Vikan


Vikan - 17.08.1939, Blaðsíða 19

Vikan - 17.08.1939, Blaðsíða 19
Nr. 33, 1939 VIKAN 19 Við vorum bæði sjúklingar á heilsu- hælinu og okkur var vel til vina. Meðan við vorum á fótum bæði, vor- um við óaðskiljanleg. Þetta var um sumar, bjartur himinn og blámi á f jöllum, og við vorum oft á göngum saman í kyrrlátu hrauninu eða um ásana og holtin kringum heilsuhælið. Við héldum bæði, að við myndum ná heilsu aftur. Hann sagði stundum við mig — og brosti fallega bros- inu sínu um leið: — Heyrðu, þegar við förum héðan, þá skulum við — Hann endaði aldrei setninguna. En ég skildi hann vel og vissi, hvað hann var að fara. Ég gat engu svarað, ég roðnaði svo mikið, þegar hann sagði þetta. Ég elskaði hann, hann var svo fallegur. Mig langaði til, að hann kyssti mig einhvern tíma. En hann var svo hljóður og fáskiptinn. Og ég skildi það nú líka. Hann kærði sig víst ekki um einn og einn koss hjá mér. Hann vildi ■eiga mig alla og æfinlega. Og ég var nú ánægð með það, ég gat beðið. Við vorum alltaf að hressast, við geng- um glöð saman um bláa septemberdaga á mosagráum hraunstígnum og fundum, að nú var lífið að koma til okkar, nú vorum við bráðum frjáls og fleyg. Við töluðum ekki mikið um það, — hann var einn af þeim, sem segja heldur lítið, en ég fann ósköp vel, hvað hann var að hugsa, þegar við vorum svona ein saman í kvöldkyrrð- inni. Ég brosti stundum til hans og roðn- aði um leið, — ég var svo ung. Það eina, sem mér leiddist, var, að ég hélt kannske, að hann myndi verða heilbrigður og færi af hælinu á undan mér, en þegar ég minnt- ist á þetta við hann, hristi hann aðeins höfuðið og var fjarska alvarlegur. I októberbyrjun fékk ég kvef og varð að liggja nokkra daga. Fyrsta daginn kom hann og heimsótti mig, en þá um kvöldið sagði systir mér, að hann væri líka orðinn veikur. Þegar ég kom á fætur, viku seinna, flýtti ég mér upp á stofuna hans. Hann lá þar einn, hitt rúmið var tómt. Það var eitthvað óhugnanlegt við þetta auða rúm. Þegar hann varð var við, að ég horfði á það, sagði hann kæruleysislega: „Hann hrökk upp af í morgun.“ Og eiginlega sagði hann lítið meira þessa stund, sem ég var hjá honum. Ég var hjá honum alltaf, þegar ég gat. Oft stalst ég inn til hans, þegar ég átti að vera úti á göngu. Ég sat á rúminu hans og hélt í hendina á honum. Hann var orð- inn ennþá fáorðari og alvarlegri en áður. Það var alltaf svo þögult inni hjá honum. Endrum og eins feykti vindblær glugga- tjöldunum til og bar inn til okkar ilm haustsins. Ég reyndi stundum að raula eitt- hvert ljóð til þess að yfirvinna þessa þungu þögn. En það var alltaf eins og kökkur í hálsinum á mér, ég gat ekki sungið. Smásaga eftir Kristmann Quðmundsson Svo var ég að strjúka hárið á honum og klappa honum á fölan vangan. Það var það eina, sem ég gat gert fyrir hann. Við horfðum hvort á annað allan tímann og vorum mjög hamingjusöm. En það skildi ég fyrst seinna. Augu hans voru alvarleg og blíð. — Mér fannst hann bara vera j orðinn svo miklu eldri en ég. Svo einn daginn fékk hann mér bréfið —■ þetta undarlega bréf. Það var lokað, en hann hafði skrifað nafn- ið mitt utan á umslagið. — Ég gleymi því aldrei, hvað svipurinn á honum var einkennilegur, þegar