Lesbók Morgunblaðsins - 06.09.2008, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 06.09.2008, Blaðsíða 10
10 LAUGARDAGUR 6. SEPTEMBER 2008 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Geir Svansson geir23@simnet.is H eildarútgáfa á verkum Stein- ars Sigurjónssonar er bók- menntaviðburður ársins, að minnsta kosti. Fjarvera út- kominna bóka eftir Steinar Sigurjónsson, og reyndar fleiri íslenskra höfunda, í hillum íslenskra bókabúða og jafnvel bókasafna, segir sína sögu um íslenska bókmenntakerfið og kanónuna svokölluðu, viðurkenndu meistaraverkin. Það er auðvitað allt í himnalagi að öllum höfundum sé ekki hleypt inn í hlýju kanónunnar en huga verður að þeim höfundum sem hafa markað djúp spor í íslenskar bókmenntir og menningu, þrátt fyrir að sölutölur bendi ekki til þess. Útgáfusaga ritsafnsins er annars stór- merkileg. Fram til þessa hafa stóru útgáfurn- ar á Íslandi ekki sýnt mikinn áhuga á því að standa að endurútgáfu á verkum Steinars. Það þurfti til hugsjónaútgáfu sem ekki leggur allt í metsölurnar. Frágangurinn á öskjunum og bókunum sjálfum er óvenjulegur, hæfilega hrár, laus við tilgerð og nýtur hönnunin frelsis smæðar og hugsjónarinnar. Það hefði ekki hvaða útgáfa sem er látið telja sig á að gefa út heildarverkið, í tveimur tugum bóka. Það þarf til útgáfur eins og Ormstungu en mikilvægi þess fyrirtækis eykst með hverju árinu, með útgáfu bóka sem hafa samtímanum eitthvað að segja. Heildarútgáfan er í tveimur öskjum sem hvor um sig geymir tíu bækur og því verkið tuttugu bækur samtals. Menningarsjóður Margrétar Björgólfsdóttur fjármagnaði útgáf- una og verkefnið hlaut styrk úr Menning- arsjóði. Hljóðdiskar með lestri Karls Guð- mundssonar fylgja bókunum Farðu burt skuggi og Blandað í svartan dauðann. Átján bókanna geyma texta Steinars, smá- sögur, skáldsögur, ljóð, leikrit, bréf. Ein geymir umsagnir vina og samtíðarmanna um Steinar, líferni hans og list en tuttugasta bókin er ritgerð ritstjóra verksins, Eiríks Guð- mundssonar. Flestir texta skáldsins eru nú gefnir út í endurskoðaðri útgáfu rithöfund- arins en Steinar var sífellt að endurskrifa og laga textana sína. Örlætisútgáfa Steinarsfélagið á þakkir skildar fyrir einbeitni sína og þolinmæði en það hefur unnið að verk- efninu í fjölmörg ár. Það er á engan hallað þótt sérstaklega sé minnst á forystumanninn, Magnús Pálsson, myndlistarmann, vin Stein- ars, en trú hans á verkefnið, elja og ást hefur heldur betur skilað sér í frábærri afurð. Það eykur gildi útgáfunnar að kápurnar eru skreyttar myndlist eftir suma af þekktustu myndlistarmönnum Íslands og erlenda vini Steinars. Þótt hver kápa sé ólík öðrum og ann- að hvort um teikningar, myndverk eða ljós- mynd að ræða þá er samt eins og hver mynd hæfi sinni bók og innihaldinu. Þess má geta að Erró gaf 175 árituð sáldþrykk af kápumynd- inni á annarri öskjunni til styrktar útgáfunni. Örlæti hlýtur að vera einkunnarorð útgáf- unnar. Tengsl Steinars við myndlistarmenn eru annars forvitnileg. Hann átti marga vini úr þeirra hópi og það er eins og textar hans hafi átt eitthvað sameiginlegt með myndlistinni. Eru það átökin við veruleikann (og verundina) sem þarna er á ferðinni? Utangarðsmódernismi Bók ritstjórans, Eiríks Guðmundssonar, ber titilinn Nóttin samin í svefni og vöku: Um skáldskap Steinars Sigurjónssonar. Eiríkur var sannarlega réttur maður á réttum stað fyr- ir útgáfuna. Texti hann og greining varpar fróðlegu ljósi á Steinars, skrif hans