Heima er bezt - 01.03.1957, Blaðsíða 21

Heima er bezt - 01.03.1957, Blaðsíða 21
lítil hætta búin af heitum geislum, jafnvel um hádag- inn. Það má því segja, að ekki sé hægt að byggja á vetrarþokunni neinar vonir um þurra og bjarta daga. Hins vegar er þetta orðtak nokkuð þokukennt og ekki alveg auðsætt, hvernig beri að skilja það. Skulum við því láta útrætt um það. Það mun vera mjög gömul trú, að morgunroðinn væti, en kvöldroðinn bæti. Hafa sumir reynt að sanna þessa reglu. Þegar morgunroði sést, er sennilega bjart í austri, en skýjað yfir staðnum og í vestri. Nú er það algengast að skýjabakkar og úrkomusvæði berist frá vestri til austurs, og ætti því að mega vænta vax- andi skýja og úrkomu eftir morgunroða. Aftur á móti verður kvöldroðinn gjarnan mestur, þegar bjart er í vestri, en skýjað yfir staðnum og í austurátt. Skyldi þá búast við minnkandi skýjum. En hvort sem þetta er rétt eða ekki, þá er víst, að mönnum var heldur illa við, að mikið létti til á morgnana skömmu eftir sólar- uppkomu. Slíkar morgunglennur þóttu boða rigningu, og ég hygg eftir eigin reynslu, að nokkuð sé til í þessu. Skúrahættan er mest, þegar loftið er tiltölulega hlýtt við jörð, en kalt hið efra. Þá er nefnilega hætt við, að ókyrrð og ólga myndist, hlýjar loftbólur taka þá að stíga frá yfirborði jarðar, en kalt loft sígur niður á öðrum stöðum. Þessu niðurstreymi loftsins fylgir nú einmitt sú náttúra, að það hitar loftið og eyðir skýj- urn, þó að annars staðar vaxi skýin af uppstreyminu. Þess vegna verður oft skin milli skúra, og það er nokk- ur ástæða til að ætla, að skúradagur byrji einmitt oft með slíku skini. Hugsum okkur, að það sé sumarkvöld eins og nú. Sólin er að ganga til viðar og er hætt um sinn að ylja jörðina. Loftið kólnar niður við grundir og mela og verður þungt í sér. Um leið hættir ólga sú og uppstreymi, er sólarhitanum fylgdi. Hitabólstrarnir hjaðna og breiðast út í samfellt lag, sem rofnar ekki í næturkyrrðinni. Hin stutta sumarnótt líður. Sólin renn- ur upp. Geislarnir leita að hverri smugu á skýjabreiðu næturinnar. Hvar sem hún finnst fer jörðin að hlýna, hitauppstreymið byrjar, en allt í kring sígur loftið til mótvægis, hlýnar og eyðir skýjunum. Það niðurstreymi leiðir af sér uppstreymi á enn öðrum svæðum og þannig koll af kolli. Svona má hugsa sér að morgunglenna myndist. En þegar líður á daginn fer hitauppstreymið að bera annan ávöxt. Klakkar og skúraflókar gnæfa við loft, og fyrr en varir er komið ofan í. Heitur ilmur af þurri töðu verður rammur og svalur, þegar gufuna leggur upp af rennvotum flekkjum. Enn hef ég ekki minnzt á þann veðurboða, sem löng- um hefur verið öruggt að trúa. Það er blikan. Af tals- hættinum „honum leizt ekld á blikuna“ er auðheyrt, að hún þótti ekki vita á gott. í óeiginlegri merkingu er einnig oft talað um, að bliku dragi á loft, þegar illa horfir, t. d. um frið milli þjóða. Þetta eðli blikunnar er fyllilega staðfest af veður- fræðinni. Á undan flestum víðáttumiklum regnsvæðum fara miklar háskýjabreiður, jafnvel á nokkur hundruð km breiðu belti. Eins og nafnið bendir til, eru háský þessi ljós á