Lesbók Morgunblaðsins - 17.05.2008, Page 10
10 LAUGARDAGUR 17. MAÍ 2008 MORGUNBLAÐIÐ
lesbók
Eftir Bergsvein Birgisson
Bergsveinn.Birgisson@lle.uib.no
N
ú er því fagnað í Noregi að tvö
hundruð ár eru liðin frá fæðingu
skáldsins sem framar öðrum hefur
orðið táknmynd hins norska þjóð-
frelsis og þjóðaranda: Henrik Wer-
geland (1808–1845). Þar sem Wer-
geland og okkar Jónas Hallgrímsson lifðu samtímis
hvor í sínu landi, án þess þó að hittast, má spyrja
hvað það sé í þessu tímabili sögunnar sem „búi til
þjóðskáld“. Báðir þekktu til kenninga Herders um
þjóðarandann og voru innblásnir af frelsisbaráttu
Napóleons og júlíbyltingunni í Frakklandi 1830. Báð-
ir voru náttúruunnendur sem sáu fyrir sitt skammlífi
og báðir dóu á sóttarsæng með nokkurra mánaða
millibili 1845, yrkjandi sín fegurstu ljóð.
Þó slík hliðstæðuhugsun sé takmörkuð er hún
gagnlegur útgangspunktur, ekki síst er kemur að því
að varpa ljósi á hvað skilur þessi skáld í orði og verki.
Þó bæði skáldin séu þjóðfrelsishetjur í vitund fólks
var Henrik Wergeland pólitískari en Jónas, og sá
einnig afrakstur handa sinna betur í þeim efnum.
Segja má að Wergeland hafi alist upp undir hand-
arjaðri norsku stjórnarskrárinnar, sem samin var í
snarhasti 1814 og samþykkt á hinum fræga Eidsvoll-
fundi 17. maí sama ár. Stjórnarskráin norska var
stórt skref í átt til sjálfstæðis. Norðmenn voru nú
frjálsir undan „400 ára nótt“ danskra yfirvalda og
gengust Carl Johan Svíakonungi á hönd. Wergeland
óx úr grasi á Eidsvoll, sem verður honum að þeim
Gunnarshólma er hann kallaði „Betlehem frelsisins“.
Faðir hans, séra Nicolai Wergeland, var einn af lyk-
ilmönnunum í samningu stjórnarskrárinnar en son-
urinn á hins vegar heiðurinn af hátíðarhöldunum 17.
maí. Hans hugmynd var að börnin skyldu vera í fyr-
irrúmi á þessum degi og ekki hernaðarsýningar; þau
skyldu ganga með fána og syngja fullum hálsi: „Vi
ere en nasjon vi med/vi små en alen lange,“ og svo
mun það eflaust vera eins lengi og norsk þjóðarvit-
und er til. Segja má að þegar í lifanda lífi var Wergel-
and orðinn sá frelsisgervingur sem hann er enn í dag.
Síðustu ár hans safnaðist fólk saman fyrir utan
„Grotten“ í Ósló, hús sem nú heyrir undir konungs-
garðinn, og hyllti skáldið. Hinn 17. maí 1845 gat
skáldið ekki látið sig vanta við hátíðarhöldin þó hann
hafi þá þegar fengið snert af lungnabólgu, og því er
haldið fram að það hafi ráðið þeim úrslitum að lunga-
bólgan dró hann til dauða þá um sumarið.
