Lesbók Morgunblaðsins - 31.05.2008, Page 16

Lesbók Morgunblaðsins - 31.05.2008, Page 16
16 LAUGARDAGUR 31. MAÍ 2008 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Leif Reynisson leifurr@hotmail.com A tburðarásin vorið ’68 hófst 22. mars þegar hópur stúdenta yf- irtók skrifstofur háskólans í Nanterre í úthverfi Parísar. Meginkrafan var réttlátara samfélag þar sem tækifæri til menntunar væru jöfn. Stúdentar hurfu á braut eftir að lögreglan hafði umkringt svæðið að beiðni skólayfirvalda. Mikil togstreita ríkti inn- an skólans næstu vikurnar sem gerði það að verkum að rektor lokaði honum 2. maí. Þegar hér var komið sögu tóku stúdentar við hinn fornfræga Sorbonne háskóla við sér. Þeir mót- mæltu framkomu yfirvalda í Nanterre og kröfð- ust þess að komið yrði til móts við óskir stúd- enta. Valdhafarnir voru hins vegar staðráðnir í því að kæfa baráttuna í fæðingu og var lög- reglan fengin til að fjarlægja mótmælendur og yfirtaka Sorbonne. Með þeim aðgerðum hófust hinar eiginlegu óeirðir. Stúdentar efndu til mót- mælagöngu 6. maí sem endaði með götubar- daga þegar lögregla meinaði þeim inngöngu í háskólann. Mikil reiði greip um sig meðal stúd- enta enda hafði lögreglan tekið á móti þeim af mikilli hörku. Daginn eftir gengu þeir fylktu liði að Sigurboganum þar sem þeir lásu upp kröfur sínar. Þeim til fulltingis voru margir úr röðum menntskælinga, kennara og ungra verka- manna. Þeir kröfðust þess að fá aðgang að há- skólanum og að þeir mótmælendur sem höfðu verið handteknir yrðu leystir úr haldi. Þegar yfirvöld neituðu að ganga að þessum kröfum komst mótmælaandinn á byltingarstig. Miklir götubardagar geisuðu næstu daga en þeir náðu hámarki með „nótt götuvígjanna“ 10. maí. Meiriháttar átök áttu sér stað víða um Lat- ínuhverfið en harðræði lögreglunnar varð til að efla baráttuvilja stúdenta. Framkoma yfirvalda við stúdenta skapaði mikla samúð í þeirra garð. Verkalýðshreyfingin sýndi þeim samstöðu með því að lýsa yfir sólarhrings verkfalli og efna til mótmælagöngu þann 13. maí. Menntaæskan fann til samkenndar með verkamönnum sem hún leit á sem þján- ingabræður sína andspænis valdníðslu auð- valdsins. Margir stúdentar litu svo á að mik- ilvægt væri að koma á samstöðu með verkamönnum með það að markmiði að koma á einhvers konar sósíalisma. Sífellt fleiri tóku að eygja möguleika á raunverulegri byltingu. Stúdentar voru að sönnu fjarri því að mynda samstæða hreyfingu enda skipuðust þeir í bar- áttuhreyfingar sem kenndu sig meðal annars við Maó, Trotskí og anarkisma. Flestir voru raunar utan skipulagðra samtaka en það sem hélt „stúdentahreyfingunni“ saman var fyrst og fremst óbeit á valdmennsku yfirvalda sem og megn óánægja með ríkjandi samfélagshætti. Þótt undarlegt megi virðast stóðu flokkar vinstrimanna og verkalýðshreyfingin helst í vegi fyrir því að byltingarsamstaða ætti sér stað milli stúdenta og verkamanna. Komm- únistar voru sérstaklega iðnir við að gera stúd- enta tortryggilega með því að útmála þá sem óábyrga smáborgara. Ráðsettir vinstrimenn höfðu því kosið að sniðganga stúdentabaráttuna en nú var svo komið að þeim var ekki stætt á öðru en sýna þeim stuðning. Þann 13. maí fóru stúdentar í sameiginlega kröfugöngu með verkamönnum. Þátttakan var meiri en nokkurn hafði órað fyrir en talið er að rúmlega milljón manns hafi þrammað um götur Parísar. Menn kyrjuðu „Nallann“, rauðir fánar blöstu hvar- vetna við auk margvíslegra borða með slag- orðum og myndum af byltingarhetjum. Það var ljóst á viðbrögðum yfirvalda að þau vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Frakkland