Morgunblaðið - 21.07.2007, Qupperneq 28
28 LAUGARDAGUR 21. JÚLÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ
UMRÆÐAN
VEÐURSPÁ og veðurumræður
eru nokkurs konar þjóðaríþrótt
landsmanna. Flestir
Íslendingar hafa skoð-
un á veðrinu og farið er
eftir veðurspám eins
og orðum spámanns.
Nýverið hlaut vefur
Veðurstofu Íslands
vottun Öryrkjabanda-
lags Íslands og Sjá ehf.
um gott aðgengi fyrir
fatlaða notendur. Vef-
urinn er vottaður um
forgang 1 og 2, en for-
gangur 1 er nú sú lág-
markskrafa sem gerð
er varðandi aðgengi að
vefjum. Notað er Ep-
lica-vefumsjónarkerfið frá Hug-
smiðjunni en Helgi Borg sá um
verkefnisstjórn og útfærslu á sér-
hæfðum einingum vefjarins. Fjöl-
margir starfsmenn Veðurstofunnar
komu einnig beint að verkefninu.
Fyrirtækið Sjá ehf. veitti ráðgjöf
varðandi aðgengismál áður en vef-
urinn hlaut vottun. Ekki er ofsögum
sagt að grettistaki hafi verið lyft því
vefurinn er tæknilega umsvifamikill
ásamt því að vera efnis-
mikill. Það er ekki lítið
verkefni að búa til vef
sem allir landsmenn
þekkja og hafa skoðun
á. Síst er verkefnið
minna þegar haft er í
huga að allir þurfa að
vera sammála um að
vefurinn virki, sé fal-
legur, vel hannaður,
notendavænn og síðast
en ekki síst aðgengileg-
ur öllum notendum,
fötluðum jafnt sem
ófötluðum. Umtals-
verður tími fór í að
finna lausnir til að tryggja aðgengi
skjálesara að efni en þá nota blindir
notendur þegar þeir skoða vefi.
Vinnan hefur þó skilað sér í betri vef
fyrir alla notendur.
Samanburður við
aðra sambærilega vefi
Við samanburð við vefi annarra
evrópskra veðurstofa kom í ljós að
vefur Veðurstofunnar stendur nú
fremstur þeirra hvað varðar að-
gengi. Stuðst var við lista frá World
Meteorological Organization
(WMO)1). Gerð var stutt úttekt á að-
gengi vefjanna og kom í ljós að að-
eins tveir aðrir vefir hefðu hugs-
anlega með lagfæringum komist í
gegnum vottun um forgang 1. Eng-
inn vefjanna var hins vegar nálægt
því að komast í gegnum vottun um
forgang 2. Sumir vefir voru það óað-
gengilegir að blindur einstaklingur
hefði átt í töluverðum vandræðum
með að lesa veðurspár og margir
hreyfihamlaðir einstaklingar hefðu
jafnvel ekki átt neinn möguleika á
því að vafra um suma vefina. Sumir
sjónskertir einstaklingar hefðu einn-
ig átt í miklum erfiðleikum.
Endurbætur á vef
Veðurstofunnar
Það sem hefur verið gert til að
auka aðgengi að vef Veðurstofunnar
er eftirfarandi:
Hægt er að skoða staðarspár,
veðurathuganir og upplýsingar um
jarðskjálfta í skjálesara ásamt öllu
öðru efni.
Hægt er að stækka og minnka
letrið á skjánum.
Sérstakar stillingar (still-
ingar.is) eru í boði fyrir lesblinda
notendur.
Hreyfihamlaðir notendur geta
vafrað um vefinn án þess að nota
músina.
Öll tenglaheiti eru skýr.
Myndir í greinum hafa útskýr-
ingatexta (ALT texta).
Fyrirsagnir eru merktar sér-
staklega fyrir skjálesara.
Tegund viðhengja er útskýrð.
Orðskýringar eru til reiðu.
Leiðbeiningar og útskýringar
fyrir allar helstu síðurnar sem birta
lifandi gögn eru til reiðu.
Skammstafanir eru útskýrðar.
Notkun á PDF-skjölum er tak-
mörkuð og þar sem þau eru notuð
eru þau aðgengileg skjálesurum.
Í næsta áfanga stefna forsvars-
menn Veðurstofunnar á að bjóða
notendum upp á að hlusta á texta-
spár á vefnum svo eitthvað sé nefnt.
Aðgengi fyrir alla
Það er nú þannig að hverjum þyk-
ir sinn fugl fagur og ekki víst að sá
sem vinnur verkið sé dómbær á
hversu gott það er. Hins vegar er
nær fullvíst að vefur Veðurstofu Ís-
lands er sá aðgengilegasti sinnar
tegundar í Evrópu og ekki ólíklegt
að hann sé jafnvel aðgengilegasti
veðurvefur í heiminum. Íslendingar
standa framarlega hvað varðar að-
gengi á vefjum á Íslandi sem og raf-
ræna þjónustu, og stefna enn þá
lengra. Það eiga allir að hafa aðgang
að efni og þjónustu vefja. Það eiga
allir að geta gáð til veðurs!
