Samvinnan - 01.12.1955, Qupperneq 31
vantar styrkleikann. Fyrir því segir
hann í nefndu erindi:
„Mér er þó löngum meir í hug
melgrasskúfurinn harði,
runnin þar upp sem Kaldakvísl
kemur úr Vonarskarði“.
I augum skáldsins ber melgrasskúf-
inn hátt yfir hin suðrænu blóm vegna
þrautseigju hans og þolfestu. Sem út-
vörður íslenzkrar jurtasveita — á
ömurlegum öræfaauðnum, oft upp
við jökla, hefur hann skapað sér hina
merkilegustu sögu. Vissulega er hann
ekki þar aðeins til að bjarga lífi sínu,
heldur til þess að týna því, í nytsamri
þjónustu. Sú þjónusta er fólgin í því
að stöðva uppblástur, og skapa jarð-
veg fyrir aðrar nytjaurtir. Þegar því
verki er lokið, er líf melgrasins úr
sögunni. Melgrasið hefur þá jafnframt
bjargað mörgu lífi í harðindum og
hallærum þessa hrjóstuga, en þó
fagra lands. Suðræn blóm, alin í alls-
nægtum, hefði lítið við það að gera,
að setja sig í spor þessarar merkilegu
jurtar. Með yfirfærslu þessa lærdóms
á mannlífið opnast samróma útsýn.
Gildir þar nákvæmlega það sama.
Maður, senr alinn er við allsnægtir og
þannig áfram, að hann þarf ekkert
fyrir lífinu að hafa, verður ekki lík-
legur til að standa af sér fellibylji ár-
anna. Miklu fremur mætti ætla að
hann félli jafnvel fyrir fyrstu storm-
hrynunni, sem skylli á honum. Þann-
ig er því miður, saga margra alls-
nægtamannanna, og þó einkum
þeirra, sem erft hafa miklar fjárfúlg-
ur, en ekki kunnað með að fara.
Það er þá líka vert að veita því at-
hygli, að íslenzkur aðall er ekki getinn
í hóglífi og allsnægtum, heldur í á-
tökum við kröpp kjör, eða öllu held-
ur, þrátt fyrir þau. Það er lífseigja
melablóma — steinbrjóta og melgrasa,
sem skapað hefur íslenzkan aðal, en
hvorki erfðir né aðhlynning. Það er
fyrir þessa eigind fyrst og fremst, að
Björn Hallsson er tengdur íslenzkum
aðli. En það er lífsstarf þessa aðals,
sem hefur lyft honum stig af stigi til
aukinna mannvirðinga, þannig, að
hann náði sæti á virðulegustu stofnun
þjóðarinnar — Alþingi Islendinga.
Þó að Björn hafi oft byrjað vel í
lífinu, þá hefur hann þó margsinnis
orðið að vaða marga Kaldakvísl. En
Vonarskarð hefur alltaf verið opið.
Þaðan hafa eldar vermt hug hans —
hjarta og kaldar fætur. En við það
hefir hann öðlast kraft, til að vaða
margar kaldar kvíslir á ný. Ur slík-
um ferðum hefur jafnan verið gott að
koma heim. Björn hefurverið sá gæfu-
maður að eignast ágæta lífsförunauta,
sem átt hafa ríkan þátt í því að gera
heimilið að griða- og hvíldarstað, eftir
fjölþætt, lýjandi störf, jafnt út á við
sem inn á við. Niðjar hans munu þá
einnig halda uppi nafni hans og
heiðri um mörg órunnin ár.
Eins og við öll vitum, hefur Björn
dvalið í þessu sveitarfélagi öll sín ævi-
ár, og innt þar af hendi margvíslega
þjónustu, sem ávallt hefur verið vel
af hendi leyst. Þá hefur hann einnig
farið með lögsögu í hreppnum í
fimmtíu ár við hinn bezta orðstír.
