Lesbók Morgunblaðsins - 06.09.2008, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 06.09.2008, Blaðsíða 2
Eftir Ágúst Guðmundsson sagnaland@hive.is ! Bandalag íslenskra listamanna er afar sérstakur félagsskapur. Það var stofnað fyrir áttatíu árum á Hótel Heklu við Lækjartorg árið 1928 og var eini mál- svari og fagfélag listamanna um árabil. Ef þurfti að berjast fyrir réttindum höf- unda var það gert á vegum bandalags- ins, ef deilt var á stjórnvöld vegna lista- mannalauna hafði BÍL forgöngu um þá umræðu. Myndlistarsýningar voru haldnar á vegum banda- lagsins, sem og tónleikar, og raunar má segja að BÍL hafi staðið að fyrstu listahátíðinni í Reykja- vík, en það var árið 1942 sem haldið var svokallað Listamannaþing, daglegir listviðburðir í eina viku, myndlistarsýning, leiksýning, tónleikar og upplestur – með virkri þátttöku útvarpsins sem útvarpaði frá þinginu á hverju kvöldi alla vikuna. Frá upphafi Ríkisútvarpsins taldi Bandalagið einsýnt að því bæri að veita stofnuninni nauðsyn- legt aðhald, og raunar var það krafa þess um ára- tuga skeið að listamenn ættu fulltrúa í útvarps- ráði. Í ljósi sögunnar hefði það líklega ekki verið vitlausara en að hafa þau völd öll í höndum stjórn- málamanna. Krafa um menningarlega dagskrá var ævinlega sett á oddinn, og er raunar enn eitt aðalstefnumið bandalagsins. Bandalagið er nú rekið sem regnhlífarsamtök yfir fagfélög hinna ýmsu listgreina, en eftir sem áður eru meginmarkmiðin þau sömu. Eitt fyrsta baráttumálið var að fá íslensk stjórnvöld til að skrifa undir Bernarsáttmálann um höfundarrétt. Síðan nauðsynleg lög voru sett hefur baráttan gengið út á að fá þeim framfylgt, og sú barátta mun væntanlega seint eiga sér endi. Sama má segja um baráttuna fyrir listmennt, þó að hún hafi nú getið af sér Listaháskólann, meðal margs ann- ars. Upp á síðkastið höfum við beint sjónum okkar að útrás listanna, til að opna gáttir fyrir íslenska listamenn á erlendri grund. Opinber stuðningur við listir í landinu hefur frá upphafi verið eitt meginmál bandalagsins. Sá stuðningur hófst sem handahófskenndur styrkur alþingis við einstaka listamenn, síðan komu lista- mannalaun, sem ollu árvissum deilum, því sitt sýndist hverjum, en listamannalaunin voru þó vissulega skref í rétta átt. Árið 1991 voru fyrst sett lög um starfslaun listamanna, og var það kerfi mjög til bóta, en hefur því miður ekki verið hagrætt síðan 1996. Ráðamenn hafa viðurkennt að nú sé kominn tími á úrbætur, og listamenn bíða í ofvæni eftir fréttum af þeim lagabreytingum, sem vonandi verða afgreiddar á alþingi í vetur. Í þeim felst prófsteinninn á metnað landsstjórn- arinnar, á þá sýn sem hún hefur fyrir framtíð lista í landinu. Á Íslandi er sá háttur hafður á að arður af get- raunum og lottói rennur allur til íþróttamála. Annars staðar, t.d. á Bretlandi, rennur stór hluti þessa arðs til lista og menningarmála. Okkur hef- ur verið tjáð að það þýði ekki einu sinni að orða breytingar á kerfinu, íþróttirnar muni um eilífð sitja að þessum kjötkatli. Fallist maður á það, ætti að vera ljóst hve mikilvægt er að auka veru- lega við starfsstyrki listamanna. Listamenn, og þá einkum þeir sem starfa sjálfstætt að list sinni, hafa yfirleitt ekki í önnur hús að venda. Á miðjum fjórða áratugnum nefndi Jón