Sjá ehf. vill nota tækifærið og
óska Veðurstofu Íslands til ham-
ingju með glæsilegan og vel heppn-
aðan vef.
1) WMO – World Meteorological Org-
anization, http://www.wmo.ch/pages/
members/region6.htm.
Einn aðgengilegasti
veðurstofuvefur Evrópu
Sigrún Þorsteinsdóttir
segir frá nýjum vef
Veðurstofu Íslands
»Nýverið hlaut vefurVeðurstofu Íslands
vottun Öryrkjabanda-
lags Íslands og Sjá ehf.
um gott aðgengi fyrir
fatlaða notendur.
Sigrún
Þorsteinsdóttir
Höfundur starfar hjá Sjá ehf. – óháðri
ráðgjöf og er sérfræðingur
í aðgengismálum fatlaðra á Netinu.
Hnífurinn gengur
á milli þeirra?
Orðatiltækið hnífurinnkemst/gengur ekki(upp) á milli einhverravísar til þess er ein-
hverjir eru mjög samrýndir en um-
sjónarmaður rakst nýlega á það í
merkingunni ‘spjótin ganga á milli
einhverra’: Nú gengur hnífurinn á
milli þeirra Geirs og Jóns
(18.5.07). Það er furðu algengt að
farið sé rangt með orðatiltæki og
föst orðasambönd. Nokkur nýleg
dæmi: Evrópuskýrslan byði upp á
tækifæri fyrir Samfylkinguna til
að auka samstarf Íslands við ESB
án þess að ganga skrefið til fulls
[stíga skrefið til fulls] (21.5.07);
kíkja undir tjöldin [skyggnast á
bak við tjöldin] (12.5.07) og Nýlega
lét herinn skína í klærnar [sýndi
tennurnar] og sagði (7.5.07). Í
dæmum sem þessum er í flestum
tilvikum um að ræða einstök tilvik
sem rekja má til klaufaskapar eða
fljótfærni. Öllu verra er þegar vik-
ið er aftur og aftur frá hefð-
bundnum búningi og skal nú vikið
að nokkrum slíkum dæmum.
Eftir eða á eftir?
Forsetningarnar eftir og á eftir
eru ólíkar að búningi og merkingu
en þeim er þó alloft ruglað saman.
Í skáldsögunni Maður og kona tel-
ur Sigvaldi prestur sig geta lokið
predikun efnisins vegna á ákveðn-
um stað og segir: hér getur verið
amen eftir efninu. Hér merkir eft-
ir ‘samkvæmt’ og fs. á eftir á alls
ekki við þótt þeim sé oft ruglað
saman í þessu samhengi, t.d.: Hér
setur fréttastofan amen á eftir efn-
inu (4.6.07). Með svipuðum hætti
er mikill munur á því að fylgja á
eftir e-m (í röð) og fylgja e-u (fast)
eftir. Umsjónarmaður hefur veitt
því athygli að í íþróttalýsingum er
þessu þráfaldlega ruglað saman,
t.d.: fylgir sókninni vel á eftir [þ.e.
eftir] (2.1.06); NN fylgir vel á eftir
[þ.e. eftir] og skorar (5.3.07) og
skoraði fyrsta mark leiksins þegar
hann fylgdi á eftir stangarskoti
Grétars [þ.e. fylgdi skotinu vel
eftir] (25.5.07).
Með þolfalli vísar forsetningin
eftir jafnan til tíma, t.d. eftir tvo
daga, eftir minn dag o.s.frv. Í nú-
tímamáli gætir þess nokkuð að fs.
á eftir sé notuð í þessari merkingu,
t.d.: Var árið 2005 ekki eins og
lognið á eftir storminum [þ.e. eftir
storminn] eða undan honum
(2.1.06); Silvía Nótt verður gestur
Kastljóssins á eftir fréttum [þ.e.
eftir fréttir] (19. 2.06); á eftir
messunni [þ.e. eftir messuna]
verður boðið upp á kaffi og Er líf á
eftir dauðanum? [þ.e. eftir dauð-
ann].
