Morgunblaðið - 07.01.2008, Side 40
40 MÁNUDAGUR 7. JANÚAR 2008 MORGUNBLAÐIÐ
ÉG MAN eftir því fyrir mörgum ár-
um þegar frændurnir Bubbi og
Haukur Morthens skiptust á að
flytja lög hver annars í sjónvarpssal.
Uppátækið vakti mikla lukku, eink-
um og sér í lagi vegna þess hve ólíkir
tónlistarmenn þeir voru – en þá var
Haukur kóngurinn á meðan Bubbi
var organdi pönkari. Það var ekki
laust við að andi Hauks frænda svifi
yfir vötnum í Laugardalshöllinni síð-
astliðið laugardagskvöld þegar
Bubbi sté þar á svið ásamt Stórsveit
Reykjavíkur. Reiði pönkarinn hafði
verið skilinn eftir og lög Bubba, í
fáguðum útsetningum Þóris Bald-
urssonar, fengu að hljóma fyrir
áhorfendum sem ný.
Bubbi sjálfur er í stórgóðu formi.
Hann hafði greinilega gaman af því
að flytja lögin sín með bigbandi.
Hann var jafnvel örlítið feimnislegur
til að byrja með – en feimnin, ef ein-
hver var, vék fljótt fyrir alkunnum
gáska hans og spilagleði. Útsetn-
ingar Þóris Baldurssonar voru með
besta móti og fóru lögum Bubba vel.
Lögin nutu sín sérlega vel í flutningi
Stórsveitar Reykjavíkur sem lék
einstaklega vel þetta kvöld. Sam-
hæfing Bubba og sveitarinnar var
eins góð og á verður kosið – ég vona
að þessu samstarfi sé ekki lokið.
Garðar Thór Cortes og Ragnar
Bjarnason sungu sitt lagið hvor en
að Bubba og Garðari ólöstuðum
verður að taka fram hve einstakur
söngvari Raggi Bjarna er. Hann hef-
ur engu gleymt og hljómar rödd
hans eins og flauel.
Kvöldið var í alla staði vel heppn-
að en það sem stóð þó upp úr var
leikgleði Bubba. Ég hef áður farið á
tónleika þar sem rokktónlistarmenn
hafa leitt hesta sína saman við óhefð-
bundna flytjendur – svona í rokk-
tónlistarlegum skilningi. Það hefur
hins vegar átt það til að vera til-
þrifalaust og leiðinlegt. Virðing
Bubba fyrir samstarfsmönnum sín-
um á sviðinu síðastliðið laugardags-
kvöld gerði tónleikana að sérstakri
reynslu þeirra sem í salnum voru og
gæddi þá lífi og sál.
Kóngurinn
og Stórsveitin
TÓNLIST
Laugardalshöllin
Bubbi Morthens og Stórsveit Reykjavíkur
bbbbn
Klapp klapp Garðar Cortes lét sig ekki vanta, enda sonurinn á
sviðinu, og virtist skemmta sér vel.
Góðir „Lögin nutu sín sérlega vel í flutningi Stórsveitar Reykja-
víkur sem lék einstaklega vel þetta kvöld.“
Morgunblaðið/Eggert
Töff „Bubbi sjálfur er í stórgóðu formi.“
Söngfélagar Raggi Bjarna, Bubbi og Garðar Thór voru góðir saman.
Helga Þórey Jónsdóttir Vinir Raggi átti gott faðmlag skilið.Stemning Áhorfendur létu ekki eftir sér að standa upp og klappa með.