Morgunblaðið - 23.01.2007, Síða 31
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 23. JANÚAR 2007 31
fjóra vel gerða syni sem hafa eignast
sína maka og börn, sem ég veit að
voru þeim báðum miklir gleðigjafar.
Missir allrar fjölskyldunnar er
mikill og sár en ég veit að minning-
arnar eru þeim hjartfólgnar og dýr-
mætar.
Hið sama er með mig. Minning-
arnar um mína hjartkæru vinkonu
eru mér dýrmætar. Það er eins og
maðurinn minn sagði svo oft: „Hún
Þóra er perla“.
Elsku Tómas, synir og þeirra fjöl-
skyldur. Við Stefán og börn okkar
vottum ykkur okkar dýpstu samúð.
Far þú í friði,
friður guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
(V. Briem.)
Þín vinkona
Guðrún Sigurjónsdóttir.
Í upphafi búskapar síns áttu þau
Þóra og Tómas heima á Akureyri um
hríð og þar eignuðust þau fyrsta son
sinn. Kynni okkar hófust um það
leyti, sem við stofnuðum fyrsta heim-
ili okkar fyrir næstum 60 árum. Þóra
var þegar í upphafi hjúskapar síns
glæsileg húsmóðir. Návist hennar
var ævinlega sérstaklega þægileg.
Heimilinu stjórnaði hún alla tíð af
dæmalausum myndarskap, smekk-
vísi og kærleika en leiðir skildust er
Þóra og Tómas settust að í Reykja-
vík og við í Kaupmannahöfn og þann-
ig liðu árin án þess að færi gæfist á að
hittast. Þegar við fluttum aftur heim
voru gömul kynni endurnýjuð. Það
var engu líkara en við hefðum aldrei
farið. Þóra og Tómas höfðu ekkert
breyst. Viðmót Þóru var slíkt að frá
henni stafaði yl og birtu hvar sem
hún fór. Það er um okkur eins og alla,
sem kynntust Þóru að fallega og
hlýja brosinu hennar gleymum við
aldrei. Slíkar minningar er gott að
eiga að skilnaði. Tómasi og fjölskyldu
hans vottum við einlæga samúð.
Anna og Birgir.
Kveðja frá Kópavogsdeild
Rauða krossins
Óhætt er að segja að Þóra Kristín
hafi verið frumkvöðull og fremst
meðal jafningja til margra ára í öfl-
ugu starfi sjúkravina Kópavogs-
deildar Rauða krossins. Hún var í
hópi kvenna sem hittust í september
1984 til að undirbúa heimsóknaþjón-
ustu deildarinnar í hjúkrunarheim-
ilinu Sunnuhlíð. Hún starfaði æ síðan
af einstökum eldmóði og hlýju að
þessu verkefni, hafði lengi forystu
um skipulag starfsins og var drif-
kraftur í því. Þóra Kristín lét ekki
þar við sitja heldur sat hún einnig um
árabil í stjórn deildarinnar.
Frábært framlag hennar sem
sjálfboðaliða vakti verðskuldaða at-
hygli innan hreyfingarinnar. Hún
hlaut sérstaka viðurkenningu Rauða
kross Íslands fyrir starf sitt að mál-
efnum sjúkravina og á aðalfundi
Kópavogsdeildar á síðasta ári var
hún heiðruð fyrir vel unnin störf í
þágu deildarinnar. Kópavogsdeild
Rauða krossins naut starfskrafta
hennar og áhuga svo lengi sem heilsa
hennar leyfði. Við kveðjum nú góðan
félaga og minnumst hennar með
þakklæti og virðingu fyrir framlag
hennar í þágu hugsjóna Rauða kross-
ins. Innilegar samúðarkveðjur send-
um við Tómasi og fjölskyldunni.
Garðar H. Guðjónsson,
formaður.
Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá
huga þinn, og þú munt sjá, að þú grætur
vegna þess, sem var gleði þín.
(Kahlil Gibran.)
Með hryggð í hjarta kveðjum við,
sjúkravinir í Kópavogsdeild RKÍ,
Þóru Kristínu Eiríksdóttur, leiðtoga
okkar og fyrirmynd.
Þegar Hjúkrunarheimilið Sunnu-
hlíð tók til starfa 1982 var það Soffía
Eygló Jónsdóttir, félagi í Kópavogs-
deild RKÍ, sem dreif í því að fá lista-
menn og skemmtikrafta öðru hvoru
til að stytta vistmönnum stundir og
lífga upp á heimilislífið.
En fljótlega tók Þóra við þessu
starfi og skipulagði það. Hún fékk
nokkrar konur til liðs við sig, en bar
sjálf ábyrgð á verkefninu og stjórn-
aði hópnum. Það varð til góður hópur
kvenna, sem kallaði sig sjúkravini.