og líf. Pæl- ingar Eiríks og samantekt hans á greiningu annarra bókmenntafræðinga og samtíma- manna á Steinari hlýtur að verða upphafið að frekari rannsóknum á þessum utangarðs- manni íslenskra bókmennta. Eiríkur rennir styrkum stoðum undir þá skoðun að Steinar hafi verið módernisti í skrif- um sínum og hefur meðal annarra Ástráð Ey- steinsson fyrir því. Það er ekki laust við tilvist- arangist þótt höfundur dragi ósjaldan fjöður yfir hana. Eiríkur bendir á að skáldsagan Farðu burt skuggi sé öðru fremur tilvistarlegt verk – ég velti því fyrir mér hvort það eigi hreinlega ekki við um öll hans verk, með einum eða öðrum hætti? Þetta á ekki bara við um prósann. Mörg leikverkana eru brennd marki fáránleikhúss og blanda saman tilvistarpælingum, íróníu en líka lágværum húmor. Spurður, í sambandi við leiktextann Jökulinn, um hvað hann vildi helst skrifa sagði hann: „Helst ekki neitt“ – Ionesco og fleiri höfundar fáránleikhússins hefðu ekki geta orðað þetta betur – Neindin er grunn- atriði í tilvistarhyggjunni. Leikrit Steinars sem birtast nú í fyrsta sinn á prenti eru allrar athygli verð. Aðeins þrjú leikrita hans voru flutt í útvarpi og eitt á sviði: Börn Lírs. Goðsögnin um manninn Steinar Sigurjónsson var alla tíð umdeildur höfundur. Eins og Eiríkur bendir á þá fór það fram hjá flestum samtímamönnum Steinars hvað hann var magnaður rithöfundur: „Eftir glæsilega byrjun og áframhald á sjöunda ára- tugnum, sem setti Steinar í fremstu röð ís- lenskra höfunda, þótt fáir tækju eftir því, tek- ur hann að skrifa verk sem ýta honum enn lengra út á jaðarinn.“ Með þessu, segir Eiríkur, „hafði Steinar lagt umfangsmikinn skerf til […] blómaskeiðs í ís- lenskri skáldsagnagerð [módernismans]“. En það tóku fáir eða engir til þess. Eiríkur hefur eftir Þorsteini Antonssyni, rithöfundi, að Steinn hafi verið „utangarðsmaður meðal ís- lensks bókmenntafólks sem sótt hefur sitt til afdala fremur en útnesja.“ Þorsteinn kallar hann ennfremur leiksopp „mannlífs sem vildi hann ekki.“ Þorsteinn tekur sterkt til orða og hleður undir goðsögnina um manninn en vísast eru í þessum orðum sannleikskorn. Nauðsynleg óregla Eiríkur kallar til annað vitni, Einar Guð- mundsson, sem lýsir í bók sinni Eitthvað ann- að. Hugrenningabók, stöðu Bugða Beygluson- ar eða Steinars á þennan hátt: „Bugði Beygluson var utangarðs í íslenzk- um bókmenntaheimi, þótt sagður væri hann eiga þar pláss á innsta skáldabekk. Af honum fór slíkt óregluorð, að undir hann var aldrei neitt púkkað og bækur hans urðu aldrei tízku- fyrirbrigði; var hann útgefandi tímaritsins „Óregla“ sem aðeins örfáum var kunnugt um.“ Þessar lýsingar draga upp mynd af rithöf- undi í útlegð, segir Eiríkur, sem hélt áfram að skrifa og gat ekki annað þrátt fyrir mótlæti og skilningsleysi (og kannski vegna þess?). Ýmsir hafa í gegnum tíðina gert sér grein fyrir mikilvægi Steinars í íslenskum bók- menntum. Í bók Eiríks er fróðlegt að lesa mat bókmenntafræðinga, vina og annarra rithöf- unda um Steinar. Meðal þeirra má nefna Njörð P. Njarðvík, Sigurð A. Magnússon, Ein- ar Kárason, Guðberg Bergsson, Þorstein Ant- onsson, Einar Guðmundsson, Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur, Jón Proppé, Þröst Helgason, Ástráð Eysteinsson og Matthías Viðar Sæ- mundsson. Tveir þeir síðastnefndu hafa skrif- að ítarlegar bókmenntagreinar um Steinar. Hinn algeri hrollur Steinar var sem sagt í stöðugri baráttu við óreiðuna, kaósið, veruleikann og verundina – ófreskju sem hann kallar líka „frumskrímslið“. Í Djúpinu slær hann Nietzsche við í átökum við það kynjadýr: Ég horfi inn í hinn algera hroll! Ég kyssi ófreskjuna. Kvað vill ófreskjan? Vill hún kyssa mig? Ég vildi að svo væri. Ég vil koss. Já, ófreskja, þú mátt horfa á mig þess vegna: Ég elska þig. Hafið horfir í augað. Svo grípur það huga minn á flugi í dyrum augans. Augað fyllist lífsnautn. Ég er svo margir! Er ég fallegastur? [ Djúpið, s. 16] Djúpið er einn af tindunum í höfundarverki Steinars Sigurjónssonar sem rísa upp úr haf- inu. Steinar er einn fárra íslenskra rithöfunda og þótt víðar væri leitað, sem hafa horfst í augu við djúpið, hina óskilgreindu ver-und. Og hann víkur sér ekki undan þegar djúpið horfir til baka og skirrist ekki við að horfa „inn í hinn algera hroll! Ég kyssi ófreskjuna.“ Djúpið er eins konar samantekt á verki (og lífi?) Steinars. Hann er í þessari ljóðrænu skáldsögu í meira návígi en nokkru sinni við verundina sem hann var sífellt að glíma við. Og hafið er lykilatriði og leiðarstef í verkum Steinars. Hvernig átti annað að vera fyrir mann sem ungur „drukknaði“, sjö eða átta ára í fjörunni á Snæfellsnesi? Hann var alltaf þeg- ar drukknaður, drukkinn af lífinu. Eiríkur var- ar við því en hvernig er annað hægt en að taka (og ýta) undir goðsögnina um Steinar? Í Djúpinu ferðumst við inn í (úr) kynjaver- öld, sem gæti verið súrrealískt kjörlendi ófreskjunnar Maldorors (Lautréamonts greifa). Við erum stödd í rými sem er í senn al- gott og alvont, svæði sem fellur utan við tvenndarkerfi góðs og ills, utan allrar siðfræði og siðferðis. Er nema von að fagurfræði Stein- ars hafi verið mörgum um megn. Fegurðin Það er ástæða til að gefa Eiríki ritstjóra loka- orðið en hann heldur því fram að listamað- urinn Steinar hafi tilheyrt „liðnum tíma, í augum okkar og minningum er hann tákn um skáldskapinn á tímum sem þoldu engan skáldskap, en ólu samt af sér skáld og lista- menn sem voru tilbúnir að færa okkur sann- indi lífsins í formi skáldskapar. Steinar fellur vel að þessari mýtu, og ýtti líklega undir hana sjálfur í lífi sínu og list. Sennilega hefur hann trúað því að skáldskapurinn gæti gert hann fagran.“ Sá fallegasti Ég kyssi ófreskjuna Steinar er einn fárra íslenskra rithöfunda og þótt víðar væri leitað, sem hafa horfst í augu við djúpið, hina óskilgreindu ver-und. Og hann víkur sér ekki undan þegar djúpið horfir til baka og skirrist ekki við að horfa „inn í hinn algera hrol1! Ég kyssi ófreskjuna.“ Í marsmánuði síðastliðnum, þann níunda þess mánaðar þegar Steinar Sigurjónsson rithöfundur hefði orðið áttræður, kom út hjá Ormstungu, bókaútgáfu, heildarritverk höfundarins í rit- stjórn Eiríks Guðmundssonar, rithöfundar og útvarpsmanns. Bækurnar eru gefnar út að tilhlutan Steinarsfélagsins, hóps vina, áhugamanna og hugsjónafólks sem þótti löngu tímabært að verk Steinars, sem hafa verið ófáanleg um árabil, yrðu end- urútgefin. Enda um að ræða einn allra áhugaverðasta rithöf- und íslenskra bókmennta. Hér er rýnt í útgáfuna. Höfundur er bókmenntafræðingur. » Í Djúpinu ferðumst við inn í (úr) kynjaveröld, sem gæti verið súrrealískt kjörlendi ófreskjunnar Maldorors (Laut- réamonts greifa). Við erum stödd í rými sem er í senn al- gott og alvont, svæði sem fellur utan við tvenndarkerfi góðs og ills, utan allrar siðfræði og sið- ferðis. Er nema von að fag- urfræði Steinars hafi verið mörgum um megn.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.