En kvæðum Wergelands var síður en svo hampað
af hans samtímamönnum. Öndvert við Jónas var
Wergeland enginn formsinni er kom að skáldskap,
reyndar mætti segja að hann sverji sig meir í ætt við
elstu dróttkvæðaskáld, bæði sökum flókinnar setn-
ingabyggingar og óræðs myndmáls. Þetta kemur
skýrast fram í bókinni sem Wergeland kallaði alltaf
sitt lykilverk: Skapelsen, mennesket og Messias sem
kom út 1830, ljóðabálkur upp á 18 þúsund línur sem
skáldið kallaði hvorki meira né minna en „söguljóð
mannkynsins“ og „Biblíu lýðræðissinna“. Bókin fékk
einn versta ritdóm í sögu landsins, og hefur í raun
aldrei fengið uppreisn æru. Kvæðið var venslað við
eitur og sóttheitar martraðir, það var „kaos“ þar sem
drekar synda, „hæfandi sem fuglahræða“ og svo
mætti lengi telja. Bak við þennan dóm var annað
skáld, Johan Sebastian Welhaven, sem átti eftir að
vera bitur fjandmaður Wergelands alla tíð. Þótt
Welhaven hafi að hætti upplýsingarmanna aðhyllst
klassíska fagurfræði og fundið nykrun Wergelands
allt til foráttu, áttu erjur þeirra einnig rætur í því
stjórnmálalega og menningarlega stríði sem ein-
kenndi tímana og sem segja má að einkenni norska
menningu enn í dag. Wergeland má sjá sem raust
norska verkamannaflokksins (Arbeiderpartiet), og
reyndar var það á seinni hluta 19. aldar sem sú hreyf-
ing hóf Wergeland til vegs. Hann vildi veg bænda og
verkamanna sem mestan, einnig í stjórnmálum, vildi
skera á bönd danskra menningaráhrifa meðal annars
með gagngerum málbreytingum þar sem dönsk áhrif
yrðu hreinsuð úr norskunni og leitað aftur til sveit-
anna. Wergeland var talsmaður lýðræðissinna eða
andstæðinga konungsveldis. Welhaven er á hinn bóg-
inn aristókrati í húð og hár, borgaralegur fagurkeri á
hægri vængnum sem þá kallaðist Intelligens partiet,
og vildi sá flokkur varðveita sambandið við Dani í
einu og öllu. Sjá má norska stríðið milli nýnorskunnar
(sveitamálsins) og hins danska bókmáls sem fram-
hald þessa.
Henrik Wergeland er maður andstæðna og verður
aldrei settur á bás. Þó hann fylli allar kröfur um að
vera rómantískt skáld er hans lífsstarf að miklu leyti í
þágu upplýsingar. Þetta á sér rætur í trú hans á að
lýðræði verði að sækja sitt lífsmegn í upplýsta og
menntaða þegna. Bæði varð Wergeland að ósk sinni
um stofnun bókasafna um allt land meðan hann lifði,
en einnig helgaði hann sig upplýsingarstarfi með því
að skrifa bæklinga fyrir alþýðu manna um allt milli
himins og jarðar. Bændur lærðu um lækningarmátt
grasa, og verkamenn lærðu um rétt sinn í upplýsing-
arpésunum sem Wergeland lét dreifa gegnum
prestaköll landsins. Þegar Svíakonungur veitti hon-
um styrk síðustu æviárin, kallaði Wergeland það laun
fyrir upplýsingarstarf í þágu þjóðar.
Í einu af fjölmörgum ástarbréfum Wergelands
skrifar hann til sinnar heittelskuðu að hann sé „Ker-
úbengill og dýr í einum manni“, og þetta eru orð sem
lýsa hans persónu allra best. Sami tilfinningahitinn
sem braust út í lofgjörð um konur og menn í kvæð-
unum, og sem birtist í stöðugri hjálpsemi hans við fá-
tæklinga og bændur, gat umturnast í glefsandi rei-
ðipistla yfir fjendunum svo lengi sveið undan.
Wergeland þótti líka sopinn góður, eins og sagt er, og
hafnaði ýmist í slagsmálum eða vakti hneykslan sam-
borgaranna með ósiðlegheitum, en samtímis var
hann fremsti blómavinur í sögu Noregs, og undi
löngum stundum að hlúa að rósabeði sínu. En
hneykslismálin meinuðu honum að fá prestakall þrátt
fyrir stöðugar umleitanir og stóð hann í meiðyrða-
málum sem voru höfðuð á hendur honum, svo lengi
sem hann lifði. Þá var Wergeland einlægur lýðræð-
issinni, en tók samt við bitlingum frá hinum fransk-
ættaða Svíakonungi Carl Johan síðustu æviárin, og
orti lof um konunginn. Þetta varð til að lýðræðissinn-
arnir, sem skáldið hafði tilheyrt, snerust einnig gegn
honum og fara sagnir af algeru einelti Wergelands
frá háskóla- og stjórnmálamönnum beggja fylkinga
síðustu æviárin. En Wergeland lét aldrei bugast. Í
banalegunni orti hann og skrifaði svo mikið að minnir
á kraftaverk, meðal annars æviminningar undir yf-
irskriftinni Hasselnøtter. Höfundarverk hans fyllir
23 bindi um allt frá grasalækningum til framþróunar
mannkyns.