Leifs fyrst hugmyndina að Listráði Íslands. Því hefur enn ekki verið komið á fót, en í rauninni þjónar stjórn BÍL hlutverki „listráðs“ að nokkru leyti. Við höfum samstarf við ríki og borg um marg- vísleg mál sem tengjast listum, bæði er leitað til okkar um faglega ráðgjöf og um tilnefningar í ráð og nefndir. Þessu hlutverki mun Bandalag ís- lenskra listamanna sinna af kostgæfni enn sem fyrr. Bandalagið áttrætt 2 LAUGARDAGUR 6. SEPTEMBER 2008 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Önnu Kristínu Jónsdóttur anna.kristin.jonsdottir@gmail.com H eimurinn allur hefur fylgst með flokksþingum banda- rísku stjórnmálaflokk- anna undanfarnar vikur. Fjölmiðlarnir sjá til þess að þau hafa varla farið fram hjá nokkrum manni. Álitsgjafarnir og kjaftaskarnir liggja yfir ræðum frambjóð- endanna. Rýnt er í fasið, fötin, sviðsmynd- ina, áherslurnar og flutning ræðumanna. Á erlendum fréttastöðvum er gjarna kallað til fólk sem er sérfrótt um líkamstjáningu og stöðu. Sérfræðingarnir fara yfir myndskeið af ræðumönnum og leita að duldum skila- boðum. Þau má lesa úr því hvort menn standa traustir í báða fætur, brosa eða eru ábúðarmiklir, hvað þá ef þeir lyfta höndum eða krossleggja. Dýpri merking fundin og lagt út af á ýmsa vegu. Klisjan um að mynd segi meira en þúsund orð sjaldan meira not- uð en í slíkum útleggingum. En þegar greina á ræðurnar og innihaldið getur verið gott að grípa til tækis sem kalla má áróð- urs- eða skrummæli. Stjórnmálamenn vilja sjaldnast gangast við því að þeir reki áróður, það þykir nei- kvætt. Sómakærir blaðamenn vilja síður viðurkenna að með frásögnum af viðburð- um á borð við flokksþingin nýafstöðnu sé verið að breiða út áróður. Fátt sárnar þeim meira en ásakanir um að fjölmiðlarnir séu bara handbendi stjórnmálamaskínu. Sam- kundum á borð við flokksþingin má samt líkja við leikrit eða tónverk. Mikið er lagt upp úr umgjörð og byggingu. Ræðumönn- um er raðað upp, ræður þeirra skoðaðar og samþykktar – gott ef ekki skrifaðar af þeim sem kallaðir hafa verið spunameistarar í seinni tíð. Allt nær svo hápunkti í ávarpi hins útvalda frambjóðanda á lokadegi. Út skulu streyma innblásnir flokksmenn sem tryggi svo fullnaðarsigur í kosningunum. Umfjöllunin og fjölmiðlaathyglin gefa líka frambjóðendum tækifæri til að komast að kjósendum í gegnum sjónvarp, útvarp og blöð. Kynna stefnu sína, ekki reka áróður. Því orðið áróður hefur neikvæðan blæ, grunsemdir um blekkingar og yfirdreps- skap fylgja tali um áróður. Menn segjast ekki hrífast af áróðri frekar en auglýs- ingum. Flest segjumst við velja okkur flokk og forystu út frá málefnum. Sussu, sussu, ekki áróðri. En ef við viljum þekkja áróður þegar við hittum hann fyrir er ágætt að kynnast þessu fína tæki, skrummælinum sem blaðamaðurinn Roy Clark gerir grein fyrir á heimasíðu Poynter-stofnunarinnar. Clark byggir skrummælinn á gömlum pésa sem gefinn var út milli stríða í Bandaríkj- unum af stofnun sem helguð var rann- sóknum á áróðri. Viðfangsefnin þá næg og hafa ekki þorrið síðan. Skrummælirinn byggist á merkjum, sem hafa skal í huga þegar hlustað er á ræður. Verði menn varir við eitthvað eða allt af því sem tíundað er í skrummælinum þá er viss- ara að vara sig á innihaldinu. Vísbendingarnar eru sjö og fyrst eru það uppnefni eða