átti eftir að verða óstarfhæft það sem eftir lifði mánaðar- ins. Í stað þess að senda kylfubúna lögreglu vopnaða táragasi á vettvang hélt laganna vörð- ur sig að mestu fjarri. Valdhafarnir gáfu eftir og opnuðu háskólana á nýjan leik. Stúdentar voru hins vegar ekki á þeim buxunum að hefja nám að nýju eins og ekkert hefði í skorist. Þeir yf- irtóku Sorbonne og gerðu hann að bylting- armiðstöð. Orðið var laust og menn nýttu sér það óspart. Unga fólkið fékk útrás fyrir alla þá reiði sem því bjó í brjósti, hvernig sem hún var til komin. Samfélagið var miskunnarlaust gagn- rýnt á alla kanta. Það var eins og öll sú óánægja sem kraumað hafði í samfélaginu hefði safnast fyrir í hugum Parísarstúdenta. Málefnin voru hin fjölbreytilegustu. Deilt var á einstrengings- legt skólakerfi, tilbúnar þarfir neyslu- samfélagsins, firringu borgaranna, mengun, heimsvaldastefnu og alls kyns undirokun. Kraf- ist var þátttökulýðræðis, aukinnar samkenndar og aðstoðar við þriðja heiminn. Umræðuefnin voru í raun óþrjótandi. Menn töluðu fram og aftur þar til hinn vestræni heimur hafði í heild sinni verið tættur í sundur af vægðarlausri gagnrýni. Því var haldið fram að maðurinn hefði fullan rétt á að finna tilfinningum sínum og sköpunargleði þann farveg sem hentaði hverj- um og einum. Allar hömlur væru frelsissvipting sem bæru vott um kúgun samfélagsins. Til að ná þessum breytingum fram töldu stúdentar nauðsynlegt að fá verkamenn í lið með sér þar sem marxisminn hafði kennt þeim að byltingin væri þeirra. Þeir opnuðu Sorbonne fyrir almenningi og hvöttu alla til að taka þátt í að smíða hugmyndir fyrir hina nýju byltingu. Málstaðurinn birtist í endalausum fjölda bækl- inga og veggspjalda. Sérstök áhersla var lögð á að mynda tengsl við verkamenn í einstökum verksmiðjum. Verkalýðshreyfingin reyndi að stemma stigu við þeirri þróun en fékk litlu áorkað. Setuverkföll fóru eins og eldur í sinu um helstu verksmiðjur Frakklands. Þegar meirihluti verkamanna var kominn í verkfall reyndi verkalýðshreifingin að hrifsa til sín frumkvæðið með því að ná fram verulegum kjarabótum í samningum við atvinnurekendur. Verkamenn gáfu leiðtogum sínum hins vegar langt nef með því að fella samningana. Það var ekki annað að sjá en helstu valdastofnanir franska lýðveldisins væru að missa áhrifamátt sinn. Mikill hugur ríkti meðal stúdenta sem héldu eldheitan baráttufund á Stade Sebastien Char- lety íþróttaleikvanginum í París 27. maí. Ræðu- menn kröfðust þess að ríkisstjórnin færi frá og áheyrendaskarinn hrópaði: „Þetta er bara byrj- unin! Við berjumst áfram!“ Þann 30. maí urðu frekari fjöldamótmæli á götum Parísar þar sem hundruð þúsunda hrópuðu „Adieu, de Gaulle!“ Það hrikti því verulega í valdastoðum de Gaulle sem gegnt hafði forsetaembætti um tíu ára skeið. Hann fann sig knúinn til að koma fram í sjónvarpi og boða til kosninga. Í ávarpinu reyndi hann að ófrægja stúdenta með því að kalla þá kommúnista. Þar af leiðandi ættu Frakkar einungis um tvo kosti að velja – Gaull- isma eða kommúnisma. Frakkar brugðust skjótt við ræðunni og sýndu de Gaulle stuðning sinn í verki með fjöldagöngu sem ein milljón manna er talin hafa tekið þátt í. Þar með riðl- uðust fylkingar mótmælenda og öll andstaða koðnaði niður. De Gaulle vann stórsigur í kosn- ingunum og virtist hafa styrkt sig verulega í sessi. Því hefur hins vegar verið haldið fram að eftir þessa atburði hafi allt breyst þrátt fyrir að allt væri sem fyrrum. Pólitísk örlög de Gaulle eru til vitnis um þessar hræringar. Hann var sig- urvegari kosninganna en innan árs