aftur.“ Hún bætir við að áhorf- endur þurfi alls ekki að vera neinir sérfræð- ingar. „Dans þarf ekki endilega alltaf að skilja, heldur upplifa. Hann gefur svo mikið frelsi, inn- blástur, og stundum skilur hann mann eftir með spurningar. En auðvitað eigum við líka að spegla samtímann og höfum gert það með sýn- ingum á borð við We are all Marlene Dietrich FOR, Screensaver og Í okkar nafni, svo ég taki dæmi.“ Ég ætlaði einmitt að spyrja, með þau verk í huga: Getur dans verið pólitískur? En þú ert eiginlega búin að svara því. „Já, dans getur sannarlega verið pólitískur.“ Hafið þið kannski að undanförnu verið póli- tískari en leikhúsið eða kannski bókmenntirnar, sem stundum er borið á brýn að taki ekki beint á samfélagslegum efnum? „Ja, ég skal ekki segja. Við höfum kannski tekið meiri áhættu, miðað við stærð. En ég held að við eigum að taka áhættu svo við stöðnum ekki, við eigum að vera leitandi og framsækin – án þess þó að fara fram úr okkar áhorfendum. Ég hef lagt áherslu á að finna þarna gullinn meðalveg, sumar sýningar þurfa að höfða til áhorfenda, þótt það sé gjarnan talið tabú í okkar samfélagi. Það má ekki höfða til fólks, þá hlýtur það að vera vond list. En ég segi: verk eiga að rata til áhorfenda, uppfylla þörf þeirra. Án þess að við hættum að gera tilraunir.“ Útrásin skilar arði Um næstu helgi sýnir Íslenski dansflokkurinn í fyrsta sinn á Akureyri, en Katrín kveðst hafa átt í viðræðum um það um árabil, við svo að segja hvern einasta leikhússtjóra nyrðra. Og nú hafi loksins skapast tækifæri. „Við förum með fjöl- skyldusýninguna okkar norður 14. október. Það verður spennandi.“ Þá liggja fyrir stórar sýningarferðir út fyrir landsteinana, m.a. til Bandaríkjanna í fyrsta sinn, en flokkurinn hefur mest sýnt í Evrópu, auk þess að vinna ný lönd í Kína fyrr á árinu. Víðförlasta verkið um þessar mundir er We are all Marlene Dietrich FOR eftir Ernu Ómars- dóttur og Emil Hvratin, sem sýnt hefur verið í fjölda landa frá frumsýningu í hitteðfyrra. Að fara í „listræna útrás“ með sýningar Íd hefur að sögn Katrínar verið eitt af skilgreindum markmiðum hennar. „Umframafkastageta flokksins var þannig að við gátum sinnt fleiri verkefnum en sýningum í Borgarleikhúsinu. Að nota verk víðar sem eru framleidd hér er að mínu viti líka betri fjárfesting í hverju verki.“ En það hlýtur að vera dýrt ævintýri að fara með heilar danssýningar á flakk? „Já, mjög dýrt og mjög mikil vinna. Ég held að fólk geri sér enga grein fyrir vinnunni. Það segir: Ó, en gaman hjá ykkur að vera alltaf í útlönd- um.“ Katrín hlær og bætir við sögum af eft- irminnilegum uppákomum, t.a.m. þegar byggja þurfti nýja leikmynd á einum degi í Litháen og þegar leikmyndin kom í hús klukkutíma fyrir sýningu í Kanada. „Ég leit alltaf þannig á að ut- anferðirnar yrðu tekjulind. Vissulega borguðum við með okkur í fyrstu en það var fjárfesting til framtíðar og er nú tvímælalaust að skila sér.“ Máttu ekkert borða? En hvað leiddi þig sjálfa út í dansinn? „Það hefur lengi verið hefð fyrir því hér að senda litlar stúlkur í ballett. Ég var bara ein af þeim, týpísk lítil stelpa sem fór í ballett hjá Eddu Scheving og svo fór amma mín með mig í inn- tökupróf í Listdansskóla Þjóðleikhússins. Á þeim tíma heyrðu skólinn og Íslenski dansflokkurinn saman. Ég komst snemma á nemandasamning í flokknum, sautján ára, þannig að ég tók 5. bekk í MR með frjálsri mætingu og 6. bekk utan skóla því ég var komin á samning. Þannig þróaðist þetta, ég var metnaðarfull, fékk meira að gera, stærri hlutverk, meiri áskoranir og fór svo út til Kölnar. Það var ekki endilega þannig að mig hefði dreymt um þetta frá upphafi, eitt leiddi bara af öðru.“ Og dansinn er ennþá hálft þitt líf? „Já, þetta er í hjartanu og mikið hugsjónastarf. Þessi listgrein hefur mikið verið rekin á ein- staklingsframtaki hér á Íslandi og ekki mætt miklum skilningi samfélags og yfirvalda. Þetta var kvennastétt og oft var talað um „stelpurnar í dansflokknum“ eins og þær væru einhver sauma- klúbbur. Þetta hefur breyst alveg gífurlega. Og körlum hefur ekki bara fjölgað í dansflokknum heldur líka í hópi áhorfenda.“ Heldurðu að það hafi kannski haldist í hendur, skortur á karldönsurum og skorturinn á skilningi stjórnmálamanna, sem í meirihluta hafa verið karlar? „Já, það getur verið. Þetta hefur verið barátta – sem hefur borið árangur, sem betur fer – en enn eimir eftir af þessu. Þegar spurt er: Hvað gerirðu? og maður segir dansari, er aftur spurt: Já, en hvað starfarðu? Svo eru dansarar enda- laust að svara sömu spurningunum, hvort þeir megi ekkert borða og svo framvegis. Það er þreytandi að vera alltaf að endurtaka sig. Þess vegna finnst mér þetta svo mikilvægt, vitund og fagleg umfjöllun.“ Katrín hefur í gegnum tíðina samið dansa, en segist fyrir löngu hafa ákveðið að nota Íd ekki sem tilraunastofu fyrir sjálfa sig. „Víða erlendis hafa listdansstjórar sett sinn eigin svip á flokk- inn, en sem eini flokkurinn hér höfum við ekki efni á því. Það er ekki tímabært, við þurfum á fjölbreytni að halda. Ég hef þess vegna einbeitt mér að öðru, en líka samið fyrir flokka erlendis og fundist það gefa mér mikið. Þá er maður líka metinn á öðrum forsendum.“ Dansarðu ennþá sjálf? „Nei, ég gef að vísu þjálfunartíma og stjórna æfingum, en guð forði mér, ég dansa ekki lengur á sviði! Ég fæ mína útrás með öðrum hætti, í list- rænni stjórnun. Ég er svo heppin að vera hér, að fá að fylgja áfram minni sýn, vera með fram- kvæmdastjóra sem ég vinn náið og vel með, og að vinna yfir höfuð með fólki sem deilir sömu sýn. Þetta er í raun draumaframhald á starfi dans- arans.“ ta » „Það ríkir jákvæð samkeppni innan flokksins. Dansararnir hafa mikinn metnað til að gera betur en þeir styðja líka hver annan. Það er til þess tekið hversu mikil samheldni er í flokknum, erlendir danshöfundar sem vinna með okkur taka eftir því hvað hann er sterk heild.“ Morgunblaðið/Golli Í okkar nafni Hann gefur svo mikið frelsi, innblástur, og stundum skilur hann mann eftir með spurningar. En auðvitað eigum við líka að spegla samtímann og höfum gert það með sýningum á borð við We are all Marlene Dietrich FOR, Screensaver og Í okkar nafni, svo ég taki dæmi.“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.