Heima er bezt - 01.09.1957, Side 2

Heima er bezt - 01.09.1957, Side 2
Handritin Iieim Síðustu mánuðina hefur handritamálið aftur komizt á dagskrá, bæði hér og einkum þó í Danmörku eftir nokkra þögn. Enda þótt oss berist oft ekki nema óljós- ar fréttir af því, sem dönsku blöðin skrifa, virðist þó nokkurn veginn Ijóst, að í þeim hafa komið fram skiptar skoðanir. Enda þótt ýmsir hafi haldið þar fram málstað Islendinga, þá sýnist næstum sem andstaða Dana sé að harðna, og nýlega var getið blaðagreinar, sem virtist rituð í þeim gamla stórdanska anda, þegar deilurnar milli Islendinga og Dana voru sem harðastar. Þá hefur oss borizt sú fregn, að stjórnarandstöðuflokk- arnir dönsku, íhaldsflokkurinn og vinstri flokkurinn, séu nær einhuga gegn afhendingu handritanna, og auk þess Réttarsambandið undir forystu Starckes ráðherra. Hér er að vísu átt við þingflokkana, en ekki hina almennu kjósendur. Eftir þessu að dæma, er málið þá komið inn í hin pólitísku deilumál dagsins, hver sem afleiðing þess verður. Eftir því sem næst verður komizt, er málinu svo farið, að allur þorri háskólamanna leggst gegn afhend- ingu handritanna og nýtur stuðnings flokksforystu í- haldssamari stjórnmálaflokkanna, en mikill þorri lýð- skólamanna og kennara víðs vegar um land hefur tjáð sig fylgjandi afhendingu, og hafa þeir rætt málið af mikilli velvild og drengskap í garð íslendinga, og sammála þeim eru forystumenn jafnaðarmanna og Radikala flokksins; auk þess hafa kommúnistar lýst sig fylgjandi afhend- ingu. En sé málið skoðað niður í kjölinn, má fullyrða, að allur þorri manna í Danmörku lætur málið afskiptalaust eða hefur enga skoðun á því og veit naumast, um hvað er rætt. Stundum gæti sú hugsun hvarflað að manni, að vér sjálfir gerðum oss ekki fyllilega Ijóst, um hvað er að tefla í þessu máli, jafnvel að vér lítum á þetta sem eitt- hvað metnaðar- og gamanmál eingöngu. En fjarri fer því, að svo sé. Vér erum flestum menningarþjóðum snauðari að fornum, sýnilegum minjum. Engar forn- ar byggingar eða mannvirki eru hér til, sem kallazt geti, vallgrónar rústir eru einu sýnilegu minjarnar á Þing- völlum, Bergþórshvoll og Hlíðarendi geyma ekki sýni- legar minjar fremur öðrum bændabýlum, og í sjálfu Reykholti er dálítil baðþró ein til minja um foma frægð. Samt rís sagan í fang manni, þegar komið er á þessa staði, sú saga, sem skráð er á hið forna bókfell, sem um ræðir, þegar talað er um handritin. Slíkt var umkomu- leysi vort á liðnum öldum, að þjóðin lét þessa gripi úr höndum sér til geymslu hjá annarri þjóð, auðugri og sterkari, og nú viljum vér kalla þá heim aftur. Ekki fyrir metnaðar sakir, heldur af því, að þau eru, ef svo mætti kalla, einn af sterkustu hyrningarsteinunum undir þjóðerni voru og menningu. Þess vegna megum vér einskis láta ófreistað, til þess að heimta þau aftur úr útlegðinni. En hvað gerist svo í máli þessu hér heima? Því miður verður naumast annað séð, en meiri deyfð drottni í því meðal fslendinga sjálfra en sæmilegt er eða vænlegt til sigurs. Enginn efast um, hver sé vilji íslenzku þjóðarinnar, en tómlæti það, sem sýnt er í málinu á opinberum vettvangi, gæti bent á hið gagn- stæða. Svo má kalla, að Bjarni M. Gíslason rithöfundur hafi nú um langan tíma haldið einn uppi sókn á hendur Dönum. En ef vér eigum að sigra, má ekki svo til ganga, að einn maður rói fram. Vér þurfum að geta sýnt bæði Dönum og öðrum, sem eitthvað fjalla um þetta mál, að hér sé um kröfu alþjóðar að ræða, og eindreginn þjóðarvilji sé að baki henni. Allir séu henni fylgjandi, enginn málinu andvígur eða kærulaus, því að í sjálfu sér er hið andvaralausa tómlæti hið mesta mein í mál- inu. Ekki má linna á áróðri í Danmörku. Þar dugir ekki að einn maður sæki á, þótt vaskur sé. Skipuleggja þarf þá sókn í þeim dönsku blöðum, sem málinu eru hlynnt, og jafnframt dreifa um bókum og bæklingum, þar sem það á við. Umfram allt verður að sýna það, að þetta sé mál almennings, en ekki áróður eins eða örfárra manna. Einnig verðum vér að nota öll persónutengsl, er vér kunnum að hafa í Danmörku, málinu í vil. Þess var fyrr getið, að furðu margir Danir væru skoðana- lausir í málinu. Fyrir nokkru átti ég tal við danskan starfsbróður minn, vel menntan mann og allkunnan rit- höfund. Handritamálið barst í tal, og lét hann þess getið, að í raun og veru vissi hann lítið um hvað það fjall- aði. Eftir að ég hafði skýrt það fyrir honum eftir beztu getu, hugsaði hann sig stundarkorn um og sagði síðan: „Ég get ekki annað séð, en að þið ættuð að fá handritin skilyrðislaust. Þið einir getið hagnýtt þau full- komlega, og þetta er íslenzk eign.“ Mér þykir ekki ósennilegt, að mörgum Dana mundi fara ekki ólíkt og þessum vini mínum, ef málið er við þá rætt fræðilega og fordómalaust. í stuttu máli sagt: í handritamálinu duga oss engin stundar-uppþot. Vér verðum að vinna án afláts og markvíst að því að kynna umheiminum sjónarmið vor 290 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.