Bjarmi

Árgangur

Bjarmi - 01.03.1987, Blaðsíða 4

Bjarmi - 01.03.1987, Blaðsíða 4
) iNum Hugleiðing eftir Ragnar Gunnarsson Jesaja 55,6-11. „Enginn veit, hvað átt hefur, fyrr en misst hefur.“ Svo segir í gömlum málshætti. Mér finnst það eiga vel við það, sem okkur berst af himni ofan, annars vegar regn og snjó, sem er undir- staða lífs okkar á þessari jörð, og hins vegar Guðs orð, sem er grundvöllur samfélags okk- ar við Jesúm Krist. Ég gerði mér ekki fulla grein fyrir því, hvernig úrkoman skiptir sköpum um kjör manna, fyrr en ég lifði rigningarsnautt árið 1984 í Kenýu. Það rigndi aldrei svo vel væri. Þessi takmarkaða úrkoma hafði mikil áhrif á líf og kjör fólksins. Margar ár hafa ekki enn náð sér á strik, þrátt fyrir mikla rigningu síð- astliðin tvö ár. Við erum háð því sem fellur af himni ofan, en fáum iðulega svo mikið hér á íslandi að við kunnum ekki að meta það. Ég held að því sé eins farið með Guðs orð. Við höfum greiðan aðgang að því, bæði á blöðum Biblíunnar og í margvíslegri boðun þess, í prentuðu og töluðu máli. Því er hætta á að við kunnum ekki að meta það og verðum kærulaus um Guðs orð. En þeir sem búa við biblíuskort og er meinað að koma saman til að hlýða á boðun orðsins, kunna hins vegar að meta það. Úrkoman kemur mörgu til leiðar. Hún gerir jörðina frjósama og gróandi og færir okkur á þann hátt brauð og sáðkorn. Eins er því farið með Guðs orð, það kemur því til vegar, sem Guð hefur falið því að framkvæma. Ein af ástæðunum fyrir því að lítið gerist í lífi okkar, bæði sem einstaklinga og sem kristins samfé- lags eða safnaðar, er sú, að við höfum ekki lært að meta Guðs orð og vanrækjum það. Heilagur andi getur ekki unnið í hjörtum okk- ar og lífi, vegna þess að við lokum leiðinni með því að hafna verkfærinu, Orðinu, sem hann notar. Við þurfum að lesa Biblíuna sem Guðs orð í bæn og vissu um að heilagur andi muni starfa. Ragnar Gunnarsson, krístniboði. Það er einkum tvennt sem Guð vill með orði sínu. í fyrsta lagi vill hann kenna okkur hvern- ig við eignumst hlutdeild í náð hans og hjálp- ræði, fáum fyrirgefningu syndanna og verðum Guðs börn. í öðru lagi vill hann kenna okkur hvernig okkur ber að lifa hér á jörð, í þjónustu við hann og aðra menn, með því að gera vilja hans. Guð veitir náð sína, fyrirgefningu og barna- rétt í skírninni, fyrir orð sitt, sem er „með og hjá vatninu" og trúna sem treystir því orði Guðs. Sá sem á ekki trú á Jesúm Krist, eignast hana aðeins fyrir Guðs orð, með því að hlýða á það og lesa það. „Svo kemur trúin af boðun- inni, en boðunin byggist á orði Krists.“ Róm. 10:17. 1 Postulasögunni sjáum við víða hvernig menn komust til trúar fyrir orðið sem þeir heyrðu. Við erum kölluð til að vera „gjörendur orðsins“. Hygginn maður, sem byggir hús sitt á bjargi er sá sem heyrir orð Jesú og breytir eftir þeim. Þannig vill Guð fá að vinna með okkur. Þegar þú tekur Guðs orð alvarlega og breyt- ir eftir því, kemur þú fljótt auga á að þú ræður ekki við kröfur lögmálsins. Synd og óguðleiki ræður í huga þér og hjarta, orðum þínum og verkum. Sekt þín er mikil. Guð vill nota orð sitt til að þú komist að hinu sanna um sjálfan þig og hjálpræði þitt: Það að þú getur ekkert gert til að verða þér úti um náð hans. Þú missir trúna á sjálfan þig í því efni, svo að þú lærir að treysta Guðs orði. Fyrir verkan orðsins treyst- ir þú Jesú og því sem hann hefur gert fyrir þig. Hann var með krossdauða sínum staðgengill þinn og tók á sig sekt þína. Þannig rótfestist þú í Jesú Kristi og lærir að treysta honum einum fyrir hjálpræði þínu. Þú þarft þess vegna að rótfestast í orðinu. Sú hætta er alltaf fyrir hendi að þú byggir líf þitt á tilfinningum þínum eða reynslu. Þú spyrð sjálfan þig hvað þér finnist um sjálfan þig og Jesúm, í stað þess að spyrja Guðs orð um hið sama. Margir hafa ekki rótfest í orðinu en byggt á eigin reynslu eða tilfinningum. Þegar „steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu,“ þá féll húsið. Orðið er okkur gefið svo við getum byggt trú okkar á því í blíðu og stríðu.

x

Bjarmi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bjarmi
https://timarit.is/publication/379

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.