hann rétti mér það. Hann var orðinn svo breytt- ur. Það var eins og hann horfði á mig úr fjarska. Óttinn gagntók mig, þegar ég horfði í 'auguri hans og heyrði hann segja: — Þú verður að gæta bréfsins vel. Og þú mátt ekki opna það, fyrr en-ég er á brott. Ég ætlaði að mótmæla, hann mátti ekki segja neitt þvílíkt, en ég kom ekki upp nokkru orði. Ég sat eins og lömuð og starði á hann. Því að á þeirri stundu vissi ég líka, að hann átti að deyja. Hann var þegar byrjað- ur að hverfa frá mér. Eftir þennan dag leit hann aðeins lítillega við mér, þeg- ar ég kom til hans. Ég fékk að halda í hendina á honum, en allt var orðið breytt. Það var eins og búið væri að skilja okkur að. Hugur hans og vitund voru þegar kom- in eitthvað út í fjarskan. Hann horfði inn í veröld, sem ég átti enga hlutdeild í. Hann hlustaði varla á það, sem ég var að segja, barnalegu huggunarorðin mín fóru alveg fram hjá honum. Aðeins einstöku sinnum var eins og hann vaknaði í svip og þekkti mig. — Mundu að gæta bréfsins vel! sagði hann þá. Og mundu, að þú hefir lofað að opna það ekki fyrr en ég er á brott. Æ, þessi orð, á brott. Það var svo sárt að heyra þau, að ég gat ekki tára bundizt. En það leit ekki út fyrir, að hann tæki einu sinni eftir tárunum mínum. — Hann horfði á mig úr fjarlægð og þoku, þegar ég kvaddi hann, og handtakið hans var svo kæruleysislegt, eins og ég væri hon- um alveg óviðkomandi. Ég var full af örvæntingu yfir því, að hann skyldi ekki þurfa mín með. Það var svo óttalegt að mega ekki gera neitt fyrir hann. Á nóttunni var ég að gráta og kyssa bréfið hans. Og það fór svo, að bréfið fékk alla þá ástúð, sem honum var ætluð, en sem hann hafði ekki lengur þörf fyrir. Ég geymdi það í barmi mínum og tók það upp og gældi við það, þegar ég var ein. Það var allt orðið flekkótt af tárum mínum. Mér var ákaflega mikið í mun að vita, hvað hann hafði skrifað. Ég eyddi mörgum tímum í að geta mér til, hvað myndi standa í bréfinu. Seinast var ég orðin svo óþolin- móð, að ég varð að taka á öllu, sem ég átti til, svo að ég gæti haldið loforð mitt. Vikur liðu, langar, daprar vikur. Ég sat hjá honum á hverjum degi eins lengi og ég mátti, umkomulaus og ráðþrota gegn þessu óþekkta, sem var að taka hann frá mér. Andlit hans hafði fengið drætti gamals og lífsreynds manns. Augun voru full af kaldri ró. Ég var svo skelfing hrædd um, að honum leiddist heimsóknir mínar. Hann sagði aldrei við mig neitt vingjarn- legt orð. Ég syrgði, svo að ég varð mögur og ljót, því að ég elskaði hann svo mikið. — Það er engin, sem veit, hvað lítil stúlka getur orðið sorgbitin. Svo einn morguninn var mér sagt, að nú væri hann á brott. — Ég klæddi mig í skyndi og flýtti mér ofan í hraun, þar sem ég gat verið ein, — ekki til að gráta og syrgja, heldur til að opna bréfið hans. Ég man ennþá, hvað hendurnar á mér skulfu, þegar ég var að því. Ég held varla, að ég hafi munað eftir honum þá stund- ina. Ég var svo hungruð og þyrst eftir ástarorðunum, sem ég var viss um, að myndu vera í bréfinu. . . . Já, og svo opnaði ég það. Hvað í því stóð? — Það stóð ekki neitt. . . . Það var aðeins hvítt og óskrifað blað í umslaginu . . .

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.