Samvinnan


Samvinnan - 01.02.1940, Blaðsíða 5

Samvinnan - 01.02.1940, Blaðsíða 5
2. HEFTI SAMVINNAN Draum u ri n n um Ljósaland (Brot) ÞÓRUNN MAGNÚSDÓTTIR er fædd í Reykjavík og uppalin þar að mestu en var þó 7 ár af uppvaxtarárum sínum norður í Axarfirði. í Noregi og Danmörku dvaldi Þ. M. rúmlega eitt ár. Þórunn þyrjaði snemma að skrifa sögur og segist alltaf, frá því hún var barn, hafa ætlað sér að verða rithöfundur. Fyrsta bók hennar, „Dætur Reykjavíkur I“, kom út fyrir jólin 1933, síðan hafa tvær bækur með sama nafni komið út eftir hana. Tvær alllangar sögur: „Að Sólbakka" 1937 og „Líf annara“ 1938 hafa komið út eftir hana. Auk þess hefur hún skrifað margar smásög- ur, sem birzt hafa í blöðum og tímaritum, og nokkrar þeirra hefur hún lesið í útvarp. Bjart verður urn Ljósaland, þegar sólin stafar geislum slnum á hvíta veggi og glampandi rúður hins unga býlis. Blómin í skrúðgarðinum, sunnan undir sólveggnum, anga sterkt og skarta skærum litum á löngum, ljósríkum dögum, sem sofna ekki á kvöldin, heldur halda í höndina á nóttunni og hlusta á æfintýri. Flos hins eggslétta túns bærist í hægum þey. Yfir að líta er það eins og blómofin ábreiða, augnayndi og átrúnaður jarðyrkjumannsins, líf hans og gróði. Gljábrennt stál hitnar í sólareldi. Tveir stæltir, brúnir hestar draga vél. Grasið fellur til hliðar. Safi þess drýpur ofan í jörðina, hina úrsvölu, gróðurríku myrku mold, sem gefur allt og tekur allt. Vélarhljóðið berst inn í húsið, þar sem ung kona syngur við störf sín. Hún andar við opinn gluggann, angan hins fallna grass leggur að vitum hennar, fuglarnir syngja, Gljúf- urá niðar. Nú er slátturinn byrjaður, hugsar hún og lítur ósjálfrátt eftir skýjafari. Móðir María breiðir tásuna sína um allan himininn, grisjugt og fallega. í dag gefur drottinn þurrk. — Nýtt starfstímabil, mesti annatími ársins, fer í hönd, en konan á Ljósalandi kvíðir ekki auknum störfum, hún fagnar. f tilefni dagsins breiðir hún mjallhvítan dúk á matborðið, og prýðir það með fjólum og daggarsmala úr garð- inum sínum. Þegar hádegisverðurinn er tilreiddur, sækir hún bónda sinn. Hún á erindi út í slægjuna til hans, hana langar til að slá svolitla stund, áður en hann spennir hestana frá vélinni. Hún sezt í vélar- sætið og stjórnar hestunum með æfðum höndum. — Seinna um daginn kemur hún út á túnið með alum- iniumhrífu, sem lýsir af eins og silfri. Hún slær úr grasbeðjunum, það þarf ekkert að raka, taðan flekkj- ar sig sjálf. Kjóllinn hennar er fleginn, þýð golan leikur um björt, sólþyrst brjóst hennar. Sólin leitar að eirbrúnum þráðum í hári hennar og gyllir þá. Svalt grasið þyrlast um nakta, brúna leggi hennar og stingst ofan 1 skóna. Armvöðvarnir hnyklast við á- reynsluna. Hún brosir óafvitandi, án hugsunar, veit ekki af því að hún sé til. Hún er eitt með jörðinni, sóldægrinu, hinum bláskæra himingeim, glöðustu raddir lífsins ljóða í sál hennar. Hann sér í huganum túnið breiða sig út yfir gras- móana, stækka frá ári til árs, færast nær ánni að norðan, rokbörðunum að sunnan, ásunum að vestan og mýrlendinu að austan. Þetta sér hann, en hann sér aðeins þau tvö að verki, landnemana á Ljósalandi. Hann er óskyggn á annað fólk í hugsýn sinni. Nú er staðurinn valinn. Hér skal Ljósaland verða reist, í skjóli við sólsælan ás, í kjarnmiklum gras- móum, sem auðvelt er að breyta í gróskumikið tún. Hvert verkefnið öðru veglegra bíður hér stórhuga manns og starfsamrar handar. Eftir ár, eftir áratugi, verður búið að hýsa hér fallega, virkja ána og leggja rafleiðslur um öll hús jarðarinnar, græða stærðar tún, ræsa fram mýrina, rækta garða í sendinni jörð, í hamrahléi við ána, og þó er ef til vill fegursti draum- urinn sá, að græða sár jarðarinnar, klæða hið forna skóglendi, sem hefur blásið upp, rokbörðin, fagur- grænum skógi á ný. Draumur, aðeins dagdraumur ungs manns, sem reikar einn í aftanrjóðri kyrrð ósnortinnar náttúru. Draumur um ást og stórvirki, langt, auðnuríkt líf. En hví skyldi hann ekki geta rætzt þessi draumur? Þórunn Magnúsdóttir. 21

x

Samvinnan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.