hafði hann sagt af sér. Það kom á daginn að hann var ekki í takt við þá hugarfarsbreytingu sem var að eiga sér stað. Til þess að skilja hvaða merkingu þeir atburðir höfðu sem nú hefur verið lýst er nauð- synlegt að setja þá í samhengi við þær breyt- ingar sem heimurinn var að ganga í gegnum um þessar mundir. Sjöundi áratugurinn hafði ein- kennst af mikilli baráttu alls kyns réttindahópa svo sem svartra, samkynhneigðra, kvenna og stúdenta. Óvenjumikil gerjun átti sér stað víða um heim þar sem sífellt fleiri gerðu kröfu til breyttra stjórnarhátta. Uppþotin í París 1968 standa í dag sem táknmynd þeirra mótmæla sem menntaæskan stóð fyrir á sjöunda ára- tugnum. Þar skiptir ekki minnstu máli sá frels- isandi sem ríkti á götum Parísar eftir að menntaæskan hafði „hertekið“ Sorbonne og var tekin til við að endurskoða öll viðtekin gildi. Þegar stúdentar tóku eftir því að þeir voru einir í byltingarheiminum fjaraði fljótlega undan þeim. Það átti einnig eftir að koma á daginn að þó þeir gætu bent á ýmislegt sem betur mætti fara var ekki þar með sagt að þeir hefðu lausn- irnar í handraðanum. Stór hluti af umróti sjöunda áratugarins var hins vegar krafan um aukið frelsi. Menn voru ófeimnari við að fara eigin leiðir í lífinu. Ýmis viðhorf sem þóttu ögrandi á sjöunda áratugnum urðu að almennum sannindum á þeim áttunda. Sú viðhorfsbreyting sem orðið hafði leiddi til þess að samfélagið varð á margan hátt lýðræð- islegra en áður. Menn urðu betur á varðbergi gagnvart valdinu en um leið meðvitaðri um rétt- indi einstaklingsins. Háskólarnir urðu lýðræð- islegri þar sem áhrif stúdenta jukust og alls kyns agareglum var kastað fyrir róða. Aukin áhersla var lögð á að búa nemendur undir lífið með því að tengja námið betur við kröfur sam- félagsins. Því hefur verið haldið fram að stúd- entar hafi borið upp réttu spurningarnar en mistekist að finna svörin við þeim. Sú gagnrýni sem hljómaði á götum Parísar vorið 1968 bar vissulega vott um stórhug stúdenta – nú skyldi heiminum loksins bjargað. Það unga fólk sem stormaði vígreift um götur Parísar með paradís í maganum var vissulega sundurleitur hópur sem aldrei hefði getað komið fram með stjórn- arskrá þúsund ára ríkisins. Þar með er auðvitað ekki sagt að baráttan hafi verið til einskis. Þau frjálslyndu viðhorf sem náð höfðu fótfestu léttu þá fjötra sem heft höfðu líf manna. „Ímynd- unaraflið“ hafði eftir allt saman náð að skjóta rótum. Í leit að betri heimi „Ímyndunaraflið til valda“ var slagorð sem lýsti vel þeirri stemmningu sem ríkti á götum Parísar í maí 1968. Latínuhverfið var á valdi stúdenta. Slagorðinu var beint gegn helstu innviðum þjóðfélagsins sem stúdentar gerðu alvarlegar athugasemdir við. Þeir vildu meina að samfélagið hefði fjarlægst manninn og væri honum því á margan hátt fjand- samlegt. Hvergi fundu þeir betur til þess en í háskólunum sem var þeirra daglegi vett- vangur. Mikill baráttuhugur hafði ríkt meðal menntaæskunnar víða um heim á umliðnum árum. Með stúdentamótmælunum í París vor- ið 1968 náði sú barátta hámarki. Götubardagi í París maí ’68 Það var ljóst á viðbrögðum yfirvalda að þau vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Frakkland átti eftir að verða óstarfhæft það sem eftir lifði mánaðarins. Stúdentamót- mælin í París 1968 Höfundur er sagnfræðingur. » Sú viðhorfsbreyting sem orðið hafði leiddi til þess að samfélagið varð á margan hátt lýðræðislegra en áður. Menn urðu betur á varðbergi gagnvart valdinu en um leið meðvitaðri um réttindi einstaklingsins.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.