Til gamans skal á það bent að
val forsetninganna eftir eða á eftir
getur verið merkingargreinandi,
t.d. sjá eftir e-m ‘sakna e-s, harma
að e-r fer’ [eftirsjá] og sjá á eftir
e-m ‘horfa á eftir e-m’. Í eftirfar-
andi dæmi virðist þessu ruglað
saman: þeir eiga eflaust eftir að sjá
á eftir [þ.e. sjá eftir] Egidijus Pet-
kevicius úr markinu (27.9.06)
Að axla ábyrgð
Sigurður Karlsson skrifar frá
Turku (26.5.07): ,,Að lokum langar
mig að minnast á orðasambandið
axla ábyrgð. Það virðist ekki leng-
ur notað nema í merkingunni ‘að
segja af sér’. Það var mikið talað
um að Halldór Ásgrímsson hefði
axlað ábyrgð
þegar hann
sagði af sér for-
mennsku í
Framsókn-
arflokknum í
fyrra. Eft-
irmaður hans
Jón Sigurðsson
var svo spurður
hvort hann ætlaði að axla ábyrgð
vegna útkomu flokksins í alþing-
iskosningunum. Kannski fannst
fréttamönnum kurteislegra að
orða spurninguna svona frekar en
spyrja hreint út hvort hann ætlaði
að segja af sér. Mér finnst það hins
vegar skortur á háttvísi að spyrja
formann flokks á þennan hátt, það
er að segja hvort hann sem for-
maður flokks taki ábyrgð á gengi
flokksins. Formaður sem ekki axl-
ar ábyrgð á útkomu flokks síns í
kosningum ætti umsvifalaust að
segja af sér.
Minn málskilningur segir mér
að það að axla ábyrgð hafi einkum
tvenns konar merkingu. Annars
vegar að maður taki á sig tiltekna
ábyrgð, t.d. formennsku í stjórn-
málaflokki, og hins vegar að maður
taki ábyrgð á gerðum sínum hafi
hann brotið eitthvað af sér. Ég get
ekki séð að þessir tveir fyrrver-
andi flokksformenn hafið brotið
nokkuð af sér með því að veita
Framsóknarflokknum forystu.
Hins vegar tókst þeim ekki það
sem þeir ætluðu sér og vænst var
af þeim og því létu þeir af for-
mennskunni til að þurfa ekki leng-
ur að axla ábyrgðina sem embætt-
inu fylgir. Það var svo Guðni
Ágústsson sem axlaði ábyrg á
Framsóknarflokknum þegar hann
tók að sér formennskuna.“
Umsjónarmaður þakkar Sigurði
skemmtilegt bréf og fróðlegar
skýringar. Orðasambandið axla
ábyrgð virðist vera nýtt af nálinni,
það er ekki að finna í orðabókum.
Það er því gagnlegt að velta merk-
ingu þess fyrir sér.
Hörðum höndum
Árni Björnsson skrifar: ,,Orða-
lagið að ‘vinna hörðum höndum’
hefur lengi verið ofnotað á síðari
árum. Það er tekið úr kvæði Jón-
asar Hallgrímssonar Alþingi hið
nýja sem byrjar svo:
Hörðum höndum
vinnur hölda kind
ár og eindaga;
Í seinni hluta erindisins kemur
fram hverja Jónas á öðrum fremur
við, sjómenn og bændur, þótt allt
hið stritandi mannkyn sem stjörn-
ur skína á eigi reyndar hlut að
máli:
siglir særokinn,
sólbitinn slær,
stjörnuskininn stritar.
Nú er eins og allir vinni hörðum
höndum hvort sem menn æfa leik-
sýningar eða semja ljóð. Þetta get-
ur varla talist smekkleg notkun á
hinu lýsandi orðalagi Jón-
asar. … Þessi frétt var lesin í tíu-
fréttum Sjónvarpsins kvöldið 14.
júní 2007: Bresku prinsarnir Vil-
hjálmur og Harrý undirbúa hörð-
um höndum tónleika til minningar
um Díönu prinsessu móður
þeirra.’’
Umsjónarmaður þakkar Árna
kærlega fyrir ábendinguna.
Úr handraðanum
Það getur verið gaman að velta
fyrir sér merkingu og uppruna
orða. Mörg orð leyna á sér ef svo
má að orði komast. Lýsingarorðið
sallafínn merkir orðrétt ‘fínn eins
og salli’ en óbein merking er ‘mjög
fínn’, t.d. skrifar Þráinn Bertels-
son: Tvíburarnir … er sallafínn
róman … Þarna er feitt á stykkinu
(27.3.07). Nú virðist beina merk-
ingin horfin og liðurinn salla
(ef.et.) er notaður í herðandi merk-
ingu, t.d. sallarólegur.
