Lesbók Morgunblaðsins - 06.09.2008, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 06.09.2008, Blaðsíða 3
Eftir Þröst Helgason throstur@mbl.is Þ egar ég var tólf eða þrettán fékk ég Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness lánaða úr bókaskáp föður míns. Mér þótti þetta ansi þykk bók en pabbi hafði talað þannig um hana að mig langaði til að skoða hana. Næstu daga lá ég uppi í rúmi og las. Þegar ég skilaði bókinni hafði faðir minn einhverjar efasemdir um að ég hefði klárað bókina. Hann spurði mig út úr. Ég stóðst prófið. Ég man að síðasta spurningin var: Hvað hét hundur Bjarts? Ég svaraði: Títla. Ég hafði gleypt í mig bókina. Nokkru seinna réðst ég til atlögu við Heims- ljós. Það gekk ekki jafn vel. Að vísu virtist hún byrja ágætlega en smámsaman fjaraði áhug- inn út. Aftur og aftur byrjaði ég á þessari bók en mér tókst ekki að klára fyrr en löngu seinna, eiginlega tilneyddur. Ég hef aldrei náð sambandi við Heimsljós, þótt ég átti mig á gildi verksins. Mér leiðist einfaldlega lesturinn. Of stór skammtur af snilld Halldór Laxness var nefndur oftar en ég bjóst við þegar ég hafði samband við nokkra gagn- rýnendur og rithöfunda og bað þá um að nefna klassískt bókmenntaverk sem þeim hefði þótt leiðinlegt að lesa. Kristnihald undir Jökli var nefnt, Íslandsklukkan og Sjálfstætt fólk. Um síðastnefndu bókina sagði rithöfundur sem vill ekki láta nafns síns getið: „Of stór og yfirþyrmandi skammtur af snilld.“ Hann bætir við að verkið sé jafn fullt af orðkynngi og bók- menntir eigi að vera, og það sama megi segja um þýðingar Gunnars Gunnarssonar á eigin verkum, en hjá Gunnari verði orðkynngin klunnaleg. Stílfyllirí meistara Þórbergs Það hefur auðvitað tíðkast svo lengi sem menn muna að taka meistarana af stalli. Meistari Þórbergur fær að finna fyrir því hjá öðrum rit- höfundi sem segir: „Sennilega er Bréf til Láru ofmetnasta bók 20. aldar á Íslandi. Hún er í raun hvorki fugl né fiskur þegar búið er að flysja af henni stíllegu tilþrifin. Áróðursrit sem var smyglað bakdyramegin inn í bókmennta- söguna þar sem því var breytt í framsækna skáldsögu. Þetta er vaðall, fyndinn á köflum, en hefur reynst okkur dýrkeyptur, því margir íslenskir rithöfundar hafa síðan ætlað á álíka stílfyllerí, æft sig og keppt í stíl eins og grinda- hlaupi, í von um að hreppa silfur í Stokkhólmi, en vaknað bæði timbraðir og medalíulausir í eigin verki. Þórbergur varð miklu betri löngu seinna, en þá var hann líka kominn út á tún og í þann búning endurminninga og héraðs- bókmennta sem hæfði honum. Mér leiðist þessi bók.“ Tíðarandinn breytist Á sínum tíma var Bréf til Láru eins konar tíð- arandabók, hún var skrifuð inn í samtíma sinn, tók á deiluefnum hans, straumum og stefnum. Lesendur hafa fjarlægst áhugamál höfund- arins með tíð og tíma, en bókinni hefur verið haldið á lofti vegna stílgaldurs og bókmennta- sögulegs mikilvægis, sem er reyndar umdeilt. Þetta á við um fleiri verk. Vefarinn mikli frá Kasmír er eitt af gölluðustu verkum Halldórs Laxness en það hefur þótt mikilvægt og stund- um jafnvel gott vegna þess að það veitir innsýn í þróun höfundarins og virðist, að sumra mati, marka upphafið að íslenskum módernisma. Engin þeirra bóka sem oftast eru kenndar við módernisma og taldar erfiðar og flóknar af- lestrar var hins vegar nefnd í hinni óformlegu könnun um leiðigjarna klassík. Þar er ég að tala um skáldsögur eins og Fljótt, fljótt sagði fuglinn eftir Thor