Vikan - 31.12.1959, Blaðsíða 19
Himalaya
Framhald af bls. 11.
vita, að margir af löndum mínum muni verða
fyrir vonbrigðum. 1 fávizku sinni telja þeir svo
miklu varða, hvor hafi verið skrefinu á undan.
En sé mér það skömm að hafa gengið skrefi á
eftir Hillary, verð ég að bera hana. En ég skamm-
ast min þó ekki fyrir það. Og ég skammast mín
ekki heldur fyrir það að segja allan sannleikann.
Við stóðum á tindinum. Draumurinn hafði
rætzt.
Okkur varð það fyrst fyrir að takast í hendur
að hætti fjallamanna, þegar á tind er náð. En
þar sem Everest er ekki neinn venjulegur tindur,
létum við ekki þar við sitja, heldur tókum og
hvor utan um annan og klöppuðum hvor öðrum
á bakið, unz okkur þraut andrá þrátt fyrir súr-
efnið. Svo tókum við að sviDast um. Klukkan
var hálftólf, og aldrei hef ég séð jafnheiðbláan
himin. Hæg gola stóð úr átt af Tíbet, og mjall-
kófið, sem alltaf stendur af hátindum, var varla
greinanlegt. Þarna lá Himalajafjallgarðurinn um
Nepal og Tibet og hvarf sjónum í fjarska. Og nú
gat maður litið niður á nálægustu tindana, hina
himinbláu Lhotse, Nuptse og Makalu. Enn fjær
gat að líta hvern tindinn öðrum frægari, sem frá
okkur að sjá voru heldur lágkúrulegir og kollóttir.
Slika furðusjón hafði ég aldrei áður séð og mun
aldrei sjá aftur. Það var þó langt frá því, að ég
fyndi til ótta. Til þess voru fjöllin mér of kær.
Ég hafði þráð þessa miklu stund alla ævi, og mér
þótti sem fjallgarðurinn og tindurinn mikli væri
ekki dautt klettabákn, helköldum snævi hulið,
heldur ylríkt og lífi gætt.
Við tókum af okkur súrefnisgrímurnar. Jafnvel
hér, þar sem hæst bar á mæni jarðar, gátum við
dregið andann á eðlilegan hátt. ef við reyndum
ekki á okkur um of. Við muldum klakann, sem
setzt hafði á grímurnar, settum þær á okkur, en
opnuðum ekki fyrir súrefnið, fyrr en við lögðum
■af stað niður aftur. Hillary dró ljósmyndavélina
undan stakk sínum, en þar hafði hann geymt
hana, svo að hún frysi ekki. Ég vafði fánana
af hakaskaftinu, en þeir voru bundnir á eina linu.
Hélt ég svo hátt öxinni, á meðan Hiilary tók
mynd af mér, — jú, raunar tók hann þrjár í
þeirri von, að ein mundi verða sæmilega skýr,
sem mátti teljast gott miðað við aðstæður. Fáni
Sameinuðu þjóðanna var efstur á linunni, þá
brezki fáninn, fáni Nepals og indverski fáninn
neðstur. Sumir, sem ekki hafa annað en þess
háttar fyrir stafni, reyndu síðar að koma af stað
pólitísku þjarki út af niðurröðun fánanna. Ég segi
ekki annað en það, að mér kym sízt í hug póli-
tík þá stundina, en nú er ég því feginn, að fáni
Sameinuðu þjóðanna skyldi vera efst á stöng, því
að þetta var ekki einkasigur okkar, heldur sigur
alls mannkyns.
Ég reyndi að gera Hillary skiljanlegt, að mig
fýsti að taka ljósmynd af honum. Einhverra hluta
vegna vildi hann það þó ekki, en tók nú að ljós-
mynda niður fyrir sig i allar áttir. Á meðan hann
var við það, efndi ég heit mitt. Ég dró sælgætis-
pausann og blýantsstubbinn, sem Nima, dóttir
mín, hafði beðið mig fyrir, gerði gjótu í hjarnið,
lagði þar pausann og blýantinn og hugðist róta
snjó yfir. En þegar Hillary sá, hvað ég hafðist
að, rétti hann mér litla kisu, gerða úr ullardúk.
Hún var svört með hvít augu, og hafði Hunt
leiðangursstjóri fengið Hillary hana sem heilla-
grip. Og nú lagði ég kisu lika þarna í gjótuna
og jós mjöllu. 1 frásögn sinni farast Hillary svo
orð, að þarna hafi verið um að ræða silfurkross
á festi, sem Hunt hafi fengið sér til verndar og
varðveizlu í þeim tilgangi, að krossinn yrði graf-
inn i mjöll á hátindinum, ef við kæmumst alla
leið. Ekki varð ég þess var. Og ekki lagði ég neitt
annað í gjótuna en sælgætisoausann, blýants-
stubbinn og svörtu kisu. Á meðan ég huldi fórn-
argjafir mínar mjöll, bað ég bæn í hljóði, þakkar-
bæn. Sjö sinnum hafði ég sótt heim hið helga
fjall drauma minna, og í sjöunda skiptið hafði
draumur minn rætzt.
