Heima er bezt - 01.03.1958, Qupperneq 4

Heima er bezt - 01.03.1958, Qupperneq 4
GUÐM. GÍSLASON HAGALÍN: Póráur Jónsson á Látrum órður Jónsson er fæddur 19. júní 1910 í Húsum á Hvallátrum í Rauðasandshreppi, son- ur Jóns Magnússonar, bónda þar, og konu hans, Gíslínu Gestsdóttur. Látur standa fyrir botni breiðrar víkur, sem skerst inn í landið norðan við sjálft hið mikla Látrabjarg. Látrabændur áttu lítil bú, en stunduðu sjóróðra og bjargsig af miklu kappi, og vandist Þórður hvoru tveggja mjög snemma. Varð það svo að segja bernsku- leikur hans, svo sem annarra drengja á Látrum, að þjálfa þrótt sinn og þor í hæpnu tafli við bjarg og brim. Þá er honum óx fiskur um hrygg, fór hann að heim- an til sjósóknar, var á skipum á handfæra- og línuveið- um frá Patreksfirði og Isafirði, og síðan á togurum. Hann reyndist í hvívetna hinn röskasti maður og mundi hafa átt örugga framtíð, hvort heldur sem skipstjóri eða vélstjóri, því að hvorki skorti hann vit, kapp né lagni. En hugurinn dró hann að bjargi og brimi heimahag- anna. Hann kvæntist ágætri konu, Sigríði, dóttur hins heppna skipstjóra og sjósóknara Olafs Thoroddsens í Vatnsdal í Patreksfirði, og hóf búskap á föðurleifð sinni á Látrum. Hann keypti sér brátt traustan og myndar- legan vélbát og sótti björg á sjóinn og í bjargið. Hann vann um hríð með manni, sem setti upp rafstöð þarna í grendinni, og svo næmur reyndist hann á leyndar- dóma rafmagnsins, að síðan hefur hann sjálfur sett upp nokkrar slíkar stöðvar, auk þess sem hann hefur unnið mikið af þeirri smíðavinnu, sem til hefur þurft, því að hann er maður mj ög hagur. Þórður er félagslyndur og stendur mjög framarlega í félagslífi sveitar sinnar. Ávallt, þegar þar eru haldnar samkomur, er hann framkvæmdasamur um allan undir- búning og hefur forystu í skemmtan og gleðskap, en er hinn mesti reglumaður. Hann er mjög vel máli farinn. Kunnastur hefur Þórður orðið af starfsemi sinni að slysavörnum. — Slysavarnadeildin Bræðrabandið var stofnuð þarna vestra árið 1933, og tók Þórður snemma þátt í störfum hennar. Hann hefur lengi verið formaður hennar og mætt á þingum Slysavarnafélags Islands. Eins og menn muna, strandaði brezki togarinn Dhoon undir Látrabjargi 12. desember 1947, og framkvæmdu þá Látramenn og sveitungar þeirra þá björgun, sem vakti undrun og aðdáun allra íslendinga og fræg hefur orðið víða um lönd, en ekki gera allir sér grein fyrir því, að það afrek hefði engum verið fært að vinna, ef íþrótt hinnar daglegu lífsbaráttu hefði ekki þjálfað liðið — mætti ef til vill segja ættirnar — frá barnæsku. Þórð- ur var þar framarlega í flokki, og honum var það fyrst og fremst að þakka, að gerð var kvikmynd af afrekinu, og svo furðulega vildi til, að einmitt þegar Óskar Gísla- son var að taka myndina, þá strandaði brezkur togari undir Hafnarmúla við Örlygshöfn, svo að myndatöku- maðurinn gat tekið myndir af sjálfri þeirri athöfn, sem framkvæmd var upp á lífi og dauða. Síðan hefur þessi mynd orðið fræg og borið hróður björgunarliðsins og íslendinga vítt um lönd. Þórður er maður frekar lágur vexti, en mjög þrekinn, sviphýr en svipmikill. Hann er drengur hinn bezti og skemmtilegur félagi og maður mjög vel greindur. Er hann karlmenni að andlegum og líkamlegum burðum. 78 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.