Vilhjálmsson, Tómas Jóns- son. Metsölubók eftir Guðberg Bergsson, Leigjandann eftir Svövu Jakobsdóttur og fleiri bækur frá sjöunda og áttunda áratugnum. Allt eru þetta bækur sem þar að auki lýsa tíð- aranda, en munurinn er sá að þær lifðu hann, hafa þýðingu utan samhengis ritunartímans. Þetta á ekki við um Svarta messu eftir Jó- hannes Helga og Borgarlíf eftir Ingimar Er- lend Sigurðsson, að mati Árna Matthíassonar, en þær komu út á sjöunda áratugnum. Árni segir: „Kannski fannst einhverjum þeim sem fylgdust með bókmenntum á sjöunda áratugn- um sem vatnaskil hefðu orðið 1965 þegar út komu tvær umtalaðar bækur; Borgarlíf eftir Ingimar Erlend Sigurðsson og Svört messa eftir Jóhannes Helga. Við nánari skoðun kemur þó annað í ljós; þessar bækur sem taldar eru merkilegar í bók- menntasögulegu tilliti eru nauðaómerkilegar að öllu öðru leyti, sú fyrri klasturslega skrif- aður texti þar sem þess er hefnt í héraði sem hallaðist á þingi og hin tilgerðar- og mæðuleg þvæla.“ Rembingur Steins Steinars Fáir nefndu ljóðlist sem þeim þótti leiðinleg. Sjálfur hef ég alltaf átt svolítið erfitt með Ein- ar Benediktsson, kannski einmitt af þeirri ástæðu að textinn er fullur af yfirgengilegri snilld, hvert ljóð nánast eins og það síðasta sem nokkru sinni verði ort. Bragi Ólafsson rithöfundur getur hins vegar ekki orða bundist yfir Tímanum og vatninu, einu mest lofaða ljóði sem ort var á íslensku á síðustu öld. Bragi segir: „Ef Tíminn og vatnið eftir Stein Steinarr flokkast sem íslensk klass- ík, þá hefur mér alltaf fundist það ljóð vera fremur stirt og þvingað. Það eru í því alveg hreint skínandi myndir, en ég fæ alltaf á til- finninguna við lestur þess að ljóðstafirnir ráði óþarflega miklu í orðavali, og að Steinn hafi á einhvern hátt verið að rembast of mikið. Sum- ar myndir ljóðsins eru þess eðlis að manni dettur helst í hug að hið meitlaða og nákvæma skáld Steinn Steinarr hafi brugðið sér frá og látið einhvern annan um að klambra þeim sam- an. Dæmi: „Og tunglskin hverfleikans/tollir við hendur mínar/ eins og límkenndur vökvi/ verðandinnar.“ „Eins og naglblá hönd/rís hin neikvæða játun/ upp úr nálægð fjarlægð- arinnar.“ „Eins og blóðjárnaðir hestar/hverfa bláfextar hugsanir mínar/inn um bakdyr eilífð- arinnar.“ Þetta er á afar gráu svæði, það er engu líkara en að Steinn sé að grínast, annað hvort að sjálfum sér eða öðrum ljóðskáldum! Og kannski var hann að því. Bestu ljóð Steins einkennast af áreynsluleysi, og fínstilltri og lúmskri ljóðrænu; jafnvel ljóð sem á yfirborð- inu líta út fyrir að hafa verið ort á fimm mín- útum, og jafnvel undir áhrifum áfengis, ljóð á borð við Þriðja bréf Páls postula til Korintu- manna eða Hudson Bay, eru að mínu viti meiri skáldskapur en Tíminn og vatnið.“ 101 Reykjavík? Það voru sömuleiðis fáir sem nefndu verk sem komið hafa út á síðustu tuttugu árum. Nálægð- in fær Íslendinga alltaf til að skjálfa. En við gætum auðvitað velt því fyrir okkur hvaða verk, sem eru að koma út nú um stundir og njóta vinsælda og viðurkenningar, eigi eftir að svæfa lesendur sína eftir tuttugu ár. Ef marka má það sem hér hefur komið fram og svipaða könnun meðal breskra rithöfunda og gagnrýnenda, sem birt var í menningar- tímariti Sunday Times fyrir stuttu, þá eru það ekki byltingarkenndu verkin, þau sem les- endum þykir hvað erfiðast að komast í gegnum og skilja, sem eiga eftir að svæfa lesendur sína heldur þau sem eru markvisst skrifuð inn í tísku tímans. Höfundur