Orðasam-
bandið axla
ábyrgð virðist
vera nýtt af nál-
inni, það er
ekki að finna í
orðabókum.
jonf@rhi.hi.is
ÍSLENSKT MÁL
Jón G. Friðjónsson
107. Þáttur
Bréf til blaðsins
Morgunblaðið Hádegismóum 2, 110 Reykjavík Bréf til blaðsins | mbl.is
ÉG undirrituð ætla að leyfa mér að
tjá mig um málefni sem nýlega hef-
ur skotið upp kollinum, en veldur
mér verulegum áhyggjum, en það
er umræða um nýja möguleika í
Rússlandi fyrir útflutning á íslensk-
um hestum. Í sögunni okkar eru til
svartir blettir, bæði hvað það varðar
að hestar féllu á útigöngu á hörðum
vetrum, en líka vilja flestir gleyma
þeim tíma þegar „þarfasti þjónninn“
var seldur til þrælkunarvinnu í
breskum kolanámum.
Á síðari árum hefur verið farið
mikinn varðandi íslenska hestinn
sem þjóðarstolt okkar Íslendinga,
sem hann vissulega er, en samt er
nú rætt í fullri alvöru um að flytja
hundruð, jafnvel þúsundir hesta til
Rússlands, þar sem þeir yrðu eft-
irlæti auðjöfra. Til lands þar sem
mannréttindi eru hundsuð, hvað þá
dýraréttindi, og nóg er af kolanám-
unum.
Já, mikil er græðgin – er okkur í
raun og veru alveg sama hvert dýr-
in okkar eru seld, bara ef verðið er
nógu hátt?
Talað er um að efnað fólk eða
auðmenn kaupi hestana, en við er-
um að tala um Rússland, þar sem
þessir auðmenn, svo sem aðrir slíkir
og annars staðar, gætu upplifað að
vera ekki alltaf auðugir, annað eins
hefur nú gerst, eða ef einhver hest-
ur stenst ekki væntingar nýs eig-
anda, hvað verður þá um „þarfasta
þjóninn“ og „besta vin“ eigandans?
Ég beini því til landbún-
aðarráðherra að á vegum ráðu-
neytis hans verði gerður listi yfir
þau lönd sem mega kaupa íslenska
hestinn, en það yrðu þá Norð-
urlöndin, Kanada og Vestur-
Evrópa, önnur lönd yrðu á bann-
lista, og vona ég að svarið verði ekki
ég get ekki, vil ekki, eða má ekki,
því að í mínum huga eru þessar
klisjur of oft svör stjórnvalda í mál-
um sem þau telja að valdi þeim ef til
vill litlum vinsældum.
Íslenski hesturinn á betra skilið
en að vera seldur til Rússlands.
Annað áhyggjuefni er fríversl-
unarsamningur við Kína, þar tala
allir í hring. Jafnvel forsetinn okk-
ar, sem sat á fundi með æðstu
mönnum Kína til þess að ræða brot
stjórnvalda á almennum mannrétt-
indum, sem talið er að séu jafnvel
meiri þar en annars staðar, er svo í
sömu andrá að koma á tengslum og
viðskiptasamböndum við þessu
sömu stjórnvöld.
Ég held að við ættum að fara
okkur hægar og gæta að okkur,
ekki hvað síst ef við viljum að ein-
hver taki mark á því sem við erum
að segja.
STEFANÍA JÓNASDÓTTIR,
Sauðárkróki.
Þjóðarstoltið
– hesturinn
Frá Stefaníu Jónasdóttur
HINN 12. maí sl. keypti ég miða í
kosningahappdrætti Framsókn-
arflokksins af myndarlegri konu en
það átti að draga 31. maí sl.
Ég hringdi á skrifstofu Fram-
sóknarflokksins 4. júní. Þá sagði
maðurinn á símanum að þetta væri
að koma og það væri aðeins eftir að
innsigla nokkra miðanna. Ég sætti
mig við þessi svör. Svo hringdi ég 12.
júní og fékk sömu svör og áður; að
það ætti að draga eftir 17. júní, svo
ég hélt reiði minni niðri.
Ég hringdi fyrir nokkrum dögum,
þá var sagt að það væri aðeins eftir
að innsigla miðana. Þá spurði ég
hvort þeir væru ekki bara búnir að
láta Jónínu Bjartmarz og tengda-
dóttur hennar fá alla vinningana?
Viðmælandi minn sagði að það
væri aðeins eftir að innsigla miðana.
Ég spurði hann þá hvað hann héldi
að ég væri?? Þá sagði hann mér að
sölumennirnir ættu eftir að skila
óseldum miðum og sölunni. Þá
spurði ég hvort þeir væru að láta
einhverja vitleysinga selja miðana!
Þá sagðist hann ekki mega vera að
þessu bulli og samtali okkar lauk.
Ég efast ekki um að Framsókn-
arflokkurinn tapar þarna enn at-
kvæðum og maður spyr sig hvort
þetta sé svona yfirhöfuð í flokknum.
ÖRN BERGMANN JÓNSSON,
kaupmaður í Kolaportinu.
Um Fjáröflunarhappdrætti
Framsóknarflokksins
Frá Erni Bergmann Jónssyni