Þær mættu á ákveðnum tímum í
Sunnuhlíð og héldu uppi samveru-
stundum fyrir vistmenn með upp-
lestri, söng og annarri tilbreytingu.
Öllu starfinu stýrði Þóra af slíkri
elskusemi og umhyggju að brátt
voru allar í hópnum tengdar vináttu-
böndum. Það ríkti gleði og sam-
heldni, þegar hópurinn hittist á
vinnu- og fræðslufundum eða til að
skemmta sér saman, oft á fallegu
heimili Þóru, þar sem hún veitti af
rausn og myndarskap.
Einstök hlýja einkenndi öll hennar
störf í þágu Kópavogsdeildar RKÍ og
sjúkravinanna og það andrúmsloft
streymdi til hópsins og mótaði við-
horf hans til starfsins í Sunnuhlíð.
Aldrei sparaði hún fyrirhyggju eða
fyrirhöfn til að hlú að skjólstæðing-
unum og skapa hátíðarstemmningu á
samverustundunum, innan heimilis-
ins og í stuttum ferðum utan þess.
Síðasta starf hennar sem sjálf-
boðaliði var á sambýli aldraðra á
Skjólbraut. Hún vann þar frábært
starf við góðar undirtektir, enda við-
mót hennar þannig að fólk laðaðist að
henni. Vistmenn og starfsfólk sam-
býlisins minnast hennar með inni-
legu þakklæti og mikilli eftirsjá.
Stjórn Rauða kross Íslands heiðr-
aði Þóru með því að veita henni í
september 1991 viðurkenningu fyrir
störf hennar sem sjálfboðaliði.
Sjúkravinum Kópavogsdeildar var
boðið í hóf með henni. Við vorum
stoltar af henni og glöddumst fyrir
hennar hönd. Ennfremur að finna að
sjálfboðið starf er metið að verðleik-
um.
Mannkærleikur var aflið, sem
dreif Þóru áfram í sínu frumkvöðla-
og sjálfboðaliðastarfi. Vonandi verð-
ur það áfram leiðarljós í starfi sjálf-
boðaliða Rauða krossins um ókomna
tíð.
Það er mannbætandi að kynnast
manneskju eins og Þóru og lætur
engan ósnortinn. Við þökkum af ein-
lægum huga samfylgdina.
Við hugsum til eiginmanns henn-
ar, barna og afkomenda og sendum
þeim hugheilar samúðarkveðjur.
Fyrir hönd sjúkravina Kópavogs-
deildar RKÍ,
Pálína Jónsdóttir.
Á árunum 1977–94 vorum við und-
irritaðir í forsvari fyrir Rauðakross-
deild Kópavogs, einu þeirra góðgerð-
arfélaga í bænum sem stóðu að
stofnun Sunnuhlíðarsamtakanna ár-
ið 1979 og uppbyggingu þeirra síðan.
Í þeim samtökum birtist leiftrandi
dæmi þess hverju frjálst framtak fær
til vegar komið þegar afl opinberrar
stjórnsýslu þrýtur. Allt var það reist
á sjálfboðnu áhugastarfi, fagurri lífs-
sýn, dugnaði og kunnáttu einstak-
linga sem skipuðust saman í sveit.
Þar var Þóra Kristín Eiríksdóttir
liðsmaður sem um munaði.
Hlutur hennar var m.a. sá að hún
var lengi í forystu fyrir hópi kvenna á
vegum Rauðakrossdeildarinnar sem
kölluðu sig sjúkravini og hafa veitt
heimilisfólki á hjúkrunarheimilinu
Sunnuhlíð margvíslega lífsfyllingu
að vetrarlagi með daglegri samveru
af ýmsu tagi, viðræðum, lestri, list-
flutningi, ferðum og hreyfingu auk
veitinga og gjafa. Þetta var á margan
hátt brautryðjandastarf sem hefur
mótast og vaxið í tímans rás. Forysta
Þóru Kristínar í þessu starfi var á
þann veg að hverjum sem fylgdist
þar með fannst hann verða ríkari og
betri af þeim kynnum. Því réð fágað
viðmót hennar, nærfærni, greind og
góðvild.
Auk þessa annaðist Þóra Kristín
um árabil stjórnarstarf og skrifstofu-
hald fyrir Rauðakrossdeild Kópa-
vogs. Allt þetta sjálfboðna starf innti
hún af hendi með önnum á stóru
heimili og skyldum sem fylgja því að
vera eiginkona þingmanns, ráðherra
og seðlabankastjóra. Mannúðarstarf
sitt rækti hún meðan heilsa leyfði af
óbrigðulli alúð og þeim góða hug sem
vegur ei verk sín mót gjöldum.