„Thuji chey, Chomolungma. Ég þakka ...“
Við höfðum nú staldrað við allt að því stundar-
fjórðung á tindinum. Það var kominn timi til að
halda til baka. Þar sem ég þurfti á ishakanum
að halda á leiðinni niður, leysti ég fánalínuna af
skaftinu, lagði hana um þvera hjarnbunguna og
gróf báða endana í hjarnið, eins djúpt og unnt
var. Fáum dögum siðar flugu nokkrar flugvélar
úr indverska hernum yfir tindinn og tóku ljós-
myndir, en ekki kváðust flugmennirnir hafa séð
þess nein merki, að nokkuð hefði verið eftir skilið
á hjarnbungunni. Ef til vill hafa þeir ekki flogið
nógu lágt yfir, eða þá að vindurinn hefur feykt
fánanum af bungunni. Það er ekki að vita.
Við svipuðumst um enn einu sinni á bungunni,
áður en við lögðum af stað niður. Höfðu þeir
Mallory og Irvine komizt alla leið hingað, áður
en þeir fórust? Var hugsanlegt, að þess mætti
finna nokkur sannindamerki? Við gátum ekki
fundið þau. En títt varð mér hugsað til þeirra
í Þessari ferð, til þeirra og allra, sem höfðu ár-
angurslaust keppt að þessu sama marki siðast-
liðin þrjátíu og þrjú ár, — allra þeirra djörfu og
dugmiklu fjallagarpa, sem beðið höfðu ósigur og
um leið gert okkur sigurinn mögulegan með
reynslu sinni og þekkingu.
Eftir að heim kom, hef ég verið spurður hinna
fáránlegustu spurninga, og það er síður en svo,
að þær hafi allar snúizt um stjórnmál. Margar
þeirar hafa aftur á móti verið trúarlegs eðlis eða
beinzt að því yfirnáttúrlega. „Var guð Búddha á
tindinum?" hefur fólk spurt. Eða: „Sástu drott-
in Shiva?“ Margir frómir menn og heittrúaðir
hafa spurt mig í þaula og beinlínis krafizt þess,
að ég Iéti uppskátt við þá, hvaða sýn hefði borið
fyrir mig uppi á tindinum eða hvaða opinberun
ég hefði fengið uppi þar. Og vitanlega hef ég
valdið fólki vonbrigðum, einnig að þessu leyti. En
ég hlýt að segja hið sanna: Ég varð ekki var við
neitt yfirnáttúrlegt eða ofurmannlegt þarna á
hátindinum. Sjálfum þótti mér sem ég hefði kom-
izt þar næst guði, og það var mér nóg.
Við opnuðum fyrir súrefnið og héldum af stað.
Og enda þótt okkur væri báðum mjög í mun að
komast niður sem fyrst, fórum við okkur hægt
og gætilega, því að nú vorum við þreyttir og við-
brögð okkar þvi ekki eins örugg og áður. Ein-
mitt það veldur flestum slysum í fjallgöngum,
að menn eru þreyttir, þegar þeir halda
til baka, og Því ekki eins: aðgætnir og skyldi.
Við gengum í slóð okkar eftir klettahryggn-
um, og yfirleitt dugði okkur sú fótfesta, sem
við gerðum okkur á leiðinni upp. Þegar kom
að hamrinum, varð okkur auðveldara fyrir en
á uppleiðinni. Ég kleif spöl niður af syllunni og
lét mig svo detta. Síðan héldum við enn í slóð
okkar um klettakambinn. Hillary gekk alltaf á
undan, ég á eftir og strengdi línuna i hvert skipti,
sem skreipt var eða tæpt. Báðir vorum við þreytt-
ir, en alls ekki að lotum komnir. Það var þorstinn,
sem þjáði okkur mest. Vatnið í ferðapelunum
var frosið, og snjó vildum við ekki eta, þar eð
slíkt gerir aðeins illt verra, þegar þannig stend-
ur á.
Við námum staðar og hvíldum okkur um stund,
áður en við lögðum niður hjarnskriðuna, sem var
enn hættulegri og erfiðari niður að fara. Hillary
fór á undan, hægt og gætilega, en ég sparn við
fótum á brúninni og gaf eftir línuna, gætti þess
vandlega, að aldrei slaknaði á henni, þvi að ef
skriður hefði komið á fönnina og Hillary, var
hvergi viðnám fyrr en á Kangchung-jökli 30Ö0 m
neðar. Loks vorum við þó báðir komnir heilu og
höldnu niður á neðri kambinn. Við fundum súr-
efnisgeymana, og mátti með sanni segja, að þeir
hefðu verið skildir eftir á hentugum stað, því að
súrefnið í geymum okkar var þá á þrotum. Við
komum í tjöldin um tvöleytið. Þar hvíldum við
okkur um hríð, og ég hitaði okkur sætt sitrónu-
bland. Það var fyrsti drykkurinn, sem við fengum
frá því um nóttina, og urðum við honum fegnir,
enda vorum við eins og nýir menn á eftir.
Og enn lögðum við af stað niður brattann . .. -ic
Gler framtíðarinnar
stendur yður þegar til boða
GAGNVART ÞRÝSTINGI
GAGNVART HITA
Fjölbreyttar gerðir og litir. Spyrjið
um það i öllum sérverzlunum og
verzlunarhúsum.
Hert gler, hámarks þol
BÆHEIMSKT GLER — EINUNGIS FRA TÉKKÓSLÖVAKlU.