föst viðurnefni sem gera lítið úr andstæðingi. Andstæðingurinn er sjald- an nefndur án þess að hengja við hann ein- kunn sem dregur úr getu hans til að hafa skoðun á málum. Þá er næst að telja leiftrandi alhæfingar sem byggjast á gildum sem ekki er nokkur leið að vera á móti. Hjartnæmar frásagnir um mikilvægi móðurástarinnar og öryggi í bernsku ættu að klingja bjöllum. Stílbragði á borð við flutning eða yfir- færslu má reyndar bæði beita til þess að baða sig í ljóma genginna hetja eða tengja andstæðinga við fyrirbæri sem hafa nei- kvæðan blæ. Þeir eru víst ekki margir frambjóðendur demókrata sem ekki nefna nafn Johns F. Kennedys einhvern tíma í ræðu og glósur repúblikana um keisaralegt sviðið í Denver áttu ábyggilega að vekja hugrenningar um valdafýsn í Róm til forna. Vitnisburður eða stuðningsyfirlýsingar frægra og þekktra einstaklinga virka á svipuðum nótum. Endurskinið af annarra frægð eða getu skiptir máli. Alþýðleika getur verið ástæða til að var- ast. Vísunum í eldhúsborðið heima og mat- inn hennar mömmu beitt til að benda á að þrátt fyrir að hinn útvaldi frambjóðandi sé hámenntaður og forríkur, þá sé hann nú samt maður fólksins, ástríkur sonur, faðir, dóttir, móðir, einn af ykkur. Rekist menn á yfirþyrmandi upptaln- ingar þar sem allt styður sömu niðurstöðu, þá ætti að læðast að grunur um að á ferð- inni sé hálfsannleikur eða óhrekjandi lygi og loks er það fjöldahreyfingin þar sem vís- að er til vilja fólksins og kalls tímans eftir breytingu. Blaðamönnum og öðrum er hollt að muna að áróður spilar á tilfinningar. Merki, fánar, hundar, börn, társtokknir stuðningsmenn, látnir ættingjar, slagorð og tónlist – öllu þessu er ætlað að höfða til tilfinninga segir Clark. Það er blaðamananna að hjálpa borgurunum að finna jafnvægi milli ástríðu og skynsemi og þess vegna verða þeir að gæta þess að tilfinningaöldurnar hrífi þá ekki með. Skrummælirinn! Reuters Skrum Blaðamaðurinn Roy Clark hefur komið sér upp skrummæli sem, eins og nafnið gefur til kynn, mælir hversu mikið skrum pólitíkusar fara með. FJÖLMIÐLAR » Alþýðleika getur verið ástæða til að varast. Vís- unum í eldhúsborðið heima og matinn hennar mömmu beitt til að benda á að þrátt fyrir að hinn útvaldi fram- bjóðandi sé hámenntaður og forríkur, þá sé hann nú samt maður fólksins, ástríkur sonur, faðir, dóttir, móðir, einn af ykkur. Flestir eyða ævinni í leit að hamingju og tilgangi en með misjöfnum árangri. Allir vilja finna til frelsis, vera sjálfsöruggir og fullir af lífi og orku. Á námskeiðinu verður fjallað um aðferð sem getur gert þennan draum að veruleika, aðferð sem notuð er af fjölda manns víðs vegar um heim. Leiðbeinandi er Pétur Guðjónsson, höfundur marga bóka, m.a. „Bókin um hamingjuna“, „Að lifa er list“. Þetta ferli hentar öflugum einstaklingum sem sætta sig ekki við meðalmennsku og vilja láta gott af sér leiða. Kynningarnámskeið um aðalatriði lífsins Staður: Grand Hotel Stund: Fim. 11. sept. kl. 20-23. Verð: 2.500 kr. innifalið kaffi og meðlæti Áhugasamir bóki þátttöku á petur@islandia.is Lesbók Morgunblaðsins Hádegismóum 2, 110 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Ritstjórnarfulltrúi Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýsingar sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.