greinarinnar í Sunday Times, Rod Liddle, nefnir White Teeth eftir Zadie Smith. Við gætum kannski nefnt 101 Reykjavík eftir Hallgrím Helgason. Leiðinlegasta klassíkin Morgunblaðið/Kristinn Sumar bækur verður maður að hafa lesið, þær eru klassískar og sífelldlega vitnað til þeirra í almennum umræðum. En sumar klassískar bækur eru ekkert sérstaklega skemmtilegar. Sumar þeirra eru ofmetnar. Sumar þeirra eru börn síns tíma. Greinarhöf- undur fékk nokkra rithöfunda og gagnrýn- endur til þess að svara spurningunni: Hvaða klassíska íslenska bókmenntaverk hefur þér leiðst að lesa? MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 6. SEPTEMBER 2008 3 Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu Brekkukotsannáll eftir Halldór Laxness Brekkukotsannáll Halldórs Laxness hefur mér löngum þótt nánast óbærilega leiðinleg lesning. Samt hef ég lesið bókina þó nokkuð oft til enda, fjórum eða fimm sinnum. Senni- lega er ég í hvert sinn að bíða eftir að hún skáni. Reyndar get ég sagt nokkurn veginn það sama um Vefarann mikla frá Kasmír, sem er svo leiðinleg og kjánaleg bók að maður botn- ar ekkert í að einhver hafi getað tekið hana hátíðlega, nema þá bókmenntahneigðir strákar með leynda minnimáttarkennd. Ekkert í Brekkukotsannáli er ekta, hvorki persónur né stíll. Það sem heldur mér við lesturinn í hvert sinn er undrun vegna þess hversu auðveldlega höfundur festir sig í botn- lausri tilgerð og hversu lítinn áhuga hann virðist hafa á að losa sig undan henni. Honum hefur líklega þótt þetta mjög gott hjá sér. Það er ekki einn hreinn tónn í þessu verki. Það er falskt út í gegn. Soffía Auður Birgisdóttir, bókmenntagagnrýnandi við Morgunblaðið Sögur Rann- veigar eftir Einar Kvaran Í bókmenntanáminu í Háskóla Íslands vorum við látin lesa skáldsöguna Sögur Rann- veigar eftir Einar Kvaran sem ég minnist með hrolli. Satt að segja er innihald bókarinnar mér lítt minnisstætt að öðru leyti en því að einhver mikill siðferðisþungi hvíldi í verkinu ásamt kvenpersónu sem var mig lifandi að drepa með fórnfýsi sinni. Þetta þótti karlkyns- kennaranum okkar hins vegar að öllum líkindum fínar bókmenntir en mér þótti hún ein- faldlega þrautleiðinleg. Einari Kvaran er þó ekki alls varnað eins og hin fína smásaga hans „Vonir“ sannar. Jón Ólafsson, prófessor við Bifröst Don Kíkóti eftir Cervantes Sumar bækur eru þannig að maður lifir með þeim alla ævi án þess að lesa þær. Kannski ætlar maður að lesa þær en kemur því ekki í verk , kannski byrjar maður á þeim en gefst upp. Don Kíkóti er þannig bók. Hún hefur staðið í hillunni frá því að ég man eftir mér, hand- hæg pappírskilja, ensk þýðing. Ég hef oft tekið hana upp og byrjað að lesa en athgylin hefur gufað upp. Bókin er svo leiðinleg... Ég hef líka byrjað á sögunni í þýðingu Guðbergs Bergssonar, rithöfundarins. En þá hefur mér fundist hún vera yfirlætisfullur og tilgerð- arlegur texti, ofan á leiðindin. Það er skammarlegt að segja frá þessu. Guðbergur dáður rithöfundur og Cervantes einn hinna stóru. En það koma yfir mig botnlaus leiðindi við það eitt að heyra Don Kíkóta nefndan og jafnvel þó að það sé bara Pancho. Ekki einn hreinn tónn í Brekkukotsannáli » Þetta er vaðall, fyndinn á köflum, en hefur reynst okkur dýrkeyptur, því margir íslenskir rithöfundar hafa síð- an ætlað á álíka stílfyllerí … Svæfandi klassík Skyldi 101 Reykjavík eiga eftir að svæfa lesendur framtíðarinnar?

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.