Fyrir vináttu, tryggð og allt henn-
ar góða starf vottum við Þóru Krist-
ínu Eiríksdóttur einlæga virðingu og
þökk. Við munum ævinlega minnast
dýrmætra kynna við þessa merku
konu.
Tómasi Árnasyni og fjölskyldu
hans vottum við og eiginkonur okkar
dýpstu samhryggð.
Ásgeir Jóhannesson,
Ólafur Pálmason.
Minningarkort
535 1825
www.hjarta.is 5351800
Minningarkort
Krabbameinsfélagsins
540 1990
krabb.is/minning
✝
ARI JÓNSSON
bóndi á Sólbergi,
Svalbarðsströnd,
andaðist á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri föstu-
daginn 19. janúar.
Jarðarförin verður auglýst síðar.
Fyrir hönd barnanna okkar og annarra
vandamanna,
Svanhildur Friðriksdóttir.
✝
Elskulegur eiginmaður minn, faðir okkar, tengda-
faðir og afi,
BERTRAM HENRY MÖLLER,
Tunguvegi 24,
Reykjavík,
lést á krabbameinsdeild Landspítalans laugar-
daginn 20. janúar.
Guðríður Erla Halldórsdóttir,
Hákon Gunnar Möller, Linda Möller,
Guðrun Möller, Ólafur Árnason,
Sóley Halla Möller, Hjörtur Bergstað,
Einar Kári Möller
og barnabörn.
✝
Elskulegur eiginmaður minn, faðir okkar, tengda-
faðir, afi, langafi og langalangafi,
GUÐMUNDUR S.TH. GUÐMUNDSSON
síldar- og fiskmatsmaður,
Fiskhóli 5,
Höfn,
andaðist á Landspítalanum í Fossvogi þriðjudaginn
9. janúar.
Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.
Edda Guðbjörg Sveinsdóttir,
Stefán Jónas,
Guðmundur Ómar, Anna Ingólfsdóttir,
Haraldur Huginn, Helga Ólafsdóttir,
Sigríður Kristín, Rúnar Gylfason,
Gunnar Örn, Stefanía Bragadóttir,
barnabörn og barnabarnabarn.
✝
Ástkær faðir okkar, tengdafaðir, afi og vinur,
BJÖRN SIGURÐSSON
bóndi,
Sauðhaga,
Völlum,
andaðist laugardaginn 20. janúar.
Útför hans fer fram frá Egilsstaðakirkju laugardag-
inn 27. janúar kl. 14.00.
Þeim sem vilja minnast hans er bent á Sjúkrahúsið á Egilsstöðum eða
Krabbameinsfélagið.
Jóhanna Freyja Björnsdóttir, Magnús S. Magnússon,
Magnea Herborg Björnsdóttir, Sigmar Björnsson,
Amalía Björnsdóttir, Sigurður Ragnar,
Ásbjörg, Hrafnhildur, Magnús,
Freyja, Björn Geir, Baldvin,
Ólöf Sölvadóttir.
✝
Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma og lang-
amma,
HALLA BJARNADÓTTIR
fyrrum húsfreyja
á Hæli í Hreppum,
andaðist á hjúkrunarheimilinu Skjóli laugardaginn
20. janúar.
Gestur Einarsson, Valgerður Hjaltested,
Bjarni Einarsson, Borghildur Jóhannsdóttir,
Eiríkur Einarsson,
Ari Einarsson, Þórdís Bjarnadóttir,
Þórdís Einarsdóttir, Bjarki Harðarson,
barnabörn og barnabarnabörn.
✝
Elskulegur maðurinn minn, faðir okkar, tengdafaðir,
afi, bróðir og mágur,
SKÚLI ÓLAFSSON,
lést á Landspítalanum að kvöldi laugardagsins
20. janúar.
Jarðarförin verður tilkynnt síðar.
Sigrún M. Ragnarsdóttir,
Björg Skúladóttir, Vignir Elvar Vignisson,
Ólafur Skúlason, Cristina Skúlason,
Erna Gísladóttir, Rúnar Hreinsson,
Haukur Gíslason, Hlíf Georgsdóttir,
Elisabet Paulson (Bessy), Olaf Paulson
og barnabörn.
✝
Móðir mín, tengdamóðir, amma og langamma,
BJARNEY HALLDÓRA ALEXANDERSDÓTTIR,
Gnoðarvogi 82,
Reykjavík,
lést á elliheimilinu Grund sunnudaginn 21. janúar
síðastliðinn.
Útförin auglýst síðar.
Fyrir hönd aðstandenda,
Ólöf Elfa Sigvaldadóttir.