Sem endurgjald fyrir vel unnin störf,
hefur hann hlotið verðskuldaðan
heiður. Þannig var hann sæmdur ridd-
arakrossi Fálkaorðunnar árið 1930. Þá
hefur Búnaðarfélag íslands og Kaup-
félag Héraðsbúa gert hann að heið-
ursfélaga, hvort félagið um sig. Sömu-
leiðis er hann heiðursfélagi í Búnað-
arsambandi Austurlands. Þá hefur
sveitarstjórn Hróarstunguhrepps, eft-
ir að hafa borið það undir alla þá
sveitunga Björns, sem sátu áttatíu
ára afmæli hans, ákveðið, að fram-
vegis skyldi hann kjörinn heiðursfél-
agi hreppsins. Var það einróma sam-
þykkt, og verðug viðurkenning. Og
hún er því gildismeiri sem hún er
nokkurt nýmæli. Viðbót við þessa
heiðursviðurkenningu af hreppsins
hálfu, hafa svo sveitungar hans lagt
drög að því að fá málaða af honum
mynd, sem síðar verður afhent hon-
um. Er það vottur þess, að við sveit-
ungar hans, viljum festa svip hans
hér í þessu sveitarfélagi. Vissulega
hefðum við kosið að sýna afmælis-
barninu ríkari vináttuvott. En
hreppsskútan er völt — ruggar á öld-
unum og hefir lítið burðarþol. Ef til
vill er þetta léleg afsökun. En hún
styðst við sín eigin rök.
Eg vil fyrir hönd hreppsbúa, þakka
öllum þeim, sem stuðlað hafa að því
að gera þessa afmælisstund áhrifa-
ríka. A ég hér sérstaklega við hina
mörgu utansveitarmenn, sem með
nærveru sinni, ræðum og söng, gerðu
þessa stund hina ánægjulegustu. Þá
ber sérstaklega að þakka Þorsteini
Jónssyni, framkvæmdastjóra Kaup-
félags Héraðsbúa, fyrir álitlegan sjóð
afhentan afmælisbarninu, fyrir hönd
kaupfélagsins, sem viðurkenningu
fyrir vel unnið starf í þágu þess.
Að endingu óskum við öll afmælis-
barnmu alls velfarnaðar á ókomnum
árum og biðjum því blessunar guðs.
Sigurjón Jónsson.
Ei Greco
(Framh. af bls. 15)
mér. Greco sagði, að dagsljósið hefði
slæm áhrif á sitt innra ljós.“
Litir Grecos koma á óvart, sem
básúnur dómsdagsenglanna. Hin
rauðgulu andlit Feneyjamálaranna
verða að nábleikum líkum í höndum
hans. Grunnliturinn er oft brúnn eða
þá hann málar á brúnt léreft. Aðferð-
irnar minna á Titian, en Greco skýl-
ir því vandlega.
Kynslóðin næst á eftir EI Greco
gagnrýndi verk hans, og myndir hans
féllu í verði. Aldirnar liðu, en verk
meistarans stóðu. Hinar hávöxnu ver-
ur himins og jarðar í myndum E1
Grecos vöktu athygli á ný. Nú verða
öll góð listasöfn helzt að eiga sýnis-
horn af verkum hans.
Jól í fásinninu
(Framh. af bls. 18)
Það lét hærra í veðrinu þar uppi.
Blessaður stormurinn, hann svæfði
mann svo vel. Þögnin var verst, þung
eins og farg lagðist hún að manni, og
ósjálfrátt hlustaði maður eftir, að
eitthvað yrði til að rjúfa hana —
hlustaði árangurslaust. En nú færi
bráðum að lengja daginn. Hvítir
tindar fjallanna yrðu rauðir af sól-
skini, svo smáfærðist það nær, loks
kæmi sólin sjálf í ljós í allri sinni
dýrð. Skammdeginu væri lokið. Nóg
vrði líka að gera á næstunni. — Hann
þurfti að muna að styrkja böndin á
hrútunum á morgun. Þeir voru orðn-
ir svo æstir, síðan ærnar komu á hús.
Hann lagðist útaf og opnaði bókina;
hann ætlaði að skreppa inn á heiðina
með Bjarti áður en hann sofnaði.
31