Heima er bezt - 01.03.1957, Page 2

Heima er bezt - 01.03.1957, Page 2
Frjáls menning - frjáls hugsun Um þessar mundir er efnt til nýrra félagssamtaka í höfuðstað landsins, og nefnast þau Frjáls menning. Vitanlega er til þess ætlast, að samtök þau nái um land allt, þótt höfuðstöðvar þeirra verði í Reykjavík. Samkvæmt boðsbréfi forgöngumanna, er félag þetta stofnað „til verndar og eflingar frjálsri hugsun og frjálsri menningarstarfsemi. Það er óháð öllum stjórn- málaflokkum, en skuldbindur meðlimi sína til jákvæðrar baráttu gegn hverskonar einræðishyggju, ríkisofbeldi og skoðanakúgun“. Svo virðist af fregnum af stofnfundi félagsins, að einkum sé því stefnt gegn hinum yfirlýstu einræðis- stefnum, kommúnisma og nasisma, enda þótt á víðari grundvelli sé reist. Naumast þarf að efa, að félagsstofnun þessari sé fagnað af öllum þeim, sem unna frjálsri hugsun og líta á mannhelgina sem eitt af takmörkum siðmenn- ingarinnar, sem keppa beri að. Einræði í hvaða mynd sem er, getur aldrei samrýmzt hugsjón mannhelginnar, og þar, sem einræði drottnar, er frjáls hugsun dauða- dæmd. En þótt ærið verkefni sé að berjast gegn hin- um yfirlýstu einræðisstefnum, má ekki gleyma því að líta nær sér. I lýðræðisþjóðfélagi, þar sem bæði mál- og ritfrelsi eru viðurkennd réttindi borgaranna, skortir allmjög á, að þessi gæði mannlegs lífs séu svo í heiðri höfð sem skyldi, og sýkill einræðis og skoðanakúgunar virðist eiga þar betra friðland en vænta mætti eftir því, sem oftast er talað og ritað. En einmitt í þessu er fólgin ein hin mesta hætta, sem ógnar menningu nútímans og hinu lýðfrjálsa þjóðfélagi, en kalla má, að þetta tvennt fari saman. Ýmsir munu bregðast ókunnuglega við, þegar því er fram haldið, að hömlur séu á hugsana- eða a. m. k. mál- frelsi í hinu lýðfrjálsa þjóðfélagi voru. Stjómarskrá vor kveður skýrt á um lýðræði, og þing vort starfar eftir þingræðisreglum, og vér megum láta í Ijós skoðanir vorar, án þess að eiga á hættu fangelsun eða jafnvel líflát, eins og tízka er í einræðisríkjunum. Engu af þessu verður neitað, en á hinn bóginn fær enginn neit- að því, sem nokkuð kynnist starfi hinna pólitísku flokka, að innan þeirra gerist það rneira og meira, að for- ystumennirnir ákvarða línuna, og síðan verða flokks- mennirnir að fylgja henni gegnum þykkt og þunnt. Þeir flokksmenn, sem leyfa sér að hafa aðra skoðun málanna en forystan, eru vargar í véum, og leitast er við að ýta þeim til hliða, hvenær sem færi gefst. Ef vér skyggnumst um starfa- og stöðuveitingar í þjóð- félagi voru, eru þau dæmin alltof mörg, þar sem pólitísk trúarjátning mannsins hefur verið meira metin en hæfni hans til starfans. En þegar svo er komið, að pólitísk skoðun er lykillinn að atvinnu og afkomumöguleikum, og gagnrýni á forystumennina þýðir útilokun að meira eða minna leyti frá flokkslegu starfi eða félagsþátt- töku, þá er hætt við að skjótt þagni gagnrýnin, og að stjórnarvöldin tryggi sér einskonar einræðisafstöðu í skjóli valda sinna. Og þá er auðsætt hvert stefnir. Ef vér lítum á þær deilur, sem háðar eru um opin- ber mál milli stjórnmálaflokka, þá bera þær sízt af öllu á sér merki frjálsrar hugsunar, eða þess að til þess sé ætlast, að málin skýrist með rökum. Málfærslan er áróður og múgsefjun. Andstæðingunum er lýst sem annaðhvort fíflum eða föntum, og helzt hvorttveggja. Haldin eru stjórnmálanámskeið, ekki til þess að gera kjósendurna nýtari þjóðfélagsþegna, með víðari yfir- sýn um málefnin, heldur til þess að ala þá upp í hinni einu og sönnu flokkstrú, og þetta starf er þegar hafið á börnunum, svo að hægt sé að móta þau nógu snemma, áður en þau eru farin að hugsa. Og hin sorglega stað- reynd er, að því sterkara sem slíkt flokksuppeldi er, því sterkari verður flokkurinn. Dæmi þessi eru öll tekin úr starfsemi stjórnmála- flokkanna. En á vettvangi menningarmálanna rekum vér oss alltof mikið á hið sama. I listum eru uppi, nú sem endranær, ótal „ismar“. Fyrir þeim er rekinn áróð- ur, þannig að forystumennirnir kenna eftir reglunni „vér einir vitum“. Skoðanir annarra eru afgreiddar á líkan hátt og svikararnir gerðu í „Nýju fötunum keis- arans“. Þeir, sem ekki vilja taka undir lofsönginn um vænleik efnisins, litaval og mynstur, eru fyrirfram úr- skurðaðir heimskingjar eða a. m. k. óhæfir til að standa í stöðu sinni. Og það eru ótrúlega margir, sem af ótta við þann dóm, heykjast á því að hugsa sjálfstætt, eða láta skoðanir sínar í ljós, en þegja við svikunum, eða jafnvel dásama þau. Hér hefir verið bent á hverjar hömlur eru á frjálsri hugsun, jafnvel meðal vor, þótt vér búum í lýðfrjálsu þjóðfélagi. Það er sýnt, að hverju stefnir í þessum efnum, og ef öfugþróunin heldur áfram á líkan hátt og nú gerist, má svo fara, að fyrr en vér vitum af eru hugtökin frjáls hugsun og frjáls menning ekki orðin annað en innantóm orð, eða jafnvel verður gengið af þeim dauðum, eins og í einræðisríkjunum. 86 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.