Wergelands er einnig minnst sem táknmyndar um-
burðarlyndis og trúfrelsis, og hér var hann ekki að-
eins orðin tóm. Það er rakið til baráttu hans í ljóðum
og greinum að önnur málsgrein norsku stjórn-
arskrárinnar, sem útilokaði gyðinga frá hinu norska
ríki, var afnumin. Öll trúarbrögð voru af sömu rót og
höfðu „milt og elskandi hjarta“, en sýn Wergeland
var einnig sú að í trúarbrögðum framtíðar væru „sið-
ferði og menntun“ sá grunnur sem allt skyldi byggt á.
Þessar hugmyndir eru margar sjálfsagðar í dag en
jöðruðu við trúvillu á hans dögum.
Kvæðin tvö sem hér fylgja í þýðingu undirritaðs
eru til marks um hina marglyndu náttúru skáldsins.
Hið fyrra, Ég sjálfur, á sér forsögu í ritdeilum, nánar
tiltekið því sem skrifað stóð í Morgenbladet 1841 að
Wergeland væri ‘í vondu skapi’ og er kvæðið í senn
andsvar og tilvistarleg pæling um það hvað sjálf
mannsins eiginlega sé. Þegar allt er afbyggt og jafn-
vel brjóstmynd sálarinnar saurguð, er það hið „hlæj-
andi hjarta“ undir niðri sem andstæðingarnir geta
aldrei af honum tekið. Hitt kvæðið er til marks um
rómantísku strengina og hið agaða ljóðform, ort á
sóttarsænginni 1845. Blómið í glugga skáldsins, gull-
toppur, er skrautjurt af krossblómaætt með rauðgula
krónu. Það var til siðs að hafa opinn glugga þar sem
einhver lést svo sál hans gæti svifið út, og einnig vísar
skáldið til þess siðar að bera blys á undan brúðarp-
arinu er það yfirgaf brúðkaupið til að eiga sína fyrstu
nótt saman.
Henrik Wergeland: Kerúbengill og dýr
Henrik Wergeland Kvæðum Wergelands var síður
en svo hampað af hans samtímamönnum.
Henrik Wergeland er þjóðskáld Norðmanna. Hann
var samtímamaður Jónasar Hallgrímssonar en þeir
hittust þó aldrei. Þeir tveir eiga margt fleira sam-
eiginlegt en Wergeland var þó pólitískari. Hér er
ferill og kveðskapur Wergelands skoðaður.
Höfundur er bókmenntafræðingur.
» Þar sem Wergeland og okk-
ar Jónas Hallgrímsson lifðu
samtímis hvor í sínu landi, án
þess þó að hittast, má spyrja
hvað það sé í þessu tímabili sög-
unnar sem „búi til þjóðskáld“.
Ég sjálfur
Ég í vondu skapi, Morgunblað? Ég sem þarf aðeins að eygja sólarglennu
til að skella uppúr í gleði sem ég fæ ekki skýrt?
Þegar ég finn angan af grænu laufi, gleymi ég ölvaður
fátækt, ríkidæmi, fjendum og vinum.
Er kisan mín stýkst við vangann afmást öll hjartasár.
Ég sökkvi mínum sorgum í augu hundsins míns eins og í djúpan brunn.
Bergfléttan mín hefur vaxið. Þar utan við gluggann minn hefur hún borið á
breiðum blöðum
allar þær minningar, sem ég hirði ekki um að muna.
Vorregnið fyrsta mun falla á laufin og afmá nokkur svikul nöfn.
