Skinfaxi - 01.02.1993, Síða 5
Á nýju ári
í þessu 1. tölublaði Skinfaxa á nýju ári, er við hæfi
að óska lesendum gleðilegs nýs árs. Eins og ávallt er
nauðsynlegt við áramót að líta um öxl og skoða farinn
veg, en ekki síður að líta til nýja ársins og reyna að
ráða í hvað það muni bera í skauti sínu.
Eins og allir vita var á síðasta ári mikið rætt um
niðurskurð rfkisútgjalda. En slík umræða kom fram á
nokkrum liðum fjárlaganna, m.a. á fjárveitingum
ríkisins til UMFI og var framlag rikisins skorið niður
um 1 milljón króna frá fyrra ári. UMFÍ eru því ætlaðar
9,5 milljónir króna frá ríkinu á nýbyrjuðu ári. Verð ég
að segja það fyrir mig, að sú upphæð er ekki í nokkru
samræmi við starf hreyfingarinnar, umfang og gildi
starfseminnar fyrir land og þjóð. Ég tel það óheilla-
þróun að fjárveitingar til aðila sem stunda upp-
byggingarstarf, vinna fyrir börn og unglinga og leggja
á sig mikið sjálfboðastarf skuli lækka milli ára og held
ég að hugarfarsbreytingar sé þörf, þannig að meiri
áhersla og fjármagn verði lagt til fyrirbyggjandi starfa,
og þannig dregið úr þörfinni fyrir ,,viðhaldið,“ svo
sem spítalana, áfengishælin (sem heita víst ,,með-
ferðarstofnanir“) og fangelsin, að ekki sé minnst á
heimilin sjálf og einstaklingana. Eins og við vitum sem
störfum í ungmennafélögunum, er þar unnið mjög
mikilvægt fyrirbyggjandi starf í áfengis- og fíkni-
efnamálum, en nokkuð skortir á að það sé metið að
verðleikum og því komið á framfæri, eins og vert væri.
Almennt tel ég að ungmennafélögin og forystu-
menn þeirra hafi ekki sinnt kynningarstarfi nægilega
vel og alltof margir, raunar bæði innan og utan
hreyfingarinnar, geri sér enga grein fyrir því hve mikið
og nauðsynlegt starf hún vinnur. Vanþekking þessi er
engum að kenna nema okkur sjálfum og því okkar að
bæta þar úr. Ég held að auka verði verulega allt
upplýsingastreymi út á við um starfsemina, jafnt í
heimahéruðum, sem á vettvangi fjölmiðla sem hafa
dreifingu á landsvísu. Þetta held ég að sé nauðsynlegt
að hafa ofarlega í huga á nýbyrjuðu ári.
Nú, í byrjun árs, fékkst loks endanleg staðfesting
menntamálaráðherra á að aðalleikvangurinn á Laugar-
vatni yrði tilbúinn til að taka á móti 21. Landsmóti
UMFÍ árið 1994. Landsmótsnefnd sem HSK skipaði á
síðasta ári hefur starfað af kappi við undirbúning og
skipulagningu mótsins, enda hefst keppni strax í sumar
í knattspyrnu. Þá verða lágmörk fyrir keppni í frjáls-
fþróttum og sundi gefin út í vor. Af þessu má sjá að
nauðsynlegt er fyrir ungmennafélögin og héraðs-
samböndin að hefja nú þegar undirbúning sinn af
fullum krafti til að þátttakan verði sem mest og
glæsilegust í þessari stærstu íþróttahátíð sem haldin er
á íslandi.
Annar undirbúningur mótsins að hálfu lands-
mótsnefndar er í fullum gangi og veitir ekki af þar sem
hér er um mjög viðamikla framkvæmd að ræða og eru
mörg járn í eldinum í einu. Ljóst er að aðstaðan á
Laugarvatni verður mjög góð fyrir keppni og dvöl á
staðnum, og stefnir landsmótsnefndin markvisst að því
að mótið verði heildstætt, keppni í hverri grein fái
notið sín, og allir þátttakendur og gestir verði þátt-
takendur í heilbrigðri og skemmtilegri fjölskylduhátíð
áLaugarvatni 14.-17. júlí 1994.
Allir ungmennafélagar verða því að sameinast um
að mótið takist vel og verði til aukins sóma fyrir okkar
stóru og sterku samtök.
Þórir Haraldsson, varaformaður UMFÍ
TIL LESENDA SKINFAXA
Lesendur Skinfaxa ættu að vera
ófeimnir að senda blaðinu efni í formi
stuttra greina, frétta og mynda. Góðar
myndir og klausa um félagslíf vetr-
arins er vel þegið efni, - frásögn af
skemmtiatriðum á þorrablóti, leiklist-
arstarfi, námskeiði og þar fram eftir
götunum. Á sumrin eru íþróttirnar
fyrirfefðarmestar. Myndir frá mótum
heima í héraði eru skemmtilegt efni,
svo ekki sé minnst á sitthvað eftir-
minnilegt sem gerist í tengslum við
keppni og æfingar.
Stefna blaðsins.er m.a. sú, að flytja
sem fjölbreyttast efni og segja frá
starfi ungmennafélaga um allt land.
Árangur í þeim efnum næst bestur
með aðstoð ykkar, lesendur góðir.
Munið, að allar ábendingar eru vel
þegnar. Með framlagi frá ykkur tekst
að gera Skinfaxa enn fjölbreyttari en
ella.
Með kveðju,
ritstj.
5