Stúdentablaðið - 01.12.1966, Blaðsíða 8
Aðalsteinn Eiríksson, stod. theol.
form. Stúdentafélags Hóskóla
íslands:
Ávarp
Fyrsta desember ár hvert hafa stúdentar við Háskóla íslands leitazt
við að minnast áfangans, sem náðist 1918. Jafnframt hafa þeir
viljað minna á sjálfa sig og hversu þeir telja eigin velferð og þjóð-
arinnar vera eitt. Þeir hafa nú í hartnær hálfa öld árlega hlaðið
vörðu við þá leið, er þeir telja liggja hæst og stefni beinust og breið-
ust að markmiðinu; frjálsri og öflugri þjóð í frjálsu landi.
Til slíkrar leiðsagnar telja stúdentar sig bæði hafa rétt og skyldu,
að hefð og verðleikum. Misjafnt nokkuð góða lögskilamenn hefur
þó mátt kalla þá í því þegnskyldustarfi. Margir hafa lýst skoðun
sinni á því, hvað valdi. Stúdentar hafa hvergi nærri alltaf verið það
sjálfstæða og óháða afl, sem til slíkrar leiðsagnar þarf. Oft á tíðum
hefur málflutningur þeirra sjálfra eða þeirra, er þeir hafa kosið að
sínum málflytjendum, ekki verið sjálfstætt framlag til þjóðmál-
anna, heldur staðfesting á sjónarmiðum annarra hópa manna. Er
einkum átt við stjórnmálaflokka, en með því er auðvitað ekki sagt,
að slíkt sé illt í sjálfu sér, heldur hitt, að hver verður að syngja með
sínu nefi eigi til hans að heyrast. Kjarni málsins er andlegt sjálf-
stæði stúdenta.
Er líða tekur að hálfrar aldar afmæli hins íslenzka fullveldis,
stendur þjóðin á tímamótum. Á þeim tíma hefur tvímælalaust orð-
ið bylting. Við, sem nú erum stúdentar við Háskóla íslands, erum
alin upp á ávöxtum þeirrar byltingar, þeim hluta hennar, sem lok-
ið er, efnislegri velmegun. Hinum hluta hennar er ólokið, þeim
hluta, sem snýr að því að finna nýja braut fyrir þjóðlífið sjálft í
stað þeirrar, sem týndist. Nýja braut á þeim jarðvegi, sem bylt var
við. Jarðvegurinn er hinn sami en brautina vantar. Þetta birtist
fyrst og fremst í röngu mati á verðmætum, því mati, að fyrri hluti
byltingarinnar sé byltingin öll.
Hversu rangt það mat er, blasir hvarvetna við. Skal það ekki
tíundað hér enda eru þeir, sem slíkt stunda, ýmist nefndir siða-
postular eða menningarvitar og þykja hvimleiðir. Aðeins skal á það
bent, að ekki höfðu stúdentar fyrr lokið vörðubyggingu síðasta árs
en upp risu jarðneskir herskarar og tjáðu sig fúsa að rífa hana nið-
ur á ný. Ótrúlegustu fjárhæðum er varið í hégóma, en fræðslu- og
skólamál eru nánast í öngþveiti. Er engu líkara en upp hafi verið
tekið hið fornkveðna: „að ekki verður vitið í askana látið”, með
þeirri breytingu þó, ekki sé „vit í" öðru viti en því, sem í askinn
verður látið.
Að liðinni hálfri öld íslenzks fullveldis verða því aðeins tíma-
mót, að uppvaxandi kynslóð, og sú, sem nú er sem óðast að taka
við, geri sér grein fyrir vitjunartíma sínum og taki að troða þá braut,
er liggur upp. Það ' ■ einlæg von mín, að 1. desember 1966 megi
varða þá braut.
Aðalsteinn Eiríksson, stud. theol.,
form. Stúdentafélags Háskóla fslands.
a
STUDENTABLAÐ