Þau munu falla niður með dropunum og eitra holur regnormsins.
Ég, sem les lofsönginn á sérhverju hinna hundrað blaða þykkblöðungsins, þeirrar
vorgjafar –
að mig skyldi eitt ótætisdagblað næstum ná að kæfa af gremju eitt andartak?
Það væri því líkast að drepa himinblá og rósrauð fiðrildi.
Innst í hjartanu hryllir mig við slíkri synd.
Það myndi vera sem að ausa ösku yfir höfuð mitt, enn ógránað,
og að kasta á glæ demöntum skínandi augnablika, sem tíminn sáir
enn þar yfir.
Nei, hristið af ykkur slenið blaðamenn! Sem hvessið ykkar refaklær aðeins á klettum.
Þið rífið bara upp blóm og mosabút fyrir mjúka gröf.
Eins og skordýrabitið í skelfiskinn, kveikja móðganir aðeins perlur í mínu hjarta.
Þær ættu einhvern tímann að prýða ennisdjásn anda míns.
Ég, hata? Þegar fugl flýgur yfir höfuð mitt, er hatur mitt undireins í þúsund álna
fjarlægð.
Það flýtur eftir snjónum, það fer með fyrstu bárum frá landi langt til hafs.
Hví skyldu ekki æðar mínar reiðast?
Rænið ekki landslagið hinum fossandi læk!
Hæstvirtir tágarunnar leyfa læknum að freyða er hann rennur milli steina.
Ég elska ekki eilífan bláhimin, eins og ég hata heimskustarandi augu.
Á ég mér engan himin, sökum þess að hann er þakinn farandi skýjum, ævintýralendum
sólarinnar?
Og ef ég ætti mér engan, er Guðs ekki nógu stór og dýrðlegur?
Kvartaðu ei undir stjörnunum yfir skorti á ljósum punktum í líf þitt.
Ha, þær blika jú, sem vildu þær tala til þín!
Hvar skín Venus í kvöld! Hefur himinninn líka vor?
Nú hafa stjörnurnar skinið í allan vetur; nú hvílast þær í fögnuði. Halelúja!
Hvílíkt ríkidæmi fyrir dauðlegan mann!
Sál mín fagnar í vorgleði himinsins, og mun taka þátt í jarðarinnar.
Hún tindrar skærar en vorstjörnur, og brátt mun hún blómstra með blómunum.
Indæla aftanstjarna! Ég tek ofan.
Líkt og kristallaregn fellur þinn glans þar á.
Sálin er í ætt við himnastjörnur.
Hún fer um í stjörnubirtu utanvið forhengi andlits, sem hrukkur hefur misst.
Geislarnir fylla sálina af kyrrð sem af alabastri.
Eins og brjóstmynd stendur hún í mínu innra. Starið í hennar drætti!
Nú er öllu hagað eins og þið viljið. Hinir háðsku hafa stífnað.
Sál mín ber aðeins líksins milda bros. Hví óttist þið enn?
Sá djöfull! Brjóstmyndin geymir hlæjandi hjarta undir heiðri ró.
Vei yðar máttlausu fingrum, þangað getið þið aldrei náð!
Henrik Wergeland
Bergsveinn Birgisson þýddi.
Til gulltoppsins míns
Gulltoppur, fyr en glans þinn þver,
gróinn verð ég saman við allt sem er;
er króna þín afblómgast er mitt hold
orðið mold.
Er hrópa ég: Gluggann opnið út!
að endingu gulltopp þinn ég lít.
Sál mín þig kyssir er frjáls hún fer
framhjá þér.
Tvisvar kyssi ég kollinn þinn.
Minn kæri, einn fyrir þig en hinn
er ætlaður minni, mundu – ó
mína rós!
Útsprungna fæ ég ei að sjá –
ég bið að heilsa henni þá
með þeirri ósk að á minni gröf
hún missi blöð.
Já, seg mína ósk að á mitt brjóst
að endingu lögð verði rósin kysst;
og, gulltoppur, ver við dauðans dys
hennar brúðar blys.
Henrik Wergeland
Bergsveinn Birgisson þýddi.