lit, en niður við sjóndeildarhring bregður oft á þau gullnum blæ. Blikan er svo hátt í lofti, að þar er hörkufrost, og værum við komin þangað upp, væri ekki annað að sjá en glitrandi ísnálasveim. I þess- um örsmáu nálum speglast sólarljósið á margvíslegan hátt. Því er ekki að undra þótt slíkt ljósfyrirbæri væru talin boða illviðri, þar sem þau fylgdu blikunni, enda eru þau kunn af alþýðu manna. Rosabaugur er Ijós hringur í kringum sól eða tungl og boðaði regn eða snjókomu. Stundum sést láréttur hringur um allt loftið, og liggur hann í gegnum sólina. Þar sem hringur þessi sker rosabauginn, sjást þá mjög bjartir blettir, sem kall- aðir eru aukasólir. Var kallað, að færi á. undan sól eða eftir, eftir því hvort aukasólin birtist hægra megin eða vinstra megin við sólina. Menn þóttust hafa þá reynslu, að aukasólir í vestri boðuðu gott, en illt, ef þær sáust í austri, en ekki treysti ég mér til að gefa á því skynsamlega skýringu. Stundum var kallað, að sól væri í hjálmaböndum. Munu þá hafa sézt fimm sólir á lofti, fyrir ofan og neðan sólina, auk hinna venju- legu aukasólna. Þá var og sú trú, að Maríutása jafndreifð um allt loftið boðaði afarfannkomu, en Alaríutása er netaský og flestum kunnug. Þetta er alls ekki fjarstæð regla, sérstaklega er athyglisvert það sldlyrði, að skýin skuli vera jafndreifð. Þess eru einmitt allmörg dæmi, að þess konar ský séu þau fyrstu, sem sjást, þegar úrkomu- svæði nálgast. Einkum er þetta öruggt merki, ef menn hafa getað fylgzt með því, hvernig skýin dró upp á loftið um leið og þau þykknuðu, en hvergi sér í heið- an himin undir breiðuna í þeirri átt sem skýin komu úr. Ein var sú aðferð að spá veðri, sem mjög b&r keim af nútímatækni. Menn fengu sér rjúpusarp eða kýr- blöðru, blésu út og bundu vendilega fyrir, en hengdu síðan upp á vegg. Þegar sarpurinn eða blaðran var hörð og útþanin, spáðu menn stormi og illviðri, en stillum og góðveðri, þegar blaðran linaðist og skrapp saman. Þetta er í rauninni ekkert annað en loftvog, að vísu ófullkomin, en þó sama eðlis og þau barómet, sem víða sjást í húsum. Þegar loftþrýsting fer minnkandi, hlýtur um leið að minnka þrýstingin utan á belginn. Við það fær loftið inni í honum ráðrúm að þenjast út. Belgurinn verður harður, og þá var spáð rigningu. Þegar loftþrýstingin eykst, hlýtur hún að herða belg- inn saman, og þá er þurrviðri í vændum. Loftvogir okkar eru nákvæmnari nú á dögum, enda eru mælingar á loftþrýstingu einmitt ein helzta stoð veðurfræðinga í starfi þeirra. En það er sannarlega vert að halda því á lofti, að fátækt fólk á liðinni öld hafði einnig upp- götvað gagnsemi þessara mælinga, framkvæmdi þær af hugviti og hagnýtti þær af skynsemi. Að lolcum er mér ljúft að geta þess, að við samningu þessa erindis hef ég meðal annars haft stuðning af þeim fróðleik um gamlar veðurspár, sem sr. Jónas Jónasson á Hrafnagili tilgreindi í bók sinni um íslenzka þjóðhætti. Er ekki óviðeigandi að minnast nú söfnunar- starfs hans á þessu sviði, því að í fyrradag voru 100 ár liðin frá fæðingu hans. Heima er bezt 105

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.