Fréttablaðið - 21.04.2009, Blaðsíða 22
4
Skjaldborgin um skuldirnar
LEIÐARI
eftir Birki Jón Jónsson,
varaformann Framsóknarflokksins
Aðgerðir í stað
málalenginga
Útgefandi: Framsóknarflokkurinn
Ritstjóri: Jón Kristjánsson
Ábyrgðarmaður: Sigfús Ingi Sigfússon
Hönnun og umbrot: Birgir Þór Harðarson
Dreifing: Dreift til allra heimila á landinu
Hverfisgötu 33, 101 Reykjavík
www.framsokn.is
ORÐ Í TÍMA TÖLUÐ
Guðmundur Steingrímsson skrifar:
H
eimilin eru hvert af öðru að fara í greiðsluþrot og átján
þúsund manns eru án atvinnu í landinu. Hundruð fyrir-
tækja verða gjaldþrota í hverjum mánuði. Innflutninghöft
eru við lýði og íslenska krónan er ónýtur gjaldmiðill. Ríkissjóður á
við áður óþekktan hallarekstur að stríða vegna skuldastöðu þjóðar-
innar og aukinna útgjalda og minnkandi tekna vegna atvinnu-
ástandsins í landinu.
Meðan þetta ástand ríkir hefur þingið verið upptekið vikum saman
við málþóf Sjálfstæðisflokksins, í því skyni að koma í veg fyrir að
stjórnlagaþing verði haldið og fulltrúar þjóðarinnar verði kjörnir á
það. Einnig er tilgangurinn að koma í veg fyrir ákvæði um þjóðar-
atkvæði og eignarhald þjóðarinnar á auðlindum. Sjálfstæðismenn
hrósa nú sigri í þessu sérkennilega stríði.
Hins vegar hrópar almenningur á aðgerðir í stað málalenginga.
Hvernig á að koma hjólum atvinnulífsins til þess að snúast á ný?
Án þess að það gerist er tómt mál að tala um endurreisn fjárhags
heimilanna eða bærilega afkomu ríkissjóðs. Nú um stundir er
atvinnuleysistryggingasjóður stærsti launagreiðandi í landinu og
margvísleg fleiri útgjöld fyrir ríkissjóð fylgja þessu ástandi. Föndur
við skattlagningu er eins og dropi í hafið til þess að mæta þessu.
Stjórnarflokkarnir verða að skilja það að atvinnuuppbygging þolir
enga bið. Hvort sem það eru sprotafyrirtæki eða álver á Bakka við
Húsavík eða í Helguvík ber að leita allra ráða til þess að styðja við
slíka uppbyggingu.
Það þolir enga bið að móta nýja peningastefnu. Það þarf að nást
niðurstaða um það hvort mögulegt er að stefna að upptöku evru.
Það mál skýrist ekki án viðræðna við Evrópusambandið. Ef upp-
taka evrunnar er ekki möguleg þarf að leita annarra leiða.
Framsóknarmenn hafa lagt fram ítarlegar tillögur í efnahagsmálum,
kjarnann í þeim má sjá hér í blaðinu í dag, auk þess sem þær liggja
frammi á kosningaskrifstofum flokksins. Kjarninn í þeim er 20%
skuldaleiðrétting. Við þurfum á umsvifum að halda
til þess að örva atvinnu, auka tekjur bæði ein-
staklinga, fyrirtækja og ríkissjóðs. Allt þetta
verður að haldast í hendur.
Óvenjulegir tímar krefjast óvenjulegra
aðgerða og Framsóknarmenn hafa kjark til
þess að framkvæma slíkar aðgerðir.
Það er brýn nauðsyn að Framsóknar flokkurinn
hafi raunveruleg og áþreifanleg völd í
íslenskum stjórnmálum eftir
kosningar. Við erum fersk
og klár í slaginn. Fram til
sóknar, framsóknarmenn,
í þágu þjóðarinnar.
Í kosningabaráttunni sem nú er að
ljúka er það einkum eitt sem hefur
vakið sérstaka eftirtekt mína og eflaust
margra annarra, og það er hversu mjög
mörgum stjórnmálamönnum er í nöp
við að ljá máls á því að skuldastaða
íslenskra heimila og fyrirtækja verði
leiðrétt með almennri aðgerð.
Þetta er mjög merkilegt. Fyrir liggur
að í séríslensku verðtryggðu skulda-
fangelsi tóku allir Íslendingar, sem
skulda, á sig jafnmikið högg – hlutfalls-
lega – þegar banka- og gengishrunið
reið yfir þjóðina í október. Vandinn
er gríðarlegur. Fyrir liggur einnig að
erlendir kröfuhafar munu gera ráð fyrir
afskriftum af íslenskum lánum. Á því
byggist tillöguflutningur Framsóknar-
flokksins. Afskriftir erlendra kröfu-
hafa skulu renna til íslenskra skuldara.
Enginn kostnaður lendir á ríkinu, eins
og fjármálaráðherra og fleiri hafa kosið
að misskilja tillöguna.
Að því sögðu blasir spurningin við:
Hvers vegna vilja aðrir flokkar ekki
standa vörð um hagsmuni íslenskra
heimila og fyrirtækja í viðræðum við
erlenda kröfuhafa? Er þeim meira annt
um hagsmuni kröfuhafanna?
Af almennum aðgerðum
Raunar hefur Framsóknarflokkurinn
bent á að hagsmunum kröfuhafa yrði
líklega best borgið með almennum
afskriftum sem ganga jafnt yfir alla
skuldara. Efnahagslífið færi af stað,
neysla ykist, sem og fjárfestingar og
framkvæmdir. Þetta myndi gera það
að verkum að fleiri gætu á endanum
staðið í skilum.
Það er merkilegt hvað margir stjórn-
málamenn íslenskir telja þetta vera
undarlega hugmynd og tala jafnvel um
töfrabrögð í þessu sambandi. Hér er
engin brella á ferð. Almennar aðgerðir
til þess að halda hinni stóru vinnandi
millistétt á floti – aðgerðir til þess að
örva hagkerfið – eru vitaskuld hluti
af ákaflega sígildri hagfræði. Dæmin
blasa við, þótt við viljum stundum
gleyma þeim. Skattkerfið er nærtækast.
Þar tíðkast almenn prósentutala, sem
miðar að því halda bæði skilvirku hag-
kerfi gangandi og skila sem mestum
tekjum í ríkissjóð. Hin leiðin, í and-
stöðu við hina almennu, væri raunar
fjarstæðukennd: Að skatturinn færi
hús úr húsi og legði mat á það eftir
tilfellum hversu mikið fólk gæti greitt.
Það væri, ef svo má að orði komast,
alveg rosalega 1507.
Hættan sem við blasir
Á sama hátt telja Framsóknarmenn
það fjarstæðukennt að farið verði í af-
skriftir lána hjá sumum en öðrum ekki.
Hvað á að ráða því mati? Flestir skilja
vel þá hugmyndafræði sem liggur
að baki þeirri skoðun að hjálpa eigi
einungis þeim sem þurfa hjálp. Slík
hugmyndafræði er mjög viðeigandi og
einkar mikilvæg í góðæri. Þá er hættan
sú að sumir hópar dragist aftur úr. Í
kreppu hins vegar, svo ekki sé talað um
eftirleik efnahagshruns, þarf að hugsa
öðruvísi. Þá þarf að leita allra leiða til
þess að hin stóra vinnandi millistétt
í landinu sogist ekki niður í svarthol
stöðnunar, eignahruns og viðvarandi
atvinnuleysis. Ef það gerist verða okkur
allar bjargir bannaðar um langa hríð.
Og lítum nú á þá mynd sem við
blasir, ef lagðar eru saman aðgerðir
og tillögur ríkisstjórnarflokkanna í
efnahagsmálum undanfarið: Það á að
skera niður, hækka skatta, lækka laun
og bjóða upp á greiðsluaðlögun fyrir þá
sem geta sannað að þeir hafi það mjög
slæmt. Þá fá hinir sömu tilsjónarmenn.
Allt felur þetta í sér hvata í eina
átt: Fleiri fara á bætur (því annars er
engin aðstoð), eignir hrynja í verði,
fleiri skjóta undan skatti (því fólki
hegnist fyrir vinnusemina). Við þetta
missir ríkissjóður enn meiri tekjur, enn
meiri niðurskurður verður og atvinnu-
leysið verður enn meira. Undanskotin
undan skatti verða þá enn meiri og svo
koll af kolli. Þetta er sú yfirþyrmandi
hætta sem við blasir. Þetta er leiðin til
stöðnunar.
Gagnvart þessari dökku mynd halda
Framsóknarmenn á lofti sígildum
sannleik: Það verður að örva hagkerfið
í jákvæða átt. Skapa þarf fólki svigrúm
svo það geti með vinnusemi sinni og
dugnaði unnið sig út úr vanda sínum
og þjóðarinnar upp á eigin spýtur.
Einungis eftir að það hefur gerst, er
raunhæft að fara í aðgerðir til þess
auka tekjur ríkissjóðs með hærri skatt-
prósentu.
Hræðslan og tregðan
Hræðslan við að ræða í alvöru almenna
niðurfellingu skulda á Íslandi sprettur
tel ég af tveimur rótum: Annars vegar
virðast margir stjórnmálamenn haldnir
grunsamlegri og furðulegri vantrú á
að Íslendingar geti staðið fyrir máli
sínu gagnvart erlendum kröfuhöfum.
Af hverju sú vantrú stafar er rann-
sóknarefni eitt og sér. Framsóknarmenn
standa þó keikir og fullir sjálfstrausts
frammi fyrir því viðfangsefni og munu
taka á þeim viðræðum af festu fái þeir
umboð til.
Hins vegar ríkir skilningsleysi á
meðal íslenskra stjórnmálamanna
og því miður hagfræðinga á gildi
almennra, róttækra aðgerða í efnahags-
lífinu. Það er einnig rannsóknarefni.
Fátt er mikilvægara við stjórn efna-
hagsmála en að hafa skilning á slíkum
aðgerðum og kunna að ræða þær.
Hugsanlegt er að ótti og viðkæmni
gagnvart Evrópusambandinu í að-
draganda mögulegra aðildarviðræðna
geri það að verkum að sum stjórn-
málaöfl í landinu vilja helst ekkert gera
sem styggir útlendinga. Við skulum þó
vona að slíkar tilfinningar ráði ekki för
við stjórn efnahagsmála og séu valdar
að tregðunni sem hér hefur verið lýst
– tregðunni við að taka af festu og
áræðni á skuldastöðu þjóðarinnar.
Veruleikinn sem við blasir er þó í
öllu falli svartur: Á Íslandi rís ekki
um þessar mundir hin margboðaða
skjaldborg um heimilin, fyrirtækin og
framtíð þjóðarinnar, því miður. Hér
er að rísa, frammi fyrir augum okkar,
skjaldborgin um skuldirnar, hönnuð af
íslenskum stjórnmálamönnum, hverju
sem sætir. Íslendingar skulu borga upp
í topp. Hvað sem það kostar.
ENGAR BRELLUR Guðmundur Steingrímsson, frambjóðandi Framsóknarflokksins í
Norðvesturkjördæmi, vill leysa vanda heimilanna en segir aðra flokka standa vörð um hag
kröfuhafanna. MYND/GVA